Umsóknir í Styrktar- og afrekssjóð USÚ – 2023

Merki USÚ

Ungmennasambandið Úlfljótur auglýsir eftir umsóknum í styrktar- og afrekssjóð USÚ.

Umsóknum má skila í tölvupósti á usu@usu.is. Umsóknir þurfa að berast í síðasta lagi föstudaginn 8. september 2023.

Til að auðvelda sjóðsstjórn vinnu við afgreiðslu umsókna þurfa eftirfarandi hlutir að koma fram í umsókn:

 1. Hver sækir um.
 2. Stutt lýsing á því hvers vegna sótt er um.
 3. Upphæð sem óskað er eftir.
 4. Bankaupplýsingar (reikningsnúmer og kennitala).

Ef sótt er um vegna sérstakra verkefna, þarf auk framangreindra atriða að taka fram:

 1. Áætlaður kostnaður.
 2. Hyggst umsækjandi sækjast eftir styrkjum annars staðar?

Reglur og nánari upplýsingar um sjóðinn má finna hér.

90. ársþingi USÚ lokið

Ársþing USÚ, það 90. í röðinni, fór fram á Fosshótel Vatnajökli, fimmtudaginn 23. mars sl. Þingið var vel sótt, en alls mættu 36 fulltrúar af þeim 52 sem rétt áttu á þingsetu, frá sjö af þeim níu félögum sem senda máttu fulltrúa.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ, setti þingið og bauð þingfulltrúa velkomna. Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar, stýrði þinginu og Jón Guðni Sigurðsson, ritari USÚ, ritaði þinggerð.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ, setur 90. ársþing USÚ. (mynd: SÓJ)

Starfsemi USÚ var með nokkuð venjubundnum hætti á árinu 2022. Árið var þó vissulega 90 ára afmælisár sambandsins, en haldið var upp á það á stofndeginum, 28. maí. USÚ sendi fulltrúa á formannafund ÍSÍ í nóvember, en þar áður hafði Sambandsráðsfundur UMFÍ verið haldinn í Nýheimum á Höfn. Það er í fyrsta skipti frá árinu 1990 sem Sambandsráðsfundur hefur verið haldinn á sambandssvæði USÚ. Sambandsþing UMFÍ hefur aldrei farið fram innan sambandssvæðis USÚ og býður það því betri tíma. USÚ átti einnig tvo fulltrúa í hópferð sem farin var til Ósló á vegum UMFÍ í mars. Nánar má lesa um starfið 2022 í skýrslu stjórnar í ársriti USÚ, þar sem jafnframt má kynna sér ársreikning 2022 og starfsskýrslur flestra aðildarfélaga auk starfandi deilda innan Umf. Sindra.

Fimm tillögur frá stjórn USÚ lágu fyrir þinginu.

 • Tillaga 1 var hefðbundin tillaga um hvatningu til félaga að mæta á viðburði hjá UMFÍ og ÍSÍ.
 • Tillaga 2 fólst í því að þingið feli stjórn USÚ að vinna að því að USÚ verði fyrirmyndarhérað ÍSÍ fyrir ársþing 2023.
 • Tillaga 3 fól í sér örlitla breytingu á 8. grein laga USÚ, er varðar útreikning fulltrúafjölda á ársþing USÚ.
 • Tillaga 4 fól í sér tímamótabreytingu á reglum um skiptingu lottótekna innan USÚ. Í henni felst að í stað þess að hvert aðildarfélag fái alltaf sömu hlutfallstöluna, líkt og verið hefur frá árinu 1999, þá er hlut aðildarfélaganna skipt þannig að 20% verði skipt jafnt, 40% verði skipt eftir fjölda iðkenda 6-16 ára, 20% verði skipt eftir fjölda annarra iðkenda og 20% verði skipt eftir félagsmannafjölda. Þá var einnig sett inn ákvæði um hvenær ný aðildarfélög geti fengið úthlutað lottófé.
 • Tillaga 5 var svo fjárhagsáætlun, en USÚ hefur ekki sett sér fjárhagsáætlun í býsna mörg ár. Það er liður í vinnu við fyrirmyndarhérað að héraðið setji sér fjárhagsáætlun.

Þó nokkrar umræður urðu um tillögu 4. Fram kom frestunartillaga, en tillagan eins og hún kom frá stjórn var að lokum samþykkt með naumum meirihluta greiddra atkvæða. Hægt er að kynna sér nýjar reglur um skiptingu lottótekna hér. Allar aðrar tillögur voru samþykktar samhljóða.

Þingfulltrúar á 90. ársþingi USÚ. (mynd: SÓJ)

Engar breytingar urðu á stjórn USÚ. Jóhanna Íris Ingólfsdóttir er áfram formaður, Jón Guðni Sigurðsson ritari og Sigurður Óskar Jónsson gjaldkeri. Hannes Halldórsson gaf kost á sér áfram sem varamaður, en það gerði Ásta Steinunn Eiríksdóttir ekki. Í hennar stað var Björgvin Hlíðar Erlendsson kosinn varamaður.

Þórey Edda Elísdóttir, 1. varaforseti ÍSÍ, sótti þingið fyrir hönd ÍSÍ. Hún bað fyrir kveðju frá framkvæmdastjórn og starfsfólki ÍSÍ og sagði frá ýmsum verkefnum sem ÍSÍ stendur fyrir. Þórey Edda sæmdi að lokum Gest Halldórsson, fráfarandi formann Golfklúbbs Hornafjarðar, silfurmerki ÍSÍ. Eftirfarandi texti fylgdi tilnefningu Gests:

Gestur hefur tengst íþróttahreyfingunni um langt árabil. Núna síðast sem formaður Golfklúbbs Hornafjarðar, en hann lét af því embætti nú á dögunum eftir a.m.k. áratugar stjórnarsetu. Undanfarin ár hefur Gestur reyndar lítið getað sinnt sínum eigin golfáhuga, því mikið hefur verið að gera í klúbbsstarfinu. Golfklúbburinn hefur t.d. verið að endurnýja vallarhúsið sitt, með Gest í broddi fylkingar, enda gengur hann í öll störf sem þar þarf að sinna, og auðvitað alls konar verk úti á velli að auki. Fyrir stjórnunarstörfin í Golfklúbbnum sat Gestur í stjórn Umf. Sindra um tíma auk þess sem hann stýrði getraunastarfi knattspyrnudeildar Sindra með miklum myndarbrag um árabil. Þá sat Gestur í stjórn Styrktar- og afrekssjóðs USÚ í tæpan áratug, frá 2011 til 2020.

Þórey Edda Elísdóttir, 1. varaforseti ÍSÍ og Gestur Halldórsson, silfurmerkishafi ÍSÍ. (mynd SÓJ)

Stjórn USÚ óskar Gesti innilega til hamingju með viðurkenninguna.

Sigurður Óskar Jónsson, nú í hlutverki ritara UMFÍ, flutti kveðju frá stjórn og starfsfólki UMFÍ. Hann fjallaði m.a. um stefnumótun UMFÍ, nýja þjónustumiðstöð UMFÍ að Engjavegi 6 í Reykjavík og þær leiðu fréttir að Ungmennabúðunum að Laugarvatni hafi verið lokað nýverið. Hann sagði jafnframt frá þeim viðburðum sem UMFÍ stendur fyrir á árinu. Sigurður Óskar sæmdi að lokum Jóhönnu Írisi Ingólfsdóttur, formann USÚ, starfsmerki UMFÍ. Eftirfarandi texti fylgdi tilnefningu Jóhönnu Írisar:

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir kom inn í stjórn USÚ árið 2015. Hún sat fyrsta árið sem ritari, en tók svo við sem formaður 2016 og hefur sinnt því hlutverki síðan. Hún er nú þegar orðin meðal þaulsetnustu formanna USÚ frá upphafi, en hún er í fjórða sæti á þeim lista. Hún hefur undanfarið kjörtímabil stjórnar UMFÍ setið í vinnuhópi um íþróttahéruð og lottóreglur hjá UMFÍ og einnig í Útgáfu- og kynningarnefnd UMFÍ. Þar að auki hefur hún tvisvar verið í undirbúningsnefnd Unglingalandsmóta, 2013 og 2019, í fyrra skiptið sem ritari og í síðara skiptið sem keppnisstjóri og formaður USÚ. Þá hefur hún verið formaður yngriflokkaráðs körfuknattleiksdeildar Sindra undanfarið ár og var endurkjörin á aðalfundi í síðustu viku. Jóhanna er drífandi og alltaf til í að hjálpa til og virðist alltaf hafa nægan tíma fyrir sjálfboðaliðastarf, þó hún sé ung fjögurra barna móðir, í fullu starfi og yfirleitt í fullu námi líka. Ungmennafélagsandinn svífur svo sannarlega yfir vötnum hjá Jóhönnu.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, starfsmerkishafi UMFÍ og Sigurður Óskar Jónsson, ritari UMFÍ. (mynd JGS)

Ritari og gjaldkeri USÚ óska Jóhönnu Írisi innilega til hamingju með viðurkenninguna.

Íþróttamaður USÚ fyrir árið 2022 var útnefndur á þinginu, auk þess sem fimm ungir iðkendur hlutu hvatningarverðlaun USÚ. Nánar má lesa um þessar viðurkenningar í frétt sem birtast mun hér á síðunni innan tíðar.

90. ársþing USÚ

90. ársþing USÚ verður haldið á Fosshótel Vatnajökli, fimmtudaginn 23. mars næstkomandi, klukkan 17:00.

Um fulltrúa á ársþingi segir m.a. í lögum USÚ:

Á ársþingi hafa allir sambandsaðilar málfrelsi og tillögurétt, en aðeins stjórn og fulltrúar atkvæðisrétt. Stjórnin getur boðið öðrum aðilum þingsetu er hún telur ástæðu til. Aðeins sá sem er félagi innan sambandsins er kjörgengur fulltrúi á ársþingi. Hver þingfulltrúi hefur eitt atkvæði. Allir þingfulltrúar skulu hafa kjörbréf.

Alls eiga 52 fulltrúar rétt á setu á þinginu, misjafnlega margir frá hverju félagi.  Þeir sem hafa áhuga á að mæta ættu að hafa samband við stjórn síns félags.

Gögn fyrir þingið (munu birtast hér þegar nær dregur):

90. ársþing USÚ – ársskýrsla

Tillögur til þings 2023

Fjárhagsáætlun USÚ 2023

Ársreikningur USÚ 2022

Umsóknir í Styrktar- og afrekssjóð USÚ – síðari úthlutun 2022

Merki USÚ

Ungmennasambandið Úlfljótur auglýsir eftir umsóknum í styrktar- og afrekssjóð USÚ. Umsóknum má skila í tölvupósti á usu@usu.is, eða skriflega í Heklu, Hafnarbraut 15. Umsóknir þurfa að berast í síðasta lagi mánudaginn 12. desember.

Til að auðvelda sjóðsstjórn vinnu við afgreiðslu umsókna þurfa eftirfarandi hlutir að koma fram í umsókn:

 1. Hver sækir um.
 2. Stutt lýsing á því hvers vegna sótt er um.
 3. Upphæð sem óskað er eftir.
 4. Bankaupplýsingar (reikningsnúmer og kennitala).

Ef sótt er um vegna sérstakra verkefna, þarf auk framangreindra atriða að taka fram:

 1. Áætlaður kostnaður.
 2. Hyggst umsækjandi sækjast eftir styrkjum annars staðar?

Reglur og nánari upplýsingar um sjóðinn má finna hér.

Umsóknir í Styrktar- og afrekssjóð USÚ 2022

Merki USÚ

Ungmennasambandið Úlfljótur auglýsir eftir umsóknum í styrktar- og afrekssjóð USÚ. Umsóknum má skila í tölvupósti á usu@usu.is, eða skriflega í Heklu, Hafnarbraut 15. Umsóknir þurfa að berast í síðasta lagi mánudaginn 6. júní.

Til að auðvelda sjóðsstjórn vinnu við afgreiðslu umsókna þurfa eftirfarandi hlutir að koma fram í umsókn:

 1. Hver sækir um.
 2. Stutt lýsing á því hvers vegna sótt er um.
 3. Upphæð sem óskað er eftir.
 4. Bankaupplýsingar (reikningsnúmer og kennitala).

Ef sótt er um vegna sérstakra verkefna, þarf auk framangreindra atriða að taka fram:

 1. Áætlaður kostnaður.
 2. Hyggst umsækjandi sækjast eftir styrkjum annars staðar?

Reglur og nánari upplýsingar um sjóðinn má finna hér.

Heiðranir á 89. ársþingi USÚ

Á 89. ársþingi USÚ, sem fram fór í golfskálanum á Höfn, 7. apríl s.l. var íþróttamaður USÚ fyrir árið 2021 heiðraður. Einnig fengu sex ungir iðkendur hvatningarverðlaun.

Eftirtaldir hlutu hvatningarverðlaun USÚ fyrir árið 2021:

Anna Lára Grétarsdóttir er á sínu 17. ári og kemur úr Knattspyrnudeild Sindra. Hún hefur vaxið mikið sem leikmaður og er orðin lykilleikmaður meistaraflokks kvenna þrátt fyrir ungan aldur. Anna Lára æfir af miklum metnaði og hefur hugarfar atvinnuíþróttamans. Hún er alltaf jákvæð og er góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ og Anna Lára Grétarsdóttir. (mynd: SÓJ)

Birgir Leo Halldórsson er á sínu 16. ári og kemur úr Körfuknattleiksdeild Sindra þar sem hann æfir af kappi. Ásamt því að spila með 10. flokki er hann að klára sitt fyrsta ár með meistaraflokki karla og hefur staðið sig gríðarlega vel. Hann mætir vel á æfingar, er deildinni til sóma og er fyrirmynd fyrir yngri iðkendur. Hann var valinn í æfingahóp fyrir U-16 og bíður nú eftir að fá að vita hvort að hann komist í gegnum síðasta niðurskurðinn fyrir landsliðshópinn sem hittist um páskana.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ og Birgir Leo Halldórsson. (mynd: SÓJ)

Erlendur Björgvinson er á sínu 16. ári og kemur úr Körfuknattleiksdeild Sindra þar sem hann leggur mikinn metnað í þjálfun sína. Hann hefur æft með meistaraflokki karla síðastliðin 3 ár og ásamt því spilar hann með 10. flokki og fer vaxandi með hverju árinu. Erlendur mætir vel á æfingar, er deildinni til sóma og er fyrirmynd fyrir yngri iðkendur. Hann var valinn í æfingahóp fyrir U-16 og bíður nú eftir að fá að vita hvort að hann komist í gegnum síðasta niðurskurðinn fyrir landsliðshópinn sem hittist um páskana.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ og Erlendur Björgvinsson. (mynd: SÓJ)

Guðmyndur Reynir Friðriksson er á sínu 16. ári og kemur úr Knattspyrnudeild Sindra. Hann var valinn í U-15 ára landslið karla sem keppti við Finnland í september á síðasta ári. Hann var einnig valinn í æfingahóp fyrir U-16 í nóvember sl. Guðmundur sinnir þjálfun sinni af miklum metnaði og er góður leiðtogi 3. flokks karla ásamt því að vera fyrirmynd fyrir yngri iðkendur.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ og Guðmundur Reynir Friðriksson. (mynd: SÓJ)

Heiðdís Elva Stefánsdóttir er á 16. ári og kemur úr Sunddeild Sindra. Heiðdís er eini iðkandinn sem keppir fyrir hönd sunddeildarinnar. Hún æfir ein í sínum aldursflokki og krefst það mikils aga og mikillar skuldbindigar en hún gefst aldrei upp. Hún hefur sýnt miklar framfarir í vetur og er mjög opin fyrir því að læra og bæta sig. Auk sinnar þjálfunar hefur hún aðstoðað við þjálfun í yngri flokkum og er virkilega góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ og Heiðdís Elva Stefánsdóttir. (mynd: SÓJ)

Tómas Orri Hjálmarsson er á sínu 19. ári og kemur úr Körfuknattleiksdeild Sindra. Hann hefur verið með meistaraflokki karla öll þau fjögur ár sem þeir hafa spilað í 1. deild auk þess að spila með yngriflokkum. Hann hefur tekið miklum framförum í vetur og fengið mun stærra hlutverk innan liðsins en síðustu ár. Hann sinnir þjálfun sinni af miklum metnaði og er fyrirmynd fyrir yngri iðkendur. Tómas á bjarta framtíð fyrir sér innan körfuboltans.

Tómas Orri Hjálmarsson og Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ. (mynd: SÓJ)

Íþróttamaður USÚ 2021 er Halldór Sævar Birgisson

Halldór Sævar Birgisson átti mjög gott golfár árið 2021 og var í toppsæti á mótaröð eldri kylfinga. Hann var valinn í landslið eldri kylfinga sem lék á Evrópumóti 50+ í Slóveníu sem fram fór 31. ágúst – 4 september. Þar stóð sig hann sig með mikilli prýði og var meðal annars með besta árangur íslensku kylfinganna. Halldór Sævar er fyrirliði golfsveitar Golfklúbbs Hornafjarðar og er klúbbnum til mikils sóma. Til gamans má geta að hann var fyrstur til þess að hljóta titilinn Íþróttamaður USÚ, árið 1989, eftir því sem núverandi stjórn kemst næst.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ og Halldór Sævar Birgisson, íþróttamaður USÚ 2021. (mynd: SÓJ)
Hópmynd af verðlaunahöfum. Frá vinstri: Halldór Sævar Birgisson, íþróttamaður USÚ 2021, Birgir Leo Halldórsson, Erlendur Björgvinsson, Tómas Orri Hjálmarsson, Anna Lára Grétarsdóttir, Guðmundur Reynir Friðriksson, Heiðdís Elva Stefánsdóttir og Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ. (mynd: SÓJ)
Þess má að lokum geta að Halldór Sævar Birgisson, íþróttamaður USÚ 2021 og Birgir Leo Halldórsson, sem hlaut hvatningarverðlaun, eru feðgar. (Mynd: SÓJ)

89. ársþingi USÚ lokið

Ársþing USÚ, það 89. í röðinni, fór fram í Golfskálanum á Höfn, fimmtudaginn 7. apríl s.l. Þingið var vel sótt, en alls mættu 38 fulltrúar af þeim 51 sem rétt áttu á þingsetu. Öll virk félög, nema eitt, sendu fulltrúa á þingið.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ setti þingið og bauð þingfulltrúa velkomna. Arna Ósk Harðardóttir stýrði þinginu líkt og oft áður og Jón Guðni Sigurðsson, ritari USÚ, ritaði þinggerð.

Starfsemi USÚ einkenndist að nokkru leyti af covid-19 faraldrinum, líkt og hjá öðrum félagasamtökum. USÚ sendi þó fulltrúa á Íþróttaþing ÍSÍ, sem fór fram í tvennu lagi, í fjarfundi í maí og í Reykjavík í október. USÚ sendi einnig tvo fulltrúa á Sambandsþing UMFÍ á Húsavík í október . Nánar má lesa um starfið 2021 í skýrslu stjórnar í ársriti USÚ, þar sem jafnframt má kynna sér ársreikning 2021 og starfsskýrslur flestra aðildarfélaga auk starfandi deilda innan Umf. Sindra.

Frá 89. ársþingi USÚ – (Mynd: Sigrún Sigurgeirsdóttir)

Fjórar tillögur lágu fyrir þinginu. Tillaga 1 var hefðbundin tillaga um hvatningu til félaga að mæta á viðburði hjá UMFÍ og ÍSÍ. Tillaga 2 fólst í því að þingið feli stjórn USÚ að vinna að því að USÚ verði fyrirmyndarhérað ÍSÍ fyrir ársþing 2023. Tillaga þrjú fól í sér nokkrar breytingar reglum um skiptingu lottótekna innan USÚ. Hún fólst í því að sett voru upp skilyrði sem félög þurfa að uppfylla til að geta fengið úthlutað lottótekjum. Tillaga 4 fólst í að veita nefnd sem vinnur að nýrri lottóreglugerð endurnýjað umboð til að halda sinni vinnu áfram. Erfitt hefur verið að halda reglulega nefndarfundi, m.a. vegna samkomutakmarkana. Allar þessar tillögur voru samþykktar, en á tillögu 3 voru gerðar smávægilegar orðalagsbreytingar.

Engar breytingar urðu á stjórn eða öðrum embættum innan USÚ. Jóhanna Íris Ingólfsdóttir er áfram formaður, Jón Guðni Sigurðsson, ritari, og Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri. Ásta Steinunn Eiríksdóttir og Hannes Halldórsson eru varamenn.

Frá 89. ársþingi USÚ (Mynd: SÓJ)

Andri Stefánsson, sem er nýlega tekinn við sem framkvæmdastjóri ÍSÍ, sótti þingið fyrir hönd ÍSÍ. Hann bað fyrir kveðju frá framkvæmdastjórn og starfsfólki ÍSÍ og sagði frá ýmsum verkefnum sem ÍSÍ stendur fyrir. Andri veitti líka tvær viðurkenningar. Golfklúbbur Hornafjarðar hlaut viðurkenninguna Fyrirmyndarfélag ÍSÍ. Nánar er hægt að lesa um fyrirmyndarfélög ÍSÍ hér.

Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, veitti Gesti Halldórssyni, formanni Golfklúbbs Hornafjarðar, viðurkenninguna Fyrirmyndarfélag ÍSÍ. (Mynd SÓJ)

Að lokum sæmdi hann Björgvin Hlíðar Erlendsson silfurmerki ÍSÍ. Eftirfarandi texti fylgdi tilnefningu Björgvins:

Björgvin Hlíðar Erlendsson, eða Brói eins og hann er yfirleitt kallaður, er fæddur árið 1978. Hann byrjaði körfuboltaferilinn í Sindra 15 ára í 10. bekk árið 1992. Þegar hann byrjaði í framhaldsskóla skipti hann yfir í Mána. Hann sat í stjórn körfuknattleiksdeildar Mána og svo í sameiginlegri stjórn Mána og Sindra þegar liðin sameinuðust. Árið 2010, þegar Björgvin flutti aftur til Hornafjarðar, var hann fenginn til að taka sæti í stjórn körfuknattleiksdeildar Sindra, þar sem hann hefur setið síðan. Hann er að öllum líkindum leikjahæsti leikmaður Sindra frá upphafi, en hann lagði körfuboltaskóna á hilluna 2021. Hann gengur í öll verk sem þarf að vinna. Hann er öflugasti maðurinn í að skaffa fjármagn fyrir körfuknattleiksdeildina, og deildin væri ekki það sem hún er í dag ef hann væri ekki að sinna því. Hann leggur gríðarlega mikinn kraft í að halda heiðri deildarinnar á lofti og berst ötullega fyrir réttindum hennar innan Sindra. Síðan Sindri komst í fyrstu deild hefur hann verið aðal drifkrafturinn. Hann vinnur þetta allt með hjartanu.

Stjórn USÚ óskar Bróa innilega til hamingju með viðurkenninguna.

Björgvin Hlíðar Erlendsson, silfurmerkishafi ÍSÍ og Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ. (Mynd: SÓJ)

Gunnar Gunnarsson, úr stjórn UMFÍ, sótti þingið fyrir hönd UMFÍ. Hann flutti kveðju frá stjórn og starfsfólki UMFÍ, fjallaði m.a. um Skinfaxa, tímarit UMFÍ og sagði frá þeim viðburðum sem UMFÍ stendur fyrir á árinu.

Íþróttamaður USÚ fyrir árið 2021 var útnefndur á þinginu, auk þess sem sex ungir iðkendur hlutu hvatningarverðlaun USÚ. Nánar má lesa um þessar viðurkenningar í frétt sem mun birtast á síðunni innan tíðar.

89. ársþing USÚ

89. ársþing USÚ verður haldið í Golfskálanum við Dalbraut á Höfn, fimmtudaginn 7. apríl næstkomandi, klukkan 16:30.  Ástæða þess að þingið er svona snemma dags er að um kvöldið fer fram 3. leikur í úrslitakeppni 1. deildar í körfubolta, þar sem Sindramenn taka á móti Álftanesi. Leikurinn hefst kl. 19:15 og við vitum að einhverjir sem verða á þinginu þurfa að vera komnir á staðinn kl. 18:00.

Um fulltrúa á ársþingi segir m.a. í lögum USÚ:

Á ársþingi hafa allir sambandsaðilar málfrelsi og tillögurétt, en aðeins stjórn og fulltrúar atkvæðisrétt. Stjórnin getur boðið öðrum aðilum þingsetu er hún telur ástæðu til. Aðeins sá sem er félagi innan sambandsins er kjörgengur fulltrúi á ársþingi. Hver þingfulltrúi hefur eitt atkvæði. Allir þingfulltrúar skulu hafa kjörbréf.

Alls á 51 fulltrúi rétt á setu á þinginu, misjafnlega margir frá hverju félagi.  Þeir sem hafa áhuga á að mæta ættu að hafa samband við stjórn síns félags.

Gögn fyrir þingið (munu birtast hér þegar nær dregur):

89. ársþing USÚ – Ársskýrsla

Tillögur til þings 2022

Ársreikningur USÚ 2021

Heimsókn til Noregs

Um síðastliðna helgi héldu tveir fulltrúar USÚ ásamt u.þ.b. 40 manna hópi á vegum UMFÍ og aðildarfélaga þess til Noregs þar sem íþróttahéraðið Viken var heimsótt. Viken er fjölmennasta íþróttahérað Noregs sem eru alls 11 talsins. Innan Viken búa um 1,2 milljónir íbúa og myndar það kraga utan um Óslóarborg.

Gæti verið mynd af 10 manns, people standing og innanhúss
Kynning á Viken – Mynd: UMFÍ

Íslenski hópurinn fékk góða kynningu á héraðssambandinu sjálfu sem og starfsemi þess í Íþróttaháskóla Noregs og einnig var farið yfir hvernig íþróttahéraðið fer að því að nálgast jaðarhópa. Þá tók íslenski hópurinn einnig samantektarfund þar sem farið var yfir stöðu mála innan okkar raða.

Gæti verið mynd af útivist og Texti þar sem stendur "NORGES IDRETTSHOGS n LT"
Íþróttaháskóli Noregs

Ferðin heppnaðist vel í alla staði og komum við heim með fullan bakpoka af tólum og tækjum sem við getum hæglega nýtt okkur hér í okkar íþróttahéraði. Að fara í ferð sem þessa styrkir líka enn frekar tengslanetið innan íþróttahreyfingarinnar.

Gæti verið mynd af 2 manns, people standing og innanhúss
Fulltrúar USÚ í ferðinni voru Sigurður Óskar Jónsson og Jóhanna Íris Ingólfsdóttir

Umsóknir í Styrktar- og afrekssjóð USÚ 2021

Merki USÚ

Ungmennasambandið Úlfljótur auglýsir eftir umsóknum í styrktar- og afrekssjóð USÚ. Umsóknum má skila í tölvupósti á usu@usu.is, eða skriflega í Heklu, Hafnarbraut 15. Umsóknir þurfa að berast í síðasta lagi miðvikudaginn 8. desember.

Til að auðvelda sjóðsstjórn vinnu við afgreiðslu umsókna þurfa eftirfarandi hlutir að koma fram í umsókn:

 1. Hver sækir um.
 2. Stutt lýsing á því hvers vegna sótt er um.
 3. Upphæð sem óskað er eftir.
 4. Bankaupplýsingar (reikningsnúmer og kennitala).

Ef sótt er um vegna sérstakra verkefna, þarf auk framangreindra atriða að taka fram:

 1. Áætlaður kostnaður.
 2. Hyggst umsækjandi sækjast eftir styrkjum annars staðar?

Reglur og nánari upplýsingar um sjóðinn má finna hér.