Ungmennafélagið Máni gefur út Vísi

merki mánaÍ dag kom út sveitablaðið Vísir, málgagn Ungmennafélagsins Mána.  Á upphafsárum sínum gaf Máni út samnefnt blað en það hefur nú komið út undanfarin fjögur ár, einu sinni á ári, rétt fyrir jól.

Í blaðinu, sem nú er í fyrsta sinn dreift um allt dreifbýli Austur-Skaftafellssýslu, er stiklað á stóru um starfið á liðnum ári.  Þá er gestapistill Regínu Hreinsdóttur í blaðinu auk yfirlits yfir viðburði í Nesjum í kringum jól og áramót.

Mánamenn stefna að því að fara í árlega vetrargöngu sína milli hátíða.  Yfirleitt hefur verið farið frá Mánagarði kl. 13:00, 30. desember.  Stefnt er að því að halda sig við þann tíma, en ef eitthvað breytist, þá verður það auglýst á facebook síðu Mána.  Aftast í blaðinu eru þrjár vísnagátur sem menn geta spreytt sig á þangað til.  Svörin verða gerð opinber að lokinni göngunni.

Hægt er að lesa blaðið hér: Vísir 1 tbl 2013 (pdf skjal, 200 kb)

Æfingatímar í Laugardalshöllinni fyrir sambandsaðila og félög þeirra

Laugardalshöllin (Mynd: Sigurður Óskar Jónsson)
Laugardalshöllin (Mynd: SÓJ)

Ungmennafélag Íslands hefur ákveðið að bjóða sambandsaðilum og félögum þeirra upp á aðstöðu í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal í vetur. Tíminn sem um ræðir er á mánudagskvöldum frá kl. 20-22. Með þessu gefst sambandsaðilum og félögum þeirra kostur á að æfa við fullkomnar aðstæður þegar að þeir eru á ferðinni í borginni.

Þegar frjálsíþróttafólkið mætir í frjálsíþróttahöllina þarf að gefa upp frá hvaða sambandsaðila eða félagi viðkomandi kemur frá. Allar nánari upplýsingar er gefnar í Þjónustumiðstöð UMFÍ í síma 568-2929 eða í tölupósti á umfi@umfi.is

Heimasíða UMFÍ greindi frá.

Þrjár Sindrastúlkur kallaðar á landsliðsæfingar

Ungir Sindramenn halda áfram að gera það gott en þrjár stúlkur hafa nú verið kallaðar á landsliðsæfingar í knattspyrnu.

Þær Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir og Ingibjörg Valgeirsdóttir hafa nú verið kallaðar á U17 ára landsliðsæfingu. Ingibjörg Lúcía og Sigrún Salka Hermannsdóttir voru á U17 ára æfingu ekki fyrir svo löngu síðan. Það er því ljóst að Sindri er með þrjár stúlkur sem eru á blaði landsliðsþjálfara úr þessum árgangi sem er frábært.

María Selma Haseta hefur svo verið kölluðu á U19 ára æfingar næstu helgi. María Selma, sem var besti leikmaður meistaraflokks kvenna hjá Sindra í sumar, vann sér fast sæti í U19 ára liðinu núna í haust og spilaði alla leiki liðsins í riðilsins i í undankeppni  Evrópumótsins.

Það er því ljóst að ungu leikmennirnir hjá Sindra eru að minna á sig og vonandi fylgja þeim bara fleiri eftir.

Heimasíða Umf. Sindra greindi frá.

Stórleikur í körfuboltanum

Körfuboltaútgáfa merkis Sindra.
Körfuboltaútgáfa merkis Sindra.

Það er ekki alveg á hverjum degi sem hornfirsk lið mæta úrvalsdeildarliðum, sér í lagi á heimavelli.  Þrjátíu og tveggja liða úrslit Powerade-bikarkeppninnar í körfuknattleik karla hófust í gær, en næstkomandi sunnudag, 3. nóvember, mætir Umf. Sindri engum öðrum en Þór frá Þorlákshöfn í íþróttahúsinu á Höfn.  Skemmst er frá því að segja að Þórsarar eru ósigraðir í Domino’s deildinni og eru í 2.-5. sæti þegar þetta er ritað.  Þeir eiga þó leik til góða á topplið Keflavíkur.

