Stórleikur í körfuboltanum

Körfuboltaútgáfa merkis Sindra.
Körfuboltaútgáfa merkis Sindra.

Það er ekki alveg á hverjum degi sem hornfirsk lið mæta úrvalsdeildarliðum, sér í lagi á heimavelli.  Þrjátíu og tveggja liða úrslit Powerade-bikarkeppninnar í körfuknattleik karla hófust í gær, en næstkomandi sunnudag, 3. nóvember, mætir Umf. Sindri engum öðrum en Þór frá Þorlákshöfn í íþróttahúsinu á Höfn.  Skemmst er frá því að segja að Þórsarar eru ósigraðir í Domino’s deildinni og eru í 2.-5. sæti þegar þetta er ritað.  Þeir eiga þó leik til góða á topplið Keflavíkur.

Sindri er aftur á móti í öðru sæti B riðils annarrar deildar eftir tvo sigra á Stál-úlfi frá Kópavogi og Umf. Heklu frá Hellu, en eitt tap gegn toppliði Umf. Laugdæla frá Laugarvatni.

Það er því ljóst að það verður við ramman reip að draga fyrir Sindramenn og ekki vanþörf á dyggum stuðningi heimamanna.  Eins og áður segir er leikurinn næstkomandi sunnudag, 3. nóvember, og hefst klukkan 16:00.  Ekki spillir fyrir að það er frítt á leikinn.

Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu Sindra og á heimasíðu körfuknattleikssambandsins.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *