Lög USÚ

Lög Ungmennasambandsins Úlfljóts

1. gr. Heiti:

Sambandið heitir Úlfljótur, skammstafað USÚ.

2. gr. Sambandssvæði:

Heimili og varnarþing sambandsins er í Sveitarfélaginu Hornafirði.

3. gr.   Hlutverk:

Hlutverk sambandsins er:

  1. Að stjórna sameiginlegum íþróttamálum héraðsins og vera þar fulltrúi ÍSÍ, en sérráð sem stofnuð eru, fara með stjórn sérgreinamála innan héraðsins.
  2. Að annast samstarf um íþróttamál við bæjarstjórn og aðra opinbera aðila innan héraðs.
  3. Að varðveita og skipta milli félaganna því, sem til þess hefur verið veitt.
  4. Að aðstoða við skipulag, undirbúning og framkvæmd íþróttamóta í héraði.
  5. Að hafa frumkvæði um eflingu íþróttastarfs innan héraðs.
  6. Að staðfesta lög aðildarfélaga.
  7. Að fylgjast með því að starfsemi aðildarfélaga fari fram skv. gildandi lögum þeirra og íþróttahreyfingarinnar í heild. Vanræki aðildarfélag að halda aðalfund á tilsettum tíma skal stjórn sambandsins, ef þörf krefur, boða til fundarins og sjá um framkvæmd hans.

4. gr.   Tilgangi náð:

Tilgangi sínum hyggst sambandið ná með eflingu íþrótta og með því að starfa að þeim þjóðnytjamálum sem það telur sér fært að sinna.

5. gr.   Réttur til aðildar:

Rétt til þátttöku í USÚ hafa þau ungmenna- og íþróttafélög sem starfa eða munu starfa á sambandssvæðinu, enda séu lög þeirra í samræmi við lög USÚ, ÍSÍ og UMFÍ.

6. gr.   Umsókn um aðild:

Umsóknir um inngöngu í sambandið sendist stjórn USÚ ásamt lögum viðkomandi félags, nöfnum stjórnarmanna og félagaskrá. Stjórnin úrskurðar um inngöngu sem þó skal staðfesta á ársþingi. Úrsögn úr USÚ er því aðeins gild að félagið sé skuldlaust við sambandið. Þeim félögum sem ekki hafa sent skatt eða skýrslu í tvö ár samfleytt, má víkja úr sambandinu. Ennfremur þeim félögum sem að öðru leyti gerast brotleg við lög þessi. Brottrekstur félags skal staðfestur á ársþingi. Sambandsfélögin greiða skatt til USÚ og er hann ákveðinn á ársþingi ár hvert.

7. gr.   Ársþing:

Sambandið heldur ársþing sitt fyrir marslok ár hvert. Stjórn kveður til þings og ákveður þingstað. Ársþing skal boðað skriflega og auglýst með eins mánaðar fyrirvara og er það löglegt hafi löglega verið til þess boðað. Skriflegt þingboð (síðara þingboð) með dagskrá og upplýsingum um tillögur og mál sem leggja á fyrir þing skal senda aðildarfélögum, sérráðum og öðrum er rétt eiga til þingsetu með eigi minni en einnar viku fyrirvara. Tillögur félaganna um lagabreytingar skal senda stjórninni eigi síðar en tveimur vikum fyrir ársþing og skal stjórnin kynna þær aðildarfélögunum með síðara þingboði. Reikningsárið er almanaksárið.

8. gr.   Fulltrúar á ársþing:

Hvert sambandsfélag hefur rétt til að senda fulltrúa á ársþing þannig að einn fulltrúi komi fyrir hverja 25 skattskylda félaga. Fulltrúar skulu aldrei vera færri en tveir frá hverju félagi. Eftir að fjórum fulltrúum er náð skal vera 1 fyrir hverja 50 skattskylda félaga. Tala félagsmanna skal miðuð við síðustu starfsskýrsluskil og eru 16 ára og eldri skattskyldir. Á ársþingi hafa allir sambandsaðilar málfrelsi og tillögurétt, en aðeins stjórn og fulltrúar atkvæðisrétt. Stjórnin getur boðið öðrum aðilum þingsetu er hún telur ástæðu til. Aðeins sá sem er félagi innan sambandsins er kjörgengur fulltrúi á ársþingi. Hver þingfulltrúi hefur eitt atkvæði. Allir þingfulltrúar skulu hafa kjörbréf.

