Á dögunum gáfu ÍSÍ og UMFÍ út frétt þess efnis að búið væri að ráða í 14 af þeim 16 stöðugildum sem sinna munu svæðisstöðvum ÍSÍ og UMFÍ. Svæðisstöðvar íþróttahéraðanna eru átta um allt land og eru tvö stöðugildi á hverri stöð. Rúmlega 200 einstaklingar sóttu um störfin 16 sem auglýst voru.
UÍA og USÚ deila svæði og hafa þau Jóhann Árni Ólafsson og Jóhanna Íris Ingólfsdóttir verið ráðin starfsmenn svæðisins.
Jóhann Árni verður staðsettur á Egilsstöðum. Hann er með BS í íþróttafræði og MSc í vinnustaðasálfræði. Jóhann Árni kemur frá Grindavík þar sem hann hefur starfað undanfarin ár, meðal annars sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla í körfubolta.
Jóhanna Íris verður staðsett á Höfn í Hornafirði. Hún er með BA í miðlun og almannatengslum. Jóhanna Íris er uppalin á Höfn og hefur verið formaður USÚ síðastliðin átta ár.
Um svæðisstöðvarnar
UMFÍ og ÍSÍ hafa lengi starfrækt vinnuhópa til að skoða stöðu íþróttahéraða í landinu. 25 íþróttahéruð eru um land allt, með mjög mismunandi starfsemi og virkni. Frá árinu 2022 hafa öll íþróttabandalög landsins, að einu undanskildu, orðið aðilar að UMFÍ. Það, auk mismunandi úthlutun fjármagns frá lottó til íþróttahéraðanna og aðildarfélaga og mismunandi reglur hjá ÍSÍ og UMFÍ kölluðu á endurskoðun. Sameiginlegar nefndir samtakanna hafa unnið tillögur varðandi samræmda skiptingu lottófjármuna sem stjórnir og nefndir samtakanna hafa komið sér saman um. Skoða má skiptinguna hér. Tillögur um stofnun svæðisstöðvanna voru samþykktar á þingi ÍSÍ vorið 2023 og á þingi UMFÍ haustið 2023 með þeim fyrirvara að ríkið kæmi einnig að verkefninu.
18. desember 2023 undirrituðu forseti ÍSÍ, formaður UMFÍ og mennta- og barnamálaráðherra samning um eflingu íþróttastarfs á landsvísu með því að koma á fót svæðisskrifstofum og hvatasjóði. Svæðisstöðvunum er ætlað að styðja íþróttahéruð landsins við að auka þátttöku barna og ungmenna í íþróttastarfi með sérstaka áherslu á þátttöku fatlaðra barna, barna af tekjulægri heimilum og barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn, ásamt því að vinna að innleiðingu á stefnu ríkisins og íþróttahreyfingarinnar í íþróttamálum.
Hlutverk svæðisstöðvanna er einnig að þjónusta íþróttahéruðin í nærumhverfi sínu með samræmdum hætti. Horft er til þess að sterkari íþróttahéruð og svæðisstöðvar um allt land auki skilvirkni innan íþróttahreyfingarinnar og geri þeim kleift að takast á við núverandi og fyrirséð verkefni, styrkja stefnumótandi vinnu og aðgerðir á landsvísu og stuðla þannig að farsæld barna og annarra sem nýta þjónustu hreyfingarinnar. Áhersla er á að niðurstaðan tryggi aukið fjármagn út á land, samræmdar reglur verði óháð aðild að samtökunum og sérstök áhersla lögð á að uppfylla markmið samtakanna og stjórnvalda.
Ráðningarferðlið
Í byrjun mars var Hanna Carla Jóhannsdóttir ráðin til að stýra innleiðingu og samræmingu á svæðastöðvum íþróttahéraða. Hanna Carla er íþróttafræðingur að mennt með mastersgráðu í forystu og stjórnun. Um er að ræða tímabundna ráðningu.
Fyrstu skrefin fyrir svæðisstöðvarnar voru unnin með tengiliðum sem tilnefndir voru frá hverju íþróttahéraði í ráðningarferlinu í samstarfi við Hagvang. Næstu skref í ferlinu tengjast praktískum atriðum á borð við aðgengi að gagnasöfnum og staðsetningu viðkomandi starfsmanns á hverjum stað. Í ágúst verður fundað um þjónustusamninga við íþróttahéruð og aðgerðaráætlun mótuð fyrir hvert svæði.
Framtíðarsýn með fyrirkomulagi svæðisstöðvanna er að fyrirkomulagið skili sér í betri nýtingu á mannauði. Stuðningur við einstaka íþróttafélög verði meiri og þar af leiðandi verði þjónusta við iðkendur betri. Jafnframt er það framtíðarsýn að sem flestir hafi tækifæri til að stunda íþróttir á því sviði sem þeir kjósa, hvort heldur til ánægju, heilsubótar eða með afreksárangur að markmiði.
Sjá nánar: