83. ársþingi USÚ lokið

Ársþing USÚ, það 83. í röðinni fór fram á Hótel Höfn í gær, 17. mars.  Þingið var ágætlega sótt, 30 fulltrúar af 41 mættu frá flestum félögum.  Því miður mætti enginn frá Akstursíþróttafélagi Austur-Skaftafellssýslu.

Sindrakonur við veitingaborðið. (Mynd: SÓJ)
Sindrakonur við veitingaborðið. (Mynd: SÓJ)
30 fulltrúar mættu á þingið. (Mynd: SÓJ)
30 fulltrúar mættu á þingið. (Mynd: SÓJ)

Ýmislegt var á döfinni hjá USÚ á árinu og má þar nefna unglingalandsmót sem haldið var á Akureyri um verslunarmannahelgina og hreyfivikuna sem haldin hefur verið undanfarin haust.  Nú verður breyting á og næsta hreyfivika verður 23.-29. maí n.k.

USÚ sendi sína fulltrúa á þá fundi og þing sem okkur bar, eins og sambandsþing UMFÍ og Íþróttaþing ÍSÍ svo eitthvað sé nefnt.  Vorfundur UMFÍ var með heldur óvenjulegu sniði árið 2015, en hann var haldinn í formi námsferðar til Danmerkur um miðjan maí. Farið var í heimsókn til DGI (sem eru einskonar dönsk systursamtök UMFÍ) og ISCA (sem eru alþjóðleg íþróttasamtök sem halda t.d. MoveWeek víða um heim).  Sigurður Óskar Jónsson, fór í ferðina fyrir hönd USÚ.

Dagana 22. – 23. janúar s.l. var haldin skemmtihelgi á vegum Ungmennaráðs UMFÍ. Yfirskrift helgarinnar var Framtíðar frumkvöðlar.  USÚ átti tvo fulltrúa á þessum viðburði sem byrjaði á námskeiði í þjónustumiðstöð UMFÍ og endaði í Vogum á Vatnsleysuströnd, með ratleik í millitíðinni.  Fulltrúar USÚ voru Birkir Freyr Elvarsson og Kristján Vilhelm Gunnarsson.

Þrjár tillögur frá stjórn lágu fyrir þinginu.  Fyrst má nefna hvatningu til ungmennafélaga til að fjölmenna á Landsmót UMFÍ 50+ á Ísafirði 10.-12. júní n.k. og á unglingalandsmót UMFÍ í Borgarnesi um verslunarmannahelgina.

Þá voru samþykktar breytingar á lögum styrktar- og afrekssjóðs USÚ.  Sveitarfélagið Hornafjörður mun leggja ákveðið fjármagn í sjóðinn frá og með næstu áramótum og því mun það fjármagn sem í boði er aukast umtalsvert frá því sem hefur verið.  Út af þessari breytingu þurfti að breyta lögum sjóðsins, en þau má finna hér.

Að lokum var samþykkt reglugerð um það hvernig velja eigi íþróttamann USÚ ár hvert. Ferlið hefur ekki verið ákveðið undanfarin ár og því fannst stjórninni rétt að setja upp leiðbeininingar um það hvernig haga skuli valinu. Reglugerðina má lesa hér.

Hægt er að sjá allar tillögurnar eins og þær voru lagðar fyrir þingið, í ársriti USÚ, hér neðst í fréttinni.

Páll Róbert Matthíasson, formaður USÚ, gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Stungið var upp á Kristjáni Erni Ebenezarsyni í hans stað og var það samþykkt. Samkvæmt lögum USÚ skiptir ný stjórn með sér verkum á fyrsta fundi, en hana skipa auk Kristjáns, Jóhanna Íris Ingólfsdóttir og Sigurður Óskar Jónsson.  Nýkjörin stjórn þakkar Páli Róberti kærlega fyrir sín störf í þágu ungmennafélagshreyfingarinnar.

Gunnar Gunnarsson, stjórnarmaður í UMFÍ og formaður UÍA, flutti ávarp. Hann hvatti menn t.d. til að sækja um styrki til Evrópu Unga Fólksins, en UÍA hefur einmitt verið duglegt að nýta sér það undanfarið.  Gunnar steig svo aftur í pontu undir lok þings og sæmdi Matthildi Ásmundardóttur starfsmerki UMFÍ.

Gunnar Gunnarsson veitti Matthildi Ásmundardóttur starfsmerki UMFÍ. (Mynd: SÓJ)
Gunnar Gunnarsson veitti Matthildi Ásmundardóttur starfsmerki UMFÍ. (Mynd: SÓJ)

Helga Steinunn Guðmundsdóttir, varaforseti ÍSÍ flutti einnig ávarp þar sem hún fjallaði m.a. um að árið 2016 væri ólympíuár og gera mætti ráð fyrir um 13-15 íslenskum keppendum á ólympíuleikunum í Rio de Janeiro í sumar. Hún minnti líka á að óvenju mikilvægt er að aðildarfélög ÍSÍ skili sínum starfsskýrslum á réttum tíma inn í félagakerfið Felix.  Verið er að taka í notkun nýtt kerfi sem gefa á út sem allra fyrst eftir að starfsskýrsluskilum lýkur.  Helga lauk svo máli sínu með því að sæma Valdemar Einarsson, fráfarandi framkvæmdastjóra Sindra, gullmerki ÍSÍ.

Helga Steinunn Guðmundsdóttir, varaforseti ÍSÍ, veitti Valdemar Einarssyni gullmerki ÍSÍ. (Mynd: SÓJ)
Helga Steinunn Guðmundsdóttir, varaforseti ÍSÍ, veitti Valdemar Einarssyni gullmerki ÍSÍ. (Mynd: SÓJ)

Íþróttamaður ársins var útnefndur á þinginu auk þess sem þrír ungir iðkendur hlutu hvatningarverðlaun USÚ fyrir árið 2015. Nánar má lesa um þessar viðurkenningar í frétt sem birtast á síðunni síðar í kvöld eða á morgun.

Hér er hægt að lesa skýrslu stjórnar USÚ fyrir árið 2015.  Reikningar sambandsins eru í skýrslunni og einnig er þar að finna starfsskýrslur flestra aðildarfélaga.  Þegar þetta er ritað vantar enn skýrslur frá Akstursíþróttafélagi Austur-Skaftafellssýslu og Golfklúbbi Hornafjarðar.  Þeim verður bætt við þegar þær berast.  Skýrsla frá Skotfélagi Austur-Skaftafellssýslu barst eftir að ársritið fór í prentun og því er hún bara í þessari útgáfu, ekki prentútgáfunni: 83.-ársþing-USÚ-ársskýrsla-2.-útg.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *