Góð aðstaða til íþróttaiðkunar og öflugur hópur sjálfboðaliða voru lykillinn að vel heppnuðu Unglingalandsmóti sem haldið var á Höfn um síðustu helgi. Hornafjörður hefur nú endanlega stimplað sig inn sem einn af ákjósanlegustu stöðum á landinu fyrir Unglingalandsmót UMFÍ.
Undirbúningur hafði staðið yfir í næstum ár á vegum landsmótsnefndar en á síðustu vikum stækkaði hópurinn þegar kom að uppsetningu keppnis- og tjaldsvæða. Á mánudagsmorgun komu fjölmargar vinnufúsar hendur saman og gengu frá eftir mótið. Keppni hófst snemma á föstudag og lauk ekki fyrr en síðdegis á sunnudag. Sérgreinastjórar unnu frá morgni til kvölds á landsmótshelginni til að allt gengi snurðulaust fyrir sig. Keppt var í frjálsum íþróttum, fimleikum, skák, starfsgreinum, körfuknattleik, strandblaki, fótbolta og mótocrossi. Framlag tuga sjálfboðaliða á keppnissvæðinu alla helgina var ómetanlegt.
Af gestum að dæma þótti það mikill kostur að keppni fór fram á sama svæði og þannig hafi ekki þurft að fara um langan veg ef unglingarnir voru að keppa í mörgum greinum. Unglingalandsmótin eru fyrst og fremst fjölskylduhátíð. Á kvöldvökum stigu stokk Páll Óskar, Jón Jónsson, Parket, Stuðlabandið og fleiri. Auk þess var í boði ýmiss afþreying fyrir unga og aldna alla daga.
Á miðsvæðinu voru afhjúpaðir þakkarskyldir um Unglingalandsmótin 2007 og 2013. Mótin hafa hreyft við íþróttamálum í héraðinu og verið hvatning til frekari uppbyggingar og iðkunar. Íþrótta – og tómstundastarf er mikilvægur hlekkur í daglegu lífi þeirra sem byggja staðinn. Það er því engin ástæða til annars en að halda áfram á sömu braut, stefna er að því fljótlega að halda landsmót hér aftur og vinna bæta aðstöðuna ennfrekar.
Öllum þeim sem komu að framkvæmd mótsins eru færðar sérstakar þakkir. Íbúar geta verið stoltir af framkvæmd Unglingalandsmóts UMFÍ árið 2013.
Matthildur Ásmundardóttir formaður USÚ.