Afrekaskrá USÚ komin á vefinn

Stjórn USÚ samþykkti á fundi á fyrri hluta síðasta árs að láta taka saman héraðsmetaskrá USÚ í frjálsum íþróttum. Afrekaskrá var þá þegar til staðar á heimasíðu Frjálsíþróttasambands Íslands, en gallinn við hana er að hún inniheldur einungis met sem skráð hafa verið í mótaforrit FRÍ og met úr nokkrum afrekaskrám sem FRÍ hefur undir höndum. Eðli málsins samkvæmt er þessi „nýja“ metaskrá hér að langmestu leyti byggð á afrekaskránni hjá FRÍ, en þó hefur verið bætt inn metum eftir því sem gögn um þau hafa fundist.

Ákveðið var að Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri USÚ og stjórnarmaður í Mána, tæki skrána saman og héldi utan um hana. Styrkur til verksins fékkst úr Fræðslu- og verkefnasjóði UMFÍ.

Helstu heimildir sem skráin byggir á, fyrir utan afrekaskrána á heimasíðu FRÍ, eru þessar:

  1. Afrekaskrá Ungmennasambandsins Úlfljóts frá 1971.  Sigvaldi Ingimundarson tók saman.
  2. Mótaskrá USÚ 1994.  Hún inniheldur einnig afrekaskrá.  Pálmar Hreinsson tók saman.
  3. Ýmsar greinar úr Skinfaxa, tímariti UMFÍ, aðgengilegt á Tímarit.is.

Reynt var að skrá aðildarfélög þeirra sem metin eiga. Það tókst þó ekki alveg alltaf að finna ótvíræðar upplýsingar um þau og stendur því bara USÚ við þá keppendur. Rétt er að taka það fram að sjálfsagt er að hafa samband við okkur ef villur eru í skránni. Ekki er gert ráð fyrir því að hún sé 100% fullkomin. Einnig er sjálfsagt að taka við upplýsingum um félög þeirra sem eiga metin hafa keppt fyrir.  Ef einhver bætir met og sér það ekki uppfært fljótlega, er einnig um að gera að hafa samband.

Beinn tengill á skrána.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *