89. ársþingi USÚ lokið

Ársþing USÚ, það 89. í röðinni, fór fram í Golfskálanum á Höfn, fimmtudaginn 7. apríl s.l. Þingið var vel sótt, en alls mættu 38 fulltrúar af þeim 51 sem rétt áttu á þingsetu. Öll virk félög, nema eitt, sendu fulltrúa á þingið.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ setti þingið og bauð þingfulltrúa velkomna. Arna Ósk Harðardóttir stýrði þinginu líkt og oft áður og Jón Guðni Sigurðsson, ritari USÚ, ritaði þinggerð.

Starfsemi USÚ einkenndist að nokkru leyti af covid-19 faraldrinum, líkt og hjá öðrum félagasamtökum. USÚ sendi þó fulltrúa á Íþróttaþing ÍSÍ, sem fór fram í tvennu lagi, í fjarfundi í maí og í Reykjavík í október. USÚ sendi einnig tvo fulltrúa á Sambandsþing UMFÍ á Húsavík í október . Nánar má lesa um starfið 2021 í skýrslu stjórnar í ársriti USÚ, þar sem jafnframt má kynna sér ársreikning 2021 og starfsskýrslur flestra aðildarfélaga auk starfandi deilda innan Umf. Sindra.

Frá 89. ársþingi USÚ – (Mynd: Sigrún Sigurgeirsdóttir)

Fjórar tillögur lágu fyrir þinginu. Tillaga 1 var hefðbundin tillaga um hvatningu til félaga að mæta á viðburði hjá UMFÍ og ÍSÍ. Tillaga 2 fólst í því að þingið feli stjórn USÚ að vinna að því að USÚ verði fyrirmyndarhérað ÍSÍ fyrir ársþing 2023. Tillaga þrjú fól í sér nokkrar breytingar reglum um skiptingu lottótekna innan USÚ. Hún fólst í því að sett voru upp skilyrði sem félög þurfa að uppfylla til að geta fengið úthlutað lottótekjum. Tillaga 4 fólst í að veita nefnd sem vinnur að nýrri lottóreglugerð endurnýjað umboð til að halda sinni vinnu áfram. Erfitt hefur verið að halda reglulega nefndarfundi, m.a. vegna samkomutakmarkana. Allar þessar tillögur voru samþykktar, en á tillögu 3 voru gerðar smávægilegar orðalagsbreytingar.

Engar breytingar urðu á stjórn eða öðrum embættum innan USÚ. Jóhanna Íris Ingólfsdóttir er áfram formaður, Jón Guðni Sigurðsson, ritari, og Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri. Ásta Steinunn Eiríksdóttir og Hannes Halldórsson eru varamenn.

Frá 89. ársþingi USÚ (Mynd: SÓJ)

Andri Stefánsson, sem er nýlega tekinn við sem framkvæmdastjóri ÍSÍ, sótti þingið fyrir hönd ÍSÍ. Hann bað fyrir kveðju frá framkvæmdastjórn og starfsfólki ÍSÍ og sagði frá ýmsum verkefnum sem ÍSÍ stendur fyrir. Andri veitti líka tvær viðurkenningar. Golfklúbbur Hornafjarðar hlaut viðurkenninguna Fyrirmyndarfélag ÍSÍ. Nánar er hægt að lesa um fyrirmyndarfélög ÍSÍ hér.

Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, veitti Gesti Halldórssyni, formanni Golfklúbbs Hornafjarðar, viðurkenninguna Fyrirmyndarfélag ÍSÍ. (Mynd SÓJ)

Að lokum sæmdi hann Björgvin Hlíðar Erlendsson silfurmerki ÍSÍ. Eftirfarandi texti fylgdi tilnefningu Björgvins:

Björgvin Hlíðar Erlendsson, eða Brói eins og hann er yfirleitt kallaður, er fæddur árið 1978. Hann byrjaði körfuboltaferilinn í Sindra 15 ára í 10. bekk árið 1992. Þegar hann byrjaði í framhaldsskóla skipti hann yfir í Mána. Hann sat í stjórn körfuknattleiksdeildar Mána og svo í sameiginlegri stjórn Mána og Sindra þegar liðin sameinuðust. Árið 2010, þegar Björgvin flutti aftur til Hornafjarðar, var hann fenginn til að taka sæti í stjórn körfuknattleiksdeildar Sindra, þar sem hann hefur setið síðan. Hann er að öllum líkindum leikjahæsti leikmaður Sindra frá upphafi, en hann lagði körfuboltaskóna á hilluna 2021. Hann gengur í öll verk sem þarf að vinna. Hann er öflugasti maðurinn í að skaffa fjármagn fyrir körfuknattleiksdeildina, og deildin væri ekki það sem hún er í dag ef hann væri ekki að sinna því. Hann leggur gríðarlega mikinn kraft í að halda heiðri deildarinnar á lofti og berst ötullega fyrir réttindum hennar innan Sindra. Síðan Sindri komst í fyrstu deild hefur hann verið aðal drifkrafturinn. Hann vinnur þetta allt með hjartanu.

Stjórn USÚ óskar Bróa innilega til hamingju með viðurkenninguna.

Björgvin Hlíðar Erlendsson, silfurmerkishafi ÍSÍ og Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ. (Mynd: SÓJ)

Gunnar Gunnarsson, úr stjórn UMFÍ, sótti þingið fyrir hönd UMFÍ. Hann flutti kveðju frá stjórn og starfsfólki UMFÍ, fjallaði m.a. um Skinfaxa, tímarit UMFÍ og sagði frá þeim viðburðum sem UMFÍ stendur fyrir á árinu.

Íþróttamaður USÚ fyrir árið 2021 var útnefndur á þinginu, auk þess sem sex ungir iðkendur hlutu hvatningarverðlaun USÚ. Nánar má lesa um þessar viðurkenningar í frétt sem mun birtast á síðunni innan tíðar.

89. ársþing USÚ

89. ársþing USÚ verður haldið í Golfskálanum við Dalbraut á Höfn, fimmtudaginn 7. apríl næstkomandi, klukkan 16:30.  Ástæða þess að þingið er svona snemma dags er að um kvöldið fer fram 3. leikur í úrslitakeppni 1. deildar í körfubolta, þar sem Sindramenn taka á móti Álftanesi. Leikurinn hefst kl. 19:15 og við vitum að einhverjir sem verða á þinginu þurfa að vera komnir á staðinn kl. 18:00.

Um fulltrúa á ársþingi segir m.a. í lögum USÚ:

Á ársþingi hafa allir sambandsaðilar málfrelsi og tillögurétt, en aðeins stjórn og fulltrúar atkvæðisrétt. Stjórnin getur boðið öðrum aðilum þingsetu er hún telur ástæðu til. Aðeins sá sem er félagi innan sambandsins er kjörgengur fulltrúi á ársþingi. Hver þingfulltrúi hefur eitt atkvæði. Allir þingfulltrúar skulu hafa kjörbréf.

Alls á 51 fulltrúi rétt á setu á þinginu, misjafnlega margir frá hverju félagi.  Þeir sem hafa áhuga á að mæta ættu að hafa samband við stjórn síns félags.

Gögn fyrir þingið (munu birtast hér þegar nær dregur):

89. ársþing USÚ – Ársskýrsla

Tillögur til þings 2022

Ársreikningur USÚ 2021

Heimsókn til Noregs

Um síðastliðna helgi héldu tveir fulltrúar USÚ ásamt u.þ.b. 40 manna hópi á vegum UMFÍ og aðildarfélaga þess til Noregs þar sem íþróttahéraðið Viken var heimsótt. Viken er fjölmennasta íþróttahérað Noregs sem eru alls 11 talsins. Innan Viken búa um 1,2 milljónir íbúa og myndar það kraga utan um Óslóarborg.

Gæti verið mynd af 10 manns, people standing og innanhúss
Kynning á Viken – Mynd: UMFÍ

Íslenski hópurinn fékk góða kynningu á héraðssambandinu sjálfu sem og starfsemi þess í Íþróttaháskóla Noregs og einnig var farið yfir hvernig íþróttahéraðið fer að því að nálgast jaðarhópa. Þá tók íslenski hópurinn einnig samantektarfund þar sem farið var yfir stöðu mála innan okkar raða.

Gæti verið mynd af útivist og Texti þar sem stendur "NORGES IDRETTSHOGS n LT"
Íþróttaháskóli Noregs

Ferðin heppnaðist vel í alla staði og komum við heim með fullan bakpoka af tólum og tækjum sem við getum hæglega nýtt okkur hér í okkar íþróttahéraði. Að fara í ferð sem þessa styrkir líka enn frekar tengslanetið innan íþróttahreyfingarinnar.

Gæti verið mynd af 2 manns, people standing og innanhúss
Fulltrúar USÚ í ferðinni voru Sigurður Óskar Jónsson og Jóhanna Íris Ingólfsdóttir

Umsóknir í Styrktar- og afrekssjóð USÚ 2021

Merki USÚ

Ungmennasambandið Úlfljótur auglýsir eftir umsóknum í styrktar- og afrekssjóð USÚ. Umsóknum má skila í tölvupósti á usu@usu.is, eða skriflega í Heklu, Hafnarbraut 15. Umsóknir þurfa að berast í síðasta lagi miðvikudaginn 8. desember.

Til að auðvelda sjóðsstjórn vinnu við afgreiðslu umsókna þurfa eftirfarandi hlutir að koma fram í umsókn:

 1. Hver sækir um.
 2. Stutt lýsing á því hvers vegna sótt er um.
 3. Upphæð sem óskað er eftir.
 4. Bankaupplýsingar (reikningsnúmer og kennitala).

Ef sótt er um vegna sérstakra verkefna, þarf auk framangreindra atriða að taka fram:

 1. Áætlaður kostnaður.
 2. Hyggst umsækjandi sækjast eftir styrkjum annars staðar?

Reglur og nánari upplýsingar um sjóðinn má finna hér.

Kynningarferð samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs.

Markmið með starfi samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs er að slíkt starf fari fram í öruggu umhverfi og að börn, unglingar og fullorðnir, óháð kynferði eða stöðu að öðru leyti, geti stundað íþróttir eða æskulýðsstarf og leitað sér aðstoðar eða leitað réttar síns vegna atvika og misgerða sem eiga sér stað án þess að þurfa að óttast afleiðingarnar. Með atvikum og misgerðum er átt við andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi og áreitni, einelti og önnur sambærileg tilvik.

Í október og nóvember næstkomandi mun samskiptaráðgjafi ferðast um landið og kynna starfsemina fyrir íþrótta- og æskulýðsfélögum. Á dagskrá kynningarinnar verður:

 • Kynning á starfi samskiptaráðgjafa.
 • Kynning á öflun upplýsinga úr sakaskrá.
 • Kynning á vinnu við samræmingu viðbragðsáætlana vegna atvika og misgerða.

Óskað er eftir því að á kynninguna mæti forsvarsaðili eða stjórnarmeðlimur félaga eða starfseininga ásamt einhverjum starfsmönnum, leiðbeinendum eða þjálfurum sem vinna oftar í beinum tengslum við þátttakendur og iðkendur. Í kjölfar kynningarinnar verður útbúið efni sem félög geta nýtt sér til að koma skilaboðunum áfram innan sinna raða.

Hvert félag eða starfseining getur mætt á þær kynningar sem staðsettar eru þeim næst en eru að sjálfsögðu velkomin á aðrar kynningar ef sá tími og/eða staður hentar þeim betur.

Kynningarnar verða á eftirtöldum stöðum og dagsetningum:

Akureyri fimmtudaginn 14. október. Háskólinn á Akureyri, hátíðarsalur kl.18:30

Húsavík föstudaginn 15. október. Fosshótel Húsavík kl.16:30

Höfn í Hornafirði miðvikudaginn 20. október. Nýheimar fræðslusetur kl.20:00

Egilsstaðir fimmtudaginn 21. október. Menntaskólinn á Egilsstöðum kl.17:00

Selfoss miðvikudaginn 27. október. Fjölbrautaskóli Suðurlands, hátíðarsalur kl.17:30

Reykjanesbær fimmtudaginn 28. október. Íþróttaakademían í Reykjanesbæ kl.18:00

Borgarnes þriðjudaginn 2. nóvember. Menntaskóli Borgarfjarðar, Hjálmaklettur kl.18:00

Ísafjörður miðvikudaginn 3. nóvember. Stjórnsýsluhúsið kl.18:00

Kópavogur mánudaginn 8. nóvember. Kórinn kl.17:00

Reykjavík mánudaginn 15. nóvember. ÍSÍ Engjavegi 6, Fundarsalur E kl.17:00

Reykjavík þriðjudaginn 16. nóvember. ÍSÍ Engjavegi 6, Fundarsalur E kl.13:00

Reykjavík miðvikudaginn 17. nóvember. ÍSÍ Engjavegi 6, Fundarsalur E kl.19:00

Hafnarfjörður miðvikudaginn 24. nóvember. Kaplakriki, Sjónarhóll salur kl.17:00

88. ársþingi USÚ lokið

Ársþing USÚ, það 88. í röðinni fór fram í Mánagarði í Nesjum þriðjudaginn, 1. júní. Þingið var ágætlega sótt miðað við allar þær samkomutakmarkanir sem verið hafa undanfarin misseri, 28 fulltrúar af 49 mættu og öll félög nema eitt sendu fulltrúa.

Í upphafi þings var Ingvars Más Guðjónssonar minnst, en hann féll frá langt fyrir aldur fram í desember síðastliðnum. Ingvar var afar virkur í starfi Ungmennafélagsins Mána síðustu mörg ár og varamaður í stjórn síðasta ár.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ, setur þing.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ, setti þingið og bauð þingfulltrúa velkomna. Óvenjulegar aðstæður hafa verið í þjóðfélaginu á undanförnum misserum. Ein birtingarmynd þess var að þingið var haldið 1. júní, en ekki 27. apríl eins og áður stóð til. Arna Ósk Harðardóttir stýrði þinginu líkt og oft áður og Jón Guðni Sigurðsson ritari USÚ, ritaði þinggerð.

Starfsemi USÚ einkenndist að töluverðu leyti af covid-19 faraldrinum, líkt og hjá öðrum félagasamtökum. Lítið var um fundarferðir, en þeim mun meira af fjarfundum. Nánar má lesa um starfið 2020 í skýrslu stjórnar í ársriti USÚ, þar sem jafnframt má kynna sér ársreikning 2020 og starfsskýrslur flestra aðildarfélaga auk starfandi deilda innan Umf. Sindra.

Þingfulltrúum var dreift um salinn til að tryggja fjarlægðarmörk.

Einungis tvær tillögur lágu fyrir þinginu að þessu sinni. Annars vegar hefðbundin tillaga um hvatningu til ungmennafélaga til að fjölmenna á 23. Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður á Selfossi um verslunarmannahelgina og á 10. Landsmót UMFÍ 50+, sem haldið verður í Borgarnesi í lok ágúst. Tillagan felur einnig í sér hvatningu til að taka þátt í almenningsíþróttaverkefnum á vegum UMFÍ og ÍSÍ.

Einnig var samþykkt tillaga um að nefndin sem vinnur að nýrri lottóreglugerð fái endurnýjað umboð til að halda sinni vinnu áfram. Erfitt hefur reynst að halda reglulega nefndarfundi vegna samkomutakmarkana, en stefnt er að því að leggja nýja reglugerð fyrir, eigi síðar en á ársþingi 2022.

Stjórn USÚ gaf kost á sér til endurkjörs og skipti með sér verkum á örfundi eftir ársþingið eins og lög gera ráð fyrir. Jóhanna Íris Ingólfsdóttir er áfram formaður, Jón Guðni Sigurðsson, ritari, og Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri.  Ásta Steinunn Eiríksdóttir gaf kost á sér áfram sem varamaður, en Hjálmar Jens Sigurðsson ekki. Í hans stað bauð Hannes Halldórsson, Mána, sig fram og var hann kosinn með lófataki. Hjálmari er hér með þakkað fyrir sitt góða starf í þágu USÚ og körfuknattleiksdeildar Sindra.

Garðar Svansson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ sótti þingið fyrir hönd ÍSÍ. Hann bað fyrir kveðju frá framkvæmdastjórn og starfsfólki ÍSÍ og greindi frá ýmsum verkefnum sem ÍSÍ stendur fyrir. Hann hvatti jafnframt þingheim til að nýta sér þá þjónustu sem skrifstofa ÍSÍ hefur upp á að bjóða. Hann lauk svo máli sínu á að sæma Sigurð Óskar Jónsson, gjaldkera USÚ, silfurmerki ÍSÍ fyrir mikið og gott starf í þágu íþróttahreyfingarinnar.

Garðar Svansson, ÍSÍ, Arna Ósk Harðardóttir, þingforseti og Jóhanna Íris Ingólfsdóttir formaður USÚ.
Sigurður Óskar Jónsson hlaut silfurmerki ÍSÍ (Mynd: Sigrún Sigurgeirsdóttir)

Téður Sigurður fór svo sjálfur upp í pontu, þá sem fulltrúi stjórnar UMFÍ. Hann bar upp kveðju frá stjórn og starfsfólki UMFÍ og veitti svo þeim Þorbjörgu Gunnarsdóttur, sem um árabil var gjaldkeri Hestamannafélagsins Hornfirðings og einnig USÚ um tíma, og Bryndísi Björk Hólmarsdóttur sem var m.a. formaður Hestamannafélagsins starfsmerki UMFÍ. Til stóð að veita þeim þessi merki á síðasta ársþingi um leið og Pálma Guðmundssyni, en hvorug þeirra gat mætt þá. Þá gleymdist líka að taka mynd af Pálma, svo hér er mynd af þeim öllum saman.

Bryndís Björk Hólmarsdóttir, Pálmi Guðmundsson og Þorbjörg Gunnarsdóttir, starfsmerkishafar UMFÍ.

Vegna alls þess róts sem varð á íþróttastarfi árið 2020, var ákveðið að velja ekki íþróttamann ársins fyrir það ár og veita heldur ekki sérstök hvatningarverðlaun. Úr þessu verður bætt á næsta ársþingi 2022, og rétt að taka það fram að USÚ verður 90 ára á næsta ári. Þeirra tímamóta verður ábyggilega minnst með ýmsum hætti.

88. ársþing USÚ

88. ársþing USÚ verður haldið í Mánagarði í Nesjum, þriðjudaginn 1. júní næstkomandi, klukkan 17:00.  Um fulltrúa á ársþingi segir m.a. í lögum USÚ:

Á ársþingi hafa allir sambandsaðilar málfrelsi og tillögurétt, en aðeins stjórn og fulltrúar atkvæðisrétt. Stjórnin getur boðið öðrum aðilum þingsetu er hún telur ástæðu til. Aðeins sá sem er félagi innan sambandsins er kjörgengur fulltrúi á ársþingi. Hver þingfulltrúi hefur eitt atkvæði. Allir þingfulltrúar skulu hafa kjörbréf.

Alls eiga 49 fulltrúar rétt á setu á þinginu, misjafnlega margir frá hverju félagi.  Þeir sem hafa áhuga á að mæta ættu að hafa samband við stjórn síns félags.

Gögn fyrir þingið (munu birtast hér þegar nær dregur):

88. ársþing USÚ – Ársskýrsla

Tillögur til þings 2021

Ársreikningur USÚ 2020

Umsóknir í Styrktar- og afrekssjóð USÚ 2020

Merki USÚ

Ungmennasambandið Úlfljótur auglýsir eftir umsóknum í styrktar- og afrekssjóð USÚ. Umsóknum má skila í tölvupósti á usu@usu.is, eða skriflega í Heklu, Hafnarbraut 15. Umsóknir þurfa að berast í síðasta lagi mánudaginn 14. desember.

Til að auðvelda sjóðsstjórn vinnu við afgreiðslu umsókna þurfa eftirfarandi hlutir að koma fram í umsókn:

 1. Hver sækir um.
 2. Stutt lýsing á því hvers vegna sótt er um.
 3. Upphæð sem óskað er eftir.
 4. Bankaupplýsingar (reikningsnúmer og kennitala).

Ef sótt er um vegna sérstakra verkefna, þarf auk framangreindra atriða að taka fram:

 1. Áætlaður kostnaður.
 2. Hyggst umsækjandi sækjast eftir styrkjum annars staðar?

Reglur og nánari upplýsingar um sjóðinn má finna hér.

Heiðranir á 87. ársþingi USÚ

Íþróttamaður USÚ var útnefndur á ársþinginu. Einnig hlutu fjórir ungir og efnilegir íþróttamenn hvatningarverðlaun.

Íþróttamaður USÚ árið 2019 er Þorlákur Helgi Pálmason.

Þorlákur Helgi Pálmason er fyrirliði meistaraflokks karla og algjör lykilmaður bæði innan vallar sem utan. Helgi, eins og hann er yfirleitt kallaður, er metnaðarfullur og hefur lagt hart að sér í gegnum árin. Þrátt fyrir erfið meiðsli að undanförnu gefur hann allt í fótboltann, hann mætir á allar æfingar og hjálpar til við allt sem þarf að gera. Hann er frábær fyrirmynd fyrir strákana í liðinu og heldur móralnum uppi. Það þyrftu allir að hafa einn Þorlák Helga í liðinu sínu.

Þorlákur Helgi Pálmason, íþróttamaður USÚ 2019 og Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ. (Mynd: SÓJ)

Hvatningarverðlaun hlutu:

Freyr Sigurðsson er ungur og efnilegur strákur sem er a yngra ári í 3. flokki karla hjá Sindra. Hann er duglegur og leggur sig allan fram á æfingum. Í byrjun mars var Freyr valinn í 29 manna æfingahóp U15 ára landsliðsins. Hann stóð sig vel á æfingunum og var Sindramönnum til sóma. Freyr kom inná í æfingaleik meistaraflokks Sindra fyrir síðustu helgi og gaf leikmönnum meistaraflokks ekkert eftir þrátt fyrir ungan aldur.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ og Freyr Sigurðsson. (Mynd: SÓJ)

Hermann Þór Ragnarsson er ungur efnilegur fótboltamaður sem er að stíga sín fyrstu skref með meistaraflokki karla, hann kom við sögu í nokkrum leikjum hjá meistaraflokki á seinasta tímabili þrátt fyrir ungan aldur. Hermann leggur hart ađ sér innan vallar sem utan og sýnir það að hann á fullt erindi í meistaraflokk karla.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ og Hermann Þór Ragnarsson. (Mynd: SÓJ)

Kjartan Jóhann R. Einarsson er mjög duglegur drengur. Hann er ávallt tilbúinn að hjálpa til međ hvaða verkefni sem er. Hann var meðal annars valinn Sindramađur ársins í fyrra fyrir metnað og dugnaðarsemi í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur. Kjartan er að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki og er framtíðin björt hjá honum.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ og Kjartan Jóhann R. Einarsson. (Mynd: SÓJ)

