81. ársþing USÚ lokið

Ársþing USÚ, það 81. í röðinni, fór fram í Nýheimum á Höfn í gær, 31. mars.  Þingið var ágætlega sótt, öll aðildarfélög sendu fulltrúa á þingið en einungis Golfklúbbur Hornafjarðar sendi alla þá fulltrúa sem hann átti rétt á.  Rétt er þó að geta þess að fulltrúar Skotfélags Austur-Skaftafellssýslu mættu fyrstir, vel tímanlega.

Töluvert starf var hjá USÚ á liðnu ári, en að sjálfsögðu var langstærsta verkefnið 16. Unglingalandsmót UMFÍ.  Á þinginu var sýnt myndbrot úr sjónvarpsþætti sem Sindrafréttir eru að vinna að um mótið.  Vart þarf að nefna að gríðarleg vinna liggur að baki einu svona móti og verður öllum þeim sem komu að undirbúningi og framkvæmd mótsins seint fullþakkað.

Hrönn Jónsdóttir, stjórnarmaður í Ungmennafélagi Íslands, mætti fyrir þeirra hönd.  Hún flutti kveðju stjórnar og sæmdi Ingólfi Baldvinssyni starfsmerki UMFÍ.  Ingólfur hefur verið í stjórn frjálsíþróttadeildar Sindra um áraraðir, eða í 22 ár, og var um tíma ritari í stjórn USÚ.  Ingólfur er ávallt tilbúinn að aðstoða við frjálsíþróttamót, hvort sem USÚ, Sindri eða Máni er að halda þau.  Sérstaklega er hann eftirsóttur sem ræsir í hlaupum, en þau skipti sem hann hefur hleypt af startbyssunni eru að minnsta kosti óteljandi.

Ingólfur og Hrönn
Ingólfur Baldvinsson hlaut starfsmerki UMFÍ. (Mynd: SÓJ)

Enginn gestur sá sér fært að koma frá ÍSÍ, en Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, sendi kveðju.

Nokkrar tillögur voru samþykktar á þinginu.  Stjórn USÚ var falið að sækja um að fá að halda landsmót 50+ árið 2016.  Þingið samþykkti að færa UMFÍ kærar þakkir fyrir gott samstarf við undirbúning 16. unglingalandsmóts UMFÍ.  Þingið samþykkti sömuleiðis að færa sveitarfélaginu Hornafirði og íbúum þess kærar þakkir fyrir gott samstarf við undirbúning og framkvæmd 16. unglingalandsmóts UMFÍ.  Einnig var samþykkt hvatning til ungmennafélaga að fjölmenna á landsmót UMFÍ 50+ sem verður á Húsavík 20.-22. júní og á unglingalandsmót UMFÍ sem verður á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina.

Þá samþykkti þingið að hvetja sveitarfélagið Hornafjörð að leggja árlega til fjárframlag í styrktar- og afrekssjóð USÚ, með því fengi sveitarfélagið einnig rétt til þess að senda fulltrúa sinn í stjórn sjóðsins.  Samhliða því var gerð breyting á lögum sjóðsins.  Í stað þess að öll stjórn USÚ sitji í stjórn sjóðsins ásamt tveimur fulltrúum þeirra aðildarfélaga sem ekki eiga mann í stjórn skal stjórn sjóðsins skipuð á þann hátt að stjórn USÚ eigi tvo fulltrúa (formann og gjaldkera) og sveitarfélagið einn fulltrúa.  Hinir tveir fulltrúarnir breytast ekki.

Stjórn USÚ gaf kost á sér til endurkjörs og var það samþykkt.  Í stjórn USÚ sitja því áfram: Matthildur Ásmundardóttir, formaður, Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri og Páll Róbert Matthíasson, ritari.

Greint var frá kjöri á íþróttamanni ársins á þinginu, en grein um það birtist síðar hér á síðunni.

Þá var opinberuð afrekaskrá USÚ í frjálsum íþróttum sem Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri USÚ og stjórnarmaður í Mána, hefur tekið saman í vetur.  Beinn tengill á skrána er hérna.

Auður Lóa Gunnarsdóttir, frá Stórabóli á Mýrum gerði sér lítið fyrir og sigraði í samkeppni um hönnun á bol fyrir Ungmenna- og tómstundabúðir UMFÍ á Laugum í Sælingsdal.  Matthildur Ásmundardóttir, formaður USÚ, veitti henni viðurkenningu þess efnis á þinginu.

Auður Lóa Gunnarsdóttir hlaut viðurkenningu frá Ungmenna- og tómstundabúðum UMFÍ á Laugum í Sælingsdal. (Mynd: SÓJ)
Auður Lóa Gunnarsdóttir hlaut viðurkenningu frá Ungmenna- og tómstundabúðum UMFÍ á Laugum í Sælingsdal. (Mynd: SÓJ)

Að lokum skal geta þess að við stefnum á að setja ársskýrsluna hingað á síðuna.  Það reyndist því miður vanta aðeins í hana á þinginu en hún ætti að koma hingað á vefinn fljótlega.

Þingfulltrúar USÚ 2014. (Mynd: SÓJ)
Þingfulltrúar USÚ 2014. (Mynd: SÓJ)
Hrönn Jónsdóttir flutti kveðju stjórnar UMFÍ. (Mynd: SÓJ)
Hrönn Jónsdóttir flutti kveðju stjórnar UMFÍ. (Mynd: SÓJ)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *