Umsóknir í Styrktar- og afrekssjóð USÚ 2020

Merki USÚ

Ungmennasambandið Úlfljótur auglýsir eftir umsóknum í styrktar- og afrekssjóð USÚ. Umsóknum má skila í tölvupósti á usu@usu.is, eða skriflega í Heklu, Hafnarbraut 15. Umsóknir þurfa að berast í síðasta lagi mánudaginn 14. desember.

Til að auðvelda sjóðsstjórn vinnu við afgreiðslu umsókna þurfa eftirfarandi hlutir að koma fram í umsókn:

  1. Hver sækir um.
  2. Stutt lýsing á því hvers vegna sótt er um.
  3. Upphæð sem óskað er eftir.
  4. Bankaupplýsingar (reikningsnúmer og kennitala).

Ef sótt er um vegna sérstakra verkefna, þarf auk framangreindra atriða að taka fram:

  1. Áætlaður kostnaður.
  2. Hyggst umsækjandi sækjast eftir styrkjum annars staðar?

Reglur og nánari upplýsingar um sjóðinn má finna hér.

Heiðranir á 87. ársþingi USÚ

Íþróttamaður USÚ var útnefndur á ársþinginu. Einnig hlutu fjórir ungir og efnilegir íþróttamenn hvatningarverðlaun.

Íþróttamaður USÚ árið 2019 er Þorlákur Helgi Pálmason.

Þorlákur Helgi Pálmason er fyrirliði meistaraflokks karla og algjör lykilmaður bæði innan vallar sem utan. Helgi, eins og hann er yfirleitt kallaður, er metnaðarfullur og hefur lagt hart að sér í gegnum árin. Þrátt fyrir erfið meiðsli að undanförnu gefur hann allt í fótboltann, hann mætir á allar æfingar og hjálpar til við allt sem þarf að gera. Hann er frábær fyrirmynd fyrir strákana í liðinu og heldur móralnum uppi. Það þyrftu allir að hafa einn Þorlák Helga í liðinu sínu.

Þorlákur Helgi Pálmason, íþróttamaður USÚ 2019 og Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ. (Mynd: SÓJ)

Hvatningarverðlaun hlutu:

Freyr Sigurðsson er ungur og efnilegur strákur sem er a yngra ári í 3. flokki karla hjá Sindra. Hann er duglegur og leggur sig allan fram á æfingum. Í byrjun mars var Freyr valinn í 29 manna æfingahóp U15 ára landsliðsins. Hann stóð sig vel á æfingunum og var Sindramönnum til sóma. Freyr kom inná í æfingaleik meistaraflokks Sindra fyrir síðustu helgi og gaf leikmönnum meistaraflokks ekkert eftir þrátt fyrir ungan aldur.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ og Freyr Sigurðsson. (Mynd: SÓJ)

Hermann Þór Ragnarsson er ungur efnilegur fótboltamaður sem er að stíga sín fyrstu skref með meistaraflokki karla, hann kom við sögu í nokkrum leikjum hjá meistaraflokki á seinasta tímabili þrátt fyrir ungan aldur. Hermann leggur hart ađ sér innan vallar sem utan og sýnir það að hann á fullt erindi í meistaraflokk karla.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ og Hermann Þór Ragnarsson. (Mynd: SÓJ)

Kjartan Jóhann R. Einarsson er mjög duglegur drengur. Hann er ávallt tilbúinn að hjálpa til međ hvaða verkefni sem er. Hann var meðal annars valinn Sindramađur ársins í fyrra fyrir metnað og dugnaðarsemi í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur. Kjartan er að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki og er framtíðin björt hjá honum.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ og Kjartan Jóhann R. Einarsson. (Mynd: SÓJ)

Selma Ýr Ívarsdóttir er efnileg frjálsíþróttakona sem sýnir einstakan metnað við æfingar sínar. Hún mætir á allar æfingar og tekur þátt í öllu sem viðkemur frjálsíþróttadeildinni og er afar góð fyrirmynd. Selma varð m.a.  í 1. sæti í 80m grindahlaupi og 3. sæti í 800m hlaupi á Unglingalandsmótinu 2019 og ofarlega í þeim keppnisgreinum sem hún tók þátt í. Selma gat því miður ekki verið viðstödd, en Anna Björk Kristjánsdóttir, móðir Selmu, tók við viðurkenningunni fyrir hennar hönd.

Sigurður Guðni Hallsson hefur undanfarin ár einn af máttárstólpum í meistaraflokki Sindra í körfuknattleik þrátt fyrir ungan aldur. Hann hefur vaxið ár frá ári sem leikmaður og nú tvö síðastliðin ár verið valinn varnarmaður ársins hjá Sindra. Einnig er hann þekktur fyrir að gefa alltaf 110% í leikinn og vera fyrirmynd utan sem innan vallar.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ og Sigurður Guðni Hallsson. (Mynd: SÓJ)

Allir handhafar hvatningarverðlauna auk íþróttamanns USÚ 2019. Frá vinstri: Sigurður Guðni, Hermann Þór, Freyr, Þorlákur Helgi og Kjartan Jóhann. Á myndina vantar Selmu Ýr Ívarsdóttur. (Mynd: SÓJ)

87. ársþingi USÚ lokið

Ársþing USÚ, það 87. í röðinni fór fram í Stekkhól, félagsheimili Hestamannafélagsins Hornfirðings síðastliðinn þriðjudag, 2. júní. Þingið var vel sótt, 38 fulltrúar af 46 mættu og öll félög sendu fulltrúa.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ, setti þingið og bauð þingfulltrúa velkomna. Óvenjulegar aðstæður hafa verið í þjóðfélaginu á undanförnum vikum og mánuðum. Ein birtingarmynd þess var að þingið var haldið 2. júní, en ekki 24. mars eins og áður stóð til. Arna Ósk Harðardóttir stýrði þinginu líkt og oft áður og Sæmundur Helgason ritaði þinggerð í fjarveru Kristjáns Arnar Ebenezerssyni ritara.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir setur þingið. (Mynd: SÓJ)

Það má segja að árið 2019 hafi verið viðburðarríkara en mörg önnur hjá stjórn USÚ. Langfyrirferðarmesti viðburðurinn var Unglingalandsmótið sem haldið var á Höfn um verslunarmannahelgina. Einnig fóru formaður og gjaldkeri USÚ, auk framkvæmdastjóra Sindra í kynnisferð á vegum UMFÍ til Kaupmannahafnar á vordögum. Sú ferð heppnaðist afar vel og ýmis góð tengsl mynduðust við aðra úr hreyfingunni.

USÚ sendi sína fulltrúa á þá fundi og þing sem okkur bar, eins og sambandsþing UMFÍ og íþróttaþing ÍSÍ. Tvennt bar helst til tíðinda frá sambandsþingi UMFÍ. Í fyrsta lagi það að samþykktar voru tillögur þess efnis að íþróttabandalögin, þ.e. ÍBR, ÍA og ÍBA fengu inngöngu í UMFÍ. Það opnar líka dyrnar fyrir hin íþróttabandalögin, ÍRB, ÍS, ÍBH og ÍBV. Við þetta fjölgaði félögum í ungmennafélagshreyfingunni mjög mikið. Það bar einnig til tíðinda að Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri USÚ, náði kjöri í aðalstjórn UMFÍ, þar sem hann situr nú sem ritari samtakanna. Eftir því sem við komumst næst hefur USÚ aldrei áður átt fulltrúa í aðalstjórn UMFÍ.

Frá 87. ársþingi USÚ. (Mynd: SÓJ)

Sjö tillögur frá stjórn lágu fyrir þinginu.  Fyrst skal nefna tillögu sem gengur út á að hvert aðildarfélag USÚ skipi einn fulltrúa í nefnd sem fara á yfir núgildandi reglugerð um skiptingu lottótekna. Í því felst m.a. að ný lottóreglugerð verði lögð fyrir ársþing 2021. Núgildandi reglugerð var breytt þannig að nú þarf 2/3 hluta atkvæða til að breyta henni. Er það m.a. gert til að um nýja reglugerð ríki breiðari sátt en verið hefur.

Þá má nefna hvatningu til ungmennafélaga til að fjölmenna á 23. Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður á Selfossi um verslunarmannahelgina. Tillagan felur einnig í sér hvatningu til að taka þátt í almenningsíþróttaverkefnum á vegum UMFÍ og ÍSÍ.

Gleðilegasta tillagan var þó líklega sú að Klifurfélag Öræfa, KFÖ, var samþykkt sem aðildarfélag USÚ. Því eru virk aðildarfélög orðin átta talsins. Klifurfélaginu eru hér með sendar hamingjuóskir með inngönguna.

Einnig var samþykkt tillaga um að USÚ geti fært lögheimili sitt á Hafnarbraut 15, 780 Höfn.

Þá voru samþykktar breytingar á lögum USÚ. Lög USÚ eftir breytingar má finna hér.

Formaður og gjaldkeri gáfu kost á sér til endurkjörs og voru endurkjörin. Kristján Örn Ebenezarson, ritari, gaf ekki kost á sér áfram og í hans stað var kosinn Jón Guðni Sigurðsson, Sindra. Varamenn gáfu kost á sér áfram. Nýja stjórn skipa því: Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður, Jón Guðni Sigurðsson, ritari, og Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri.  Ásta Steinunn Eiríksdóttir og Hjálmar Jens Sigurðsson eru varamenn.

Enginn gestur komst til okkar frá ÍSÍ, en Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ hringi í formann USÚ stuttu fyrir þing og bað fyrir góðar kveðjur.

Enginn gestur komst heldur til okkar frá UMFÍ, en þar sem Sigurður Óskar Jónsson situr í stjórn UMFÍ, fól framkvæmdastjórn UMFÍ honum að veita starfsmerki. Pálma Guðmundssyni, fyrrverandi formanni Hestamannafélagsins Hornfirðings var veitt starfsmerki UMFÍ fyrir gott og ötult starf í þágu félagsins. Jafnframt var tilkynnt að Þorbjörg Gunnarsdóttir, sem um árabil var gjaldkeri Hestamannafélagsins og einnig USÚ um tíma, myndi hljóta starfsmerki, auk þess sem Bryndís Björk Hólmarsdóttir sem var m.a. formaður Hestamannafélagsins á undan Pálma myndi einnig hljóta starfsmerki. Hvorki Þorbjörg né Bryndís gátu verið með okkur þennan dag, en munu fá starfsmerkin afhent við fyrsta tækifæri. Því miður gleymdist alveg að taka mynd af Pálma með starfsmerkið, en stefnt er að hópmyndatöku af þeim þremur sem fyrst.

Íþróttamaður USÚ fyrir árið 2019 var útnefndur á þinginu auk þess sem fimm ungir iðkendur hlutu hvatningarverðlaun USÚ. Nánar má lesa um þessar viðurkenningar í frétt sem mun birtast á síðunni síðar.

Hér er hægt að lesa skýrslu stjórnar USÚ fyrir árið 2019. Reikningar sambandsins eru í skýrslunni og einnig er þar að finna starfsskýrslur allra aðildarfélaga auk starfandi deilda innan Umf. Sindra.

87. ársþing USÚ

87. ársþing USÚ verður haldið í Stekkhól, félagsheimili Hestamannafélagsins Hornfirðings, þriðjudaginn 2. júní næstkomandi, klukkan 18:00.  Um fulltrúa á ársþingi segir m.a. í lögum USÚ:

Á ársþingi hafa allir sambandsaðilar málfrelsi og tillögurétt, en aðeins stjórn og fulltrúar atkvæðisrétt. Stjórnin getur boðið öðrum aðilum þingsetu er hún telur ástæðu til. Aðeins sá sem er félagi innan sambandsins er kjörgengur fulltrúi á ársþingi. Hver þingfulltrúi hefur eitt atkvæði. Allir þingfulltrúar skulu hafa kjörbréf.

Alls eiga 46 fulltrúar rétt á setu á þinginu, misjafnlega margir frá hverju félagi.  Þeir sem hafa áhuga á að mæta ættu að hafa samband við stjórn síns félags.

Gögn fyrir þingið (munu birtast hér þegar nær dregur):

87. ársþing USÚ – Ársskýrsla

Tillögur til þings 2020

Ársreikningur USÚ 2019

Umsóknir í Styrktar- og afrekssjóð USÚ 2019

Merki USÚ

Ungmennasambandið Úlfljótur auglýsir eftir umsóknum í styrktar- og afrekssjóð USÚ. Umsóknum má skila í tölvupósti á usu@usu.is, eða skriflega í Heklu, Hafnarbraut 15. Umsóknir þurfa að berast í síðasta lagi föstudaginn 22. nóvember. Rétt er að geta þess að þetta er eina úthlutun ársins.

Til að auðvelda sjóðsstjórn vinnu við afgreiðslu umsókna þurfa eftirfarandi hlutir að koma fram í umsókn:

  1. Hver sækir um.
  2. Stutt lýsing á því hvers vegna sótt er um.
  3. Upphæð sem óskað er eftir.
  4. Bankaupplýsingar (reikningsnúmer og kennitala).

Ef sótt er um vegna sérstakra verkefna, þarf auk framangreindra atriða að taka fram:

  1. Áætlaður kostnaður.
  2. Hyggst umsækjandi sækjast eftir styrkjum annars staðar?

Reglur og nánari upplýsingar um sjóðinn má finna hér.

Frábært Unglingalandsmót á Höfn

Það fór sennilega framhjá fæstum að Unglingalandsmót UMFÍ fór fram hér á Höfn um verslunarmannahelgina. Um það bil þúsund keppendur tóku þátt og má reikna með að um 4-5 þúsund manns hafi verið í bænum vegna mótsins. Keppt var í hinum ýmsu greinum og alls voru 21 grein í boði. Metþátttaka var í greinum á borð við strandblak, strandhandbolta, bogfimi og kökuskreytingar. Einnig var góð þátttaka í skák, motocrossi, upplestri, stafsetningu og pílukasti sem var ný grein á mótinu. Má því segja að svokallaðar jaðargreinar og greinar sem ekki eru æfðar að staðaldri séu að verða vinsæll kostur á mótinu þar sem lagt er upp með að gleði og skemmtun séu við völd. Ásóknin í strandblak og strandhandbolta var svo mikil að bæta þurfti þriðja vellinum við á miðvikudeginum fyrir mót svo hægt væri að koma öllum liðum fyrir og spila gott mót. 104 keppendur kepptu fyrir hönd USÚ í margvíslegum greinum. Þeir voru allir USÚ til sóma og það var frábært að sjá að flestir virtust skemmta sér konunglega. Nóg var af afþreyingu fyrir alla fjölskylduna yfir daginn og landsþekkt tónlistarfólk hélt svo uppi stuðinu á kvöldin.

USÚ krakkar ganga inn á völlinn. (Mynd: USÚ)

Mótið var sett á föstudagskvöldinu með setningarathöfn á Sindravöllum sem Forseti Íslands og frú voru viðstödd. Lúðrasveit Hornafjarðar lék nokkur lög, formaður UMFÍ setti mótið, forseti Íslands flutti ávarp, Dagmar Lilja Óskarsdóttir söng Ísland er land þitt við undirspil lúðrasveitar, formaður USÚ dró hátíðarfána UMFÍ að húni og fulltrúi keppenda, Karen Hulda Finnsdóttir, sagði nokkur orð. Hefð er fyrir því að á setningu Unglingalandsmóta gangi þátttakendur á mótinu inn á völlinn áður en mótið er sett. Þá ganga fánaberar fremstir sem að þessu sinnu voru ungir hornfirskir íþróttaiðkendur sem flestir áttu það sameiginlegt að hafa fengið hvatningarverðlaun USÚ. Þá er einnig hefð fyrir því að mótseldurinn sé tendraður og voru það börn sem hafa verið dugleg við að mæta á Unglingalandsmót með fjölskyldum sínum undanfarin ár, sem hlupu með kyndilinn og tendruðu eldinn. Sú nýbreytni var einnig að kynnir mótssetningarinnar var keppandi á mótinu en það var hún Anna Lára Grétarsdóttir.

Anna Lára Grétarsdóttir, kynnir. (Mynd: Sveitarfélagið Hornafjörður)
Fánaberar. (Mynd: USÚ)

Undirbúningur Unglingalandsmóts gerist ekki á einni nóttu og hafa mótshaldarar þ.e. Ungmennasambandið Úlfljótur, Sveitarfélagið Hornafjörður og Ungmennafélag Íslands unnið að því allt síðasta ár. En hversu góður sem undirbúningurinn er, væri ekki hægt að koma honum í framkvæmd nema með allri þeirri ómetanlegu vinnu sem sjálfboðaliðar vinna. Það eru þeir sem gera það að verkum að hægt er að halda svona mót. Það þarf t.d. um það bil 80 sjálfboðaliða bara á frjálsíþróttavöllinn. Í hverri grein þarf fólk til að sjá til þess að allt gangi eins og það á að ganga. En það er ekki bara í keppnisgreinunum þar sem þörfin fyrir sjálfboðaliða er, sjoppuvaktir, klósettvaktir, gæsla, móttaka, tjaldsvæði, eldhús og fleiri og fleiri störf þarf að vinna svo allt sé með besta móti. Í litlu samfélagi eins og okkar skiptir hver hönd gríðarlega miklu máli og sannaðist það svo sannarlega um helgina hversu öfluga sjálfboðaliða við eigum í sveitarfélaginu. Það er ekki hægt að þakka þeim sem komu að mótinu á einn eða annan hátt nógu oft fyrir frábær störf. Einnig á Björgunarfélag Hornafjarðar miklar þakkir skildar fyrir sinn þátt í mótinu en þau stýrðu gæslunni og sáu til þess að allir væru öruggir.

Nýr strandblaks- og strandhandboltavöllur. (Mynd: UMFÍ)

Mótinu var svo slitið á sunnudagskvöldinu af formanni UMFÍ. Formaður USÚ hélt stutt ávarp og gjaldkeri USÚ dró hátíðarfána UMFÍ niður. Hann verður svo sendur til  Héraðssambandsins Skarphéðins en mótið 2020 verður haldið á Selfossi. Vaka Sif Tjörvadóttir, keppandi frá USÚ fékk sérstök heiðursverðlaun fyrir að hafa komið mótherja sínum í hjólreiðakeppni til aðstoðar. Sá hafði þurft að stoppa vegna öndunarörðugleika. Hún hringdi í 112 og beið með honum þar til frekari hjálp barst. Björgunarfélag Hornafjaðar bauð upp á glæsilega flugeldasýningu eftir mótsslitin og svo var dansað inn í nóttina.

Keppni í körfubolta í Bárunni. (Mynd: UMFÍ)

Mótið þótti takast afar vel, bæði framkvæmd þess og aðstaðan góð. Okkar allra stærsti kostur hér á Höfn er aðgengið og nálægðin milli keppnis- og tjaldsvæða. Þetta var sannkölluð fjölskylduhátíð þar sem allir skemmtu sér á heilbrigðan hátt saman.

Takk fyrir frábært mót, stjórn USÚ


Helstu úrslit hjá USÚ krökkum

Hér er listi yfir helstu úrslit keppenda frá USÚ. Það er ekki alveg víst að þetta sé tæmandi listi af verðlaunasætum, m.a. vegna þess að þegar þetta er ritað á eftir að setja inn úrslit í kökuskreytingum og motocrossi.

Keppni í golfi. (Mynd: UMFÍ)

Bogfimi

Stefán Logi Hermannsson, 11-14 ára opinn flokkur 72 stig. 2. sæti.

Fimleikalíf

Vaka Sif Tjörvadóttir var í blandaða liðinu Sykurpúðarnir, sem lenti í 2. sæti.

ORAbaunirnar, Daníel Haukur Bjarnason, Kári Hjaltason og Lilja Rós Ragnarsdóttir lentu í 3. sæti.

Fimleikar (stökkfimi)

Í 11-12 ára flokki lentu Yum Yum núðlur, Daníel Haukur Bjarnason, Kári Hjaltason, Lilja Rós Ragnarsdóttir, Vaka Sif Tjörvadóttir og Guðlaug Gísladóttir, í 2. sæti í stökkfimi.

Í 13-14 ára flokki lentu Big Chungs, Nína Ingibjörg Einarsdóttir, Róbert Þór Ævarsson, Ingólfur Vigfússon, Aðalsteinn Aðalsteinsson, Friðrik Björn Friðriksson og Elín Ása Hjálmarsdóttir, í 3. sæti í stökkfimi.

Frisbígolf

Anna Lára Grétarsdóttir, 11-14 ára stúlkur, 31 köst, 1. sæti.

Sara Kristín Kristjánsdóttir, 15-18 ára stúlkur, 32 köst, 2. sæti.

Frjálsar íþróttir

100 m hlaup pilta 13 ára, Björn Ívar Vilhjálmsson, 3. sæti 14,52 sek

Kúluvarp pilta 13 ára, Björn Ívar Vilhjálmsson, 3. Sæti 8,23 m

100 m hlaup pilta 15 ára, Tómas Nói Hauksson, 3. sæti 13,27 sek

800 m hlaup pilta 15 ára, Tómas Nói Hauksson, 2. sæti 2:29,93 mín

Langstökk pilta 15 ára, Tómas Nói Hauksson, 2. sæti 5,29 m, persónulegt met

Þrístökk pilta 15 ára, Tómas Nói Hauksson, 4. sæti, 11,14 m USÚ met í 15 ára flokki

Spjótkast stúlkna 11 ára, Lilja Rós Ragnarsdóttir, 2. sæti 14,08 m

600 m hlaup stúlkna 14 ára, Anna Lára Grétarsdóttir, 2. sæti 1:55,07 mín

800 m hlaup stúlkna 15 ára, Hekla Karen Hermannsdóttir, 1. sæti 2:58,71 mín

800 m hlaup stúlkna 15 ára, Selma Ýr Ívarsdóttir, 3. sæti 3:09,13 mín

80 m grindahlaup stúlkna 15 ára, Selma Ýr Ívarsdóttir, 14,54 sek

4×100 m boðhlaup stúlkna 15 ára, Sveit USÚ, Selma Ýr Ívarsdóttir, Hekla Karen Hermannsdóttir, Anna Lára Grétarsdóttir og Siggerður Egla Hjaltadóttir, 1. sæti 59,89 sek

800 m hlaup stúlkna 16-17 ára, Arna Ósk Arnarsdóttir, 1. sæti 2:46,63 mín

Kúluvarp stúlkna 18 ára, Nanna Guðný Karlsdóttir, 1. sæti 8,50 m

Spjótkast stúlkna 18 ára, Nanna Guðný Karlsdóttir, 3. sæti 22,40 m

Keppni í langstökki. (Mynd: Ásgerður Kristín Gylfadóttir)

Glíma

Drengir 11-12 ára, Sverrir Sigurðsson, 2. sæti, Smári Óliver Guðjónsson, 3. sæti og Kacper Ksepko, 4. sæti.

Drengir 13-14 ára, Almar Páll Lárusson, 1. sæti.

Skotfimi

Stefanía Björg Olsen, 3. sæti

Stafsetning

13-14 ára, Anna Lára Grétarsdóttir, 1. sæti.

15-18 ára, Ingunn Ósk Grétarsdóttir, 2-4. sæti

Sund

Magni Snær Imsland Grétarsson

1. sæti 13-14 ára piltar 100 m bringusund

1. sæti 13-14 ára piltar 50 m baksund

1. sæti 13-14 ára piltar 100 m skriðsund

1. sæti 13-14 ára piltar 100 m fjórsund

Heiðdís Elva Stefánsdóttir

3. sæti 13-14 ára stúlkur 100 m bringusund

3. sæti 13-14 ára stúlkur 50 m baksund

3. sæti 13-14 ára stúlkur 100 m skriðsund

3. sæti 13-14 ára stúlkur 50 m flugsund

3. sæti 13-14 ára stúlkur 100 m fjórsund

Anton Kristberg Sigurbjörnsson

3. sæti 11-12 ára piltar 50 m baksund

Keppendur frá USÚ voru einnig í fjölmörgum liðum í knattspyrnum, körfuknattleik, strandblaki og strandhandbolta, ýmist í sér liðum eða blönduðum liðum. Í öllum þessum greinum átti USÚ einhverja í verðlaunasæti, en of langt mál væri að telja upp alla þá keppendur sem í þeim liðum voru. Hægt er að sjá öll úrslit og lokastöðu á www.ulm.is. Þar má einnig sjá önnur úrslit á mótinu, en þegar þetta er ritað á eftir að setja inn úrslit í kökuskreytingum og motocross.

Keppni í hjólreiðum. (Mynd: UMFÍ)

22. Unglingalandsmót UMFÍ

Unglingalandsmót UMFÍ 2019 fer fram um verslunarmannahelgina á Höfn í Hornafirði í samstarfi við Ungmennasambandið Úlfljót (USÚ) og Sveitarfélagið Hornafjörð. Öll ungmenni á aldrinum 11 – 18 ára geta skráð sig til leiks. Þar reyna þátttakendur með sér í fjölmörgum íþróttagreinum en samhliða er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Ekki er skilyrði að vera skráð/ur í ungmenna- eða íþróttafélag til að koma á Unglingalandsmót UMFÍ.

Eins og á öllum Unglingalandsmótum UMFÍ er keppt í fjölmörgum skemmtilegum greinum alla mótsdagana. Á kvöldin verða tónleikar með m.a. Bríeti, Daða Frey, Úlfi Úlfi, Sölku Sól, Unu Stef og GDRN.

Nánari upplýsingar um keppnisgreinar og skráning á vefslóðinni: www.ulm.is

Það er rétt að taka það fram að samkvæmt samþykktum síðasta ársþings USÚ, þá þurfa þátttakendur frá USÚ ekki að greiða þátttökugjaldið. Það er hugsað sem hvatning til þess að fá sem flesta heimamenn til að taka þátt.

Margar hendur vinna létt verk og því er alltaf pláss fyrir sjálfboðaliða. Umsjón með utanumhaldi sjálfboðaliða hefur Kristín Gyða Ármannsdóttir, 895-4569 eða kristin@usu.is.

Heiðranir á 86. ársþingi USÚ

Íþróttamaður USÚ var útnefndur á ársþinginu. Einnig hlutu fjórir ungir og efnilegir íþróttamenn hvatningarverðlaun.

Íþróttamaður USÚ árið 2018 er Hallmar Hallsson.

Hallmar Hallsson er uppalinn Hornfirðingur. Hann byrjaði ungur að stunda körfuknattleik með Sindra og var ekki margra vetra þegar hann var farinn að láta til sín taka með meistaraflokki félagsins. Hallmar hefur nánast alla tíð spilað með Sindra, að undanskildum tímabilum í fyrstu- og úrvalsdeild í Borgarnesi, á Selfossi og á Egilsstöðum. Tímabilið 2017-2018 tók Hallmar við þjálfun meistaraflokks Sindra sem spilandi þjálfari eftir brösugt gengi liðsins í fyrstu leikjum tímabilsins. Eftir að Hallmar tók við varð algjör viðsnúningur í gengi liðsins og unnust allir leikir tímabilsins sem endaði á því að liðið vann sig upp í 1. deild í fyrsta skipti í sögu félagsins. Árangur liðsins var ekki síst að þakka góðu starfi þjálfarans sem hélt vel utan um hópinn og náði að skapa góða liðsheild og jákvæða stemningu í kringum liðið.

Hallmar gat ekki verið viðstaddur viðurkenninguna, en mun fá verðlaunagripinn við tækifæri.

Hallmar í úrslitaleik 2. deildar vorið 2018. Sindri vann lið KV 82-77. (Mynd: Benóný Þórhallsson)

Hvatningarverðlaun hlutu:

Birkir Snær Ingólfsson er fæddur árið 2004. Hann er frábær fyrirmynd fyrir alla iðkendur Sindra. Honum hefur farið mikið fram á síðastliðnu ári og bætt sig verulega sem knattspyrnumaður. Það sem Birkir leggur á sig til að ná þessum árangri er aðdáunarvert. Hann er alltaf fyrstur á æfingar, ávallt jákvæður og mætir á hverja æfingu með því markmiði að gera betur en síðast. Hann er alltaf til í að aðstoða, hvort sem það er að hjálpa félaganum, ganga frá eftir æfingar eða aðstoða yngri iðkendur. Það er þessi vinna sem Birkir Snær hefur lagt á sig sem hefur skilað honum í hæfileikamótun KSÍ sem og tvo úrtakshópa hjá u15 ára landsliðinu þar sem hann hefur staðið sig með mikilli prýði og fengið lof landsliðsþjálfara fyrir frábært hugafar og eljusemi.

Birkir Snær Ingólfsson hlaut hvatningarverðlaun USÚ 2018. (Mynd: SÓJ)

Tómas Nói Hauksson er fæddur 2004. Hann byrjaði að æfa fótbolta þegar hann var 6 ára og fyrir þremur árum fór hann einnig að æfa frjálsar. Það var svo veturinn 2017 sem að hann sneri sér alfarið yfir í frjálsar. Tómas Nói stundar sína íþrótt af alhug og er hann mjög agaður í samskiptum, hvetjandi við aðra og sérstaklega góður strákur. Ásamt því að mæta á frjálsíþróttaæfingar er hann í þol-og styrktartímum í Sporthöllinni. Hann hefur staðið sig vel á þeim mótum sem hann hefur farið á s.l. 2 ár og er hann nú þegar búinn að slá 5 Úlfljótsmet og við vonum að hann sé bara rétt að byrja þessa vegferð.

Tómas Nói Hauksson hlaut hvatningarverðlaun USÚ 2018. (Mynd: SÓJ)

Sigursteinn Már Hafsteinsson er fæddur árið 2002. Hann æfir og spilar knattspyrnu með meistaraflokki karla. Hann er samviskusamur drengur og hefur mikinn metnað fyrir því sem hann gerir. Hann æfir gríðarlega vel og gefur sig alltaf allan í þau verkefni sem fyrir honum standa. Hann hugsar vel um sjálfan sig bæði hvað varðar svefn og næringu. Auk þess að æfa sjálfur er Sigursteinn aðstoðarþjálfari 5.fl kk og kvk og 6. og 7.flokk kk og kvk.

Sigursteinn Már Hafsteinsson hlaut hvatningarverðlaun USÚ 2018. (Mynd: SÓJ)

Nína Dögg Jóhannsdóttir er fædd 2003. Hún æfir með unglingastigi og mfl. kvk Sindra og spilaði sína fyrstu leiki með mfl. kvk í vetur í 2. deild Íslandsmótsins. Nína er drífandi og hefur mikinn metnað og áhuga fyrir körfubolta. Hún sá til dæmis um það að ganga með undirskriftalista í skólana til þess að safna undirskriftum áhugasamra um stofnum meistaraflokks kvenna í körfubolta.

Nína Dögg Jóhannsdóttir hlaut hvatningarverðlaun USÚ 2018. (Mynd: SÓJ)
Allir handhafar hvatningarverðlauna USÚ 2018. Frá vinstri: Nína Dögg, Birkir Snær, Tómas Nói og Sigursteinn Már. (Mynd: SÓJ)

86. ársþingi USÚ lokið

Ársþing USÚ, það 86. í röðinni fór fram í Heklu, nýju félagsheimili ungmennafélagsins Sindra í gær, 27. mars. Þingið var ágætlega sótt, 33 fulltrúar af 46 mættu frá flestum félögum. Því miður mætti enginn frá Hestamannafélaginu Hornfirðingi.

Áður en þingið var sett, minntist Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ, tveggja félaga sem féllu frá á árinu 2018. Það voru þeir Hreinn Eiríksson, annar tveggja heiðursfélaga USÚ frá upphafi, formaður USÚ 1963-1965 og máttarstólpi í starfi Umf. Mána um áratugaskeið; og Kristján Vífill Karlsson sem var sannkölluð fyrirmynd sjálfboðaliða, sem um áratugaskeið vann óeigingjarnt sjálfboðalið fyrir hinar ýmsu deildir Umf. Sindra, Golfklúbb Hornafjarðar og önnur félög innan USÚ.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir setur þingið. (Mynd: SÓJ)

Ýmislegt var á döfinni hjá USÚ á árinu og má þar nefna Unglingalandsmót sem haldið var í Þorlákshöfn um verslunarmannahelgina auk Landsmótsins sem haldið var á Sauðárkróki í júlí. Nokkuð mikið púður hefur farið í undirbúning unglingalandsmóts 2019, sem USÚ mun halda á Höfn. Mikið hefur verið fundað. Búið er að manna allar helstu stöður í undirbúningsnefndinni, auk þess sem flestir sérgreinastjórar hafa verið valdir.

USÚ sendi sína fulltrúa á þá fundi og þing sem okkur bar, eins og sambandsráðsfundi og vorfund UMFÍ og formannafund ÍSÍ sem haldinn var í tengslum við ráðstefnu um framtíðarskipulag íþróttahreyfingarinnar.

Frá 86. ársþingi USÚ. (Mynd: SÓJ)

Arna Ósk Harðardóttir stýrði þinginu af röggsemi líkt og oft áður. Fimm tillögur frá stjórn lágu fyrir þinginu.  Fyrst má nefna hvatningu til ungmennafélaga til að fjölmenna á Landsmót UMFÍ 50+, sem haldið verður í Neskaupstað 28.-30. júní n.k. og að sjálfsögðu á 22. Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður á Höfn um verslunarmannahelgina. Tillagan felur einnig í sér hvatningu til að taka þátt í almenningsíþróttaverkefnum á vegum UMFÍ og ÍSÍ.

Tillaga um að hvetja félagsmenn og aðra íbúa sveitarfélagsins Hornafjarðar til að taka þátt í  undirbúningi og framkvæmd unglingalandsmótsins var samþykkt, auk tillögu um að USÚ greiði þátttökugjald sinna keppenda á unglingalandsmótinu, líkt og gert var árið 2013.

Þá voru samþykktar smávægilegar breytingar á lögum USÚ. Lög USÚ eftir breytingar má finna hér.

Fimmta tillagan var um það hvort nýstofnað Klifurfélag Öræfa (KFÖ) fengi inngöngu í USÚ. Í ljósi þess að formleg umsókn KFÖ barst ekki fyrr en degi fyrir þing, kom fram önnur tillaga á þinginu um að fresta inngöngunni fram að næsta ársþingi. Sú tillaga var samþykkt.

Stjórn USÚ gaf kost á sér til endurkjörs og var endurkjörin. Hana skipa: Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður, Kristján Örn Ebenezarson, ritari, og Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri.  Ásta Steinunn Eiríksdóttir, gaf kost á sér áfram sem varamaður, en Matthildur Ásmundardóttir, sem gegnt hefur stöðu bæjarstjóra sveitarfélagsins Hornafjarðar frá síðasta ári, gaf ekki kost á sér áfram. Stungið var upp á Hjálmari Jens Sigurðssyni, sem var samþykkt. Það voru ekki flókin skipti, því Hjálmar er eiginmaður Matthildar.

Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ og Halla Kjartansdóttir, skrifstofustjóri ÍSÍ, sátu þingið. Auk þess að flytja kveðju frá framkvæmdastjórn og öðru starfsfólki ÍSÍ, vék Líney Rut m.a. að málefnum Felix, félagakerfis íþróttahreyfingarinnar, persónuvernd og málefnum tengdum #metoo í ræðu sinni. Að lokum sæmdi hún Hjálmar Jens Sigurðsson silfurmerki ÍSÍ. Hjálmar hefur undanfarin ár leitt metnaðarfullt starf körfuknattleiksdeildar Sindra, sem m.a. hefur skilað sér í því að meistaraflokkur karla spilaði í fyrsta sinn í sögunni í 1. deild í körfubolta.

Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, Hjálmar Jens Sigurðsson, silfurmerkishafi ÍSÍ og Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ. (Mynd: SÓJ)

Gunnar Gunnarsson, stjórnarmaður í UMFÍ sat einnig þingið. Hann bað fyrir kveðju frá stjórn og starfsfólki UMFÍ. Að lokum sæmdi hann Halldór Einarsson, sem hefur setið í stjórn Umf. Mána síðan 1999, starfsmerki UMFÍ. Einnig sæmdi hann Sigurð Óskar Jónsson, gjaldkera USÚ, starfsmerki UMFÍ. Auk þess að hafa verið gjaldkeri USÚ síðan 2011, hefur Sigurður verið í stjórn Umf. Mána frá 2005, (þar sem hann hefur gegnt öllum stöðum nema gjaldkerastöðunni), og setið í varastjórn UMFÍ síðan 2015.

Gunnar Gunnarsson, stjórn UMFÍ og Halldór Einarsson, starfsmerkishafi UMFÍ. (Mynd: SÓJ)
Gunnar Gunnarsson, stjórn UMFÍ og Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri USÚ og starfsmerkishafi UMFÍ. (Mynd: KÖE)

Íþróttamaður USÚ fyrir árið 2018 var útnefndur á þinginu auk þess sem fjórir ungir iðkendur hlutu hvatningarverðlaun USÚ. Nánar má lesa um þessar viðurkenningar í frétt sem birtast á síðunni síðar í kvöld eða á morgun.

Hér er hægt að lesa skýrslu stjórnar USÚ fyrir árið 2018. Reikningar sambandsins eru í skýrslunni og einnig er þar að finna starfsskýrslur allra aðildarfélaga auk starfandi deilda innan Umf. Sindra.

86. ársþing USÚ

86. ársþing USÚ verður haldið í Heklu, nýju félagsheimili Umf. Sindra, Hafnarbraut 15 á Höfn, miðvikudaginn 27. mars næstkomandi, klukkan 18:00.  Um fulltrúa á ársþingi segir m.a. í lögum USÚ:

Á ársþingi hafa allir sambandsaðilar málfrelsi og tillögurétt, en aðeins stjórn og fulltrúar atkvæðisrétt. Stjórnin getur boðið öðrum aðilum þingsetu er hún telur ástæðu til. Aðeins sá sem er félagi innan sambandsins er kjörgengur fulltrúi á ársþingi. Hver þingfulltrúi hefur eitt atkvæði. Allir þingfulltrúar skulu hafa kjörbréf.

Alls eiga 46 fulltrúar rétt á setu á þinginu, misjafnlega margir frá hverju félagi.  Þeir sem hafa áhuga á að mæta ættu að hafa samband við stjórn síns félags.

Gögn fyrir þingið:

86. ársþing USÚ – Ársskýrsla

Tillögur til þings 2019