91. ársþingi USÚ lokið

Ársþing USÚ, það 91. í röðinni, fór fram í Nýheimum, mánudaginn 29. apríl sl. Þingið var mjög vel sótt, en alls mættu 44 fulltrúar af þeim 55 sem rétt áttu á þingsetu. Annað ánægjuefni var að það mættu fulltrúar frá öllum níu félögum USÚ á þingið.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ, setti þingið og bauð þingfulltrúa velkomna. Ragnheiður Högnadóttir, sem situr í stjórn UMFÍ, stýrði þinginu og Jón Guðni Sigurðsson, ritari USÚ, ritaði þinggerð.

Skýrsla stjórnar kynnt. (Mynd: SÓJ)

Starfsemi USÚ var með nokkuð venjubundnum hætti á árinu 2023. USÚ sendi fulltrúa öll þau þing og fundi sem ætlast er til, t.d. á íþróttaþing ÍSÍ í maí, Vorfund UMFÍ í maí, Sambandsþing UMFÍ í október, þar sem Sigurður Óskar Jónsson náði endurkjöri í stjórn UMFÍ til næstu tveggja ára. Einnig átti USÚ fulltrúa á ráðstefnunni “Vinnum gullið” í nóvember. Nánar má lesa um starfið 2023 í skýrslu stjórnar í ársriti USÚ, þar sem jafnframt má kynna sér ársreikning 2023 og starfsskýrslur flestra aðildarfélaga auk starfandi deilda innan Umf. Sindra.

Ragnheiður Högnadóttir, sem eins og áður segir situr í stjórn UMFÍ, flutti kveðju frá stjórn og starfsfólki UMFÍ. Hún fjallaði m.a. um breytingar á lottóreglugerðum UMFÍ og ÍSÍ og stofnun átta nýrra svæðaskrifstofa íþróttahreyfingarinnar um allt land. Svæðaskrifstofurnar munu styrkja nærsamfélag íþróttahéraðanna, verða til hagsbóta fyrir iðkendur og styrkja íþróttalífið um allt land. Þær falla vel að áherslum og stefnu mennta- og barnamálaráðuneytis í íþróttamálum,  þar sem horft er til þess að auka íþróttaþátttöku barna og ungmenna, auka áherslu á þátttöku fatlaðra barna í íþróttastarfi , ná betur til barna af tekjulægri heimilum og barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Hún sagði einnig frá því að nýverið hefði Íþróttabandalag Suðurnesja gengið í UMFÍ og fyrir lægi aðildarumsókn frá Íþróttabandalagi Reykjanesbæjar. Eftir stendur Íþróttabandalag Vestmannaeyja, sem eina íþróttahérað landsins sem ekki tilheyrir UMFÍ. Þá sagði Ragnheiður frá þeim viðburðum sem UMFÍ stendur fyrir á árinu.

Að lokum sæmdi Ragnheiður einn ungmennafélaga starfsmerki UMFÍ, Ingu Kristínu Sveinbjörnsdóttur. Eftirfarandi texti fylgdi tilnefningu Ingu Kristínar:

Inga Kristín Sveinbjörnsdóttir hefur unnið ötult starf innan ungmennafélagshreyfingarinnar í fjölmörg ár. Hún fór fyrst að starfa sem sjálfboðaliði innan USÚ árið 1972, þá 14 ára að aldri. Hún sat í stjórn USÚ um árabil bæði sem varaformaður, gjaldkeri og meðstjórnandi. Einnig sat hún í úthlutunarnefnd afrekssjóðs og í Unglingalandsmótsnefnd árið 2007. Hún hefur svo verið skoðunarmaður reikninga fyrir USÚ í fjölda ára og sinnir því starfi enn í dag. Inga Kristín sat einnig í stjórn frjálsíþróttadeildar Ungmennafélagsins Sindra i u.þ.b. 20 ár og í aðalstjórn í um 10 ár. Síðast sat hún svo í stjórn Golfklúbbs Hornafjarðar en vék úr stjórn á síðasta aðalfundi klúbbsins, þá hafði hún setið í 6 ár.

Stjórn USÚ óskar Ingu Kristínu innilega til hamingju með viðurkenninguna.

Ragnheiður Högnadóttir sæmdi Ingu Kristínu Sveinbjörnsdóttur starfsmerki UMFÍ.

Enginn sá sér fært að mæta frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands að þessu sinni, en kveðja frá þeim var lesin upp á þinginu.

Fjórar tillögur frá stjórn USÚ lágu fyrir þinginu.

  • Tillaga 1 var hefðbundin tillaga um hvatningu til félaga að mæta á viðburði hjá UMFÍ og ÍSÍ.
  • Tillaga 2 var lítil breyting á reglugerð um skiptingu lottótekna innan USÚ, þess efnis að hlutur aðalstjórnar USÚ, sem hefur verið 15% af heildarpottinum, lækki í 5% og hlutur Styrktar- og afrekssjóðs USÚ hækki úr 5% í 15% í staðinn. Þetta er gert til þess að milda áhrif minnkandi lottófjár í kjölfar breytinga á úthlutunarreglum lottós á landsvísu á möguleika USÚ til að styrkja afreksfólk á sambandssvæðinu.
  • Tillaga 3 fólst í því að skattur aðildarfélaga, skv. 6. gr. laga USÚ, verði 0 kr. árið 2024.
  • Tillaga 4 var svo fjárhagsáætlun fyrir árið 2024.

Allar tillögurnar voru samþykktar samhljóða, en þó varð nokkur umræða um tillögu 2.

Þingfulltrúar (mynd: SÓJ)

Engar breytingar urðu á stjórn USÚ. Jóhanna Íris Ingólfsdóttir er áfram formaður, Jón Guðni Sigurðsson ritari og Sigurður Óskar Jónsson gjaldkeri. Hannes Halldórsson og Björgvin Hlíðar Erlendsson halda einnig áfram sem varamenn.

Íþróttamaður USÚ fyrir árið 2023 var útnefndur á þinginu, auk þess sem fjórir ungir iðkendur hlutu hvatningarverðlaun USÚ. Nánar má lesa um þessar viðurkenningar í frétt sem birtist hér á síðunni innan tíðar.