Íþróttamaður USÚ 2015

Á 83. ársþingi USÚ, sem haldið var á Hótel Höfn 17. mars 2016 var íþróttamanni USÚ árið 2015 veitt viðurkenning.  Þar að auki fengu þrjú ungmenni sem þótt hafa staðið sig vel á árinu viðurkenningu, og hvött til áframhaldandi velgengni.

Íþróttamaður USÚ árið 2015 er Ingibjörg Valgeirsdóttir.

Ingibjörg Valgeirsdóttir er íþróttamaður USÚ 2015. (Myndin er af heimasíðu ungmennafélagsins Sindra, umfsindri.is)
Ingibjörg Valgeirsdóttir er íþróttamaður USÚ 2015. (Mynd: umfsindri.is)

Ingibjörg er fædd árið 1998. Hún var markmaður meistaraflokks Sindra í knattspyrnu á síðasta ári og spilaði alla 12 leiki þeirra í deild og 1 í bikar. Hún var valin í U17 landslið Íslands og spilaði hún 5 leiki þar. Þegar því verkefni lauk fór hún beint í U19 landsliðið og spilaði með þeim 3 leiki í haust. Ingibjörg er mikil keppnismanneskja sem gæti náð langt í hvaða íþróttagrein sem er. Er hún talin eitt mesta efni landsins í markmannsstöðunni og verður gaman að fylgjast með henni á næstu árum. Ingibjörg skipti yfir í úrvalsdeildarlið KR núna um áramótin og verður gaman að fylgjast með henni á þeim vettvangi.

Ingibjörg gat ekki verið viðstödd, en faðir hennar og systir tóku við viðurkenningunni fyrir hennar hönd.

Valgeir Jónsson, faðir Ingibjargar, tók við viðurkenningunni fyrir hennar hönd. Systir hennar var eitthvað feimin við myndavélina. (Mynd: SÓJ)
Valgeir Jónsson, faðir Ingibjargar, tók við viðurkenningunni fyrir hennar hönd. Systir hennar var eitthvað feimin við myndavélina. (Mynd: SÓJ)

 

Hvatningarverðlaun hlutu:

Bjarney Jóna Unnsteinsdóttir er fædd 1993. Hún er ung og bráðefnileg hestakona eins sem átti frábært keppnisár í fyrra og var tilnefnd sem gæðingaknapi ársins. Hún var t.d. í 1 sæti í A flokki á félagsmóti Hestamannafélagsins Hornfirðings en toppnum náði hún þegar hún vann A úrslit í A flokki á fjórðungsmóti Austurland sl. sumar. Bjarney gat ekki verið viðstödd þar sem hún er í námi í hestafræðum við Háskólann á Hólum.  Pálmi Guðmundsson, formaður Hestamannafélagsins Hornfirðings tók við viðurkenningunni fyrir hennar hönd.

Pálmi Guðmundsson, formaður Hestamannafélagsins Hornfirðings, tók við viðurkenningunni fyrir hönd Bjarneyjar. (Mynd: SÓJ)
Pálmi Guðmundsson, formaður Hestamannafélagsins Hornfirðings, tók við viðurkenningunni fyrir hönd Bjarneyjar. (Mynd: SÓJ)

 

Birkir Freyr Elvarsson, fæddur 1998, er ungur og efnilegur blakmaður af Mýrunum. Hann var valinn í æfingahóp hjá U17 landsliðinu í blaki nú í haust og æfði með þeim í Reykjavík. Hann var svo valinn í lokahópinn hjá U17 landsliði Íslands sem fór til Englands og tók þátt í NEVZA mótinu og spilaði þar sína fyrstu landsleiki fyrir Ísland og stóð sig vel.

Birkir ætlaði að mæta, en rétt fyrir þing hafði hann samband og sagðist ekki geta mætt, því þjálfarinn hafði boðað aukaæfingu. Það hlýtur að vera viðeigandi fyrir svona efnilegan íþróttamann.Valgeir Steinarsson, sem er í stjórn blakdeildar Sindra, tók við viðurkenningunni fyrir hönd Birkis.

Valgeir Steinarsson, sem situr í stjórn blakdeildar Sindra, tók við viðurkenningunni fyrir hönd Birkis Freys. (Mynd: SÓJ)
Valgeir Steinarsson, sem situr í stjórn blakdeildar Sindra, tók við viðurkenningunni fyrir hönd Birkis Freys. (Mynd: SÓJ)

 

Gísli Þórarinn Hallsson, fæddur 1999, var síðastliðið sumar valinn í U-16 landsliðið sem keppti í 2. deild Evrópumótsins í körfubolta. Hann spilaði 9 leiki og skoraði í þeim 46 stig, en liðið endaði í 18. sæti af 24, (sem er reyndar algjört aukaatriði). Stóð hann sig með prýði og fór svo í kjölfarið og gerði samning við úrvaldsdeildarlið Hattar á Egilsstöðum fyrir tímabilið 2015-16. Gísli spilaði einnig 6 leiki í marki Mána í sumar og þótti standa sig vel.

Gísli gat ekki mætt, enda við nám í Menntaskólanum á Egilsstöðum, en Gísli Skarphéðinn Jónsson, nafni, frændi og jafnaldri hans tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd.

Gísli Skarphéðinn Jónsson, nafni, frændi og jafnaldri Gísla Þórarins, tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd. (Mynd: SÓJ)
Gísli Skarphéðinn Jónsson, nafni, frændi og jafnaldri Gísla Þórarins, tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd. (Mynd: SÓJ)

Páll Róbert Matthíasson, fráfarandi formaður USÚ, veitti allar viðurkenningarnar og því er hann á öllum myndunum.

83. ársþingi USÚ lokið

Ársþing USÚ, það 83. í röðinni fór fram á Hótel Höfn í gær, 17. mars.  Þingið var ágætlega sótt, 30 fulltrúar af 41 mættu frá flestum félögum.  Því miður mætti enginn frá Akstursíþróttafélagi Austur-Skaftafellssýslu.

Sindrakonur við veitingaborðið. (Mynd: SÓJ)
Sindrakonur við veitingaborðið. (Mynd: SÓJ)
30 fulltrúar mættu á þingið. (Mynd: SÓJ)
30 fulltrúar mættu á þingið. (Mynd: SÓJ)

Ýmislegt var á döfinni hjá USÚ á árinu og má þar nefna unglingalandsmót sem haldið var á Akureyri um verslunarmannahelgina og hreyfivikuna sem haldin hefur verið undanfarin haust.  Nú verður breyting á og næsta hreyfivika verður 23.-29. maí n.k.

USÚ sendi sína fulltrúa á þá fundi og þing sem okkur bar, eins og sambandsþing UMFÍ og Íþróttaþing ÍSÍ svo eitthvað sé nefnt.  Vorfundur UMFÍ var með heldur óvenjulegu sniði árið 2015, en hann var haldinn í formi námsferðar til Danmerkur um miðjan maí. Farið var í heimsókn til DGI (sem eru einskonar dönsk systursamtök UMFÍ) og ISCA (sem eru alþjóðleg íþróttasamtök sem halda t.d. MoveWeek víða um heim).  Sigurður Óskar Jónsson, fór í ferðina fyrir hönd USÚ.

Dagana 22. – 23. janúar s.l. var haldin skemmtihelgi á vegum Ungmennaráðs UMFÍ. Yfirskrift helgarinnar var Framtíðar frumkvöðlar.  USÚ átti tvo fulltrúa á þessum viðburði sem byrjaði á námskeiði í þjónustumiðstöð UMFÍ og endaði í Vogum á Vatnsleysuströnd, með ratleik í millitíðinni.  Fulltrúar USÚ voru Birkir Freyr Elvarsson og Kristján Vilhelm Gunnarsson.

Þrjár tillögur frá stjórn lágu fyrir þinginu.  Fyrst má nefna hvatningu til ungmennafélaga til að fjölmenna á Landsmót UMFÍ 50+ á Ísafirði 10.-12. júní n.k. og á unglingalandsmót UMFÍ í Borgarnesi um verslunarmannahelgina.

Þá voru samþykktar breytingar á lögum styrktar- og afrekssjóðs USÚ.  Sveitarfélagið Hornafjörður mun leggja ákveðið fjármagn í sjóðinn frá og með næstu áramótum og því mun það fjármagn sem í boði er aukast umtalsvert frá því sem hefur verið.  Út af þessari breytingu þurfti að breyta lögum sjóðsins, en þau má finna hér.

Að lokum var samþykkt reglugerð um það hvernig velja eigi íþróttamann USÚ ár hvert. Ferlið hefur ekki verið ákveðið undanfarin ár og því fannst stjórninni rétt að setja upp leiðbeininingar um það hvernig haga skuli valinu. Reglugerðina má lesa hér.

Hægt er að sjá allar tillögurnar eins og þær voru lagðar fyrir þingið, í ársriti USÚ, hér neðst í fréttinni.

Páll Róbert Matthíasson, formaður USÚ, gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Stungið var upp á Kristjáni Erni Ebenezarsyni í hans stað og var það samþykkt. Samkvæmt lögum USÚ skiptir ný stjórn með sér verkum á fyrsta fundi, en hana skipa auk Kristjáns, Jóhanna Íris Ingólfsdóttir og Sigurður Óskar Jónsson.  Nýkjörin stjórn þakkar Páli Róberti kærlega fyrir sín störf í þágu ungmennafélagshreyfingarinnar.

Gunnar Gunnarsson, stjórnarmaður í UMFÍ og formaður UÍA, flutti ávarp. Hann hvatti menn t.d. til að sækja um styrki til Evrópu Unga Fólksins, en UÍA hefur einmitt verið duglegt að nýta sér það undanfarið.  Gunnar steig svo aftur í pontu undir lok þings og sæmdi Matthildi Ásmundardóttur starfsmerki UMFÍ.

Gunnar Gunnarsson veitti Matthildi Ásmundardóttur starfsmerki UMFÍ. (Mynd: SÓJ)
Gunnar Gunnarsson veitti Matthildi Ásmundardóttur starfsmerki UMFÍ. (Mynd: SÓJ)

Helga Steinunn Guðmundsdóttir, varaforseti ÍSÍ flutti einnig ávarp þar sem hún fjallaði m.a. um að árið 2016 væri ólympíuár og gera mætti ráð fyrir um 13-15 íslenskum keppendum á ólympíuleikunum í Rio de Janeiro í sumar. Hún minnti líka á að óvenju mikilvægt er að aðildarfélög ÍSÍ skili sínum starfsskýrslum á réttum tíma inn í félagakerfið Felix.  Verið er að taka í notkun nýtt kerfi sem gefa á út sem allra fyrst eftir að starfsskýrsluskilum lýkur.  Helga lauk svo máli sínu með því að sæma Valdemar Einarsson, fráfarandi framkvæmdastjóra Sindra, gullmerki ÍSÍ.

Helga Steinunn Guðmundsdóttir, varaforseti ÍSÍ, veitti Valdemar Einarssyni gullmerki ÍSÍ. (Mynd: SÓJ)
Helga Steinunn Guðmundsdóttir, varaforseti ÍSÍ, veitti Valdemar Einarssyni gullmerki ÍSÍ. (Mynd: SÓJ)

Íþróttamaður ársins var útnefndur á þinginu auk þess sem þrír ungir iðkendur hlutu hvatningarverðlaun USÚ fyrir árið 2015. Nánar má lesa um þessar viðurkenningar í frétt sem birtast á síðunni síðar í kvöld eða á morgun.

Hér er hægt að lesa skýrslu stjórnar USÚ fyrir árið 2015.  Reikningar sambandsins eru í skýrslunni og einnig er þar að finna starfsskýrslur flestra aðildarfélaga.  Þegar þetta er ritað vantar enn skýrslur frá Akstursíþróttafélagi Austur-Skaftafellssýslu og Golfklúbbi Hornafjarðar.  Þeim verður bætt við þegar þær berast.  Skýrsla frá Skotfélagi Austur-Skaftafellssýslu barst eftir að ársritið fór í prentun og því er hún bara í þessari útgáfu, ekki prentútgáfunni: 83.-ársþing-USÚ-ársskýrsla-2.-útg.

83. ársþing USÚ

83. ársþing USÚ verður haldið á Hótel Höfn fimmtudaginn 17. mars næstkomandi, klukkan 17:30.  Um fulltrúa á ársþingi segir m.a. í lögum USÚ:

Á ársþingi hafa allir sambandsaðilar málfrelsi og tillögurétt, en aðeins stjórn og fulltrúar atkvæðisrétt. Stjórnin getur boðið öðrum aðilum þingsetu er hún telur ástæðu til. Aðeins sá sem er félagi innan sambandsins er kjörgengur fulltrúi á ársþingi. Hver þingfulltrúi hefur eitt atkvæði. Allir þingfulltrúar skulu hafa kjörbréf.

Alls á 41 fulltrúi rétt á setu á þinginu, misjafnlega margir frá hverju félagi.  Þeir sem hafa áhuga á að mæta ættu að hafa samband við stjórn síns félags.

Máni gefur út Vísi

merki mánaVísir, málgagn Ungmennafélagsins Mána kom út í dag í sjötta sinn í núverandi mynd.  Á upphafsárum sínum gaf Máni út samnefnt blað en það hefur nú komið út undanfarin sex ár, einu sinni á ári, rétt fyrir jól.

Í blaðinu, sem nú er í fyrsta sinn dreift um alla Austur-Skaftafellssýslu, er stiklað á stóru um starfið á liðnum ári.  Fjallað er um leikvöll Mána í Bjarnaneshverfi og saga fundarhússins sem stóð við hann er rakin.  Pistill um knattspyrnudeild Mána auk kynningar á ungskáldi sem hefur talsverða tengingu við Mána, er í blaðinu.  Þá er yfirlit yfir viðburði í Nesjum í kringum jól og áramót að finna í blaðinu.

Mánamenn stefna að því að fara í árlega vetrargöngu sína milli hátíða.  Yfirleitt hefur verið farið frá Mánagarði kl. 13:00, 30. desember.  Á síðasta ári mættu þó frekar fáir, enda 30. desember á þriðjudegi.  Því var ákveðið að hafa gönguna í ár sunnudaginn 27. desember kl. 13:00, en ef eitthvað breytist, (veðrið getur t.d. sett strik í reikninginn), þá verður það auglýst á facebook síðu Mána.  Aftarlega í blaðinu eru nokkrar gátur sem menn geta spreytt sig á þangað til.  Svörin verða gerð opinber að lokinni göngunni.  Alveg aftast eru gáturnar frá því fyrra birtar aftur og svörin við þeim.

Blaðið ætti að berast inn á öll heimili í Austur-Skaftafellssýslu í dag eða á morgun, en þeir sem geta ekki beðið geta lesið blaðið hér: Vísir 1 tbl 2015 (pdf skjal, 305 kb)

49. sambandsþing UMFÍ

Helgina 17.- 18. október s.l. fór fram 49. sambandsþing UMFÍ.  Fjöldi tillagna lágu fyrir þinginu og var meðal annars samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða að hefja vinnu við undirbúning á inntöku íþróttabandalaganna í Ungmennafélag Íslands. Þar er t.d. átt við Íþróttabandalag Reykjavíkur með um 50.000 félagsmenn, sem hefur ekki verið aðili að UMFÍ hingað til.  Þingið samþykkti einnig nýja umhverfisstefnu UMFÍ, auk þess sem samþykkt var að þátttökugjald á hvern keppanda á unglingalandsmóti skuli vera 7.000 kr. svo eitthvað sé nefnt.

Helga Guðrún Guðjónsdóttir formaður UMFÍ lét af embætti og Haukur Valtýsson, ungmennafélagi Akureyrar, var kjörinn í hennar stað. Nokkrar aðrar breytingar urðu á stjórn UMFÍ og náði Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri USÚ, m.a. kjöri í varastjórn.

Fulltrúar USÚ á þinginu voru: Páll Róbert Matthíasson, Hulda Laxdal Hauksdóttir, Sigurður Óskar Jónsson og Björn Ármann Jónsson.

Hægt er að lesa þinggerðina hér.

Hægt er að lesa ársskýrslu UMFÍ hér.

Umsóknir í styrktar- og afrekssjóð USÚ

usu_logoUngmennasambandið Úlfljótur auglýsir eftir umsóknum í styrktar- og afrekssjóð USÚ. Umsóknum má skila í Sindrahúsið, Hafnarbraut 25, eða í tölvupósti á usu@hornafjordur.is. Umsóknir þurfa að berast í síðasta lagi mánudaginn 8. júní.
Reglur og nánari upplýsingar um sjóðinn má finna hér.

Íþróttamaður USÚ 2014

Á 82. ársþingi USÚ sem fram fór í Mánagarði í Nesjum 26. mars síðastliðinn var veitt viðurkenning til íþróttamanns USÚ árið 2014.  Þar að auki fengu þrjú ungmenni sem þótt hafa staðið sig vel á árinu viðurkenningu og hvött til áframhaldandi velgengni.

Íþróttamaður USÚ árið 2014 er María Birkisdóttir.

María er fædd árið 1995.  Hún hefur stundað íþróttir alla ævi, bæði knattspyrnu og frjálsar íþróttir. Fyrir fáum árum ákvað hún að einbeita sér að frjálsum enda þá orðin efnileg í hlaupum. Það þarf mikla elju og sjálfsaga til að stunda frjálsar á Hornafirði í litlum árgöngum. Maríu hefur tekist það og oft hefur hefur hún verið ein í árgangi. Nú um síðustu áramót tók María þá ákvörðun að skipta yfir í ÍR þar sem hún nýtur leiðsagnar færustu frjálsíþrótta- og hlaupaþjálfara landsins.
Helstu afrek Maríu á árinu 2014 voru þessi:
– Íslandsmeistari 18-19 ára í 800 m og 1500 m hlaupi úti og inni.
– Íslandsmeistari í 800 m og 5000 m hlaupi í fullorðinsflokki.
– Annað sæti í 10 km hlaupi í Reykjavíkurmaraþoninu.
– Fast pláss í landsliðshóp FRÍ.

María sá sér því miður ekki fært að mæta til að taka við viðurkenningunni að svo stöddu en hún verður afhent við gott tækifæri síðar.  Við birtum þá mynd þegar að því kemur.

Hvatningarverðlaun hlutu:
Ingibjörg Lucía Ragnarsdóttir, fædd 1998, fyrir góðan árangur í knattspyrnu en Ingibjörg hefur keppt fyrir U17 landslið kvenna ásamt því að vera fastamaður í æfingahóp landsliðsins.

Ingibjörg Lúcía hlaut hvatningarverðlaun USÚ 2014. (Mynd: SÓJ)
Ingibjörg Lúcía hlaut hvatningarverðlaun USÚ 2014. (Mynd: SÓJ)

Ingibjörg Valgeirsdóttir, fædd 1998, fyrir góðan árangur í knattspyrnu en Ingibjörg er efnilegur markmaður. Hún hefur keppt fyrir U17 landslið kvenna líkt og nafna hennar og sömuleiðis verið fastamaður í æfingahóp landsliðsins. Ingibjörg gat því miður ekki mætt, en viðurkenningunni hefur verið komið til hennar.

Gísli Þórarinn Hallsson, fæddur 1999, fyrir góðan árangur í körfubolta og knattspyrnu en hann hefur verið í æfingahópi hjá U16 landsliðinu í körfubolta og Gísli er jafnframt efnilegur markmaður í knattspyrnu. Gísli Þórarinn gat því miður ekki mætt, en Hallmar bróðir hans tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd.

Nýr heiðursfélagi USÚ

Á 50. ársþingi USÚ, árið 1982, var fyrsti heiðursfélagi USÚ, Torfi Steinþórsson á Hala í Suðursveit, útnefndur.  Eftir því sem stjórnin kemst næst, hefur það ekki verið gert síðan, og hefur því Torfi heitinn verið eini heiðursfélagi USÚ til þessa.  Stjórninni fannst kominn tími til að útnefna annan heiðursfélaga og strax kom upp eitt nafn í því samhengi.  Hreinn Eiríksson. Greint var frá þessu á 82. ársþingi USÚ í Mánagarði, 26. mars s.l.

Nokkrir fyrrverandi formenn USÚ.  Myndin er tekin á 80 ára afmælishátíð USÚ árið 2012.  Hreinn stendur í miðjunni. (Mynd: SÓJ)
Nokkrir fyrrverandi formenn USÚ. Myndin er tekin á 80 ára afmælishátíð USÚ árið 2012. Hreinn stendur í miðjunni. (Mynd: SÓJ)

Hreinn er fæddur þann 10. mars 1931 og ólst upp á Miðskeri í Nesjum og hefur alla tíð verið mikill Mánamaður.  Aðspurður hafði hann ekki tölu á því hversu lengi hann var í stjórn Mána en mundi þó eftir að hafa verið formaður þegar húsið sem ársþingið fór fram í, Mánagarður, var vígt árið 1952.  Hann sagðist þó vera nýlega hættur í sóknarnefnd Bjarnaneskirkju, eftir um 40 ára setu.

Hreinn var mikill íþróttamaður á sínum yngri árum, líkt og systkini hans.  Eitt er það þó sem mörg ungmennafélög hafa sem íþróttafélög hafa fæst, en það er allt hitt starfið sem fram fer í félögunum.  Hreinn hefur alla tíð verið mikill frammámaður í leikhópi Mána, sem glöggt má sjá vitni um í grein hans í nýjasta tölublaði héraðsritsins Skaftfellings.  Síðast setti leikhópurinn upp Fiðlarann á þakinu á 100 ára afmæli Mána árið 2007, og var þá Hreinn í stóru hlutverki.  Hreinn hlaut starfsmerki UMFÍ árið 2007.

Hreinn sat í stjórn USÚ á árunum 1960-1965 og aftur 1972-1976, þar af sem formaður 1963-1965.

Hreinn gat því miður ekki mætt sjálfur og tekið við viðurkenningunni.  Hann bað fyrir kærar kveðjur til allra sem hann hefur unnið með í gegnum árin.  Regína, dóttir Hreins tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd.

82. ársþingi USÚ lokið

Ársþing USÚ, það 82. í röðinni, fór fram í Mánagarði í Nesjum í gær, 26. mars.  Þingið var ágætlega sótt, 31 fulltrúi af 41 mættu frá flestum félögum.  Því miður mætti enginn frá Hestamannafélaginu Hornfirðingi.

Mættir voru 31 fulltrúi.  Gunnar Bragason, gjaldkeri ÍSÍ í ræðustól. (Mynd: SÓJ)
Mættir voru 31 fulltrúi. Gunnar Bragason, gjaldkeri ÍSÍ í ræðustól. (Mynd: SÓJ)

Ýmislegt var á döfinni hjá USÚ á árinu og má þar nefna verkefni eins og Unglingalandsmót UMFÍ á Sauðárkróki, Fjölskyldan á fjallið og Moveweek.  Nánar má lesa um starfið á árinu í skýrslu stjórnar sem fylgir með þessari frétt.

Nokkrar tillögur og ályktanir voru samþykktar.  Fyrst má nefna hvatningu til ungmennafélaga til að fjölmenna á Landsmót UMFÍ 50+ á Blönduósi og á unglingalandsmót UMFÍ á Akureyri.  Samþykkt var að hvetja stjórnir aðildarfélaga til að leita leiða til að auka samstarf yngri flokka í ólíkum íþróttagreinum.  Borið hefur á því að börn þurfi að velja milli íþróttagreina af því að æfingar séu haldnar á sama tíma í tveimur greinum eða fleiri hjá sama aldursflokki.  Þingið lýsti yfir ánægju sinni með það hversu vel hefur tekist til að efla barna- og unglingastarf hjá Hestamannafélaginu Hornfirðingi.  Stjórn USÚ lagði einnig til að hlutur USÚ í lottótekjum myndi minnka í 15% heildarupphæðar en þau 5% sem að auki tilheyrðu USÚ skuli framvegis fara í Styrktar- og afrekssjóð.  Það var samþykkt.

Hægt er að sjá tillögurnar sem lagðar voru fyrir þingið í skýrslu stjórnar neðst í fréttinni.  Tillögur 4 og 5 breyttust hins vegar á þinginu og hljóða eftir það svona:

Tillaga 4.          

Tillaga frá stjórn USÚ

82. ársþing Ungmennasambandsins Úlfljóts, haldið í Mánagarði í Nesjum 26. mars 2015, hvetur USÚ til að standa að unglinganámskeiði yfir sumartímann þar sem sett er upp dagskrá fyrir aldurshópinn 10-16 ára með aðkomu aðildafélaga.

Tillaga 5.

Tillaga frá stjórn USÚ

82. ársþing Ungmennasambandsins Úlfljóts, haldið í Mánagarði í Nesjum 26. mars 2015, samþykkir að skipa nefnd sem í situr formaður USÚ og formenn aðildafélaga þar sem tekin verður til umræðu skipting lottótekna. Formaður USÚ boðar til 1. fundar. Nefndin leggur fram tillögur fyrir ársþing 2016.

Matthildur Ásmundardóttir, formaður USÚ, gaf ekki kost á sér til endurkjörs.  Stungið var upp á Jóhönnu Írisi Ingólfsdóttur í hennar stað og var það samþykkt.  Samkvæmt lögum USÚ skiptir ný stjórn með sér verkum á fyrsta fundi, en hana skipa auk Jóhönnu, Páll Róbert Matthíasson og Sigurður Óskar Jónsson.  Nýkjörin stjórn þakkar Matthildi Ásmundardóttur kærlega fyrir sín störf í þágu ungmennafélagshreyfingarinnar.

Gunnar Bragason, gjaldkeri ÍSÍ flutti ávarp og kveðju stjórnar ÍSÍ.  Hann lauk máli sínu á því að veita Matthildi Ásmundardóttur, fráfarandi formanni, gullmerki ÍSÍ.  Sævar Þór Gylfason hlaut einnig silfurmerki ÍSÍ, fyrir áralanga þjálfun ungra íþróttamanna hjá Sindra.  Hann hefur einnig verið í stjórn blakdeildar Sindra um nokkurn tíma.

Sævar Þór Gylfason hlaut silfurmerki ÍSÍ, Matthildur Ásmundardóttir hlaut gullmerki ÍSÍ og Gunnar Bragason, gjaldkeri ÍSÍ veitti viðurkenningarnar. (Mynd: SÓJ

Ragnheiður Högnadóttir, sem situr í varastjórn UMFÍ, flutti ávarp og kveðju stjórnar UMFÍ.  Að lokum sæmdi hún Sigrúnu Sigurgeirsdóttur, formann Ungmennafélags Öræfa, starfsmerki UMFÍ.

Ragnheiður Högnadóttir, í varastjórn UMFÍ, veitti Sigrúnu Sigurgeirsdóttur, formanni UMFÖ, starfsmerki UMFÍ. (Mynd: SÓJ)

Íþróttamaður ársins var útnefndur á þinginu auk þess sem þrír ungir iðkendur hlutu hvatningarverðlaun USÚ fyrir árið 2014.  Þá var einn félagi útnefndur heiðursfélagi USÚ.  Nánar má lesa um þessar viðurkenningar í fréttum sem birtast á síðunni síðar í kvöld eða á morgun.

Hér er hægt að lesa skýrslu stjórnar USÚ fyrir árið 2014.  Reikningar sambandsins eru í skýrslunni og einnig er þar að finna starfsskýrslur flestra aðildarfélaga: 82. ársþing USÚ ársskýrsla (Bætt við 30. mars: Athugið að hér er komin 2. útgáfa skýrslunnar, þar sem bætt hefur verið við skýrslu frá Hestamannafélaginu Hornfirðingi.)

82. ársþing USÚ

82. ársþing USÚ verður haldið í Mánagarði í Nesjum fimmtudaginn 26. mars næstkomandi, klukkan 17:00.  Um fulltrúa á ársþingi segir m.a. í lögum USÚ:

Á ársþingi hafa allir sambandsaðilar málfrelsi og tillögurétt, en aðeins stjórn og fulltrúar atkvæðisrétt. Stjórnin getur boðið öðrum aðilum þingsetu er hún telur ástæðu til. Aðeins sá sem er félagi innan sambandsins er kjörgengur fulltrúi á ársþingi. Hver þingfulltrúi hefur eitt atkvæði. Allir þingfulltrúar skulu hafa kjörbréf.

Alls á 41 fulltrúi rétt á setu á þinginu, misjafnlega margir frá hverju félagi.  Þeir sem hafa áhuga á að mæta ættu að hafa samband við stjórn síns félags.