90. ársþingi USÚ lokið

Ársþing USÚ, það 90. í röðinni, fór fram á Fosshótel Vatnajökli, fimmtudaginn 23. mars sl. Þingið var vel sótt, en alls mættu 36 fulltrúar af þeim 52 sem rétt áttu á þingsetu, frá sjö af þeim níu félögum sem senda máttu fulltrúa.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ, setti þingið og bauð þingfulltrúa velkomna. Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar, stýrði þinginu og Jón Guðni Sigurðsson, ritari USÚ, ritaði þinggerð.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ, setur 90. ársþing USÚ. (mynd: SÓJ)

Starfsemi USÚ var með nokkuð venjubundnum hætti á árinu 2022. Árið var þó vissulega 90 ára afmælisár sambandsins, en haldið var upp á það á stofndeginum, 28. maí. USÚ sendi fulltrúa á formannafund ÍSÍ í nóvember, en þar áður hafði Sambandsráðsfundur UMFÍ verið haldinn í Nýheimum á Höfn. Það er í fyrsta skipti frá árinu 1990 sem Sambandsráðsfundur hefur verið haldinn á sambandssvæði USÚ. Sambandsþing UMFÍ hefur aldrei farið fram innan sambandssvæðis USÚ og býður það því betri tíma. USÚ átti einnig tvo fulltrúa í hópferð sem farin var til Ósló á vegum UMFÍ í mars. Nánar má lesa um starfið 2022 í skýrslu stjórnar í ársriti USÚ, þar sem jafnframt má kynna sér ársreikning 2022 og starfsskýrslur flestra aðildarfélaga auk starfandi deilda innan Umf. Sindra.

Fimm tillögur frá stjórn USÚ lágu fyrir þinginu.

  • Tillaga 1 var hefðbundin tillaga um hvatningu til félaga að mæta á viðburði hjá UMFÍ og ÍSÍ.
  • Tillaga 2 fólst í því að þingið feli stjórn USÚ að vinna að því að USÚ verði fyrirmyndarhérað ÍSÍ fyrir ársþing 2023.
  • Tillaga 3 fól í sér örlitla breytingu á 8. grein laga USÚ, er varðar útreikning fulltrúafjölda á ársþing USÚ.
  • Tillaga 4 fól í sér tímamótabreytingu á reglum um skiptingu lottótekna innan USÚ. Í henni felst að í stað þess að hvert aðildarfélag fái alltaf sömu hlutfallstöluna, líkt og verið hefur frá árinu 1999, þá er hlut aðildarfélaganna skipt þannig að 20% verði skipt jafnt, 40% verði skipt eftir fjölda iðkenda 6-16 ára, 20% verði skipt eftir fjölda annarra iðkenda og 20% verði skipt eftir félagsmannafjölda. Þá var einnig sett inn ákvæði um hvenær ný aðildarfélög geti fengið úthlutað lottófé.
  • Tillaga 5 var svo fjárhagsáætlun, en USÚ hefur ekki sett sér fjárhagsáætlun í býsna mörg ár. Það er liður í vinnu við fyrirmyndarhérað að héraðið setji sér fjárhagsáætlun.

Þó nokkrar umræður urðu um tillögu 4. Fram kom frestunartillaga, en tillagan eins og hún kom frá stjórn var að lokum samþykkt með naumum meirihluta greiddra atkvæða. Hægt er að kynna sér nýjar reglur um skiptingu lottótekna hér. Allar aðrar tillögur voru samþykktar samhljóða.

Þingfulltrúar á 90. ársþingi USÚ. (mynd: SÓJ)

Engar breytingar urðu á stjórn USÚ. Jóhanna Íris Ingólfsdóttir er áfram formaður, Jón Guðni Sigurðsson ritari og Sigurður Óskar Jónsson gjaldkeri. Hannes Halldórsson gaf kost á sér áfram sem varamaður, en það gerði Ásta Steinunn Eiríksdóttir ekki. Í hennar stað var Björgvin Hlíðar Erlendsson kosinn varamaður.

Þórey Edda Elísdóttir, 1. varaforseti ÍSÍ, sótti þingið fyrir hönd ÍSÍ. Hún bað fyrir kveðju frá framkvæmdastjórn og starfsfólki ÍSÍ og sagði frá ýmsum verkefnum sem ÍSÍ stendur fyrir. Þórey Edda sæmdi að lokum Gest Halldórsson, fráfarandi formann Golfklúbbs Hornafjarðar, silfurmerki ÍSÍ. Eftirfarandi texti fylgdi tilnefningu Gests:

Gestur hefur tengst íþróttahreyfingunni um langt árabil. Núna síðast sem formaður Golfklúbbs Hornafjarðar, en hann lét af því embætti nú á dögunum eftir a.m.k. áratugar stjórnarsetu. Undanfarin ár hefur Gestur reyndar lítið getað sinnt sínum eigin golfáhuga, því mikið hefur verið að gera í klúbbsstarfinu. Golfklúbburinn hefur t.d. verið að endurnýja vallarhúsið sitt, með Gest í broddi fylkingar, enda gengur hann í öll störf sem þar þarf að sinna, og auðvitað alls konar verk úti á velli að auki. Fyrir stjórnunarstörfin í Golfklúbbnum sat Gestur í stjórn Umf. Sindra um tíma auk þess sem hann stýrði getraunastarfi knattspyrnudeildar Sindra með miklum myndarbrag um árabil. Þá sat Gestur í stjórn Styrktar- og afrekssjóðs USÚ í tæpan áratug, frá 2011 til 2020.

Þórey Edda Elísdóttir, 1. varaforseti ÍSÍ og Gestur Halldórsson, silfurmerkishafi ÍSÍ. (mynd SÓJ)

Stjórn USÚ óskar Gesti innilega til hamingju með viðurkenninguna.

Sigurður Óskar Jónsson, nú í hlutverki ritara UMFÍ, flutti kveðju frá stjórn og starfsfólki UMFÍ. Hann fjallaði m.a. um stefnumótun UMFÍ, nýja þjónustumiðstöð UMFÍ að Engjavegi 6 í Reykjavík og þær leiðu fréttir að Ungmennabúðunum að Laugarvatni hafi verið lokað nýverið. Hann sagði jafnframt frá þeim viðburðum sem UMFÍ stendur fyrir á árinu. Sigurður Óskar sæmdi að lokum Jóhönnu Írisi Ingólfsdóttur, formann USÚ, starfsmerki UMFÍ. Eftirfarandi texti fylgdi tilnefningu Jóhönnu Írisar:

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir kom inn í stjórn USÚ árið 2015. Hún sat fyrsta árið sem ritari, en tók svo við sem formaður 2016 og hefur sinnt því hlutverki síðan. Hún er nú þegar orðin meðal þaulsetnustu formanna USÚ frá upphafi, en hún er í fjórða sæti á þeim lista. Hún hefur undanfarið kjörtímabil stjórnar UMFÍ setið í vinnuhópi um íþróttahéruð og lottóreglur hjá UMFÍ og einnig í Útgáfu- og kynningarnefnd UMFÍ. Þar að auki hefur hún tvisvar verið í undirbúningsnefnd Unglingalandsmóta, 2013 og 2019, í fyrra skiptið sem ritari og í síðara skiptið sem keppnisstjóri og formaður USÚ. Þá hefur hún verið formaður yngriflokkaráðs körfuknattleiksdeildar Sindra undanfarið ár og var endurkjörin á aðalfundi í síðustu viku. Jóhanna er drífandi og alltaf til í að hjálpa til og virðist alltaf hafa nægan tíma fyrir sjálfboðaliðastarf, þó hún sé ung fjögurra barna móðir, í fullu starfi og yfirleitt í fullu námi líka. Ungmennafélagsandinn svífur svo sannarlega yfir vötnum hjá Jóhönnu.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, starfsmerkishafi UMFÍ og Sigurður Óskar Jónsson, ritari UMFÍ. (mynd JGS)

Ritari og gjaldkeri USÚ óska Jóhönnu Írisi innilega til hamingju með viðurkenninguna.

Íþróttamaður USÚ fyrir árið 2022 var útnefndur á þinginu, auk þess sem fimm ungir iðkendur hlutu hvatningarverðlaun USÚ. Nánar má lesa um þessar viðurkenningar í frétt sem birtast mun hér á síðunni innan tíðar.