Íþróttamaður USÚ 2013

Stjórn USÚ ákvað á fundi á síðasta ári að veita íþróttamanni ársins framvegis verðlaun á ársþingi.  Verðlaunin hafa verið veitt á 17. júní hátíðahöldum á Höfn undanfarin ár.  Helstu rökin fyrir breytingunni eru þau að þá þyki ansi seint að veita verðlaun fyrir afrek sem eru að minnsta kosti hálfs árs gömul og reyndar oft  meira en ársgömul.

Íþróttamaður ársins árið 2013 var valin Maria Selma Haseta.  Maria Selma, sem er fædd árið 1995, var máttarstólpi kvennaliðs Sindra sumarið 2013 og skoraði m.a. rúmlega helming marka liðsins.  Hún var einnig valin besti leikmaður kvennaliðs Sindra sumarið 2013.  Þá var hún valin í undir 19 ára landslið Íslands og spilaði fyrir það þrjá leiki í undankeppni EM 2014, þar af tvo í byrjunarliðinu.

Maria Selma Haseta, íþróttamaður USÚ 2013. (Mynd: SÓJ)
Maria Selma Haseta, íþróttamaður USÚ 2013. (Mynd: SÓJ)

Hefð hefur skapast fyrir því að veita hvatningarverðlaun til einstaklinga eða félaga samhliða vali á íþróttamanni ársins.  Árið 2013 varð María Birkisdóttir fyrir valinu.  María, sem einnig er fædd árið 1995, æfir og keppir í frjálsum íþróttum með Sindra, þá helst í svokölluðum millivegalengdarhlaupum.  Hún var eini keppandi USÚ sem keppti í íþrótt sem felst í því að hreyfa sig, á Landsmóti UMFÍ á Selfossi og varð í öðru sæti bæði í 800 og 1500 metra hlaupum. Hún varð Íslandsmeistari í flokki 18-19 ára í bæði 800 og 1500 m hlaupum á Meistaramóti Íslands 15-22 ára innanhúss og í öðru sæti í 800 m hlaupi á samskonar móti utanhúss.  Hún varð líka í fyrsta sæti í 800 m hlaupi á Unglingalandsmóti UMFÍ og í öðru sæti í 100 m hlaupi á sama móti.

Hennar aldursflokkur er mjög fámennur á flestum, ef ekki öllum, frjálsíþróttamótum.  Stjórn USÚ var sammála um að veita Maríu hvatningarverðlaunin, þar sem ekki veitir af hvatningu til að halda áfram að keppa við örfáar stelpur, og æfa þar að auki mikið til ein.

María Birkisdóttir hlaut Hvatningarverðlaun USÚ 2013. (Mynd: SÓJ)
María Birkisdóttir hlaut Hvatningarverðlaun USÚ 2013. (Mynd: SÓJ)

Stjórn USÚ óskar þeim báðum til hamingju með árangurinn.

81. ársþing USÚ lokið

Ársþing USÚ, það 81. í röðinni, fór fram í Nýheimum á Höfn í gær, 31. mars.  Þingið var ágætlega sótt, öll aðildarfélög sendu fulltrúa á þingið en einungis Golfklúbbur Hornafjarðar sendi alla þá fulltrúa sem hann átti rétt á.  Rétt er þó að geta þess að fulltrúar Skotfélags Austur-Skaftafellssýslu mættu fyrstir, vel tímanlega.

Töluvert starf var hjá USÚ á liðnu ári, en að sjálfsögðu var langstærsta verkefnið 16. Unglingalandsmót UMFÍ.  Á þinginu var sýnt myndbrot úr sjónvarpsþætti sem Sindrafréttir eru að vinna að um mótið.  Vart þarf að nefna að gríðarleg vinna liggur að baki einu svona móti og verður öllum þeim sem komu að undirbúningi og framkvæmd mótsins seint fullþakkað.

Hrönn Jónsdóttir, stjórnarmaður í Ungmennafélagi Íslands, mætti fyrir þeirra hönd.  Hún flutti kveðju stjórnar og sæmdi Ingólfi Baldvinssyni starfsmerki UMFÍ.  Ingólfur hefur verið í stjórn frjálsíþróttadeildar Sindra um áraraðir, eða í 22 ár, og var um tíma ritari í stjórn USÚ.  Ingólfur er ávallt tilbúinn að aðstoða við frjálsíþróttamót, hvort sem USÚ, Sindri eða Máni er að halda þau.  Sérstaklega er hann eftirsóttur sem ræsir í hlaupum, en þau skipti sem hann hefur hleypt af startbyssunni eru að minnsta kosti óteljandi.

Ingólfur og Hrönn
Ingólfur Baldvinsson hlaut starfsmerki UMFÍ. (Mynd: SÓJ)

Enginn gestur sá sér fært að koma frá ÍSÍ, en Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, sendi kveðju.

Nokkrar tillögur voru samþykktar á þinginu.  Stjórn USÚ var falið að sækja um að fá að halda landsmót 50+ árið 2016.  Þingið samþykkti að færa UMFÍ kærar þakkir fyrir gott samstarf við undirbúning 16. unglingalandsmóts UMFÍ.  Þingið samþykkti sömuleiðis að færa sveitarfélaginu Hornafirði og íbúum þess kærar þakkir fyrir gott samstarf við undirbúning og framkvæmd 16. unglingalandsmóts UMFÍ.  Einnig var samþykkt hvatning til ungmennafélaga að fjölmenna á landsmót UMFÍ 50+ sem verður á Húsavík 20.-22. júní og á unglingalandsmót UMFÍ sem verður á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina.

Þá samþykkti þingið að hvetja sveitarfélagið Hornafjörð að leggja árlega til fjárframlag í styrktar- og afrekssjóð USÚ, með því fengi sveitarfélagið einnig rétt til þess að senda fulltrúa sinn í stjórn sjóðsins.  Samhliða því var gerð breyting á lögum sjóðsins.  Í stað þess að öll stjórn USÚ sitji í stjórn sjóðsins ásamt tveimur fulltrúum þeirra aðildarfélaga sem ekki eiga mann í stjórn skal stjórn sjóðsins skipuð á þann hátt að stjórn USÚ eigi tvo fulltrúa (formann og gjaldkera) og sveitarfélagið einn fulltrúa.  Hinir tveir fulltrúarnir breytast ekki.

Stjórn USÚ gaf kost á sér til endurkjörs og var það samþykkt.  Í stjórn USÚ sitja því áfram: Matthildur Ásmundardóttir, formaður, Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri og Páll Róbert Matthíasson, ritari.

Greint var frá kjöri á íþróttamanni ársins á þinginu, en grein um það birtist síðar hér á síðunni.

Þá var opinberuð afrekaskrá USÚ í frjálsum íþróttum sem Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri USÚ og stjórnarmaður í Mána, hefur tekið saman í vetur.  Beinn tengill á skrána er hérna.

Auður Lóa Gunnarsdóttir, frá Stórabóli á Mýrum gerði sér lítið fyrir og sigraði í samkeppni um hönnun á bol fyrir Ungmenna- og tómstundabúðir UMFÍ á Laugum í Sælingsdal.  Matthildur Ásmundardóttir, formaður USÚ, veitti henni viðurkenningu þess efnis á þinginu.

Auður Lóa Gunnarsdóttir hlaut viðurkenningu frá Ungmenna- og tómstundabúðum UMFÍ á Laugum í Sælingsdal. (Mynd: SÓJ)
Auður Lóa Gunnarsdóttir hlaut viðurkenningu frá Ungmenna- og tómstundabúðum UMFÍ á Laugum í Sælingsdal. (Mynd: SÓJ)

Að lokum skal geta þess að við stefnum á að setja ársskýrsluna hingað á síðuna.  Það reyndist því miður vanta aðeins í hana á þinginu en hún ætti að koma hingað á vefinn fljótlega.

Þingfulltrúar USÚ 2014. (Mynd: SÓJ)
Þingfulltrúar USÚ 2014. (Mynd: SÓJ)
Hrönn Jónsdóttir flutti kveðju stjórnar UMFÍ. (Mynd: SÓJ)
Hrönn Jónsdóttir flutti kveðju stjórnar UMFÍ. (Mynd: SÓJ)

Afrekaskrá USÚ komin á vefinn

Stjórn USÚ samþykkti á fundi á fyrri hluta síðasta árs að láta taka saman héraðsmetaskrá USÚ í frjálsum íþróttum. Afrekaskrá var þá þegar til staðar á heimasíðu Frjálsíþróttasambands Íslands, en gallinn við hana er að hún inniheldur einungis met sem skráð hafa verið í mótaforrit FRÍ og met úr nokkrum afrekaskrám sem FRÍ hefur undir höndum. Eðli málsins samkvæmt er þessi „nýja“ metaskrá hér að langmestu leyti byggð á afrekaskránni hjá FRÍ, en þó hefur verið bætt inn metum eftir því sem gögn um þau hafa fundist.

Ákveðið var að Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri USÚ og stjórnarmaður í Mána, tæki skrána saman og héldi utan um hana. Styrkur til verksins fékkst úr Fræðslu- og verkefnasjóði UMFÍ.

Helstu heimildir sem skráin byggir á, fyrir utan afrekaskrána á heimasíðu FRÍ, eru þessar:

  1. Afrekaskrá Ungmennasambandsins Úlfljóts frá 1971.  Sigvaldi Ingimundarson tók saman.
  2. Mótaskrá USÚ 1994.  Hún inniheldur einnig afrekaskrá.  Pálmar Hreinsson tók saman.
  3. Ýmsar greinar úr Skinfaxa, tímariti UMFÍ, aðgengilegt á Tímarit.is.

Reynt var að skrá aðildarfélög þeirra sem metin eiga. Það tókst þó ekki alveg alltaf að finna ótvíræðar upplýsingar um þau og stendur því bara USÚ við þá keppendur. Rétt er að taka það fram að sjálfsagt er að hafa samband við okkur ef villur eru í skránni. Ekki er gert ráð fyrir því að hún sé 100% fullkomin. Einnig er sjálfsagt að taka við upplýsingum um félög þeirra sem eiga metin hafa keppt fyrir.  Ef einhver bætir met og sér það ekki uppfært fljótlega, er einnig um að gera að hafa samband.

Beinn tengill á skrána.

81. ársþing USÚ

81. ársþing USÚ verður haldið í Nýheimum á Höfn í Hornafirði klukkan 17:00 mánudaginn 31. mars næstkomandi.  Um fulltrúa á ársþingi segir m.a. í lögum USÚ:

Á ársþingi hafa allir sambandsaðilar málfrelsi og tillögurétt, en aðeins stjórn og fulltrúar atkvæðisrétt. Stjórnin getur boðið öðrum aðilum þingsetu er hún telur ástæðu til. Aðeins sá sem er félagi innan sambandsins er kjörgengur fulltrúi á ársþingi. Hver þingfulltrúi hefur eitt atkvæði. Allir þingfulltrúar skulu hafa kjörbréf.

Alls eiga 45 fulltrúar rétt á setu á þinginu, misjafnlega margir frá hverju félagi.  Þeir sem hafa áhuga á að mæta ættu að hafa samband við stjórn síns félags.

Almannaskarð – Vígsla á nýju gönguleiðarskilti

Skilti
Nýja skiltið (Mynd: SÓJ)
IMG_2930
Hluti göngumanna við upphaf ferðar. (Mynd: SÓJ)
IMG_2934
Á leið upp. (Mynd: SÓJ)
IMG_2943
Leikfimiæfingar efst í skarðinu. (Mynd: SÓJ)

Laugardaginn 28. desember síðastliðinn var opinberað nýtt skilti um gönguleiðina um Almannaskarð.  Skiltið sýnir gönguleiðina, segir frá sögunni og gefur leiðbeiningar um styrktar- og teygjuæfingar sem kjörið er að gera ýmist áður en lagt er af stað eða að göngu lokinni.  Þá er gestabók áföst skiltinu sem kjörið er að skrá nafn sitt í.

Eins og flestir vita lá þjóðvegur eitt um Almannaskarð þangað til göngin undir skarðið voru opnuð í júní 2005.  Síðan þá hefur vegurinn öðlast nýtt líf sem vinsæl gönguleið og líður varla sá dagur sem ekki sést til einhverra að ganga annaðhvort upp eða niður Skarðið.

Að þessu tilefni var auðvitað efnt til gönguferðar upp og niður Skarðið á vegum USÚ og Ferðafélags Austur-Skaftfellinga, en nýja skiltið er einmitt samstarfsverkefni þeirra á milli.  Á þriðja tug göngumanna mætti, á öllum aldri.  Þau elstu um sjötugt og sá yngsti tveggja ára.

Annar hluti af verkefninu var að gera og setja upp skilti sitthvoru megin við gönguleiðina „fyrir Horn“, en það er leiðin með fram ströndinni frá Syðra-Firði að Horni.

Hönnun og umbrot var í höndum Náttúrulega ehf.  Samstarf var einnig haft við landeigendur á Horni og Syðra-Firði.

Með þessari frétt sendir stjórn USÚ einnig bestu jóla og nýárskveðjur til félagsmanna sinna og landsmanna allra.

Ungmennafélagið Máni gefur út Vísi

merki mánaÍ dag kom út sveitablaðið Vísir, málgagn Ungmennafélagsins Mána.  Á upphafsárum sínum gaf Máni út samnefnt blað en það hefur nú komið út undanfarin fjögur ár, einu sinni á ári, rétt fyrir jól.

Í blaðinu, sem nú er í fyrsta sinn dreift um allt dreifbýli Austur-Skaftafellssýslu, er stiklað á stóru um starfið á liðnum ári.  Þá er gestapistill Regínu Hreinsdóttur í blaðinu auk yfirlits yfir viðburði í Nesjum í kringum jól og áramót.

Mánamenn stefna að því að fara í árlega vetrargöngu sína milli hátíða.  Yfirleitt hefur verið farið frá Mánagarði kl. 13:00, 30. desember.  Stefnt er að því að halda sig við þann tíma, en ef eitthvað breytist, þá verður það auglýst á facebook síðu Mána.  Aftast í blaðinu eru þrjár vísnagátur sem menn geta spreytt sig á þangað til.  Svörin verða gerð opinber að lokinni göngunni.

Hægt er að lesa blaðið hér: Vísir 1 tbl 2013 (pdf skjal, 200 kb)

Æfingatímar í Laugardalshöllinni fyrir sambandsaðila og félög þeirra

Laugardalshöllin (Mynd: Sigurður Óskar Jónsson)
Laugardalshöllin (Mynd: SÓJ)

Ungmennafélag Íslands hefur ákveðið að bjóða sambandsaðilum og félögum þeirra upp á aðstöðu í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal í vetur. Tíminn sem um ræðir er á mánudagskvöldum frá kl. 20-22. Með þessu gefst sambandsaðilum og félögum þeirra kostur á að æfa við fullkomnar aðstæður þegar að þeir eru á ferðinni í borginni.

Þegar frjálsíþróttafólkið mætir í frjálsíþróttahöllina þarf að gefa upp frá hvaða sambandsaðila eða félagi viðkomandi kemur frá. Allar nánari upplýsingar er gefnar í Þjónustumiðstöð UMFÍ í síma 568-2929 eða í tölupósti á umfi@umfi.is

Heimasíða UMFÍ greindi frá.

Þrjár Sindrastúlkur kallaðar á landsliðsæfingar

Ungir Sindramenn halda áfram að gera það gott en þrjár stúlkur hafa nú verið kallaðar á landsliðsæfingar í knattspyrnu.

Þær Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir og Ingibjörg Valgeirsdóttir hafa nú verið kallaðar á U17 ára landsliðsæfingu. Ingibjörg Lúcía og Sigrún Salka Hermannsdóttir voru á U17 ára æfingu ekki fyrir svo löngu síðan. Það er því ljóst að Sindri er með þrjár stúlkur sem eru á blaði landsliðsþjálfara úr þessum árgangi sem er frábært.

María Selma Haseta hefur svo verið kölluðu á U19 ára æfingar næstu helgi. María Selma, sem var besti leikmaður meistaraflokks kvenna hjá Sindra í sumar, vann sér fast sæti í U19 ára liðinu núna í haust og spilaði alla leiki liðsins í riðilsins i í undankeppni  Evrópumótsins.

Það er því ljóst að ungu leikmennirnir hjá Sindra eru að minna á sig og vonandi fylgja þeim bara fleiri eftir.

Heimasíða Umf. Sindra greindi frá.

Stórleikur í körfuboltanum

Körfuboltaútgáfa merkis Sindra.
Körfuboltaútgáfa merkis Sindra.

Það er ekki alveg á hverjum degi sem hornfirsk lið mæta úrvalsdeildarliðum, sér í lagi á heimavelli.  Þrjátíu og tveggja liða úrslit Powerade-bikarkeppninnar í körfuknattleik karla hófust í gær, en næstkomandi sunnudag, 3. nóvember, mætir Umf. Sindri engum öðrum en Þór frá Þorlákshöfn í íþróttahúsinu á Höfn.  Skemmst er frá því að segja að Þórsarar eru ósigraðir í Domino’s deildinni og eru í 2.-5. sæti þegar þetta er ritað.  Þeir eiga þó leik til góða á topplið Keflavíkur.

Sindri er aftur á móti í öðru sæti B riðils annarrar deildar eftir tvo sigra á Stál-úlfi frá Kópavogi og Umf. Heklu frá Hellu, en eitt tap gegn toppliði Umf. Laugdæla frá Laugarvatni.

Það er því ljóst að það verður við ramman reip að draga fyrir Sindramenn og ekki vanþörf á dyggum stuðningi heimamanna.  Eins og áður segir er leikurinn næstkomandi sunnudag, 3. nóvember, og hefst klukkan 16:00.  Ekki spillir fyrir að það er frítt á leikinn.

Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu Sindra og á heimasíðu körfuknattleikssambandsins.

48. sambandsþing UMFÍ

Um helgina fór fram 48. sambandsþing UMFÍ.  Þingið fór fram á Stykkishólmi og áttu um 140 fulltrúar þar rétt á setu.  Yfir 50 tillögur lágu fyrir þinginu og gekk afgreiðsla þeirra snurðulítið fyrir sig.  Ungmennasambandið Úlfljótur átti rétt að þremur fulltrúum, auk formanns.  Því miður náðist ekki að fylla þann kvóta alveg, en Matthildur Ásmundardóttir, formaður og Sigurður Óskar og Björn Ármann Jónssynir fóru fyrir hönd USÚ.

Helga Guðrún Guðjónsdóttir var endurkjörin formaður UMFÍ.  Ný stjórn var kosin á þinginu, en hægt er að kynna sér nýja stjórn á heimasíðu UMFÍ.  Matthildur Ásmundardóttir, formaður USÚ, sem hefur setið í varastjórn UMFÍ síðan 2011, gaf ekki kost á sér áfram.

Héraðssamband Þingeyinga, HSÞ, fékk hvatningarverðlaun UMFÍ 2013.  Þingeyingar fá verðlaunin fyrir kröftugt og metnaðarfullt starf á sviði íþrótta- og æskulýðsmála á sambandssvæðinu í kjölfar sameiningu HSÞ og UNÞ.

Þegar fram líða stundir verður hægt að lesa þinggerðina á heimasíðu UMFÍ, en líklega eru einhverjar vikur í það.