89. ársþingi USÚ lokið

Ársþing USÚ, það 89. í röðinni, fór fram í Golfskálanum á Höfn, fimmtudaginn 7. apríl s.l. Þingið var vel sótt, en alls mættu 38 fulltrúar af þeim 51 sem rétt áttu á þingsetu. Öll virk félög, nema eitt, sendu fulltrúa á þingið.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ setti þingið og bauð þingfulltrúa velkomna. Arna Ósk Harðardóttir stýrði þinginu líkt og oft áður og Jón Guðni Sigurðsson, ritari USÚ, ritaði þinggerð.

Starfsemi USÚ einkenndist að nokkru leyti af covid-19 faraldrinum, líkt og hjá öðrum félagasamtökum. USÚ sendi þó fulltrúa á Íþróttaþing ÍSÍ, sem fór fram í tvennu lagi, í fjarfundi í maí og í Reykjavík í október. USÚ sendi einnig tvo fulltrúa á Sambandsþing UMFÍ á Húsavík í október . Nánar má lesa um starfið 2021 í skýrslu stjórnar í ársriti USÚ, þar sem jafnframt má kynna sér ársreikning 2021 og starfsskýrslur flestra aðildarfélaga auk starfandi deilda innan Umf. Sindra.

Frá 89. ársþingi USÚ – (Mynd: Sigrún Sigurgeirsdóttir)

Fjórar tillögur lágu fyrir þinginu. Tillaga 1 var hefðbundin tillaga um hvatningu til félaga að mæta á viðburði hjá UMFÍ og ÍSÍ. Tillaga 2 fólst í því að þingið feli stjórn USÚ að vinna að því að USÚ verði fyrirmyndarhérað ÍSÍ fyrir ársþing 2023. Tillaga þrjú fól í sér nokkrar breytingar reglum um skiptingu lottótekna innan USÚ. Hún fólst í því að sett voru upp skilyrði sem félög þurfa að uppfylla til að geta fengið úthlutað lottótekjum. Tillaga 4 fólst í að veita nefnd sem vinnur að nýrri lottóreglugerð endurnýjað umboð til að halda sinni vinnu áfram. Erfitt hefur verið að halda reglulega nefndarfundi, m.a. vegna samkomutakmarkana. Allar þessar tillögur voru samþykktar, en á tillögu 3 voru gerðar smávægilegar orðalagsbreytingar.

Engar breytingar urðu á stjórn eða öðrum embættum innan USÚ. Jóhanna Íris Ingólfsdóttir er áfram formaður, Jón Guðni Sigurðsson, ritari, og Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri. Ásta Steinunn Eiríksdóttir og Hannes Halldórsson eru varamenn.

Frá 89. ársþingi USÚ (Mynd: SÓJ)

Andri Stefánsson, sem er nýlega tekinn við sem framkvæmdastjóri ÍSÍ, sótti þingið fyrir hönd ÍSÍ. Hann bað fyrir kveðju frá framkvæmdastjórn og starfsfólki ÍSÍ og sagði frá ýmsum verkefnum sem ÍSÍ stendur fyrir. Andri veitti líka tvær viðurkenningar. Golfklúbbur Hornafjarðar hlaut viðurkenninguna Fyrirmyndarfélag ÍSÍ. Nánar er hægt að lesa um fyrirmyndarfélög ÍSÍ hér.

Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, veitti Gesti Halldórssyni, formanni Golfklúbbs Hornafjarðar, viðurkenninguna Fyrirmyndarfélag ÍSÍ. (Mynd SÓJ)

Að lokum sæmdi hann Björgvin Hlíðar Erlendsson silfurmerki ÍSÍ. Eftirfarandi texti fylgdi tilnefningu Björgvins:

Björgvin Hlíðar Erlendsson, eða Brói eins og hann er yfirleitt kallaður, er fæddur árið 1978. Hann byrjaði körfuboltaferilinn í Sindra 15 ára í 10. bekk árið 1992. Þegar hann byrjaði í framhaldsskóla skipti hann yfir í Mána. Hann sat í stjórn körfuknattleiksdeildar Mána og svo í sameiginlegri stjórn Mána og Sindra þegar liðin sameinuðust. Árið 2010, þegar Björgvin flutti aftur til Hornafjarðar, var hann fenginn til að taka sæti í stjórn körfuknattleiksdeildar Sindra, þar sem hann hefur setið síðan. Hann er að öllum líkindum leikjahæsti leikmaður Sindra frá upphafi, en hann lagði körfuboltaskóna á hilluna 2021. Hann gengur í öll verk sem þarf að vinna. Hann er öflugasti maðurinn í að skaffa fjármagn fyrir körfuknattleiksdeildina, og deildin væri ekki það sem hún er í dag ef hann væri ekki að sinna því. Hann leggur gríðarlega mikinn kraft í að halda heiðri deildarinnar á lofti og berst ötullega fyrir réttindum hennar innan Sindra. Síðan Sindri komst í fyrstu deild hefur hann verið aðal drifkrafturinn. Hann vinnur þetta allt með hjartanu.

Stjórn USÚ óskar Bróa innilega til hamingju með viðurkenninguna.

Björgvin Hlíðar Erlendsson, silfurmerkishafi ÍSÍ og Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ. (Mynd: SÓJ)

Gunnar Gunnarsson, úr stjórn UMFÍ, sótti þingið fyrir hönd UMFÍ. Hann flutti kveðju frá stjórn og starfsfólki UMFÍ, fjallaði m.a. um Skinfaxa, tímarit UMFÍ og sagði frá þeim viðburðum sem UMFÍ stendur fyrir á árinu.

Íþróttamaður USÚ fyrir árið 2021 var útnefndur á þinginu, auk þess sem sex ungir iðkendur hlutu hvatningarverðlaun USÚ. Nánar má lesa um þessar viðurkenningar í frétt sem mun birtast á síðunni innan tíðar.