Á 91. ársþingi USÚ, sem fram fór í Nýheimum, 29. apríl s.l. var íþróttamaður USÚ fyrir árið 2023 heiðraður. Einnig fengu fjórir ungir iðkendur hvatningarverðlaun.
Íþróttamaður USÚ 2023 er Cristina A. Oliveira Ferreira
Cristina Ferreira er reynslumikill leikmaður, hún hefur keppt út um allan heim þar á meðal með Minas Tenis Club í Brasilíu, Bellinzona í Sviss, frá árinu 2006 – 2012 á Spáni í topp deildum og árin 2012 – 2014 spilaði hún með Rotten Roben í Þýskalandi þar sem hún vann deildina með liði sínu. Cristina hefur einnig spilað víðsvegar um Ísland til að mynda með Tindastól og Þrótti Reykjavík. Hún byrjaði að þjálfa blak hjá Sindra þegar hún flutti hingað með fjölskyldu sinni haustið 2021. Það var svo sannarlega lukkulegt fyrir blakstarfið og hefur iðkendum fjölgað verulega síðan hún kom. Hún hefur því þjálfað hóp af fólki á mismunandi getustigi og undir hennar leiðsögn hefur Sindri getað sent frá sér tvö lið á Íslandsmót í meistaraflokki kvenna og á annað liðið möguleika á að spila í fyrstu deild á næsta tímabili. Í því er Cristina einnig lykilleikmaður. Með því að fá hana og Israel hingað hefur blak- og körfuboltastarf Sindra blómstrað. Hún hefur einnig náð að styrkja yngri flokkana verulega og fór lið Sindra á Íslandsmót á Húsavík fyrir stuttu síðan.
Cristina hefur mikinn metnað fyrir starfi sínu og vill að öllum líði vel. Hennar einstaka þolinmæði og góða hjarta einkennir hennar þjálfun, spilamennsku og framkomu við aðra. Hún hefur styrkt liðin verulega og mun blakdeild Sindra vera ævinlega þakklát fyrir hennar frábæru störf. Hún verðskuldar svo sannarlega þennan titil.
Eftirtaldir hlutu hvatningarverðlaun USÚ fyrir árið 2023:
Arna Ósk Arnarsdóttir
Arna Ósk er mjög ábyrgðarfull og metnaðargjörn stelpa. Hún er jákvæð og hefur allt það sem góður fyrirliði þarf að hafa, hrósar þegar það á við og hvetur áfram á jákvæðan hátt, þegar hún bendir á það sem betur má fara. Hún er líka mjög ákveðin og vill engan slugsaragang í sínu liði. Hún getur orðið reið eða svekkt þegar illa gengur, en er fljót að rísa upp aftur með jákvæðnina að vopni og gefur þá mótherjunum engan afslátt. Arna Ósk er leikmaður sem allir geta verið stoltir af að hafa í sínu liði.
Hannes Þór Guðnason
Hannes Þór Guðnason hefur stundað æfingar og keppni í motocrossi um nokkurra ára skeið. Í fyrrasumar keppti hann á Íslandsmeistaramótinu sem haldið var víða um land. Hannes keppti í aldursflokki 14 – 17 ára og gekk vel og lenti meðal annars í þriðja sæti í keppni á Akureyri. Það er ekki hlaupið að því að stunda æfingar og keppni í motocrossi, búnaður er dýr og þarfnast mikils viðhalds og mikil útgerð að komast á keppnisstað. Það krefst mikils metnaðar að stunda motocross í okkar héraði þar sem iðkendur eru ekki margir og allt brautarviðhald unnið í sjálfboðavinnu. Hannes er duglegur drengur sem er mikil fyrirmynd fyrir aðra. Þess má einnig geta að Hannes er öflugur körfuboltamaður sem hefur látið til sín taka á vellinum í vetur bæði með liði 10. og 11. flokks.
Hilmar Óli Jóhannsson
Hilmar Óli er ungur körfuboltaleikmaður sem hefur vaxið og dafnað á síðastliðnum árum. Hann byrjaði að æfa með meistaraflokki samhliða sínum flokki sem var þá 9. flokkur haustið 2022. Hann var valinn í æfingahóp U15 sama ár og á vormánuðum 2023 var hann valinn í landsliðshóp U15 sem tók þátt í æfinga- og vináttuleikjum með liðinu í Finnlandi. Hann var svo aftur í æfingahópi fyrir U16 ára landsliðið í vetur. Hilmar hefur einnig sinnt þjálfun yngri flokka fyrir Körfuknattleiksdeild Sindra síðastliðin tvö ár við góðan orðstýr. Hilmar er afar metnaðarfullur drengur sem sinnir sinni iðkun af miklum krafti og er mikil fyrirmynd. Framtíð hans er björt á körfuboltavellinum.
Ída Mekkin Hlynsdóttir
Ída Mekkín var valin í hæfileikahóp Landssambands Hestamanna. Hæfileikamótun er fyrir krakka á aldrinum 14-17 ára og er góður undirbúningur að mögulegum landsmótsverkefnum, en fyrst og fremst kennsla og þjálfun í keppnisundirbúningi. Hún tók þátt í liðakeppni Hornfirðings, sem er innanhúsmót sem keppt er í yfir vetrartímann. Ístölt Austurlands er eitt af uppáhalds vetrarmótunum og fór Ída efst inn úrslit í B-flokknum þar, en fipaðist aðeins úr úrslitum. Þær stöllur Ída og Marín, keppnishryssan hennar, létu það ekki á sig fá og fóru efstar inn í Tölt T7 fyrir 17 ára og yngri og unnu þann flokk. Ásamt verkefnum sem tengjast Hæfileikamótun, tekur Ída þátt í öllum námskeiðum sem geta bætt færni hennar. Ída sýndi mikinn metnað í að taka sem mest þátt á stórum mótum til þess að gera sig klára fyrir Fjórðungsmót Austurlands, tók hún þátt á mótum á Gaddstaðaflötum við Hellu, t.d. Opna WR íþróttamótinu þar sem hún komst í A-úrslit í tölti T3. Einnig tók hún þátt í opna gæðingamótinu á sama stað og vann unglingaflokkinn ásamt að sigra gæðingatölt unglinga. Á fjórðungsmóti var Ída efst inn í úrslit í unglingaflokki, en endaði í öðru sæti eftir æsispennandi úrslit. Hún lét ekki staðar numið þar og fór á gæðingamót á Flúðum og varð í 2-3 sæti þar. Síðasta mót sumarsins var suðurlandsmót yngri flokka sem var einnig á Gaddstaðaflötum. Þar var hún rétt utan úrslita í T3 Tölti, en lenti í 3ja sæti í Fjórgangi V2. Má vel nefna að Ída og Marín frá Lækjarbrekku standa efstar á stöðulista árið 2023 í unglingaflokki gæðinga með einkunnina 8.73. Ída tekur þátt í sýningum sem eru fyrir skemmtiferðaskip frá Djúpavogi sem er í umsjón Pálma og Snæsu og einnig er hún ötul í að aðstoða þar sem þarf, á öðrum námskeiðum og á sýningum. Ída Mekkin á svo sannarlega framtíðina fyrir sér og er mikil fyrirmynd fyrir aðra knapa.
Stjórn USÚ óskar öllum verðlaunahöfum innilega til hamingju með viðurkenningarnar.