9. gr.   Störf þingsins

  1. Þingsetning.
  2. Kosning fyrsta og annars þingforseta.
  3. Kosning fyrsta og annars þingritara.
  4. Kosning þriggja manna kjörbréfanefndar.
  5. Álit kjörbréfanefndar.
  6. Kosnar nefndir er þingið samþykkir að kjósa skuli til starfa á þinginu til að fjalla um þær tillögur og málefni sem til þeirra er vísað.
  7. Lögð fram skýrsla fráfarandi stjórnar.
  8. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar.
  9. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga sambandsins, og afgreiðsla þeirra.
  10. Ávörp gesta.
  11. Lögð fram fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár.
  12. Lagðar fram og teknar til umræðu tillögur um breytingar á lögum og reglugerðum.
  13. Teknar til umræðu aðrar tillögur og önnur mál, sem borist hafa til stjórnar.
  14. Tillögur og nefndarálit tekin til afgreiðslu.
  15. Önnur mál.
  16. Kosning.
    • Kosning þriggja manna stjórnar og tveggja til vara.
    • Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og tveggja til vara. Skulu þeir jafnframt vera skoðunarmenn reikninga aðildarfélaganna (nema þau kjósi eigin skoðunarmenn reikninga)
    • Kosning fulltrúa á Íþróttaþing (ÍSÍ þing).
    • Kosning þriggja manna kjörnefndar og eins til vara, sem starfa skulu fram að lokum næsta ársþings.
  17. Fundargerð þingsins borin upp til samþykktar.
  18. Þingslit.

Ef lægsta atkvæðatala til að ná kosningu fellur á tvo eða fleiri, skal kjósa um þá á ný í bundinni kosningu.Verði þeir jafnir ræður hlutkesti.Einfaldur meirihluti ræður úrslitum nema um lagabreytingar sé að ræða, þá þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða.

10. gr. Aukaþing:

Aukaþing má halda ef meirihluti stjórnar telur það nauðsynlegt eða ef a.m.k. helmingur aðildarfélaga óskar þess. Tilkynningafrestur til aukaþings má vera helmingi styttri en til reglulegs þings. Fulltrúar á aukaþing eru þeir sömu og voru á næsta reglulegu þingi á undan og gilda sömu kjörbréf. Þó má kjósa að nýju í stað fulltrúa sem er látinn,veikur eða forfallaður á annan hátt. Á aukaþingi má ekki gera laga eða leikreglubreytingar og ekki kjósa stjórn nema bráðabirgðastjórn, ef meirihluti kjörinnar aðalstjórnar hefur sagt af sér eða hætt störfum af öðrum orsökum,eða stjórnin hefur að eigin dómi orðið óstarfhæf. Að öðru leyti gilda um það sömu reglur og um reglulegt ársþing.

11. gr. Kjör stjórnar og hlutverk kjörnefndar:

Hlutverk kjörnefndar er að gera tillögur um menn í stjórn og varastjórn. Framboðum til stjórnar og varastjórnar skal skila til kjörnefndarinnar tveimur vikum fyrir ársþing. Auglýst skal eftir framboðum með fyrra þingboði. Stjórn USÚ skal skipuð þannig að aldrei séu fleiri en tveir stjórnarmenn frá sama félagi. Stjórn skiptir með sér verkum á fyrsta fundi eftir ársþing, þ.e. formaður, ritari og gjaldkeri. Fráfarandi formaður boðar til þess fundar. Stjórnarfundi skal halda minnst 4 sinnum á ári.

12. gr. Hlutverk stjórnar:

Stjórnin hefur á hendi stjórn sameiginlegra mála sambandsins milli þinga innan þeirra marka sem lög og þingsamþykktir setja. Stjórnin gefur skýrslu um hag og starfsemi sambandsins til ÍSÍ og UMFÍ skv. lögum þeirra. Hún veitir móttöku öllu því fé sem sambandinu áskotnast, ávaxtar sjóði þess og fer með þá samkvæmt þeirri fjárhagsáætlun er þingið hefur samþykkt. Hún skal ábyrgjast sjóði sambandsins og í sameiningu hafa forsjá um aðrar eignir þess. Félög er ekki standa skil á skýrslum og öðrum skuldbindingum gagnvart sambandinu fá ekki úthlutað úr sjóðum þess svo sem Lottósjóði eða öðrum, fyrr en úr hefur verið bætt.

13. gr. Nefndir:

Nýkjörin stjórn skal tilnefna þær nefndir er hún telur þörf á að skipa, og skulu þær starfa með stjórninni.

14.gr.

Sambandið og aðildarfélög þess skulu veita skattayfirvöldum allar upplýsingar um starfsmannagreiðslur og aðrar greiðslur skv. skattalögum hverju sinni.

15. gr. Lagabreytingar:

Lögum þessum má aðeins breyta á ársþingi með minnst 2/3 hluta atkvæða þeirra fulltrúa sem mættir eru.

16. gr.

Um þau atriði, sem ekki eru tekin fram í lögum þessum, gilda ákvæði í lögum ÍSÍ (eins og við á).

17. gr. Gildistaka:

Lög þessi öðlast gildi þegar framkvæmdastjórn ÍSÍ hefur staðfest þau og falla jafnframt öll eldri lög úr gildi við samþykkt þeirra.

Lögum þessum var síðast breytt á 90. ársþingi USÚ, 23. mars 2023.