USÚ hlaut nú nýverið styrk úr Hvatasjóði íþróttahreyfingarinnar, fyrir verkefnið Allir á æfingu. Stjórn USÚ hefur ákveðið að nýta styrkinn til að setja á laggirnar sjóð, sem ganga mun undir nafninu Stuðningssjóður USÚ. Honum er ætlað að tryggja að öll börn, 10 ára og eldri, innan aðildarfélaga USÚ, óháð áskorunum eða fötlun, hafi jafnan aðgang að skipulögðu íþróttastarfi.
Sjóðurinn kemur til með að styrkja aðildarfélögin til að greiða laun aðstoðarþjálfara sem koma inn til félags/deildar til þess að vinna sérstaklega með börnum sem þurfa aukinn stuðning til að geta tekið virkan þátt í æfingum og keppni.
Með þessu er leitast við að stuðla að félagslegri þátttöku, jöfnum tækifærum og jákvæðri reynslu allra barna innan íþróttahreyfingarinnar.
Nánar er hægt að kynna sér úthlutunarreglur nýja sjóðsins hér.
Aðildarfélög USÚ geta nú þegar sent inn umsókn með því að fylla út meðfylgjandi eyðublað og senda það svo í tölvupósti á usu@usu.is.


