85. ársþingi USÚ lokið

Ársþing USÚ, það 85. í röðinni fór fram í Hofgarði í Öræfum í gær, 12. mars. 24 ár eru liðin síðan ársþing USÚ var síðast haldið í Öræfum, og því löngu kominn tími til að endurtaka leikinn. Þingið var ágætlega sótt, 27 fulltrúar af 42 mættu frá flestum félögum. Því miður mætti enginn frá Akstursíþróttafélagi Austur-Skaftafellssýslu.

Segja má að þingið hafi verið frekar óvenjulegt að ýmsu leyti. Viku fyrir þing lá fyrir að formaður USÚ gæti ekki mætt á þingið, þar sem hún er komin á síðasta mánuð meðgöngu. Þá var veðurspáin fyrir Öræfin þennan daginn ekkert spennandi, strekkingsvindur, vindhviður upp undir 34 m/s við Sandfell og einhver smávægileg snjókoma með. Þá fór rafmagnið af Öræfum í hádeginu, og því var á tímabili nokkuð tvísýnt hvort þingið gæti yfir höfuð farið fram. Komið hafði verið á varaafli á Hofi áður en þingið hófst, en rafmagnið datt svo aftur út á meðan þingfulltrúar gæddu sér á dýrindis kjötsúpu sem boðið var upp á. Það kom hins vegar inn aftur stuttu síðar, svo það þurfti ekki að ljúka þinginu við kertaljós.

Starfsmenn þingsins gæða sér á kjötsúpu við kertaljós í rafmagnsleysi. (Mynd: SÓJ)

Ýmislegt var á döfinni hjá USÚ á árinu og má þar nefna unglingalandsmót sem haldið var á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina. Nokkuð púður fór í undirbúning unglingalandsmóts 2019, sem USÚ mun halda á Höfn. Fundað hefur verið nokkrum sinnum nú þegar, en undirbúningshópurinn mun stækka þegar nær dregur haustinu.

USÚ sendi sína fulltrúa á þá fundi og þing sem okkur bar, eins og sambandsþing og vorfund UMFÍ og íþróttaþing og formannafund ÍSÍ.

Fjórar tillögur frá stjórn lágu fyrir þinginu.  Fyrst má nefna hvatningu til ungmennafélaga til að fjölmenna á Landsmót UMFÍ og Landsmót UMFÍ 50+, sem haldin verða samhliða á Sauðárkróki 12.-15. júlí n.k. og á unglingalandsmót UMFÍ í Þorlákshöfn um verslunarmannahelgina. Tillagan felur einnig í sér hvatningu til að taka þátt í almenningsíþróttaverkefnum á vegum UMFÍ og ÍSÍ.

Þá voru samþykktar breytingar á lögum USÚ.  Lög USÚ eftir breytingar má finna hér. Einnig var gerð breyting á 7. grein reglugerðar um Styrktar- og afrekssjóð USÚ. Þá reglugerð má finna hér.

Stjórn USÚ gaf kost á sér til endurkjörs og var endurkjörin. Hana skipa: Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður, Kristján Örn Ebenezarson, ritari, og Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri. Varamenn eru áfram Matthildur Ásmundardóttir, Sindra, og Ásta Steinunn Eiríksdóttir, Mána.

Þingfulltrúar 2018 í matarhléi í rafmagnsleysi. (Mynd: SÓJ)

Þannig vildi til að bæði Ragnheiður Högnadóttir, stjórnarmaður í UMFÍ, og Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, sem boðað höfðu komu sína, afboðuðu sig með skömmum fyrirvara. Bæði var þar veðrinu um að kenna, auk mikilla anna á skrifstofu ÍSÍ. Þær sendu þó báðar kveðjur sem komið var á framfæri á þinginu.

Íþróttamaður USÚ var útnefndur á þinginu auk þess sem þrír ungir iðkendur hlutu hvatningarverðlaun USÚ fyrir árið 2017. Nánar má lesa um þessar viðurkenningar í frétt sem birtast á síðunni síðar í kvöld eða á morgun.

Hér er hægt að lesa skýrslu stjórnar USÚ fyrir árið 2017. Reikningar sambandsins eru í skýrslunni og einnig er þar að finna starfsskýrslur allra aðildarfélaga auk starfandi deilda innan Umf. Sindra.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *