86. ársþingi USÚ lokið

Ársþing USÚ, það 86. í röðinni fór fram í Heklu, nýju félagsheimili ungmennafélagsins Sindra í gær, 27. mars. Þingið var ágætlega sótt, 33 fulltrúar af 46 mættu frá flestum félögum. Því miður mætti enginn frá Hestamannafélaginu Hornfirðingi.

Áður en þingið var sett, minntist Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ, tveggja félaga sem féllu frá á árinu 2018. Það voru þeir Hreinn Eiríksson, annar tveggja heiðursfélaga USÚ frá upphafi, formaður USÚ 1963-1965 og máttarstólpi í starfi Umf. Mána um áratugaskeið; og Kristján Vífill Karlsson sem var sannkölluð fyrirmynd sjálfboðaliða, sem um áratugaskeið vann óeigingjarnt sjálfboðalið fyrir hinar ýmsu deildir Umf. Sindra, Golfklúbb Hornafjarðar og önnur félög innan USÚ.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir setur þingið. (Mynd: SÓJ)

Ýmislegt var á döfinni hjá USÚ á árinu og má þar nefna Unglingalandsmót sem haldið var í Þorlákshöfn um verslunarmannahelgina auk Landsmótsins sem haldið var á Sauðárkróki í júlí. Nokkuð mikið púður hefur farið í undirbúning unglingalandsmóts 2019, sem USÚ mun halda á Höfn. Mikið hefur verið fundað. Búið er að manna allar helstu stöður í undirbúningsnefndinni, auk þess sem flestir sérgreinastjórar hafa verið valdir.

USÚ sendi sína fulltrúa á þá fundi og þing sem okkur bar, eins og sambandsráðsfundi og vorfund UMFÍ og formannafund ÍSÍ sem haldinn var í tengslum við ráðstefnu um framtíðarskipulag íþróttahreyfingarinnar.

Frá 86. ársþingi USÚ. (Mynd: SÓJ)

Arna Ósk Harðardóttir stýrði þinginu af röggsemi líkt og oft áður. Fimm tillögur frá stjórn lágu fyrir þinginu.  Fyrst má nefna hvatningu til ungmennafélaga til að fjölmenna á Landsmót UMFÍ 50+, sem haldið verður í Neskaupstað 28.-30. júní n.k. og að sjálfsögðu á 22. Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður á Höfn um verslunarmannahelgina. Tillagan felur einnig í sér hvatningu til að taka þátt í almenningsíþróttaverkefnum á vegum UMFÍ og ÍSÍ.

Tillaga um að hvetja félagsmenn og aðra íbúa sveitarfélagsins Hornafjarðar til að taka þátt í  undirbúningi og framkvæmd unglingalandsmótsins var samþykkt, auk tillögu um að USÚ greiði þátttökugjald sinna keppenda á unglingalandsmótinu, líkt og gert var árið 2013.

Þá voru samþykktar smávægilegar breytingar á lögum USÚ. Lög USÚ eftir breytingar má finna hér.

Fimmta tillagan var um það hvort nýstofnað Klifurfélag Öræfa (KFÖ) fengi inngöngu í USÚ. Í ljósi þess að formleg umsókn KFÖ barst ekki fyrr en degi fyrir þing, kom fram önnur tillaga á þinginu um að fresta inngöngunni fram að næsta ársþingi. Sú tillaga var samþykkt.

Stjórn USÚ gaf kost á sér til endurkjörs og var endurkjörin. Hana skipa: Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður, Kristján Örn Ebenezarson, ritari, og Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri.  Ásta Steinunn Eiríksdóttir, gaf kost á sér áfram sem varamaður, en Matthildur Ásmundardóttir, sem gegnt hefur stöðu bæjarstjóra sveitarfélagsins Hornafjarðar frá síðasta ári, gaf ekki kost á sér áfram. Stungið var upp á Hjálmari Jens Sigurðssyni, sem var samþykkt. Það voru ekki flókin skipti, því Hjálmar er eiginmaður Matthildar.

Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ og Halla Kjartansdóttir, skrifstofustjóri ÍSÍ, sátu þingið. Auk þess að flytja kveðju frá framkvæmdastjórn og öðru starfsfólki ÍSÍ, vék Líney Rut m.a. að málefnum Felix, félagakerfis íþróttahreyfingarinnar, persónuvernd og málefnum tengdum #metoo í ræðu sinni. Að lokum sæmdi hún Hjálmar Jens Sigurðsson silfurmerki ÍSÍ. Hjálmar hefur undanfarin ár leitt metnaðarfullt starf körfuknattleiksdeildar Sindra, sem m.a. hefur skilað sér í því að meistaraflokkur karla spilaði í fyrsta sinn í sögunni í 1. deild í körfubolta.

Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, Hjálmar Jens Sigurðsson, silfurmerkishafi ÍSÍ og Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ. (Mynd: SÓJ)

Gunnar Gunnarsson, stjórnarmaður í UMFÍ sat einnig þingið. Hann bað fyrir kveðju frá stjórn og starfsfólki UMFÍ. Að lokum sæmdi hann Halldór Einarsson, sem hefur setið í stjórn Umf. Mána síðan 1999, starfsmerki UMFÍ. Einnig sæmdi hann Sigurð Óskar Jónsson, gjaldkera USÚ, starfsmerki UMFÍ. Auk þess að hafa verið gjaldkeri USÚ síðan 2011, hefur Sigurður verið í stjórn Umf. Mána frá 2005, (þar sem hann hefur gegnt öllum stöðum nema gjaldkerastöðunni), og setið í varastjórn UMFÍ síðan 2015.

Gunnar Gunnarsson, stjórn UMFÍ og Halldór Einarsson, starfsmerkishafi UMFÍ. (Mynd: SÓJ)
Gunnar Gunnarsson, stjórn UMFÍ og Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri USÚ og starfsmerkishafi UMFÍ. (Mynd: KÖE)

Íþróttamaður USÚ fyrir árið 2018 var útnefndur á þinginu auk þess sem fjórir ungir iðkendur hlutu hvatningarverðlaun USÚ. Nánar má lesa um þessar viðurkenningar í frétt sem birtast á síðunni síðar í kvöld eða á morgun.

Hér er hægt að lesa skýrslu stjórnar USÚ fyrir árið 2018. Reikningar sambandsins eru í skýrslunni og einnig er þar að finna starfsskýrslur allra aðildarfélaga auk starfandi deilda innan Umf. Sindra.

Heiðranir á 85. ársþingi USÚ

Á 85. ársþingi USÚ, sem haldið var í Hofgarði í Öræfum, 12. mars 2018 var íþróttamanni USÚ árið 2017 veitt viðurkenning. Ekki alveg þó, því þetta árið ákvað stjórn USÚ að breyta örlítið út af vananum og verðlauna lið ársins. Þar að auki fengu þrjú ungmenni sem þótt hafa staðið sig vel á árinu viðurkenningu, og hvött til áframhaldandi velgengni. Kristján Örn Ebenezersson, ritari USÚ, afhenti öll verðlaunin. Því er hann á öllum myndunum.

Lið ársins 2017

Í ár var ákveðið að breyta aðeins út af vananum og veita verðlaun fyrir lið ársins í staðinn fyrir íþróttamann ársins. Það voru margir einstaklingar sem stóðu sig vel á árinu en á endanum var ákveðið að veita verðlaun fyrir liðsheildina sem skilaði frábærum árangri hjá meistaraflokki karla í körfuknattleik. Það var skipað heimamönnum að stærstum hluta og náði liðið að vinna sig upp í 2. deild og eru langt komnir með að tryggja sig upp í 1. deild. Á síðasta tímabili töpuðu þeir aðeins einum leik í Íslandsmótinu og hafa haldið svipuðum hætti á núverandi tímabili.

Sindrastrákar eftir sigurleik gegn Þór Þorlákshöfn B, í úrslitum 3. deildar 2017.
(Mynd: Hjálmar Jens Sigurðsson, körfuknattleiksdeild Sindra)

 

Hjálmar Jens Sigurðsson, formaður körfuknattleiksdeildar Sindra og Tómas Orri Hjálmarsson, leikmaður Sindra, tóku við viðurkenningunni frá Kristjáni Erni Ebenezerssyni, ritara USÚ. (Mynd: SÓJ)

 

Hvatningarverðlaun hlutu:

Salvör Dalla Hjaltadóttir er fædd árið 2003 og er ung og efnileg knattspyrnukona. Spilaði hún sína fyrstu leiki með meistaraflokk kvenna á árinu og skoraði eitt mark í átta leikjum. Í febrúar á þessu ári var hún síðan valin til að taka þátt í úrtaksæfingum fyrir U15 lið stúlkna í knattspyrnu.

Salvör Dalla Hjaltadóttir hlaut Hvatningarverðlaun USÚ 2017. (Mynd: SÓJ)

 

Tómas Orri Hjálmarsson er fæddur árið 2003 er ungur og efnilegur körfuknattleiksmaður. Hann spilaði sýna fyrstu meistaraflokksleiki á árinu. Einnig var hann boðaður á æfingar með U15 í körfuknattleik.

Tómas Orri Hjálmarsson hlaut hvatningarverðlaun USÚ 2017. (Mynd: SÓJ)

 

Angela Rán Egilsdóttir er fædd árið 2003 er ung og efnileg fimleikakona sem keppir fyrir fimleikadeild Sindra. Hún var valin í landsliðsúrtak í hópfimleikum fyrir EM 2018 og er hún gjaldgeng í unglingaflokk fyrir næsta verkefni EM 2020.

Angela Rán Egilsdóttir hlaut hvatningarverðlaun USÚ 2017. (Mynd: SÓJ)

Íþróttamaður USÚ 2016

Á 84. ársþingi USÚ, sem haldið var gistiheimilinu í Hoffelli í Nesjum 16. mars 2017 var íþróttamanni USÚ árið 2016 veitt viðurkenning. Þar að auki fengu þrjú ungmenni sem þótt hafa staðið sig vel á árinu viðurkenningu, og hvött til áframhaldandi velgengni.

Íþróttamaður USÚ 2016 er Kristinn Justiniano Snjólfsson.

Kristinn Justiniano Snjólfsson, íþróttamaður USÚ 2016. (Mynd: úr einkasafni)

Kristinn er fæddur árið 1993 og alinn upp á Blönduósi. Hann gekk til liðs við knattspyrnulið Sindra fyrir tímabilið 2015. Sumarið 2016 spilaði hann alla 22 leiki liðsins og skoraði 12 af 41 marki Sindra, enda framherji. Sindri endaði í 4. sæti 2. deildar með 32 stig sem er þeirra besti árangur frá 2002. Sindra gekk einnig vel í bikarkeppninni og komst í 32 liða úrslit, þar sem Kristinn spilaði alla þrjá leikina og skoraði í þeim 3 mörk.

Þess má einnig geta að Kristinn fékk aðeins á sig eitt gult spjald í leikjunum 22 í deildinni og var valinn besti leikmaðurinn á lokahófi Sindra s.l. haust. Þar að auki var hann valinn í lið 2. deildar hjá Fótbolta.net. Hann hefur nú haft félagaskipti og mun spila með Leikni Fáskrúðsfirði á næsta tímabili en við vonum nú að hann ákveði að snúi aftur í Sindra síðar.

 

Hvatningarverðlaun hlutu:

Inga Kristín Aðalsteinsdóttir er fædd árið 1997 og hefur leikið allan sinn feril með Sindra. Hún spilaði með meistaraflokki kvenna í knattspyrnu á síðasta tímabili og spilaði alla leiki Sindra, alls 10, auk eins leiks í bikarkeppni. Hún fékk viðurkenningu fyrir að hafa leikið 50 leiki fyrir Sindra og einnig var hún valin mikilvægasti leikmaðurinn í meistaraflokki kvenna. Inga Kristín stundar íþrótt sína af samvisku og kappi og hvetjum við hana í að halda því áfram.

Inga Kristín Aðalsteinsdóttir hlaut hvatningarverðlaun USÚ 2016. (Mynd: SÓJ)

 

Hildur Margrét Björnsdóttir er fædd árið 2002. Hún æfir og keppir með fimleikadeild Sindra og var valin fimleikamaður ársins 2016 hjá deildinni. Hildur stundar íþrótt sína af samvisku og kappi. Það eru ekki margir sem myndi nenna að leggja það á sig að keyra 50 km aðra leið til þess að mæta á æfingu á laugardagsmorgni, en Hildur Margrét býr í Suðursveit. Því má segja að hún sýni mikinn metnað til þess að ná langt í sinni grein. Auk þess að æfa sjálf þjálfar hún yngri flokka hjá deildinni.

Hildur Margrét Björnsdóttir hlaut hvatningarverðlaun USÚ 2016. (Mynd: SÓJ)

 

Brynjar Máni Jónsson er fæddur árið 1998. Hann æfir og spilar með körfuknattleiksdeild Sindra. Brynjar hefur verið einn af byrjunarliðsmönnum í meistaraflokki síðustu ár þó hann sé aðeins 19 ára gamall. Á síðasta ári spilaði hann bæði með drengjaflokk og meistaraflokk þar sem hann öðlaðist mikla reynslu. Hann er mjög góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur körfuknattleiksdeildar Sindra. Brynjar Máni gat því miður ekki verið við athöfnina, og því fylgir ekki mynd af honum hér.

84. ársþingi USÚ lokið

Ársþing USÚ, það 84. í röðinni fór fram í gistiheimilinu Hoffelli í gær, 16. mars. Þingið var ágætlega sótt, 29 fulltrúar af 41 mættu frá flestum félögum. Því miður mætti enginn frá Akstursíþróttafélagi Austur-Skaftafellssýslu og Skotfélagi Austur-Skaftafellssýslu.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ, setur þing. (Mynd: SÓJ)

Hluti þingfulltrúa (Mynd: SÓJ)

Ýmislegt var á döfinni hjá USÚ á árinu og má þar nefna unglingalandsmót sem haldið var í Borgarnesi um verslunarmannahelgina. Á mótinu í Borgarnesi, var það tilkynnt að USÚ var valið til að halda 22. Unglingalandsmót UMFÍ árið 2019.

Hreyfivika UMFÍ var haldin 23.-29. maí, í fyrsta sinn að vorlagi. Boðið var upp á ýmsa viðburði í hreyfivikunni, en gott hefði verið að fá meiri mætingu á þá. Í ár verður hreyfivikan 29. maí til 4. júní og eru uppi ýmsar hugmyndir um hvað hægt sé að bjóða upp á í henni. Í ár er t.d. hugmyndin að endurvekja mótið „Í formi“ og halda það í vikunni.

USÚ sendi sína fulltrúa á þá fundi og þing sem okkur bar, eins og sambandsráðsfund og vorfund UMFÍ. Þá var fulltrúum sambandsaðila UMFÍ boðið í heimsókn til forseta Íslands á degi sjálfboðaliðans, 5. desember.

Tvær tillögur frá stjórn lágu fyrir þinginu.  Fyrst má nefna hvatningu til ungmennafélaga til að fjölmenna á Landsmót UMFÍ 50+ í Hveragerði 23.-25. júní n.k. og á unglingalandsmót UMFÍ á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina. Við þessa tillögu var bætt á þinginu, og felur hún því einnig í sér hvatningu til að taka þátt í almenningsíþróttaverkefnum á vegum UMFÍ og ÍSÍ.

Þá voru samþykktar breytingar á lögum USÚ.  Lög USÚ eftir breytingar má finna hér.

Stjórn USÚ gaf kost á sér til endurkjörs og var endurkjörin. Hana skipa: Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður, Kristján Örn Ebenezarson, ritari, og Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri. Á þinginu kom fram tillaga um að rétt væri að kjósa tvo varamenn stjórnar. Stungið var upp á Matthildi Ásmundardóttur, Sindra, og Ástu Steinunni Eiríksdóttur, Mána, og var það samþykkt.

Ragnheiður Högnadóttir, stjórnarmaður í UMFÍ, flutti ávarp. Hún lauk máli sínu með því að sæma Örnu Ósk Harðardóttur starfsmerki UMFÍ.

Ragnheiður Högnadóttir og Arna Ósk Harðardóttir, starfsmerkishafi UMFÍ. (Mynd: SÓJ)

Garðar Svansson, stjórnarmaður í ÍSÍ flutti einnig ávarp. Hann lauk máli sínu með því að sæma heiðurshjónin Guðrúnu Ingólfsdóttur og Zophonías Torfason, silfurmerki ÍSÍ.

Zophonías Torfason og Guðrún Ingólfsdóttir, silfurmerkishafar ÍSÍ. (Mynd: SÓJ)

Íþróttamaður USÚ var útnefndur á þinginu auk þess sem þrír ungir iðkendur hlutu hvatningarverðlaun USÚ fyrir árið 2016. Nánar má lesa um þessar viðurkenningar í frétt sem birtast á síðunni síðar í kvöld eða á morgun.

Hér er hægt að lesa skýrslu stjórnar USÚ fyrir árið 2016.  84. ársþing USÚ ársskýrsla. Reikningar sambandsins eru í skýrslunni og einnig er þar að finna starfsskýrslur flestra aðildarfélaga.  Þegar þetta er ritað vantar enn skýrslu frá Skotfélagi Austur-Skaftafellssýslu. Henni verður bætt við þegar hún berst.

Íþróttamaður USÚ 2015

Á 83. ársþingi USÚ, sem haldið var á Hótel Höfn 17. mars 2016 var íþróttamanni USÚ árið 2015 veitt viðurkenning.  Þar að auki fengu þrjú ungmenni sem þótt hafa staðið sig vel á árinu viðurkenningu, og hvött til áframhaldandi velgengni.

Íþróttamaður USÚ árið 2015 er Ingibjörg Valgeirsdóttir.

Ingibjörg Valgeirsdóttir er íþróttamaður USÚ 2015. (Myndin er af heimasíðu ungmennafélagsins Sindra, umfsindri.is)
Ingibjörg Valgeirsdóttir er íþróttamaður USÚ 2015. (Mynd: umfsindri.is)

Ingibjörg er fædd árið 1998. Hún var markmaður meistaraflokks Sindra í knattspyrnu á síðasta ári og spilaði alla 12 leiki þeirra í deild og 1 í bikar. Hún var valin í U17 landslið Íslands og spilaði hún 5 leiki þar. Þegar því verkefni lauk fór hún beint í U19 landsliðið og spilaði með þeim 3 leiki í haust. Ingibjörg er mikil keppnismanneskja sem gæti náð langt í hvaða íþróttagrein sem er. Er hún talin eitt mesta efni landsins í markmannsstöðunni og verður gaman að fylgjast með henni á næstu árum. Ingibjörg skipti yfir í úrvalsdeildarlið KR núna um áramótin og verður gaman að fylgjast með henni á þeim vettvangi.

Ingibjörg gat ekki verið viðstödd, en faðir hennar og systir tóku við viðurkenningunni fyrir hennar hönd.

Valgeir Jónsson, faðir Ingibjargar, tók við viðurkenningunni fyrir hennar hönd. Systir hennar var eitthvað feimin við myndavélina. (Mynd: SÓJ)
Valgeir Jónsson, faðir Ingibjargar, tók við viðurkenningunni fyrir hennar hönd. Systir hennar var eitthvað feimin við myndavélina. (Mynd: SÓJ)

 

Hvatningarverðlaun hlutu:

Bjarney Jóna Unnsteinsdóttir er fædd 1993. Hún er ung og bráðefnileg hestakona eins sem átti frábært keppnisár í fyrra og var tilnefnd sem gæðingaknapi ársins. Hún var t.d. í 1 sæti í A flokki á félagsmóti Hestamannafélagsins Hornfirðings en toppnum náði hún þegar hún vann A úrslit í A flokki á fjórðungsmóti Austurland sl. sumar. Bjarney gat ekki verið viðstödd þar sem hún er í námi í hestafræðum við Háskólann á Hólum.  Pálmi Guðmundsson, formaður Hestamannafélagsins Hornfirðings tók við viðurkenningunni fyrir hennar hönd.

Pálmi Guðmundsson, formaður Hestamannafélagsins Hornfirðings, tók við viðurkenningunni fyrir hönd Bjarneyjar. (Mynd: SÓJ)
Pálmi Guðmundsson, formaður Hestamannafélagsins Hornfirðings, tók við viðurkenningunni fyrir hönd Bjarneyjar. (Mynd: SÓJ)

 

Birkir Freyr Elvarsson, fæddur 1998, er ungur og efnilegur blakmaður af Mýrunum. Hann var valinn í æfingahóp hjá U17 landsliðinu í blaki nú í haust og æfði með þeim í Reykjavík. Hann var svo valinn í lokahópinn hjá U17 landsliði Íslands sem fór til Englands og tók þátt í NEVZA mótinu og spilaði þar sína fyrstu landsleiki fyrir Ísland og stóð sig vel.

Birkir ætlaði að mæta, en rétt fyrir þing hafði hann samband og sagðist ekki geta mætt, því þjálfarinn hafði boðað aukaæfingu. Það hlýtur að vera viðeigandi fyrir svona efnilegan íþróttamann.Valgeir Steinarsson, sem er í stjórn blakdeildar Sindra, tók við viðurkenningunni fyrir hönd Birkis.

Valgeir Steinarsson, sem situr í stjórn blakdeildar Sindra, tók við viðurkenningunni fyrir hönd Birkis Freys. (Mynd: SÓJ)
Valgeir Steinarsson, sem situr í stjórn blakdeildar Sindra, tók við viðurkenningunni fyrir hönd Birkis Freys. (Mynd: SÓJ)

 

Gísli Þórarinn Hallsson, fæddur 1999, var síðastliðið sumar valinn í U-16 landsliðið sem keppti í 2. deild Evrópumótsins í körfubolta. Hann spilaði 9 leiki og skoraði í þeim 46 stig, en liðið endaði í 18. sæti af 24, (sem er reyndar algjört aukaatriði). Stóð hann sig með prýði og fór svo í kjölfarið og gerði samning við úrvaldsdeildarlið Hattar á Egilsstöðum fyrir tímabilið 2015-16. Gísli spilaði einnig 6 leiki í marki Mána í sumar og þótti standa sig vel.

Gísli gat ekki mætt, enda við nám í Menntaskólanum á Egilsstöðum, en Gísli Skarphéðinn Jónsson, nafni, frændi og jafnaldri hans tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd.

Gísli Skarphéðinn Jónsson, nafni, frændi og jafnaldri Gísla Þórarins, tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd. (Mynd: SÓJ)
Gísli Skarphéðinn Jónsson, nafni, frændi og jafnaldri Gísla Þórarins, tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd. (Mynd: SÓJ)

Páll Róbert Matthíasson, fráfarandi formaður USÚ, veitti allar viðurkenningarnar og því er hann á öllum myndunum.

83. ársþingi USÚ lokið

Ársþing USÚ, það 83. í röðinni fór fram á Hótel Höfn í gær, 17. mars.  Þingið var ágætlega sótt, 30 fulltrúar af 41 mættu frá flestum félögum.  Því miður mætti enginn frá Akstursíþróttafélagi Austur-Skaftafellssýslu.

Sindrakonur við veitingaborðið. (Mynd: SÓJ)
Sindrakonur við veitingaborðið. (Mynd: SÓJ)

30 fulltrúar mættu á þingið. (Mynd: SÓJ)
30 fulltrúar mættu á þingið. (Mynd: SÓJ)

Ýmislegt var á döfinni hjá USÚ á árinu og má þar nefna unglingalandsmót sem haldið var á Akureyri um verslunarmannahelgina og hreyfivikuna sem haldin hefur verið undanfarin haust.  Nú verður breyting á og næsta hreyfivika verður 23.-29. maí n.k.

USÚ sendi sína fulltrúa á þá fundi og þing sem okkur bar, eins og sambandsþing UMFÍ og Íþróttaþing ÍSÍ svo eitthvað sé nefnt.  Vorfundur UMFÍ var með heldur óvenjulegu sniði árið 2015, en hann var haldinn í formi námsferðar til Danmerkur um miðjan maí. Farið var í heimsókn til DGI (sem eru einskonar dönsk systursamtök UMFÍ) og ISCA (sem eru alþjóðleg íþróttasamtök sem halda t.d. MoveWeek víða um heim).  Sigurður Óskar Jónsson, fór í ferðina fyrir hönd USÚ.

Dagana 22. – 23. janúar s.l. var haldin skemmtihelgi á vegum Ungmennaráðs UMFÍ. Yfirskrift helgarinnar var Framtíðar frumkvöðlar.  USÚ átti tvo fulltrúa á þessum viðburði sem byrjaði á námskeiði í þjónustumiðstöð UMFÍ og endaði í Vogum á Vatnsleysuströnd, með ratleik í millitíðinni.  Fulltrúar USÚ voru Birkir Freyr Elvarsson og Kristján Vilhelm Gunnarsson.

Þrjár tillögur frá stjórn lágu fyrir þinginu.  Fyrst má nefna hvatningu til ungmennafélaga til að fjölmenna á Landsmót UMFÍ 50+ á Ísafirði 10.-12. júní n.k. og á unglingalandsmót UMFÍ í Borgarnesi um verslunarmannahelgina.

Þá voru samþykktar breytingar á lögum styrktar- og afrekssjóðs USÚ.  Sveitarfélagið Hornafjörður mun leggja ákveðið fjármagn í sjóðinn frá og með næstu áramótum og því mun það fjármagn sem í boði er aukast umtalsvert frá því sem hefur verið.  Út af þessari breytingu þurfti að breyta lögum sjóðsins, en þau má finna hér.

Að lokum var samþykkt reglugerð um það hvernig velja eigi íþróttamann USÚ ár hvert. Ferlið hefur ekki verið ákveðið undanfarin ár og því fannst stjórninni rétt að setja upp leiðbeininingar um það hvernig haga skuli valinu. Reglugerðina má lesa hér.

Hægt er að sjá allar tillögurnar eins og þær voru lagðar fyrir þingið, í ársriti USÚ, hér neðst í fréttinni.

Páll Róbert Matthíasson, formaður USÚ, gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Stungið var upp á Kristjáni Erni Ebenezarsyni í hans stað og var það samþykkt. Samkvæmt lögum USÚ skiptir ný stjórn með sér verkum á fyrsta fundi, en hana skipa auk Kristjáns, Jóhanna Íris Ingólfsdóttir og Sigurður Óskar Jónsson.  Nýkjörin stjórn þakkar Páli Róberti kærlega fyrir sín störf í þágu ungmennafélagshreyfingarinnar.

Gunnar Gunnarsson, stjórnarmaður í UMFÍ og formaður UÍA, flutti ávarp. Hann hvatti menn t.d. til að sækja um styrki til Evrópu Unga Fólksins, en UÍA hefur einmitt verið duglegt að nýta sér það undanfarið.  Gunnar steig svo aftur í pontu undir lok þings og sæmdi Matthildi Ásmundardóttur starfsmerki UMFÍ.

Gunnar Gunnarsson veitti Matthildi Ásmundardóttur starfsmerki UMFÍ. (Mynd: SÓJ)
Gunnar Gunnarsson veitti Matthildi Ásmundardóttur starfsmerki UMFÍ. (Mynd: SÓJ)

Helga Steinunn Guðmundsdóttir, varaforseti ÍSÍ flutti einnig ávarp þar sem hún fjallaði m.a. um að árið 2016 væri ólympíuár og gera mætti ráð fyrir um 13-15 íslenskum keppendum á ólympíuleikunum í Rio de Janeiro í sumar. Hún minnti líka á að óvenju mikilvægt er að aðildarfélög ÍSÍ skili sínum starfsskýrslum á réttum tíma inn í félagakerfið Felix.  Verið er að taka í notkun nýtt kerfi sem gefa á út sem allra fyrst eftir að starfsskýrsluskilum lýkur.  Helga lauk svo máli sínu með því að sæma Valdemar Einarsson, fráfarandi framkvæmdastjóra Sindra, gullmerki ÍSÍ.

Helga Steinunn Guðmundsdóttir, varaforseti ÍSÍ, veitti Valdemar Einarssyni gullmerki ÍSÍ. (Mynd: SÓJ)
Helga Steinunn Guðmundsdóttir, varaforseti ÍSÍ, veitti Valdemar Einarssyni gullmerki ÍSÍ. (Mynd: SÓJ)

Íþróttamaður ársins var útnefndur á þinginu auk þess sem þrír ungir iðkendur hlutu hvatningarverðlaun USÚ fyrir árið 2015. Nánar má lesa um þessar viðurkenningar í frétt sem birtast á síðunni síðar í kvöld eða á morgun.

Hér er hægt að lesa skýrslu stjórnar USÚ fyrir árið 2015.  Reikningar sambandsins eru í skýrslunni og einnig er þar að finna starfsskýrslur flestra aðildarfélaga.  Þegar þetta er ritað vantar enn skýrslur frá Akstursíþróttafélagi Austur-Skaftafellssýslu og Golfklúbbi Hornafjarðar.  Þeim verður bætt við þegar þær berast.  Skýrsla frá Skotfélagi Austur-Skaftafellssýslu barst eftir að ársritið fór í prentun og því er hún bara í þessari útgáfu, ekki prentútgáfunni: 83.-ársþing-USÚ-ársskýrsla-2.-útg.

Íþróttamaður USÚ 2014

Á 82. ársþingi USÚ sem fram fór í Mánagarði í Nesjum 26. mars síðastliðinn var veitt viðurkenning til íþróttamanns USÚ árið 2014.  Þar að auki fengu þrjú ungmenni sem þótt hafa staðið sig vel á árinu viðurkenningu og hvött til áframhaldandi velgengni.

Íþróttamaður USÚ árið 2014 er María Birkisdóttir.

María er fædd árið 1995.  Hún hefur stundað íþróttir alla ævi, bæði knattspyrnu og frjálsar íþróttir. Fyrir fáum árum ákvað hún að einbeita sér að frjálsum enda þá orðin efnileg í hlaupum. Það þarf mikla elju og sjálfsaga til að stunda frjálsar á Hornafirði í litlum árgöngum. Maríu hefur tekist það og oft hefur hefur hún verið ein í árgangi. Nú um síðustu áramót tók María þá ákvörðun að skipta yfir í ÍR þar sem hún nýtur leiðsagnar færustu frjálsíþrótta- og hlaupaþjálfara landsins.
Helstu afrek Maríu á árinu 2014 voru þessi:
– Íslandsmeistari 18-19 ára í 800 m og 1500 m hlaupi úti og inni.
– Íslandsmeistari í 800 m og 5000 m hlaupi í fullorðinsflokki.
– Annað sæti í 10 km hlaupi í Reykjavíkurmaraþoninu.
– Fast pláss í landsliðshóp FRÍ.

María sá sér því miður ekki fært að mæta til að taka við viðurkenningunni að svo stöddu en hún verður afhent við gott tækifæri síðar.  Við birtum þá mynd þegar að því kemur.

Hvatningarverðlaun hlutu:
Ingibjörg Lucía Ragnarsdóttir, fædd 1998, fyrir góðan árangur í knattspyrnu en Ingibjörg hefur keppt fyrir U17 landslið kvenna ásamt því að vera fastamaður í æfingahóp landsliðsins.

Ingibjörg Lúcía hlaut hvatningarverðlaun USÚ 2014. (Mynd: SÓJ)
Ingibjörg Lúcía hlaut hvatningarverðlaun USÚ 2014. (Mynd: SÓJ)

Ingibjörg Valgeirsdóttir, fædd 1998, fyrir góðan árangur í knattspyrnu en Ingibjörg er efnilegur markmaður. Hún hefur keppt fyrir U17 landslið kvenna líkt og nafna hennar og sömuleiðis verið fastamaður í æfingahóp landsliðsins. Ingibjörg gat því miður ekki mætt, en viðurkenningunni hefur verið komið til hennar.

Gísli Þórarinn Hallsson, fæddur 1999, fyrir góðan árangur í körfubolta og knattspyrnu en hann hefur verið í æfingahópi hjá U16 landsliðinu í körfubolta og Gísli er jafnframt efnilegur markmaður í knattspyrnu. Gísli Þórarinn gat því miður ekki mætt, en Hallmar bróðir hans tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd.

Íþróttamaður USÚ 2013

Stjórn USÚ ákvað á fundi á síðasta ári að veita íþróttamanni ársins framvegis verðlaun á ársþingi.  Verðlaunin hafa verið veitt á 17. júní hátíðahöldum á Höfn undanfarin ár.  Helstu rökin fyrir breytingunni eru þau að þá þyki ansi seint að veita verðlaun fyrir afrek sem eru að minnsta kosti hálfs árs gömul og reyndar oft  meira en ársgömul.

