86. ársþingi USÚ lokið

Ársþing USÚ, það 86. í röðinni fór fram í Heklu, nýju félagsheimili ungmennafélagsins Sindra í gær, 27. mars. Þingið var ágætlega sótt, 33 fulltrúar af 46 mættu frá flestum félögum. Því miður mætti enginn frá Hestamannafélaginu Hornfirðingi.

Áður en þingið var sett, minntist Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ, tveggja félaga sem féllu frá á árinu 2018. Það voru þeir Hreinn Eiríksson, annar tveggja heiðursfélaga USÚ frá upphafi, formaður USÚ 1963-1965 og máttarstólpi í starfi Umf. Mána um áratugaskeið; og Kristján Vífill Karlsson sem var sannkölluð fyrirmynd sjálfboðaliða, sem um áratugaskeið vann óeigingjarnt sjálfboðalið fyrir hinar ýmsu deildir Umf. Sindra, Golfklúbb Hornafjarðar og önnur félög innan USÚ.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir setur þingið. (Mynd: SÓJ)

Ýmislegt var á döfinni hjá USÚ á árinu og má þar nefna Unglingalandsmót sem haldið var í Þorlákshöfn um verslunarmannahelgina auk Landsmótsins sem haldið var á Sauðárkróki í júlí. Nokkuð mikið púður hefur farið í undirbúning unglingalandsmóts 2019, sem USÚ mun halda á Höfn. Mikið hefur verið fundað. Búið er að manna allar helstu stöður í undirbúningsnefndinni, auk þess sem flestir sérgreinastjórar hafa verið valdir.

USÚ sendi sína fulltrúa á þá fundi og þing sem okkur bar, eins og sambandsráðsfundi og vorfund UMFÍ og formannafund ÍSÍ sem haldinn var í tengslum við ráðstefnu um framtíðarskipulag íþróttahreyfingarinnar.

Frá 86. ársþingi USÚ. (Mynd: SÓJ)

Arna Ósk Harðardóttir stýrði þinginu af röggsemi líkt og oft áður. Fimm tillögur frá stjórn lágu fyrir þinginu.  Fyrst má nefna hvatningu til ungmennafélaga til að fjölmenna á Landsmót UMFÍ 50+, sem haldið verður í Neskaupstað 28.-30. júní n.k. og að sjálfsögðu á 22. Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður á Höfn um verslunarmannahelgina. Tillagan felur einnig í sér hvatningu til að taka þátt í almenningsíþróttaverkefnum á vegum UMFÍ og ÍSÍ.

Tillaga um að hvetja félagsmenn og aðra íbúa sveitarfélagsins Hornafjarðar til að taka þátt í  undirbúningi og framkvæmd unglingalandsmótsins var samþykkt, auk tillögu um að USÚ greiði þátttökugjald sinna keppenda á unglingalandsmótinu, líkt og gert var árið 2013.

Þá voru samþykktar smávægilegar breytingar á lögum USÚ. Lög USÚ eftir breytingar má finna hér.

Fimmta tillagan var um það hvort nýstofnað Klifurfélag Öræfa (KFÖ) fengi inngöngu í USÚ. Í ljósi þess að formleg umsókn KFÖ barst ekki fyrr en degi fyrir þing, kom fram önnur tillaga á þinginu um að fresta inngöngunni fram að næsta ársþingi. Sú tillaga var samþykkt.

Stjórn USÚ gaf kost á sér til endurkjörs og var endurkjörin. Hana skipa: Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður, Kristján Örn Ebenezarson, ritari, og Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri.  Ásta Steinunn Eiríksdóttir, gaf kost á sér áfram sem varamaður, en Matthildur Ásmundardóttir, sem gegnt hefur stöðu bæjarstjóra sveitarfélagsins Hornafjarðar frá síðasta ári, gaf ekki kost á sér áfram. Stungið var upp á Hjálmari Jens Sigurðssyni, sem var samþykkt. Það voru ekki flókin skipti, því Hjálmar er eiginmaður Matthildar.

Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ og Halla Kjartansdóttir, skrifstofustjóri ÍSÍ, sátu þingið. Auk þess að flytja kveðju frá framkvæmdastjórn og öðru starfsfólki ÍSÍ, vék Líney Rut m.a. að málefnum Felix, félagakerfis íþróttahreyfingarinnar, persónuvernd og málefnum tengdum #metoo í ræðu sinni. Að lokum sæmdi hún Hjálmar Jens Sigurðsson silfurmerki ÍSÍ. Hjálmar hefur undanfarin ár leitt metnaðarfullt starf körfuknattleiksdeildar Sindra, sem m.a. hefur skilað sér í því að meistaraflokkur karla spilaði í fyrsta sinn í sögunni í 1. deild í körfubolta.

Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, Hjálmar Jens Sigurðsson, silfurmerkishafi ÍSÍ og Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ. (Mynd: SÓJ)

Gunnar Gunnarsson, stjórnarmaður í UMFÍ sat einnig þingið. Hann bað fyrir kveðju frá stjórn og starfsfólki UMFÍ. Að lokum sæmdi hann Halldór Einarsson, sem hefur setið í stjórn Umf. Mána síðan 1999, starfsmerki UMFÍ. Einnig sæmdi hann Sigurð Óskar Jónsson, gjaldkera USÚ, starfsmerki UMFÍ. Auk þess að hafa verið gjaldkeri USÚ síðan 2011, hefur Sigurður verið í stjórn Umf. Mána frá 2005, (þar sem hann hefur gegnt öllum stöðum nema gjaldkerastöðunni), og setið í varastjórn UMFÍ síðan 2015.

Gunnar Gunnarsson, stjórn UMFÍ og Halldór Einarsson, starfsmerkishafi UMFÍ. (Mynd: SÓJ)
Gunnar Gunnarsson, stjórn UMFÍ og Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri USÚ og starfsmerkishafi UMFÍ. (Mynd: KÖE)

Íþróttamaður USÚ fyrir árið 2018 var útnefndur á þinginu auk þess sem fjórir ungir iðkendur hlutu hvatningarverðlaun USÚ. Nánar má lesa um þessar viðurkenningar í frétt sem birtast á síðunni síðar í kvöld eða á morgun.

Hér er hægt að lesa skýrslu stjórnar USÚ fyrir árið 2018. Reikningar sambandsins eru í skýrslunni og einnig er þar að finna starfsskýrslur allra aðildarfélaga auk starfandi deilda innan Umf. Sindra.

84. ársþingi USÚ lokið

Ársþing USÚ, það 84. í röðinni fór fram í gistiheimilinu Hoffelli í gær, 16. mars. Þingið var ágætlega sótt, 29 fulltrúar af 41 mættu frá flestum félögum. Því miður mætti enginn frá Akstursíþróttafélagi Austur-Skaftafellssýslu og Skotfélagi Austur-Skaftafellssýslu.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ, setur þing. (Mynd: SÓJ)

Hluti þingfulltrúa (Mynd: SÓJ)

Ýmislegt var á döfinni hjá USÚ á árinu og má þar nefna unglingalandsmót sem haldið var í Borgarnesi um verslunarmannahelgina. Á mótinu í Borgarnesi, var það tilkynnt að USÚ var valið til að halda 22. Unglingalandsmót UMFÍ árið 2019.

Hreyfivika UMFÍ var haldin 23.-29. maí, í fyrsta sinn að vorlagi. Boðið var upp á ýmsa viðburði í hreyfivikunni, en gott hefði verið að fá meiri mætingu á þá. Í ár verður hreyfivikan 29. maí til 4. júní og eru uppi ýmsar hugmyndir um hvað hægt sé að bjóða upp á í henni. Í ár er t.d. hugmyndin að endurvekja mótið „Í formi“ og halda það í vikunni.

USÚ sendi sína fulltrúa á þá fundi og þing sem okkur bar, eins og sambandsráðsfund og vorfund UMFÍ. Þá var fulltrúum sambandsaðila UMFÍ boðið í heimsókn til forseta Íslands á degi sjálfboðaliðans, 5. desember.

Tvær tillögur frá stjórn lágu fyrir þinginu.  Fyrst má nefna hvatningu til ungmennafélaga til að fjölmenna á Landsmót UMFÍ 50+ í Hveragerði 23.-25. júní n.k. og á unglingalandsmót UMFÍ á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina. Við þessa tillögu var bætt á þinginu, og felur hún því einnig í sér hvatningu til að taka þátt í almenningsíþróttaverkefnum á vegum UMFÍ og ÍSÍ.

Þá voru samþykktar breytingar á lögum USÚ.  Lög USÚ eftir breytingar má finna hér.

Stjórn USÚ gaf kost á sér til endurkjörs og var endurkjörin. Hana skipa: Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður, Kristján Örn Ebenezarson, ritari, og Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri. Á þinginu kom fram tillaga um að rétt væri að kjósa tvo varamenn stjórnar. Stungið var upp á Matthildi Ásmundardóttur, Sindra, og Ástu Steinunni Eiríksdóttur, Mána, og var það samþykkt.

Ragnheiður Högnadóttir, stjórnarmaður í UMFÍ, flutti ávarp. Hún lauk máli sínu með því að sæma Örnu Ósk Harðardóttur starfsmerki UMFÍ.

Ragnheiður Högnadóttir og Arna Ósk Harðardóttir, starfsmerkishafi UMFÍ. (Mynd: SÓJ)

Garðar Svansson, stjórnarmaður í ÍSÍ flutti einnig ávarp. Hann lauk máli sínu með því að sæma heiðurshjónin Guðrúnu Ingólfsdóttur og Zophonías Torfason, silfurmerki ÍSÍ.

Zophonías Torfason og Guðrún Ingólfsdóttir, silfurmerkishafar ÍSÍ. (Mynd: SÓJ)

Íþróttamaður USÚ var útnefndur á þinginu auk þess sem þrír ungir iðkendur hlutu hvatningarverðlaun USÚ fyrir árið 2016. Nánar má lesa um þessar viðurkenningar í frétt sem birtast á síðunni síðar í kvöld eða á morgun.

Hér er hægt að lesa skýrslu stjórnar USÚ fyrir árið 2016.  84. ársþing USÚ ársskýrsla. Reikningar sambandsins eru í skýrslunni og einnig er þar að finna starfsskýrslur flestra aðildarfélaga.  Þegar þetta er ritað vantar enn skýrslu frá Skotfélagi Austur-Skaftafellssýslu. Henni verður bætt við þegar hún berst.

Máni gefur út Vísi

Vísir, málgagn Ungmennafélagsins Mána kemur út á morgun í sjöunda sinn í núverandi mynd.  Á upphafsárum sínum gaf Máni út samnefnt blað en það hefur nú komið út undanfarin sjö ár, einu sinni á ári, rétt fyrir jól.

Í blaðinu, sem nú er í annað sinn dreift um alla Austur-Skaftafellssýslu, er stiklað á stóru um starfið á liðnum ári. Hryggjarstykki blaðsins að þessu sinni er grein um hugsanlegan uppruna Hornfirðinga og keltnesk örnefni í Nesjum. Þá er í blaðinu yfirlit yfir viðburði í Nesjum um hátíðirnar, venju samkvæmt.

Mánamenn stefna að því að fara í árlega vetrargöngu sína milli hátíða. Gangan í ár verður föstudaginn 30. desember kl. 13:00, en ef eitthvað breytist, (veðrið getur t.d. sett strik í reikninginn), þá verður það auglýst á facebook síðu Mána.  Aftarlega í blaðinu eru nokkrar gátur sem menn geta spreytt sig á þangað til.  Svörin verða gerð opinber að lokinni göngunni. Alveg aftast eru gáturnar frá því fyrra birtar aftur og svörin við þeim.

Blaðið ætti að berast í hús, annað hvort miðvikudaginn 21. eða fimmtudaginn 22. desember, en þeir sem ekki geta beðið, eða búa utan Sveitarfélagsins Hornafjarðar, geta lesið blaðið hér: Vísir 1 tbl 2016

Íþróttamaður USÚ 2015

Á 83. ársþingi USÚ, sem haldið var á Hótel Höfn 17. mars 2016 var íþróttamanni USÚ árið 2015 veitt viðurkenning.  Þar að auki fengu þrjú ungmenni sem þótt hafa staðið sig vel á árinu viðurkenningu, og hvött til áframhaldandi velgengni.

Íþróttamaður USÚ árið 2015 er Ingibjörg Valgeirsdóttir.

Ingibjörg Valgeirsdóttir er íþróttamaður USÚ 2015. (Myndin er af heimasíðu ungmennafélagsins Sindra, umfsindri.is)
Ingibjörg Valgeirsdóttir er íþróttamaður USÚ 2015. (Mynd: umfsindri.is)

Ingibjörg er fædd árið 1998. Hún var markmaður meistaraflokks Sindra í knattspyrnu á síðasta ári og spilaði alla 12 leiki þeirra í deild og 1 í bikar. Hún var valin í U17 landslið Íslands og spilaði hún 5 leiki þar. Þegar því verkefni lauk fór hún beint í U19 landsliðið og spilaði með þeim 3 leiki í haust. Ingibjörg er mikil keppnismanneskja sem gæti náð langt í hvaða íþróttagrein sem er. Er hún talin eitt mesta efni landsins í markmannsstöðunni og verður gaman að fylgjast með henni á næstu árum. Ingibjörg skipti yfir í úrvalsdeildarlið KR núna um áramótin og verður gaman að fylgjast með henni á þeim vettvangi.

Ingibjörg gat ekki verið viðstödd, en faðir hennar og systir tóku við viðurkenningunni fyrir hennar hönd.

Valgeir Jónsson, faðir Ingibjargar, tók við viðurkenningunni fyrir hennar hönd. Systir hennar var eitthvað feimin við myndavélina. (Mynd: SÓJ)
Valgeir Jónsson, faðir Ingibjargar, tók við viðurkenningunni fyrir hennar hönd. Systir hennar var eitthvað feimin við myndavélina. (Mynd: SÓJ)

 

Hvatningarverðlaun hlutu:

Bjarney Jóna Unnsteinsdóttir er fædd 1993. Hún er ung og bráðefnileg hestakona eins sem átti frábært keppnisár í fyrra og var tilnefnd sem gæðingaknapi ársins. Hún var t.d. í 1 sæti í A flokki á félagsmóti Hestamannafélagsins Hornfirðings en toppnum náði hún þegar hún vann A úrslit í A flokki á fjórðungsmóti Austurland sl. sumar. Bjarney gat ekki verið viðstödd þar sem hún er í námi í hestafræðum við Háskólann á Hólum.  Pálmi Guðmundsson, formaður Hestamannafélagsins Hornfirðings tók við viðurkenningunni fyrir hennar hönd.

Pálmi Guðmundsson, formaður Hestamannafélagsins Hornfirðings, tók við viðurkenningunni fyrir hönd Bjarneyjar. (Mynd: SÓJ)
Pálmi Guðmundsson, formaður Hestamannafélagsins Hornfirðings, tók við viðurkenningunni fyrir hönd Bjarneyjar. (Mynd: SÓJ)

 

Birkir Freyr Elvarsson, fæddur 1998, er ungur og efnilegur blakmaður af Mýrunum. Hann var valinn í æfingahóp hjá U17 landsliðinu í blaki nú í haust og æfði með þeim í Reykjavík. Hann var svo valinn í lokahópinn hjá U17 landsliði Íslands sem fór til Englands og tók þátt í NEVZA mótinu og spilaði þar sína fyrstu landsleiki fyrir Ísland og stóð sig vel.

Birkir ætlaði að mæta, en rétt fyrir þing hafði hann samband og sagðist ekki geta mætt, því þjálfarinn hafði boðað aukaæfingu. Það hlýtur að vera viðeigandi fyrir svona efnilegan íþróttamann.Valgeir Steinarsson, sem er í stjórn blakdeildar Sindra, tók við viðurkenningunni fyrir hönd Birkis.

Valgeir Steinarsson, sem situr í stjórn blakdeildar Sindra, tók við viðurkenningunni fyrir hönd Birkis Freys. (Mynd: SÓJ)
Valgeir Steinarsson, sem situr í stjórn blakdeildar Sindra, tók við viðurkenningunni fyrir hönd Birkis Freys. (Mynd: SÓJ)

 

Gísli Þórarinn Hallsson, fæddur 1999, var síðastliðið sumar valinn í U-16 landsliðið sem keppti í 2. deild Evrópumótsins í körfubolta. Hann spilaði 9 leiki og skoraði í þeim 46 stig, en liðið endaði í 18. sæti af 24, (sem er reyndar algjört aukaatriði). Stóð hann sig með prýði og fór svo í kjölfarið og gerði samning við úrvaldsdeildarlið Hattar á Egilsstöðum fyrir tímabilið 2015-16. Gísli spilaði einnig 6 leiki í marki Mána í sumar og þótti standa sig vel.

Gísli gat ekki mætt, enda við nám í Menntaskólanum á Egilsstöðum, en Gísli Skarphéðinn Jónsson, nafni, frændi og jafnaldri hans tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd.

Gísli Skarphéðinn Jónsson, nafni, frændi og jafnaldri Gísla Þórarins, tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd. (Mynd: SÓJ)
Gísli Skarphéðinn Jónsson, nafni, frændi og jafnaldri Gísla Þórarins, tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd. (Mynd: SÓJ)

Páll Róbert Matthíasson, fráfarandi formaður USÚ, veitti allar viðurkenningarnar og því er hann á öllum myndunum.

83. ársþingi USÚ lokið

Ársþing USÚ, það 83. í röðinni fór fram á Hótel Höfn í gær, 17. mars.  Þingið var ágætlega sótt, 30 fulltrúar af 41 mættu frá flestum félögum.  Því miður mætti enginn frá Akstursíþróttafélagi Austur-Skaftafellssýslu.

Sindrakonur við veitingaborðið. (Mynd: SÓJ)
Sindrakonur við veitingaborðið. (Mynd: SÓJ)

30 fulltrúar mættu á þingið. (Mynd: SÓJ)
30 fulltrúar mættu á þingið. (Mynd: SÓJ)

Ýmislegt var á döfinni hjá USÚ á árinu og má þar nefna unglingalandsmót sem haldið var á Akureyri um verslunarmannahelgina og hreyfivikuna sem haldin hefur verið undanfarin haust.  Nú verður breyting á og næsta hreyfivika verður 23.-29. maí n.k.

USÚ sendi sína fulltrúa á þá fundi og þing sem okkur bar, eins og sambandsþing UMFÍ og Íþróttaþing ÍSÍ svo eitthvað sé nefnt.  Vorfundur UMFÍ var með heldur óvenjulegu sniði árið 2015, en hann var haldinn í formi námsferðar til Danmerkur um miðjan maí. Farið var í heimsókn til DGI (sem eru einskonar dönsk systursamtök UMFÍ) og ISCA (sem eru alþjóðleg íþróttasamtök sem halda t.d. MoveWeek víða um heim).  Sigurður Óskar Jónsson, fór í ferðina fyrir hönd USÚ.

Dagana 22. – 23. janúar s.l. var haldin skemmtihelgi á vegum Ungmennaráðs UMFÍ. Yfirskrift helgarinnar var Framtíðar frumkvöðlar.  USÚ átti tvo fulltrúa á þessum viðburði sem byrjaði á námskeiði í þjónustumiðstöð UMFÍ og endaði í Vogum á Vatnsleysuströnd, með ratleik í millitíðinni.  Fulltrúar USÚ voru Birkir Freyr Elvarsson og Kristján Vilhelm Gunnarsson.

Þrjár tillögur frá stjórn lágu fyrir þinginu.  Fyrst má nefna hvatningu til ungmennafélaga til að fjölmenna á Landsmót UMFÍ 50+ á Ísafirði 10.-12. júní n.k. og á unglingalandsmót UMFÍ í Borgarnesi um verslunarmannahelgina.

Þá voru samþykktar breytingar á lögum styrktar- og afrekssjóðs USÚ.  Sveitarfélagið Hornafjörður mun leggja ákveðið fjármagn í sjóðinn frá og með næstu áramótum og því mun það fjármagn sem í boði er aukast umtalsvert frá því sem hefur verið.  Út af þessari breytingu þurfti að breyta lögum sjóðsins, en þau má finna hér.

Að lokum var samþykkt reglugerð um það hvernig velja eigi íþróttamann USÚ ár hvert. Ferlið hefur ekki verið ákveðið undanfarin ár og því fannst stjórninni rétt að setja upp leiðbeininingar um það hvernig haga skuli valinu. Reglugerðina má lesa hér.

Hægt er að sjá allar tillögurnar eins og þær voru lagðar fyrir þingið, í ársriti USÚ, hér neðst í fréttinni.

Páll Róbert Matthíasson, formaður USÚ, gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Stungið var upp á Kristjáni Erni Ebenezarsyni í hans stað og var það samþykkt. Samkvæmt lögum USÚ skiptir ný stjórn með sér verkum á fyrsta fundi, en hana skipa auk Kristjáns, Jóhanna Íris Ingólfsdóttir og Sigurður Óskar Jónsson.  Nýkjörin stjórn þakkar Páli Róberti kærlega fyrir sín störf í þágu ungmennafélagshreyfingarinnar.

Gunnar Gunnarsson, stjórnarmaður í UMFÍ og formaður UÍA, flutti ávarp. Hann hvatti menn t.d. til að sækja um styrki til Evrópu Unga Fólksins, en UÍA hefur einmitt verið duglegt að nýta sér það undanfarið.  Gunnar steig svo aftur í pontu undir lok þings og sæmdi Matthildi Ásmundardóttur starfsmerki UMFÍ.

Gunnar Gunnarsson veitti Matthildi Ásmundardóttur starfsmerki UMFÍ. (Mynd: SÓJ)
Gunnar Gunnarsson veitti Matthildi Ásmundardóttur starfsmerki UMFÍ. (Mynd: SÓJ)

Helga Steinunn Guðmundsdóttir, varaforseti ÍSÍ flutti einnig ávarp þar sem hún fjallaði m.a. um að árið 2016 væri ólympíuár og gera mætti ráð fyrir um 13-15 íslenskum keppendum á ólympíuleikunum í Rio de Janeiro í sumar. Hún minnti líka á að óvenju mikilvægt er að aðildarfélög ÍSÍ skili sínum starfsskýrslum á réttum tíma inn í félagakerfið Felix.  Verið er að taka í notkun nýtt kerfi sem gefa á út sem allra fyrst eftir að starfsskýrsluskilum lýkur.  Helga lauk svo máli sínu með því að sæma Valdemar Einarsson, fráfarandi framkvæmdastjóra Sindra, gullmerki ÍSÍ.

Helga Steinunn Guðmundsdóttir, varaforseti ÍSÍ, veitti Valdemar Einarssyni gullmerki ÍSÍ. (Mynd: SÓJ)
Helga Steinunn Guðmundsdóttir, varaforseti ÍSÍ, veitti Valdemar Einarssyni gullmerki ÍSÍ. (Mynd: SÓJ)

Íþróttamaður ársins var útnefndur á þinginu auk þess sem þrír ungir iðkendur hlutu hvatningarverðlaun USÚ fyrir árið 2015. Nánar má lesa um þessar viðurkenningar í frétt sem birtast á síðunni síðar í kvöld eða á morgun.

Hér er hægt að lesa skýrslu stjórnar USÚ fyrir árið 2015.  Reikningar sambandsins eru í skýrslunni og einnig er þar að finna starfsskýrslur flestra aðildarfélaga.  Þegar þetta er ritað vantar enn skýrslur frá Akstursíþróttafélagi Austur-Skaftafellssýslu og Golfklúbbi Hornafjarðar.  Þeim verður bætt við þegar þær berast.  Skýrsla frá Skotfélagi Austur-Skaftafellssýslu barst eftir að ársritið fór í prentun og því er hún bara í þessari útgáfu, ekki prentútgáfunni: 83.-ársþing-USÚ-ársskýrsla-2.-útg.

Máni gefur út Vísi

merki mánaVísir, málgagn Ungmennafélagsins Mána kom út í dag í sjötta sinn í núverandi mynd.  Á upphafsárum sínum gaf Máni út samnefnt blað en það hefur nú komið út undanfarin sex ár, einu sinni á ári, rétt fyrir jól.

Í blaðinu, sem nú er í fyrsta sinn dreift um alla Austur-Skaftafellssýslu, er stiklað á stóru um starfið á liðnum ári.  Fjallað er um leikvöll Mána í Bjarnaneshverfi og saga fundarhússins sem stóð við hann er rakin.  Pistill um knattspyrnudeild Mána auk kynningar á ungskáldi sem hefur talsverða tengingu við Mána, er í blaðinu.  Þá er yfirlit yfir viðburði í Nesjum í kringum jól og áramót að finna í blaðinu.

Mánamenn stefna að því að fara í árlega vetrargöngu sína milli hátíða.  Yfirleitt hefur verið farið frá Mánagarði kl. 13:00, 30. desember.  Á síðasta ári mættu þó frekar fáir, enda 30. desember á þriðjudegi.  Því var ákveðið að hafa gönguna í ár sunnudaginn 27. desember kl. 13:00, en ef eitthvað breytist, (veðrið getur t.d. sett strik í reikninginn), þá verður það auglýst á facebook síðu Mána.  Aftarlega í blaðinu eru nokkrar gátur sem menn geta spreytt sig á þangað til.  Svörin verða gerð opinber að lokinni göngunni.  Alveg aftast eru gáturnar frá því fyrra birtar aftur og svörin við þeim.

Blaðið ætti að berast inn á öll heimili í Austur-Skaftafellssýslu í dag eða á morgun, en þeir sem geta ekki beðið geta lesið blaðið hér: Vísir 1 tbl 2015 (pdf skjal, 305 kb)

Nýr heiðursfélagi USÚ

Á 50. ársþingi USÚ, árið 1982, var fyrsti heiðursfélagi USÚ, Torfi Steinþórsson á Hala í Suðursveit, útnefndur.  Eftir því sem stjórnin kemst næst, hefur það ekki verið gert síðan, og hefur því Torfi heitinn verið eini heiðursfélagi USÚ til þessa.  Stjórninni fannst kominn tími til að útnefna annan heiðursfélaga og strax kom upp eitt nafn í því samhengi.  Hreinn Eiríksson. Greint var frá þessu á 82. ársþingi USÚ í Mánagarði, 26. mars s.l.

Nokkrir fyrrverandi formenn USÚ.  Myndin er tekin á 80 ára afmælishátíð USÚ árið 2012.  Hreinn stendur í miðjunni. (Mynd: SÓJ)
Nokkrir fyrrverandi formenn USÚ. Myndin er tekin á 80 ára afmælishátíð USÚ árið 2012. Hreinn stendur í miðjunni. (Mynd: SÓJ)

Hreinn er fæddur þann 10. mars 1931 og ólst upp á Miðskeri í Nesjum og hefur alla tíð verið mikill Mánamaður.  Aðspurður hafði hann ekki tölu á því hversu lengi hann var í stjórn Mána en mundi þó eftir að hafa verið formaður þegar húsið sem ársþingið fór fram í, Mánagarður, var vígt árið 1952.  Hann sagðist þó vera nýlega hættur í sóknarnefnd Bjarnaneskirkju, eftir um 40 ára setu.

Hreinn var mikill íþróttamaður á sínum yngri árum, líkt og systkini hans.  Eitt er það þó sem mörg ungmennafélög hafa sem íþróttafélög hafa fæst, en það er allt hitt starfið sem fram fer í félögunum.  Hreinn hefur alla tíð verið mikill frammámaður í leikhópi Mána, sem glöggt má sjá vitni um í grein hans í nýjasta tölublaði héraðsritsins Skaftfellings.  Síðast setti leikhópurinn upp Fiðlarann á þakinu á 100 ára afmæli Mána árið 2007, og var þá Hreinn í stóru hlutverki.  Hreinn hlaut starfsmerki UMFÍ árið 2007.

Hreinn sat í stjórn USÚ á árunum 1960-1965 og aftur 1972-1976, þar af sem formaður 1963-1965.

Hreinn gat því miður ekki mætt sjálfur og tekið við viðurkenningunni.  Hann bað fyrir kærar kveðjur til allra sem hann hefur unnið með í gegnum árin.  Regína, dóttir Hreins tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd.

Máni gefur út Vísi í 5. sinn í núverandi mynd

merki mánaÞann 23. desember síðastliðinn, kom út blaðið Vísir, málgagn Ungmennafélagsins Mána.  Á upphafsárum sínum gaf Máni út samnefnt blað en það hefur nú komið út undanfarin fimm ár, einu sinni á ári, rétt fyrir jól.

Í blaðinu, sem nú er í annað sinn dreift um allt dreifbýli Austur-Skaftafellssýslu, er stiklað á stóru um starfið á liðnum ári.  Fjallað er um knattspyrnudeild Mána auk þess sem stutt grein um svokallaðan Knútsbyl, frá 1886, er í blaðinu.  Þá er yfirlit yfir viðburði í Nesjum í kringum jól og áramót að finna í blaðinu.

Mánamenn stefna að því að fara í árlega vetrargöngu sína milli hátíða.  Yfirleitt hefur verið farið frá Mánagarði kl. 13:00, 30. desember.  Stefnt er að því að halda sig við þann tíma, en ef eitthvað breytist, þá verður það auglýst á facebook síðu Mána.  Aftast í blaðinu eru nokkrar gátur sem menn geta spreytt sig á þangað til.  Svörin verða gerð opinber að lokinni göngunni.

Hægt er að lesa blaðið hér: Vísir 2014 (pdf skjal, 186 kb)

Ungmennafélagið Máni gefur út Vísi

merki mánaÍ dag kom út sveitablaðið Vísir, málgagn Ungmennafélagsins Mána.  Á upphafsárum sínum gaf Máni út samnefnt blað en það hefur nú komið út undanfarin fjögur ár, einu sinni á ári, rétt fyrir jól.

Í blaðinu, sem nú er í fyrsta sinn dreift um allt dreifbýli Austur-Skaftafellssýslu, er stiklað á stóru um starfið á liðnum ári.  Þá er gestapistill Regínu Hreinsdóttur í blaðinu auk yfirlits yfir viðburði í Nesjum í kringum jól og áramót.

Mánamenn stefna að því að fara í árlega vetrargöngu sína milli hátíða.  Yfirleitt hefur verið farið frá Mánagarði kl. 13:00, 30. desember.  Stefnt er að því að halda sig við þann tíma, en ef eitthvað breytist, þá verður það auglýst á facebook síðu Mána.  Aftast í blaðinu eru þrjár vísnagátur sem menn geta spreytt sig á þangað til.  Svörin verða gerð opinber að lokinni göngunni.

Hægt er að lesa blaðið hér: Vísir 1 tbl 2013 (pdf skjal, 200 kb)