87. ársþingi USÚ lokið

Ársþing USÚ, það 87. í röðinni fór fram í Stekkhól, félagsheimili Hestamannafélagsins Hornfirðings síðastliðinn þriðjudag, 2. júní. Þingið var vel sótt, 38 fulltrúar af 46 mættu og öll félög sendu fulltrúa.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ, setti þingið og bauð þingfulltrúa velkomna. Óvenjulegar aðstæður hafa verið í þjóðfélaginu á undanförnum vikum og mánuðum. Ein birtingarmynd þess var að þingið var haldið 2. júní, en ekki 24. mars eins og áður stóð til. Arna Ósk Harðardóttir stýrði þinginu líkt og oft áður og Sæmundur Helgason ritaði þinggerð í fjarveru Kristjáns Arnar Ebenezerssyni ritara.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir setur þingið. (Mynd: SÓJ)

Það má segja að árið 2019 hafi verið viðburðarríkara en mörg önnur hjá stjórn USÚ. Langfyrirferðarmesti viðburðurinn var Unglingalandsmótið sem haldið var á Höfn um verslunarmannahelgina. Einnig fóru formaður og gjaldkeri USÚ, auk framkvæmdastjóra Sindra í kynnisferð á vegum UMFÍ til Kaupmannahafnar á vordögum. Sú ferð heppnaðist afar vel og ýmis góð tengsl mynduðust við aðra úr hreyfingunni.

USÚ sendi sína fulltrúa á þá fundi og þing sem okkur bar, eins og sambandsþing UMFÍ og íþróttaþing ÍSÍ. Tvennt bar helst til tíðinda frá sambandsþingi UMFÍ. Í fyrsta lagi það að samþykktar voru tillögur þess efnis að íþróttabandalögin, þ.e. ÍBR, ÍA og ÍBA fengu inngöngu í UMFÍ. Það opnar líka dyrnar fyrir hin íþróttabandalögin, ÍRB, ÍS, ÍBH og ÍBV. Við þetta fjölgaði félögum í ungmennafélagshreyfingunni mjög mikið. Það bar einnig til tíðinda að Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri USÚ, náði kjöri í aðalstjórn UMFÍ, þar sem hann situr nú sem ritari samtakanna. Eftir því sem við komumst næst hefur USÚ aldrei áður átt fulltrúa í aðalstjórn UMFÍ.

Frá 87. ársþingi USÚ. (Mynd: SÓJ)

Sjö tillögur frá stjórn lágu fyrir þinginu.  Fyrst skal nefna tillögu sem gengur út á að hvert aðildarfélag USÚ skipi einn fulltrúa í nefnd sem fara á yfir núgildandi reglugerð um skiptingu lottótekna. Í því felst m.a. að ný lottóreglugerð verði lögð fyrir ársþing 2021. Núgildandi reglugerð var breytt þannig að nú þarf 2/3 hluta atkvæða til að breyta henni. Er það m.a. gert til að um nýja reglugerð ríki breiðari sátt en verið hefur.

Þá má nefna hvatningu til ungmennafélaga til að fjölmenna á 23. Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður á Selfossi um verslunarmannahelgina. Tillagan felur einnig í sér hvatningu til að taka þátt í almenningsíþróttaverkefnum á vegum UMFÍ og ÍSÍ.

Gleðilegasta tillagan var þó líklega sú að Klifurfélag Öræfa, KFÖ, var samþykkt sem aðildarfélag USÚ. Því eru virk aðildarfélög orðin átta talsins. Klifurfélaginu eru hér með sendar hamingjuóskir með inngönguna.

Einnig var samþykkt tillaga um að USÚ geti fært lögheimili sitt á Hafnarbraut 15, 780 Höfn.

Þá voru samþykktar breytingar á lögum USÚ. Lög USÚ eftir breytingar má finna hér.

Formaður og gjaldkeri gáfu kost á sér til endurkjörs og voru endurkjörin. Kristján Örn Ebenezarson, ritari, gaf ekki kost á sér áfram og í hans stað var kosinn Jón Guðni Sigurðsson, Sindra. Varamenn gáfu kost á sér áfram. Nýja stjórn skipa því: Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður, Jón Guðni Sigurðsson, ritari, og Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri.  Ásta Steinunn Eiríksdóttir og Hjálmar Jens Sigurðsson eru varamenn.

Enginn gestur komst til okkar frá ÍSÍ, en Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ hringi í formann USÚ stuttu fyrir þing og bað fyrir góðar kveðjur.

Enginn gestur komst heldur til okkar frá UMFÍ, en þar sem Sigurður Óskar Jónsson situr í stjórn UMFÍ, fól framkvæmdastjórn UMFÍ honum að veita starfsmerki. Pálma Guðmundssyni, fyrrverandi formanni Hestamannafélagsins Hornfirðings var veitt starfsmerki UMFÍ fyrir gott og ötult starf í þágu félagsins. Jafnframt var tilkynnt að Þorbjörg Gunnarsdóttir, sem um árabil var gjaldkeri Hestamannafélagsins og einnig USÚ um tíma, myndi hljóta starfsmerki, auk þess sem Bryndís Björk Hólmarsdóttir sem var m.a. formaður Hestamannafélagsins á undan Pálma myndi einnig hljóta starfsmerki. Hvorki Þorbjörg né Bryndís gátu verið með okkur þennan dag, en munu fá starfsmerkin afhent við fyrsta tækifæri. Því miður gleymdist alveg að taka mynd af Pálma með starfsmerkið, en stefnt er að hópmyndatöku af þeim þremur sem fyrst.

Íþróttamaður USÚ fyrir árið 2019 var útnefndur á þinginu auk þess sem fimm ungir iðkendur hlutu hvatningarverðlaun USÚ. Nánar má lesa um þessar viðurkenningar í frétt sem mun birtast á síðunni síðar.

Hér er hægt að lesa skýrslu stjórnar USÚ fyrir árið 2019. Reikningar sambandsins eru í skýrslunni og einnig er þar að finna starfsskýrslur allra aðildarfélaga auk starfandi deilda innan Umf. Sindra.