Íþróttamaður ársins árið 2013 var valin Maria Selma Haseta.  Maria Selma, sem er fædd árið 1995, var máttarstólpi kvennaliðs Sindra sumarið 2013 og skoraði m.a. rúmlega helming marka liðsins.  Hún var einnig valin besti leikmaður kvennaliðs Sindra sumarið 2013.  Þá var hún valin í undir 19 ára landslið Íslands og spilaði fyrir það þrjá leiki í undankeppni EM 2014, þar af tvo í byrjunarliðinu.

Maria Selma Haseta, íþróttamaður USÚ 2013. (Mynd: SÓJ)
Maria Selma Haseta, íþróttamaður USÚ 2013. (Mynd: SÓJ)

Hefð hefur skapast fyrir því að veita hvatningarverðlaun til einstaklinga eða félaga samhliða vali á íþróttamanni ársins.  Árið 2013 varð María Birkisdóttir fyrir valinu.  María, sem einnig er fædd árið 1995, æfir og keppir í frjálsum íþróttum með Sindra, þá helst í svokölluðum millivegalengdarhlaupum.  Hún var eini keppandi USÚ sem keppti í íþrótt sem felst í því að hreyfa sig, á Landsmóti UMFÍ á Selfossi og varð í öðru sæti bæði í 800 og 1500 metra hlaupum. Hún varð Íslandsmeistari í flokki 18-19 ára í bæði 800 og 1500 m hlaupum á Meistaramóti Íslands 15-22 ára innanhúss og í öðru sæti í 800 m hlaupi á samskonar móti utanhúss.  Hún varð líka í fyrsta sæti í 800 m hlaupi á Unglingalandsmóti UMFÍ og í öðru sæti í 100 m hlaupi á sama móti.

Hennar aldursflokkur er mjög fámennur á flestum, ef ekki öllum, frjálsíþróttamótum.  Stjórn USÚ var sammála um að veita Maríu hvatningarverðlaunin, þar sem ekki veitir af hvatningu til að halda áfram að keppa við örfáar stelpur, og æfa þar að auki mikið til ein.

María Birkisdóttir hlaut Hvatningarverðlaun USÚ 2013. (Mynd: SÓJ)
María Birkisdóttir hlaut Hvatningarverðlaun USÚ 2013. (Mynd: SÓJ)

Stjórn USÚ óskar þeim báðum til hamingju með árangurinn.

Þrjár Sindrastúlkur kallaðar á landsliðsæfingar

Ungir Sindramenn halda áfram að gera það gott en þrjár stúlkur hafa nú verið kallaðar á landsliðsæfingar í knattspyrnu.

Þær Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir og Ingibjörg Valgeirsdóttir hafa nú verið kallaðar á U17 ára landsliðsæfingu. Ingibjörg Lúcía og Sigrún Salka Hermannsdóttir voru á U17 ára æfingu ekki fyrir svo löngu síðan. Það er því ljóst að Sindri er með þrjár stúlkur sem eru á blaði landsliðsþjálfara úr þessum árgangi sem er frábært.

María Selma Haseta hefur svo verið kölluðu á U19 ára æfingar næstu helgi. María Selma, sem var besti leikmaður meistaraflokks kvenna hjá Sindra í sumar, vann sér fast sæti í U19 ára liðinu núna í haust og spilaði alla leiki liðsins í riðilsins i í undankeppni  Evrópumótsins.

Það er því ljóst að ungu leikmennirnir hjá Sindra eru að minna á sig og vonandi fylgja þeim bara fleiri eftir.

Heimasíða Umf. Sindra greindi frá.

Stórleikur í körfuboltanum

Körfuboltaútgáfa merkis Sindra.
Körfuboltaútgáfa merkis Sindra.

Það er ekki alveg á hverjum degi sem hornfirsk lið mæta úrvalsdeildarliðum, sér í lagi á heimavelli.  Þrjátíu og tveggja liða úrslit Powerade-bikarkeppninnar í körfuknattleik karla hófust í gær, en næstkomandi sunnudag, 3. nóvember, mætir Umf. Sindri engum öðrum en Þór frá Þorlákshöfn í íþróttahúsinu á Höfn.  Skemmst er frá því að segja að Þórsarar eru ósigraðir í Domino’s deildinni og eru í 2.-5. sæti þegar þetta er ritað.  Þeir eiga þó leik til góða á topplið Keflavíkur.

Sindri er aftur á móti í öðru sæti B riðils annarrar deildar eftir tvo sigra á Stál-úlfi frá Kópavogi og Umf. Heklu frá Hellu, en eitt tap gegn toppliði Umf. Laugdæla frá Laugarvatni.

Það er því ljóst að það verður við ramman reip að draga fyrir Sindramenn og ekki vanþörf á dyggum stuðningi heimamanna.  Eins og áður segir er leikurinn næstkomandi sunnudag, 3. nóvember, og hefst klukkan 16:00.  Ekki spillir fyrir að það er frítt á leikinn.

Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu Sindra og á heimasíðu körfuknattleikssambandsins.