Sindri er aftur á móti í öðru sæti B riðils annarrar deildar eftir tvo sigra á Stál-úlfi frá Kópavogi og Umf. Heklu frá Hellu, en eitt tap gegn toppliði Umf. Laugdæla frá Laugarvatni.

Það er því ljóst að það verður við ramman reip að draga fyrir Sindramenn og ekki vanþörf á dyggum stuðningi heimamanna.  Eins og áður segir er leikurinn næstkomandi sunnudag, 3. nóvember, og hefst klukkan 16:00.  Ekki spillir fyrir að það er frítt á leikinn.

Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu Sindra og á heimasíðu körfuknattleikssambandsins.

48. sambandsþing UMFÍ

Um helgina fór fram 48. sambandsþing UMFÍ.  Þingið fór fram á Stykkishólmi og áttu um 140 fulltrúar þar rétt á setu.  Yfir 50 tillögur lágu fyrir þinginu og gekk afgreiðsla þeirra snurðulítið fyrir sig.  Ungmennasambandið Úlfljótur átti rétt að þremur fulltrúum, auk formanns.  Því miður náðist ekki að fylla þann kvóta alveg, en Matthildur Ásmundardóttir, formaður og Sigurður Óskar og Björn Ármann Jónssynir fóru fyrir hönd USÚ.

Helga Guðrún Guðjónsdóttir var endurkjörin formaður UMFÍ.  Ný stjórn var kosin á þinginu, en hægt er að kynna sér nýja stjórn á heimasíðu UMFÍ.  Matthildur Ásmundardóttir, formaður USÚ, sem hefur setið í varastjórn UMFÍ síðan 2011, gaf ekki kost á sér áfram.

Héraðssamband Þingeyinga, HSÞ, fékk hvatningarverðlaun UMFÍ 2013.  Þingeyingar fá verðlaunin fyrir kröftugt og metnaðarfullt starf á sviði íþrótta- og æskulýðsmála á sambandssvæðinu í kjölfar sameiningu HSÞ og UNÞ.

Þegar fram líða stundir verður hægt að lesa þinggerðina á heimasíðu UMFÍ, en líklega eru einhverjar vikur í það.

Glæsilegt Unglingalandsmót á Höfn

Merki USÚ

Góð aðstaða til íþróttaiðkunar og öflugur hópur sjálfboðaliða voru lykillinn að vel heppnuðu Unglingalandsmóti sem haldið var á Höfn um síðustu helgi. Hornafjörður hefur nú endanlega stimplað sig inn sem einn af ákjósanlegustu stöðum á landinu fyrir Unglingalandsmót UMFÍ.

Undirbúningur hafði staðið yfir í næstum ár á vegum landsmótsnefndar en á síðustu vikum stækkaði hópurinn þegar kom að uppsetningu keppnis- og tjaldsvæða. Á mánudagsmorgun komu fjölmargar vinnufúsar hendur saman og gengu frá eftir mótið. Keppni hófst snemma á föstudag og lauk ekki fyrr en síðdegis á sunnudag. Sérgreinastjórar unnu frá morgni til kvölds á landsmótshelginni til að allt gengi snurðulaust fyrir sig. Keppt var í frjálsum íþróttum, fimleikum, skák, starfsgreinum, körfuknattleik, strandblaki, fótbolta og mótocrossi. Framlag tuga sjálfboðaliða á keppnissvæðinu alla helgina var ómetanlegt.

Af gestum að dæma þótti það mikill kostur að keppni fór fram á sama svæði og þannig hafi ekki þurft að fara um langan veg ef unglingarnir voru að keppa í mörgum greinum. Unglingalandsmótin eru fyrst og fremst fjölskylduhátíð. Á kvöldvökum stigu stokk Páll Óskar, Jón Jónsson, Parket, Stuðlabandið og fleiri. Auk þess var í boði ýmiss afþreying fyrir unga og aldna alla daga.

Á miðsvæðinu voru afhjúpaðir þakkarskyldir um Unglingalandsmótin 2007 og 2013. Mótin hafa hreyft við íþróttamálum í héraðinu og verið hvatning til frekari uppbyggingar og iðkunar. Íþrótta – og tómstundastarf er mikilvægur hlekkur í daglegu lífi þeirra sem byggja staðinn. Það er því engin ástæða til annars en að halda áfram á sömu braut, stefna er að því fljótlega að halda landsmót hér aftur og vinna bæta aðstöðuna ennfrekar.

Öllum þeim sem komu að framkvæmd mótsins eru færðar sérstakar þakkir. Íbúar geta verið stoltir af framkvæmd Unglingalandsmóts UMFÍ árið 2013.

Matthildur Ásmundardóttir formaður USÚ.

(þessi pistill birtist fyrst á www.hornafjordur.is 6. ágúst 2013)

Íþróttamaður ársins 2012

Óli Stefán Flóventsson og Guðrún Ósk Gunnarsdóttir
Óli Stefán Flóventsson og Guðrún Ósk Gunnarsdóttir

USÚ hefur jafnan veitt íþróttamanni ársins viðurkenningu ásamt því að veita efnilegu íþróttafólki hvatningarverðlaun fyrir góðan árangur í íþróttum.  Yfirleitt eru þessar viðurkenningar veittar á 17. júní árið eftir og var engin breyting á því þetta árið.

Íþróttamaður ársins 2012 er Óli Stefán Flóventsson. Óli var í mörg ár leikmaður hjá Grindavík áður en hann flutti til Hornafjarðar.  Hann hefur búið í u.þ.b. 4 ár á Hornafirði og verið spilandi þjálfari með meistaraflokki Sindra þar til nú á þessu tímabili að hann lagði skóna að mestu leyti á hilluna.

Óli hefur unnið gríðarlega góða vinnu hjá meistaraflokki Sindra í knattspyrnu á undanförnum árum. Á síðasta ári náði hann þeim glæsilega árangri að koma liðinu upp í 2. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu.  Með sigri á Ægi frá Þorlákshöfn tryggði Sindri sér jafnframt deildarmeistaratitil 3. deildar. Óli hefur einnig unnið mikilvægt starf í forvarnarmálum, hann hefur sjálfur verið góð fyrirmynd og miðlað sinni reynslu til leikmanna sinna. Einnig hefur hann vakið athygli á mikilvægum málefnum og haldið merkjum Sindra og Hornafjarðar á lofti út á við með skrifum sínum á vinsælasta knattspyrnumiðli landsins, Fótbolta.net. Við hjá USÚ viljum þakka Óla fyrir mikilvægt starf í þágu íþrótta í héraðinu og hvetja hann til áframhaldandi starfa á þeim vettvangi.

Guðrún Ósk Gunnarsdóttir hlaut hvatningarverðlaun fyrir árið 2012. Guðrún er duglegur íþróttamaður og hefur stundað knattspyrnu og körfubolta af miklum dug og krafti ásamt því að þjálfa yngri flokka í körfubolta. Á síðasta ári var hún valin í úrtakshóp fyrir landslið  bæði í körfubolta og knattspyrnu sem er frábær árangur. Við viljum óska Guðrúnu til hamingju með þennan árangur um leið og við hvetjum hana  til áframhaldandi árangurs í íþróttum.

80. ársþingi USÚ lokið

Ungmennasambandið Úlfljótur hélt ársþing sitt í Pakkhúsinu á Höfn í fyrradag, 15. apríl.  Rétt til setu á þinginu áttu 44 fulltrúar frá sjö félögum, auk stjórnar og gesta.  Alls mættu 37 fulltrúar frá félögunum sem þykir góð mæting í ljósi þess að einungis mættu 28 fulltrúar á síðasta þing.  Árið 2012 var viðburðarríkt eins og lesa má í skýrslu stjórnar hérna neðst í fréttinni.  Í henni eru líka skýrslur frá öllum aðildarfélögum nema reyndar Skotfélaginu.  USÚ hélt Meistaramót Íslands 15-22 ára í frjálsum íþróttum um sumarið, sem þótti takast mjög vel.  Það var góð æfing fyrir sumarið 2013, því eins og flestir vita heldur USÚ Unglingalandsmót UMFÍ um verslunarmannahelgina 2013.

Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ flutti ávarp á þinginu og Sæmundur Runólfsson, framkvæmdastjóri mætti einnig fyrir hönd UMFÍ.  Helga lauk máli sínu á því að veita Ásgrími Ingólfssyni, formanni Sindra, starfsmerki UMFÍ.  Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ mætti einnig og flutti ávarp.

Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, veitti Ásgrími Ingólfssyni, formanni UMF. Sindra, starfsmerki UMFÍ.  (Mynd: Valdemar Einarsson)
Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, veitti Ásgrími Ingólfssyni, formanni UMF. Sindra, starfsmerki UMFÍ. (Mynd: Valdemar Einarsson)

Á þinginu voru samþykktar nokkrar tillögur.  Í fyrsta lagi að skipa nefnd sem í verða stjórn USÚ og einn fulltrúi frá hverju aðildarfélagi sem tekur þátt í Unglingalandsmótinu 2013.  Henni er falið að ákveða hvernig skuli skipta mögulegum afgangi af rekstri mótsins, með þeim fyrirvara að hann verði einhver.  Þá var samþykkt að fela stjórn að sækja um að fá að halda Landsmót 50+ árið 2015.  Rekstrarniðurstaða USÚ var jákvæð og var meðal annars þess vegna samþykkt að keppnisgjöld keppenda USÚ á Unglingalandsmótinu 2013 verði greidd úr sjóðum USÚ.  Þar með er hvatt til þess að sem flestir keppendur sjái sér fært að taka þátt.

Að lokum skal geta þess að Ólöf Þórhalla Magnúsdóttir, ritari USÚ, lét af störfum eftir sex ára veru í stjórn og Páll Róbert Matthíasson kom inn í staðinn.  Ekki liggur fyrir að svo stöddu hvort hann verði sjálfkrafa ritari eða að stjórnin skipti verkum með sér á annan hátt.  Ólöfu Þórhöllu eru hér með færðar bestu þakkir fyrir óeigingjarnt starf í þágu ungmennafélagshreyfingarinnar.

80.þing USÚ – ársskýrsla

Þingfulltrúar á 80. ársþingi USÚ.  Matthildur Ásmundardóttir í pontu.  (Mynd: Valdemar Einarsson)
Þingfulltrúar á 80. ársþingi USÚ. Matthildur Ásmundardóttir í pontu. (Mynd: Valdemar Einarsson)

Ársþing USÚ

80. ársþing Ungmennasambandsins Úlfljóts verður haldið í Pakkhúsinu á Höfn 15. apríl næstkomandi klukkan 18:00.  Um fulltrúa á ársþingi segir m.a. í lögum USÚ:

Á ársþingi hafa allir sambandsaðilar málfrelsi og tillögurétt, en aðeins stjórn og fulltrúar atkvæðisrétt. Stjórnin getur boðið öðrum aðilum þingsetu er hún telur ástæðu til. Aðeins sá sem er félagi innan sambandsins er kjörgengur fulltrúi á ársþingi. Hver þingfulltrúi hefur eitt atkvæði. Allir þingfulltrúar skulu hafa kjörbréf.

Alls eiga 44 fulltrúar rétt á setu á þinginu, misjafnlega margir frá hverju félagi.  Þeir sem hafa áhuga á að mæta ættu að hafa samband við stjórn síns félags.

IMG_0857
Mynd frá 80 ára afmælishátíð USÚ 30. september 2012. Frá vinstri: Matthildur Ásmundardóttir formaður USÚ, Helga Vilborg Sigjónsdóttir, Hreinn Eiríksson, Ásmundur Gíslason og Ari Guðni Hannesson, öll fyrrverandi formenn USÚ.