Íþróttamaður USