Jóhann og Jóhanna ráðin á svæðisstöð ÍSÍ og UMFÍ á Austurlandi

Á dögunum gáfu ÍSÍ og UMFÍ út frétt þess efnis að búið væri að ráða í 14 af þeim 16 stöðugildum sem sinna munu svæðisstöðvum ÍSÍ og UMFÍ. Svæðisstöðvar íþróttahéraðanna eru átta um allt land og eru tvö stöðugildi á hverri stöð. Rúmlega 200 einstaklingar sóttu um störfin 16 sem auglýst voru.

UÍA og USÚ deila svæði og hafa þau Jóhann Árni Ólafsson og Jóhanna Íris Ingólfsdóttir verið ráðin starfsmenn svæðisins.

Jóhann Árni Ólafsson og Jóhanna Íris Ingólfsdóttir

Jóhann Árni verður staðsettur á Egilsstöðum. Hann er með BS í íþróttafræði og MSc í vinnustaðasálfræði. Jóhann Árni kemur frá Grindavík þar sem hann hefur starfað undanfarin ár, meðal annars sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla í körfubolta.

Jóhanna Íris verður staðsett á Höfn í Hornafirði. Hún er með BA í miðlun og almannatengslum. Jóhanna Íris er uppalin á Höfn og hefur verið formaður USÚ síðastliðin átta ár. 

Um svæðisstöðvarnar

UMFÍ og ÍSÍ hafa lengi starfrækt vinnuhópa til að skoða stöðu íþróttahéraða í landinu. 25 íþróttahéruð eru um land allt, með mjög mismunandi starfsemi og virkni. Frá árinu 2022 hafa öll íþróttabandalög landsins, að einu undanskildu, orðið aðilar að UMFÍ.  Það, auk mismunandi úthlutun fjármagns frá lottó til íþróttahéraðanna og aðildarfélaga og mismunandi reglur hjá ÍSÍ og UMFÍ kölluðu á endurskoðun. Sameiginlegar nefndir samtakanna hafa unnið tillögur varðandi samræmda skiptingu lottófjármuna sem stjórnir og nefndir samtakanna hafa komið sér saman um. Skoða má skiptinguna hér.  Tillögur um stofnun svæðisstöðvanna voru samþykktar á þingi ÍSÍ vorið 2023 og á þingi UMFÍ haustið 2023 með þeim fyrirvara að ríkið kæmi einnig að verkefninu.

18. desember 2023 undirrituðu forseti ÍSÍ,  formaður UMFÍ og mennta- og barnamálaráðherra samning um eflingu íþróttastarfs á landsvísu með því að koma á fót svæðisskrifstofum og hvatasjóði. Svæðisstöðvunum er ætlað að styðja íþróttahéruð landsins við að auka þátttöku barna og ungmenna í íþróttastarfi með sérstaka áherslu á þátttöku fatlaðra barna, barna af tekjulægri heimilum og barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn, ásamt því að vinna að innleiðingu á stefnu ríkisins og íþróttahreyfingarinnar í íþróttamálum.

Frá undirritun viljayfirlýsingar um svæðisstöðvarnar í nóvember. Frá vinstri: Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ og Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ. (mynd af vefsíðu ÍSÍ)

Hlutverk svæðisstöðvanna er einnig að þjónusta íþróttahéruðin í nærumhverfi sínu með samræmdum hætti. Horft er til þess að sterkari íþróttahéruð og svæðisstöðvar um allt land auki skilvirkni innan íþróttahreyfingarinnar og geri þeim kleift að takast á við núverandi og fyrirséð verkefni, styrkja stefnumótandi vinnu og aðgerðir á landsvísu og stuðla þannig að farsæld barna og annarra sem nýta þjónustu hreyfingarinnar. Áhersla er á að niðurstaðan tryggi aukið fjármagn út á land, samræmdar reglur verði óháð aðild að samtökunum og sérstök áhersla lögð á að uppfylla markmið samtakanna og stjórnvalda.

Svæðaskipting íþróttahreyfingarinnar (mynd af vefsíðu ÍSÍ)

Ráðningarferðlið

Í byrjun mars var Hanna Carla Jóhannsdóttir ráðin til að stýra innleiðingu og samræmingu á svæðastöðvum íþróttahéraða. Hanna Carla er íþróttafræðingur að mennt með mastersgráðu í forystu og stjórnun. Um er að ræða tímabundna ráðningu.

Fyrstu skrefin fyrir svæðisstöðvarnar voru unnin með tengiliðum sem tilnefndir voru frá hverju íþróttahéraði í ráðningarferlinu í samstarfi við Hagvang. Næstu skref í ferlinu tengjast praktískum atriðum á borð við aðgengi að gagnasöfnum og staðsetningu viðkomandi starfsmanns á hverjum stað. Í ágúst verður fundað um þjónustusamninga við íþróttahéruð og aðgerðaráætlun mótuð fyrir hvert svæði.

Framtíðarsýn með fyrirkomulagi svæðisstöðvanna er að fyrirkomulagið skili sér í betri nýtingu á mannauði. Stuðningur við einstaka íþróttafélög verði meiri og þar af leiðandi verði þjónusta við iðkendur betri. Jafnframt er það framtíðarsýn að sem flestir hafi tækifæri til að stunda íþróttir á því sviði sem þeir kjósa, hvort heldur til ánægju, heilsubótar eða með afreksárangur að markmiði.

Sjá nánar:

https://isi.is/um-isi/svaedisskrifstofur/

https://www.umfi.is/verkefni/svaedisstoedvar/

Umsóknir í Styrktar- og afrekssjóð USÚ – 2024

Ungmennasambandið Úlfljótur auglýsir eftir umsóknum í styrktar- og afrekssjóð USÚ.

Merki USÚ

Umsóknum má skila í tölvupósti á usu@usu.is. Umsóknir þurfa að berast í síðasta lagi mánudaginn 10. júní 2024.

Til að auðvelda sjóðsstjórn vinnu við afgreiðslu umsókna þurfa eftirfarandi hlutir að koma fram í umsókn:

  1. Hver sækir um.
  2. Stutt lýsing á því hvers vegna sótt er um.
  3. Upphæð sem óskað er eftir.
  4. Bankaupplýsingar (reikningsnúmer og kennitala).

Ef sótt er um vegna sérstakra verkefna, þarf auk framangreindra atriða að taka fram:

  1. Áætlaður kostnaður.
  2. Hyggst umsækjandi sækjast eftir styrkjum annars staðar?

Reglur og nánari upplýsingar um sjóðinn má finna hér.

Athugið að þeir sem þegar hafa sent inn umsókn þurfa ekki að gera það aftur.

Heiðranir á 91. ársþingi USÚ

Á 91. ársþingi USÚ, sem fram fór í Nýheimum, 29. apríl s.l. var íþróttamaður USÚ fyrir árið 2023 heiðraður. Einnig fengu fjórir ungir iðkendur hvatningarverðlaun.

Íþróttamaður USÚ 2023 er Cristina A. Oliveira Ferreira

Cristina A. Oliveira Ferreira, íþróttamaður USÚ 2023 og Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ. (mynd: SÓJ)

Cristina Ferreira er reynslumikill leikmaður, hún hefur keppt út um allan heim þar á meðal með Minas Tenis Club í Brasilíu, Bellinzona í Sviss, frá árinu 2006 – 2012 á Spáni í topp deildum og árin 2012 – 2014 spilaði hún með Rotten Roben í Þýskalandi þar sem hún vann deildina með liði sínu.  Cristina hefur einnig spilað víðsvegar um Ísland til að mynda með Tindastól og Þrótti Reykjavík. Hún byrjaði að þjálfa blak hjá Sindra þegar hún flutti hingað með fjölskyldu sinni haustið 2021. Það var svo sannarlega lukkulegt fyrir blakstarfið og hefur iðkendum fjölgað verulega síðan hún kom. Hún hefur því þjálfað hóp af fólki á mismunandi getustigi og undir hennar leiðsögn hefur Sindri getað sent frá sér tvö lið á Íslandsmót í meistaraflokki kvenna og á annað liðið möguleika á að spila í fyrstu deild á næsta tímabili. Í því er Cristina einnig lykilleikmaður. Með því að fá hana og Israel hingað hefur blak- og körfuboltastarf Sindra blómstrað. Hún hefur einnig náð að styrkja yngri flokkana verulega og fór lið Sindra á Íslandsmót á Húsavík fyrir stuttu síðan.

Cristina hefur mikinn metnað fyrir starfi sínu og vill að öllum líði vel. Hennar einstaka þolinmæði og góða hjarta einkennir hennar þjálfun, spilamennsku og framkomu við aðra. Hún hefur styrkt liðin verulega og mun blakdeild Sindra vera ævinlega þakklát fyrir hennar frábæru störf. Hún verðskuldar svo sannarlega þennan titil.

Eftirtaldir hlutu hvatningarverðlaun USÚ fyrir árið 2023:

Arna Ósk Arnarsdóttir

Arna Ósk Arnarsdóttir gat ekki mætt, en Ólöf María systir hennar, tók við viðurkenningunni fyrir hennar hönd. Með henni á myndinni er Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ. (mynd: SÓJ)

Arna Ósk er mjög ábyrgðarfull og metnaðargjörn stelpa. Hún er jákvæð og hefur allt það sem góður fyrirliði þarf að hafa, hrósar þegar það á við og hvetur áfram á jákvæðan hátt, þegar hún bendir á það sem betur má fara. Hún er líka mjög ákveðin og vill engan slugsaragang í sínu liði. Hún getur orðið reið eða svekkt þegar illa gengur, en er fljót að rísa upp aftur með jákvæðnina að vopni og gefur þá mótherjunum engan afslátt. Arna Ósk er leikmaður sem allir geta verið stoltir af að hafa í sínu liði.

Hannes Þór Guðnason

Hannes Þór Guðnason og Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ. (mynd: SÓJ)

Hannes Þór Guðnason hefur stundað æfingar og keppni í motocrossi um nokkurra ára skeið. Í fyrrasumar keppti hann á Íslandsmeistaramótinu sem haldið var víða um land. Hannes keppti í aldursflokki 14 – 17 ára og gekk vel og lenti meðal annars í þriðja sæti í keppni á Akureyri. Það er ekki hlaupið að því að stunda æfingar og keppni í motocrossi, búnaður er dýr og þarfnast mikils viðhalds og mikil útgerð að komast á keppnisstað. Það krefst mikils metnaðar að stunda motocross í okkar héraði þar sem iðkendur eru ekki margir og allt brautarviðhald unnið í sjálfboðavinnu. Hannes er duglegur drengur sem er mikil fyrirmynd fyrir aðra. Þess má einnig geta að Hannes er öflugur körfuboltamaður sem hefur látið til sín taka á vellinum í vetur bæði með liði 10. og 11. flokks.

Hilmar Óli Jóhannsson

Hilmar Óli Jóhannsson og Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ. (mynd: SÓJ)

Hilmar Óli er ungur körfuboltaleikmaður sem hefur vaxið og dafnað á síðastliðnum árum. Hann byrjaði að æfa með meistaraflokki samhliða sínum flokki sem var þá 9. flokkur haustið 2022. Hann var valinn í æfingahóp U15 sama ár og á vormánuðum 2023 var hann valinn í landsliðshóp U15 sem tók þátt í æfinga- og vináttuleikjum með liðinu í Finnlandi. Hann var svo aftur í æfingahópi fyrir U16 ára landsliðið í vetur. Hilmar hefur einnig sinnt þjálfun yngri flokka fyrir Körfuknattleiksdeild Sindra síðastliðin tvö ár við góðan orðstýr. Hilmar er afar metnaðarfullur drengur sem sinnir sinni iðkun af miklum krafti og er mikil fyrirmynd. Framtíð hans er björt á körfuboltavellinum.

Ída Mekkin Hlynsdóttir

Ída Mekkín Hlynsdóttir og Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ. (mynd: SÓJ)

Ída Mekkín var valin í hæfileikahóp Landssambands Hestamanna. Hæfileikamótun er fyrir krakka á aldrinum 14-17 ára og er góður undirbúningur að mögulegum landsmótsverkefnum, en fyrst og fremst kennsla og þjálfun í keppnisundirbúningi. Hún tók þátt í liðakeppni Hornfirðings, sem er innanhúsmót sem keppt er í yfir vetrartímann. Ístölt Austurlands er eitt af uppáhalds vetrarmótunum og fór Ída efst inn úrslit í B-flokknum þar, en fipaðist aðeins úr úrslitum. Þær stöllur Ída og Marín, keppnishryssan hennar, létu það ekki á sig fá og fóru efstar inn í Tölt T7 fyrir 17 ára og yngri og unnu þann flokk. Ásamt verkefnum sem tengjast Hæfileikamótun, tekur Ída þátt í öllum námskeiðum sem geta bætt færni hennar. Ída sýndi mikinn metnað í að taka sem mest þátt á stórum mótum til þess að gera sig klára fyrir Fjórðungsmót Austurlands, tók hún þátt á mótum á Gaddstaðaflötum við Hellu, t.d. Opna WR íþróttamótinu þar sem hún komst í A-úrslit í tölti T3. Einnig tók hún þátt í opna gæðingamótinu á sama stað og vann unglingaflokkinn ásamt að sigra gæðingatölt unglinga. Á fjórðungsmóti var Ída efst inn í úrslit í unglingaflokki, en endaði í öðru sæti eftir æsispennandi úrslit. Hún lét ekki staðar numið þar og fór á gæðingamót á Flúðum og varð í 2-3 sæti þar. Síðasta mót sumarsins var suðurlandsmót yngri flokka sem var einnig á Gaddstaðaflötum. Þar var hún rétt utan úrslita í T3 Tölti, en lenti í 3ja sæti í Fjórgangi V2. Má vel nefna að Ída og Marín frá Lækjarbrekku standa efstar á stöðulista árið 2023 í unglingaflokki gæðinga með einkunnina 8.73. Ída tekur þátt í sýningum sem eru fyrir skemmtiferðaskip frá Djúpavogi sem er í umsjón Pálma og Snæsu og einnig er hún ötul í að aðstoða þar sem þarf, á öðrum námskeiðum og á sýningum. Ída Mekkin á svo sannarlega framtíðina fyrir sér og er mikil fyrirmynd fyrir aðra knapa.

Stjórn USÚ óskar öllum verðlaunahöfum innilega til hamingju með viðurkenningarnar.

91. ársþingi USÚ lokið

Ársþing USÚ, það 91. í röðinni, fór fram í Nýheimum, mánudaginn 29. apríl sl. Þingið var mjög vel sótt, en alls mættu 44 fulltrúar af þeim 55 sem rétt áttu á þingsetu. Annað ánægjuefni var að það mættu fulltrúar frá öllum níu félögum USÚ á þingið.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ, setti þingið og bauð þingfulltrúa velkomna. Ragnheiður Högnadóttir, sem situr í stjórn UMFÍ, stýrði þinginu og Jón Guðni Sigurðsson, ritari USÚ, ritaði þinggerð.

Skýrsla stjórnar kynnt. (Mynd: SÓJ)

Starfsemi USÚ var með nokkuð venjubundnum hætti á árinu 2023. USÚ sendi fulltrúa öll þau þing og fundi sem ætlast er til, t.d. á íþróttaþing ÍSÍ í maí, Vorfund UMFÍ í maí, Sambandsþing UMFÍ í október, þar sem Sigurður Óskar Jónsson náði endurkjöri í stjórn UMFÍ til næstu tveggja ára. Einnig átti USÚ fulltrúa á ráðstefnunni “Vinnum gullið” í nóvember. Nánar má lesa um starfið 2023 í skýrslu stjórnar í ársriti USÚ, þar sem jafnframt má kynna sér ársreikning 2023 og starfsskýrslur flestra aðildarfélaga auk starfandi deilda innan Umf. Sindra.

Ragnheiður Högnadóttir, sem eins og áður segir situr í stjórn UMFÍ, flutti kveðju frá stjórn og starfsfólki UMFÍ. Hún fjallaði m.a. um breytingar á lottóreglugerðum UMFÍ og ÍSÍ og stofnun átta nýrra svæðaskrifstofa íþróttahreyfingarinnar um allt land. Svæðaskrifstofurnar munu styrkja nærsamfélag íþróttahéraðanna, verða til hagsbóta fyrir iðkendur og styrkja íþróttalífið um allt land. Þær falla vel að áherslum og stefnu mennta- og barnamálaráðuneytis í íþróttamálum,  þar sem horft er til þess að auka íþróttaþátttöku barna og ungmenna, auka áherslu á þátttöku fatlaðra barna í íþróttastarfi , ná betur til barna af tekjulægri heimilum og barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Hún sagði einnig frá því að nýverið hefði Íþróttabandalag Suðurnesja gengið í UMFÍ og fyrir lægi aðildarumsókn frá Íþróttabandalagi Reykjanesbæjar. Eftir stendur Íþróttabandalag Vestmannaeyja, sem eina íþróttahérað landsins sem ekki tilheyrir UMFÍ. Þá sagði Ragnheiður frá þeim viðburðum sem UMFÍ stendur fyrir á árinu.

Að lokum sæmdi Ragnheiður einn ungmennafélaga starfsmerki UMFÍ, Ingu Kristínu Sveinbjörnsdóttur. Eftirfarandi texti fylgdi tilnefningu Ingu Kristínar:

Inga Kristín Sveinbjörnsdóttir hefur unnið ötult starf innan ungmennafélagshreyfingarinnar í fjölmörg ár. Hún fór fyrst að starfa sem sjálfboðaliði innan USÚ árið 1972, þá 14 ára að aldri. Hún sat í stjórn USÚ um árabil bæði sem varaformaður, gjaldkeri og meðstjórnandi. Einnig sat hún í úthlutunarnefnd afrekssjóðs og í Unglingalandsmótsnefnd árið 2007. Hún hefur svo verið skoðunarmaður reikninga fyrir USÚ í fjölda ára og sinnir því starfi enn í dag. Inga Kristín sat einnig í stjórn frjálsíþróttadeildar Ungmennafélagsins Sindra i u.þ.b. 20 ár og í aðalstjórn í um 10 ár. Síðast sat hún svo í stjórn Golfklúbbs Hornafjarðar en vék úr stjórn á síðasta aðalfundi klúbbsins, þá hafði hún setið í 6 ár.

Stjórn USÚ óskar Ingu Kristínu innilega til hamingju með viðurkenninguna.

Ragnheiður Högnadóttir sæmdi Ingu Kristínu Sveinbjörnsdóttur starfsmerki UMFÍ.

Enginn sá sér fært að mæta frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands að þessu sinni, en kveðja frá þeim var lesin upp á þinginu.

Fjórar tillögur frá stjórn USÚ lágu fyrir þinginu.

  • Tillaga 1 var hefðbundin tillaga um hvatningu til félaga að mæta á viðburði hjá UMFÍ og ÍSÍ.
  • Tillaga 2 var lítil breyting á reglugerð um skiptingu lottótekna innan USÚ, þess efnis að hlutur aðalstjórnar USÚ, sem hefur verið 15% af heildarpottinum, lækki í 5% og hlutur Styrktar- og afrekssjóðs USÚ hækki úr 5% í 15% í staðinn. Þetta er gert til þess að milda áhrif minnkandi lottófjár í kjölfar breytinga á úthlutunarreglum lottós á landsvísu á möguleika USÚ til að styrkja afreksfólk á sambandssvæðinu.
  • Tillaga 3 fólst í því að skattur aðildarfélaga, skv. 6. gr. laga USÚ, verði 0 kr. árið 2024.
  • Tillaga 4 var svo fjárhagsáætlun fyrir árið 2024.

Allar tillögurnar voru samþykktar samhljóða, en þó varð nokkur umræða um tillögu 2.

Þingfulltrúar (mynd: SÓJ)

Engar breytingar urðu á stjórn USÚ. Jóhanna Íris Ingólfsdóttir er áfram formaður, Jón Guðni Sigurðsson ritari og Sigurður Óskar Jónsson gjaldkeri. Hannes Halldórsson og Björgvin Hlíðar Erlendsson halda einnig áfram sem varamenn.

Íþróttamaður USÚ fyrir árið 2023 var útnefndur á þinginu, auk þess sem fjórir ungir iðkendur hlutu hvatningarverðlaun USÚ. Nánar má lesa um þessar viðurkenningar í frétt sem birtist hér á síðunni innan tíðar.

91. ársþing USÚ

91. ársþing USÚ verður haldið í Nýheimum, mánudaginn 29. apríl næstkomandi, klukkan 18:30.

Um fulltrúa á ársþingi segir m.a. í lögum USÚ:

Á ársþingi hafa allir sambandsaðilar málfrelsi og tillögurétt, en aðeins stjórn og fulltrúar atkvæðisrétt. Stjórnin getur boðið öðrum aðilum þingsetu er hún telur ástæðu til. Aðeins sá sem er félagi innan sambandsins er kjörgengur fulltrúi á ársþingi. Hver þingfulltrúi hefur eitt atkvæði. Allir þingfulltrúar skulu hafa kjörbréf.

Alls eiga 55 fulltrúar rétt á setu á þinginu, misjafnlega margir frá hverju félagi.  Þeir sem hafa áhuga á að mæta ættu að hafa samband við stjórn síns félags.

Gögn fyrir þingið (munu birtast hér þegar nær dregur):

91. ársþing USÚ – ársskýrsla

Tillögur til þings 2024

Ársreikningur USÚ 2023

Umsóknir í Styrktar- og afrekssjóð USÚ – 2023

Merki USÚ

Ungmennasambandið Úlfljótur auglýsir eftir umsóknum í styrktar- og afrekssjóð USÚ.

Umsóknum má skila í tölvupósti á usu@usu.is. Umsóknir þurfa að berast í síðasta lagi föstudaginn 8. september 2023.

Til að auðvelda sjóðsstjórn vinnu við afgreiðslu umsókna þurfa eftirfarandi hlutir að koma fram í umsókn:

  1. Hver sækir um.
  2. Stutt lýsing á því hvers vegna sótt er um.
  3. Upphæð sem óskað er eftir.
  4. Bankaupplýsingar (reikningsnúmer og kennitala).

Ef sótt er um vegna sérstakra verkefna, þarf auk framangreindra atriða að taka fram:

  1. Áætlaður kostnaður.
  2. Hyggst umsækjandi sækjast eftir styrkjum annars staðar?

Reglur og nánari upplýsingar um sjóðinn má finna hér.

90. ársþingi USÚ lokið

Ársþing USÚ, það 90. í röðinni, fór fram á Fosshótel Vatnajökli, fimmtudaginn 23. mars sl. Þingið var vel sótt, en alls mættu 36 fulltrúar af þeim 52 sem rétt áttu á þingsetu, frá sjö af þeim níu félögum sem senda máttu fulltrúa.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ, setti þingið og bauð þingfulltrúa velkomna. Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar, stýrði þinginu og Jón Guðni Sigurðsson, ritari USÚ, ritaði þinggerð.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ, setur 90. ársþing USÚ. (mynd: SÓJ)

Starfsemi USÚ var með nokkuð venjubundnum hætti á árinu 2022. Árið var þó vissulega 90 ára afmælisár sambandsins, en haldið var upp á það á stofndeginum, 28. maí. USÚ sendi fulltrúa á formannafund ÍSÍ í nóvember, en þar áður hafði Sambandsráðsfundur UMFÍ verið haldinn í Nýheimum á Höfn. Það er í fyrsta skipti frá árinu 1990 sem Sambandsráðsfundur hefur verið haldinn á sambandssvæði USÚ. Sambandsþing UMFÍ hefur aldrei farið fram innan sambandssvæðis USÚ og býður það því betri tíma. USÚ átti einnig tvo fulltrúa í hópferð sem farin var til Ósló á vegum UMFÍ í mars. Nánar má lesa um starfið 2022 í skýrslu stjórnar í ársriti USÚ, þar sem jafnframt má kynna sér ársreikning 2022 og starfsskýrslur flestra aðildarfélaga auk starfandi deilda innan Umf. Sindra.

Fimm tillögur frá stjórn USÚ lágu fyrir þinginu.

  • Tillaga 1 var hefðbundin tillaga um hvatningu til félaga að mæta á viðburði hjá UMFÍ og ÍSÍ.
  • Tillaga 2 fólst í því að þingið feli stjórn USÚ að vinna að því að USÚ verði fyrirmyndarhérað ÍSÍ fyrir ársþing 2023.
  • Tillaga 3 fól í sér örlitla breytingu á 8. grein laga USÚ, er varðar útreikning fulltrúafjölda á ársþing USÚ.
  • Tillaga 4 fól í sér tímamótabreytingu á reglum um skiptingu lottótekna innan USÚ. Í henni felst að í stað þess að hvert aðildarfélag fái alltaf sömu hlutfallstöluna, líkt og verið hefur frá árinu 1999, þá er hlut aðildarfélaganna skipt þannig að 20% verði skipt jafnt, 40% verði skipt eftir fjölda iðkenda 6-16 ára, 20% verði skipt eftir fjölda annarra iðkenda og 20% verði skipt eftir félagsmannafjölda. Þá var einnig sett inn ákvæði um hvenær ný aðildarfélög geti fengið úthlutað lottófé.
  • Tillaga 5 var svo fjárhagsáætlun, en USÚ hefur ekki sett sér fjárhagsáætlun í býsna mörg ár. Það er liður í vinnu við fyrirmyndarhérað að héraðið setji sér fjárhagsáætlun.

Þó nokkrar umræður urðu um tillögu 4. Fram kom frestunartillaga, en tillagan eins og hún kom frá stjórn var að lokum samþykkt með naumum meirihluta greiddra atkvæða. Hægt er að kynna sér nýjar reglur um skiptingu lottótekna hér. Allar aðrar tillögur voru samþykktar samhljóða.

Þingfulltrúar á 90. ársþingi USÚ. (mynd: SÓJ)

Engar breytingar urðu á stjórn USÚ. Jóhanna Íris Ingólfsdóttir er áfram formaður, Jón Guðni Sigurðsson ritari og Sigurður Óskar Jónsson gjaldkeri. Hannes Halldórsson gaf kost á sér áfram sem varamaður, en það gerði Ásta Steinunn Eiríksdóttir ekki. Í hennar stað var Björgvin Hlíðar Erlendsson kosinn varamaður.

Þórey Edda Elísdóttir, 1. varaforseti ÍSÍ, sótti þingið fyrir hönd ÍSÍ. Hún bað fyrir kveðju frá framkvæmdastjórn og starfsfólki ÍSÍ og sagði frá ýmsum verkefnum sem ÍSÍ stendur fyrir. Þórey Edda sæmdi að lokum Gest Halldórsson, fráfarandi formann Golfklúbbs Hornafjarðar, silfurmerki ÍSÍ. Eftirfarandi texti fylgdi tilnefningu Gests:

Gestur hefur tengst íþróttahreyfingunni um langt árabil. Núna síðast sem formaður Golfklúbbs Hornafjarðar, en hann lét af því embætti nú á dögunum eftir a.m.k. áratugar stjórnarsetu. Undanfarin ár hefur Gestur reyndar lítið getað sinnt sínum eigin golfáhuga, því mikið hefur verið að gera í klúbbsstarfinu. Golfklúbburinn hefur t.d. verið að endurnýja vallarhúsið sitt, með Gest í broddi fylkingar, enda gengur hann í öll störf sem þar þarf að sinna, og auðvitað alls konar verk úti á velli að auki. Fyrir stjórnunarstörfin í Golfklúbbnum sat Gestur í stjórn Umf. Sindra um tíma auk þess sem hann stýrði getraunastarfi knattspyrnudeildar Sindra með miklum myndarbrag um árabil. Þá sat Gestur í stjórn Styrktar- og afrekssjóðs USÚ í tæpan áratug, frá 2011 til 2020.

Þórey Edda Elísdóttir, 1. varaforseti ÍSÍ og Gestur Halldórsson, silfurmerkishafi ÍSÍ. (mynd SÓJ)

Stjórn USÚ óskar Gesti innilega til hamingju með viðurkenninguna.

Sigurður Óskar Jónsson, nú í hlutverki ritara UMFÍ, flutti kveðju frá stjórn og starfsfólki UMFÍ. Hann fjallaði m.a. um stefnumótun UMFÍ, nýja þjónustumiðstöð UMFÍ að Engjavegi 6 í Reykjavík og þær leiðu fréttir að Ungmennabúðunum að Laugarvatni hafi verið lokað nýverið. Hann sagði jafnframt frá þeim viðburðum sem UMFÍ stendur fyrir á árinu. Sigurður Óskar sæmdi að lokum Jóhönnu Írisi Ingólfsdóttur, formann USÚ, starfsmerki UMFÍ. Eftirfarandi texti fylgdi tilnefningu Jóhönnu Írisar:

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir kom inn í stjórn USÚ árið 2015. Hún sat fyrsta árið sem ritari, en tók svo við sem formaður 2016 og hefur sinnt því hlutverki síðan. Hún er nú þegar orðin meðal þaulsetnustu formanna USÚ frá upphafi, en hún er í fjórða sæti á þeim lista. Hún hefur undanfarið kjörtímabil stjórnar UMFÍ setið í vinnuhópi um íþróttahéruð og lottóreglur hjá UMFÍ og einnig í Útgáfu- og kynningarnefnd UMFÍ. Þar að auki hefur hún tvisvar verið í undirbúningsnefnd Unglingalandsmóta, 2013 og 2019, í fyrra skiptið sem ritari og í síðara skiptið sem keppnisstjóri og formaður USÚ. Þá hefur hún verið formaður yngriflokkaráðs körfuknattleiksdeildar Sindra undanfarið ár og var endurkjörin á aðalfundi í síðustu viku. Jóhanna er drífandi og alltaf til í að hjálpa til og virðist alltaf hafa nægan tíma fyrir sjálfboðaliðastarf, þó hún sé ung fjögurra barna móðir, í fullu starfi og yfirleitt í fullu námi líka. Ungmennafélagsandinn svífur svo sannarlega yfir vötnum hjá Jóhönnu.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, starfsmerkishafi UMFÍ og Sigurður Óskar Jónsson, ritari UMFÍ. (mynd JGS)

Ritari og gjaldkeri USÚ óska Jóhönnu Írisi innilega til hamingju með viðurkenninguna.

Íþróttamaður USÚ fyrir árið 2022 var útnefndur á þinginu, auk þess sem fimm ungir iðkendur hlutu hvatningarverðlaun USÚ. Nánar má lesa um þessar viðurkenningar í frétt sem birtast mun hér á síðunni innan tíðar.

90. ársþing USÚ

90. ársþing USÚ verður haldið á Fosshótel Vatnajökli, fimmtudaginn 23. mars næstkomandi, klukkan 17:00.

Um fulltrúa á ársþingi segir m.a. í lögum USÚ:

Á ársþingi hafa allir sambandsaðilar málfrelsi og tillögurétt, en aðeins stjórn og fulltrúar atkvæðisrétt. Stjórnin getur boðið öðrum aðilum þingsetu er hún telur ástæðu til. Aðeins sá sem er félagi innan sambandsins er kjörgengur fulltrúi á ársþingi. Hver þingfulltrúi hefur eitt atkvæði. Allir þingfulltrúar skulu hafa kjörbréf.

Alls eiga 52 fulltrúar rétt á setu á þinginu, misjafnlega margir frá hverju félagi.  Þeir sem hafa áhuga á að mæta ættu að hafa samband við stjórn síns félags.

Gögn fyrir þingið (munu birtast hér þegar nær dregur):

90. ársþing USÚ – ársskýrsla

Tillögur til þings 2023

Fjárhagsáætlun USÚ 2023

Ársreikningur USÚ 2022

Umsóknir í Styrktar- og afrekssjóð USÚ – síðari úthlutun 2022

Merki USÚ

Ungmennasambandið Úlfljótur auglýsir eftir umsóknum í styrktar- og afrekssjóð USÚ. Umsóknum má skila í tölvupósti á usu@usu.is, eða skriflega í Heklu, Hafnarbraut 15. Umsóknir þurfa að berast í síðasta lagi mánudaginn 12. desember.

Til að auðvelda sjóðsstjórn vinnu við afgreiðslu umsókna þurfa eftirfarandi hlutir að koma fram í umsókn:

  1. Hver sækir um.
  2. Stutt lýsing á því hvers vegna sótt er um.
  3. Upphæð sem óskað er eftir.
  4. Bankaupplýsingar (reikningsnúmer og kennitala).

Ef sótt er um vegna sérstakra verkefna, þarf auk framangreindra atriða að taka fram:

  1. Áætlaður kostnaður.
  2. Hyggst umsækjandi sækjast eftir styrkjum annars staðar?

Reglur og nánari upplýsingar um sjóðinn má finna hér.

Umsóknir í Styrktar- og afrekssjóð USÚ 2022

Merki USÚ

Ungmennasambandið Úlfljótur auglýsir eftir umsóknum í styrktar- og afrekssjóð USÚ. Umsóknum má skila í tölvupósti á usu@usu.is, eða skriflega í Heklu, Hafnarbraut 15. Umsóknir þurfa að berast í síðasta lagi mánudaginn 6. júní.

Til að auðvelda sjóðsstjórn vinnu við afgreiðslu umsókna þurfa eftirfarandi hlutir að koma fram í umsókn:

  1. Hver sækir um.
  2. Stutt lýsing á því hvers vegna sótt er um.
  3. Upphæð sem óskað er eftir.
  4. Bankaupplýsingar (reikningsnúmer og kennitala).

Ef sótt er um vegna sérstakra verkefna, þarf auk framangreindra atriða að taka fram:

  1. Áætlaður kostnaður.
  2. Hyggst umsækjandi sækjast eftir styrkjum annars staðar?

Reglur og nánari upplýsingar um sjóðinn má finna hér.