Styrktar- og afrekssjóður USÚ

Styrktar- og afrekssjóður USÚ er í umsjá stjórnar USÚ auk tveimur fulltrúum aðildarfélaga sem ekki ekki eiga fulltrúa í aðalstjórn.  Smellið hér til að sjá hverjir það eru.  Úthlutað er úr sjóðnum tvisvar sinnum á ári, yfirleitt vor og haust.  Auglýst skal eftir umsóknum með eins mánaðar fyrirvara.

 

Lög styrktar- og afrekssjóðs USÚ

1. grein

Sjóðurinn skal heita Styrktar- og afrekssjóður USÚ.

2. grein

Tilgangur sjóðsins er að styrkja hornfirska afreksmenn til æfinga og keppni og einnig til verkefna sem auðga og efla ungmenna- og íþróttastarf á sambandssvæðinu. Skilyrði fyrir styrk er að umsækjandi eigi lögheimili eða hafi að jafnaði fasta búsetu í Sveitarfélaginu Hornafirði. Við styrkveitingar njóta félagar í aðildarfélögum USÚ forgangs.

3. grein

Stjórn sjóðsins skipa 5 menn, 2 úr stjórn USÚ ásamt 2 fulltrúum aðildarfélaga sem ekki eiga stjórnarmenn og einn frá Sveitarfélaginu Hornafirði.  Fulltrúar USÚ skulu valdir á þingi USÚ.  Stjórnin skiptir með sér verkum á fyrsta fundi og heldur sérstaka gerðarbók.

4. grein

Tekjur sjóðsins verða:

  • Ákveðið hlutfall af lottótekjum USÚ, skv. Reglugerð hverju sinni.
  • Árlegt framlag Sveitarfélagsins Hornafjarðar.
  • Frjáls framlög sem sjóðnum berast.

5. grein

Að jafnaði skal ekki veita meira fé úr sjóðnum en sem nemur innkomu hans á hverju ári.

6. grein

Heimilt er að úthluta úr sjóðnum tvisvar sinnum á ári. Auglýst skal eftir umsóknum með eins mánaðar fyrirvara. Sjóðsstjórn ákveður styrkupphæð hverju sinni.

7. grein

Til þess að sækja um styrk þarf að senda stjórn USÚ umsókn, í samræmi við auglýsingu hverju sinni. Umsóknir sem berast á öðrum tímum skulu teknar til afgreiðslu við næstu úthlutun.

8. grein

Sjóðsstjórn skal á hverju ársþingi USÚ gera grein fyrir styrkveitingum úr sjóðnum.

9. grein

Skoðunarmenn reikninga USÚ eru jafnframt skoðunarmenn reikninga sjóðsins.

10. grein

Funda skal sem fyrst eftir að umsóknarfrestur rennur út. Formaður sjóðsstjórnar skal boða til fundarins. Öllum umsóknum skal svarað skriflega.

11. grein

Breytingar á reglugerð þessari er hægt að gera á ársþingi USÚ að fengnu samþykki meirihluta atkvæða.

Síðast breytt á 85. ársþingi USÚ, 12. mars 2018