Selma Ýr Ívarsdóttir er efnileg frjálsíþróttakona sem sýnir einstakan metnað við æfingar sínar. Hún mætir á allar æfingar og tekur þátt í öllu sem viðkemur frjálsíþróttadeildinni og er afar góð fyrirmynd. Selma varð m.a.  í 1. sæti í 80m grindahlaupi og 3. sæti í 800m hlaupi á Unglingalandsmótinu 2019 og ofarlega í þeim keppnisgreinum sem hún tók þátt í. Selma gat því miður ekki verið viðstödd, en Anna Björk Kristjánsdóttir, móðir Selmu, tók við viðurkenningunni fyrir hennar hönd.

Sigurður Guðni Hallsson hefur undanfarin ár einn af máttárstólpum í meistaraflokki Sindra í körfuknattleik þrátt fyrir ungan aldur. Hann hefur vaxið ár frá ári sem leikmaður og nú tvö síðastliðin ár verið valinn varnarmaður ársins hjá Sindra. Einnig er hann þekktur fyrir að gefa alltaf 110% í leikinn og vera fyrirmynd utan sem innan vallar.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ og Sigurður Guðni Hallsson. (Mynd: SÓJ)

Allir handhafar hvatningarverðlauna auk íþróttamanns USÚ 2019. Frá vinstri: Sigurður Guðni, Hermann Þór, Freyr, Þorlákur Helgi og Kjartan Jóhann. Á myndina vantar Selmu Ýr Ívarsdóttur. (Mynd: SÓJ)

87. ársþingi USÚ lokið

Ársþing USÚ, það 87. í röðinni fór fram í Stekkhól, félagsheimili Hestamannafélagsins Hornfirðings síðastliðinn þriðjudag, 2. júní. Þingið var vel sótt, 38 fulltrúar af 46 mættu og öll félög sendu fulltrúa.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ, setti þingið og bauð þingfulltrúa velkomna. Óvenjulegar aðstæður hafa verið í þjóðfélaginu á undanförnum vikum og mánuðum. Ein birtingarmynd þess var að þingið var haldið 2. júní, en ekki 24. mars eins og áður stóð til. Arna Ósk Harðardóttir stýrði þinginu líkt og oft áður og Sæmundur Helgason ritaði þinggerð í fjarveru Kristjáns Arnar Ebenezerssyni ritara.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir setur þingið. (Mynd: SÓJ)

Það má segja að árið 2019 hafi verið viðburðarríkara en mörg önnur hjá stjórn USÚ. Langfyrirferðarmesti viðburðurinn var Unglingalandsmótið sem haldið var á Höfn um verslunarmannahelgina. Einnig fóru formaður og gjaldkeri USÚ, auk framkvæmdastjóra Sindra í kynnisferð á vegum UMFÍ til Kaupmannahafnar á vordögum. Sú ferð heppnaðist afar vel og ýmis góð tengsl mynduðust við aðra úr hreyfingunni.

USÚ sendi sína fulltrúa á þá fundi og þing sem okkur bar, eins og sambandsþing UMFÍ og íþróttaþing ÍSÍ. Tvennt bar helst til tíðinda frá sambandsþingi UMFÍ. Í fyrsta lagi það að samþykktar voru tillögur þess efnis að íþróttabandalögin, þ.e. ÍBR, ÍA og ÍBA fengu inngöngu í UMFÍ. Það opnar líka dyrnar fyrir hin íþróttabandalögin, ÍRB, ÍS, ÍBH og ÍBV. Við þetta fjölgaði félögum í ungmennafélagshreyfingunni mjög mikið. Það bar einnig til tíðinda að Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri USÚ, náði kjöri í aðalstjórn UMFÍ, þar sem hann situr nú sem ritari samtakanna. Eftir því sem við komumst næst hefur USÚ aldrei áður átt fulltrúa í aðalstjórn UMFÍ.

Frá 87. ársþingi USÚ. (Mynd: SÓJ)

Sjö tillögur frá stjórn lágu fyrir þinginu.  Fyrst skal nefna tillögu sem gengur út á að hvert aðildarfélag USÚ skipi einn fulltrúa í nefnd sem fara á yfir núgildandi reglugerð um skiptingu lottótekna. Í því felst m.a. að ný lottóreglugerð verði lögð fyrir ársþing 2021. Núgildandi reglugerð var breytt þannig að nú þarf 2/3 hluta atkvæða til að breyta henni. Er það m.a. gert til að um nýja reglugerð ríki breiðari sátt en verið hefur.

Þá má nefna hvatningu til ungmennafélaga til að fjölmenna á 23. Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður á Selfossi um verslunarmannahelgina. Tillagan felur einnig í sér hvatningu til að taka þátt í almenningsíþróttaverkefnum á vegum UMFÍ og ÍSÍ.

Gleðilegasta tillagan var þó líklega sú að Klifurfélag Öræfa, KFÖ, var samþykkt sem aðildarfélag USÚ. Því eru virk aðildarfélög orðin átta talsins. Klifurfélaginu eru hér með sendar hamingjuóskir með inngönguna.

Einnig var samþykkt tillaga um að USÚ geti fært lögheimili sitt á Hafnarbraut 15, 780 Höfn.

Þá voru samþykktar breytingar á lögum USÚ. Lög USÚ eftir breytingar má finna hér.

Formaður og gjaldkeri gáfu kost á sér til endurkjörs og voru endurkjörin. Kristján Örn Ebenezarson, ritari, gaf ekki kost á sér áfram og í hans stað var kosinn Jón Guðni Sigurðsson, Sindra. Varamenn gáfu kost á sér áfram. Nýja stjórn skipa því: Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður, Jón Guðni Sigurðsson, ritari, og Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri.  Ásta Steinunn Eiríksdóttir og Hjálmar Jens Sigurðsson eru varamenn.

Enginn gestur komst til okkar frá ÍSÍ, en Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ hringi í formann USÚ stuttu fyrir þing og bað fyrir góðar kveðjur.

Enginn gestur komst heldur til okkar frá UMFÍ, en þar sem Sigurður Óskar Jónsson situr í stjórn UMFÍ, fól framkvæmdastjórn UMFÍ honum að veita starfsmerki. Pálma Guðmundssyni, fyrrverandi formanni Hestamannafélagsins Hornfirðings var veitt starfsmerki UMFÍ fyrir gott og ötult starf í þágu félagsins. Jafnframt var tilkynnt að Þorbjörg Gunnarsdóttir, sem um árabil var gjaldkeri Hestamannafélagsins og einnig USÚ um tíma, myndi hljóta starfsmerki, auk þess sem Bryndís Björk Hólmarsdóttir sem var m.a. formaður Hestamannafélagsins á undan Pálma myndi einnig hljóta starfsmerki. Hvorki Þorbjörg né Bryndís gátu verið með okkur þennan dag, en munu fá starfsmerkin afhent við fyrsta tækifæri. Því miður gleymdist alveg að taka mynd af Pálma með starfsmerkið, en stefnt er að hópmyndatöku af þeim þremur sem fyrst.

Íþróttamaður USÚ fyrir árið 2019 var útnefndur á þinginu auk þess sem fimm ungir iðkendur hlutu hvatningarverðlaun USÚ. Nánar má lesa um þessar viðurkenningar í frétt sem mun birtast á síðunni síðar.

Hér er hægt að lesa skýrslu stjórnar USÚ fyrir árið 2019. Reikningar sambandsins eru í skýrslunni og einnig er þar að finna starfsskýrslur allra aðildarfélaga auk starfandi deilda innan Umf. Sindra.