Á 92. ársþingi USÚ, sem fram fór á Hrollaugsstöðum 22. apríl s.l. var íþróttamaður USÚ fyrir árið 2024 heiðraður. Einnig fengu fimm ungir iðkendur hvatningarverðlaun.
Íþróttamaður USÚ 2024 er Ída Mekkín Hlynsdóttir

Ída Mekkín æfir og keppir fyrir hönd Hestamannafélagsins Hornfirðings.
Undirbúningur fyrir Landsmót Hestamanna sem haldið var í Reykjavík 2024 byrjaði snemma hjá Ídu og miðaði þjálfunarferlið að því að hestur og knapi myndu toppa á réttum tíma og sýna sitt allra besta þegar á landsmótið væri komið. Þar hjálpaði til þátttaka í hæfileikamótun Landssambands Hestamanna og keppnisreynsla í Meistaradeild Líflands og æskunnar sem og ráðgjöf frá reyndu keppnisfólki og reiðkennurum.
Á landsmótinu, stærsta sviði hestamennskunnar á Íslandi, stóð Ída Mekkin uppi sem sigurvegari þegar hún sigraði gæðingaflokk unglinga. Keppnin var ótrúlega jöfn og spennan var næstum óbærileg á meðan beðið var eftir síðustu einkunnum fyrir yfirferðagang og ásetu. Þegar búið var að lesa þær upp var ljóst að Ída Mekkín Hlynsdóttir og Marín frá Lækjarbrekku voru sigurvegarar A-úrslita með einkunnina 8,96. Til gamans má geta að dómararnir fimm sem dæmdu úrslitin gáfu Ídu Mekkín og Marín 14 sinnum yfir einkunnina 9,0. Ída Mekkin er sannarlega vel að viðurkenningunni komin.
Eftirtaldir hlutu hvatningarverðlaun USÚ fyrir árið 2024:
Hlynur Ingi Finnsson
Hlynur Ingi er ungur körfuboltamaður hjá Sindra, sem býr yfir miklum hæfileikum og löngun til að bæta sig. Hann hefur mikinn metnað fyrir æfingunum og er að taka örugg skref í átt að því að verða atvinnumaður í körfubolta einn daginn. Vinnusemi hans og háttsemi er til fyrirmyndar fyrir unga körfuboltaiðkendur og ef hann heldur áfram á þessari braut verður framtíð hans björt á körfuboltavellinum. (Þess má til gamans geta að Hlynur er sonur Jóhönnu).
Margrét María Aradóttir
Margrét María Aradóttir er iðkandi hjá blakdeild Sindra. Hún hefur æft blak frá 11 ára aldri og keppti með yngri flokkunum. Í dag er hún leikmaður meistaraflokks og spilar þar með liðinu sem leikur í 1. deildinni og því sem leikur í 6. deild. Margrét er mjög áhugasöm um íþróttina. Hún kom inn í þjálfarateymi yngri flokka á síðustu önn og sinnir því starfi af alúð og metnaði. Hún er góð fyrirmynd fyrir unga blakara.
Oskar Karol Jarosz

Oskar er markvörður hjá meistaraflokki Sindra í knattspyrnu. Hann hefur stigið upp sem aðalmarkvörður liðsins þrátt fyrir ungan aldur og hefur stýrt liðinu með ákveðnum hætti af öftustu línu vallarins. Hann hefur staðið sig frábærlega og er gríðarlega mikilvægur leikmaður fyrir liðið.
Rami Omar Zriouil
Rami er ungur körfuboltamaður hjá Sindra, sem á alla athygli skilið fyrir hæfileika sína, skuldbindingu og vinnusemi. Hvaða þjálfari sem er væri ánægður með að vinna með honum og horfa á hann bæta sig á allan hátt. Hann er mjög einbeittur, æfir stíft og það er enginn vafi á því að það mun leiða hann til mikilla framfara. Hann er mjög góður liðsfélagi og fyrirmynd fyrir unga körfuboltaiðkendur.
Thelma Björg Gunnarsdóttir
Thelma Björg er ungur knattspyrnuiðkandi hjá Sindra, sem hefur verið að stíga stór skref á knattspyrnuvellinum. Þrátt fyrir ungan aldur er hún ómissandi í liði meistaraflokks kvenna og stóð sig afar vel á síðasta tímabili. Hún hefur einnig verið valin í landsliðshópa og keppt erlendis fyrir Íslands hönd. Thelma Björg á svo sannarlega framtíðina fyrir sér í knattspyrnu. Þess má til gamans geta að Thelma er dóttir Gunnars Inga, sem hlaut silfurmerki ÍSÍ á þinginu og Guðbjargar, sem kosin var varamaður í stjórn USÚ.
Stjórn USÚ óskar öllum verðlaunahöfum innilega til hamingju með viðurkenningarnar.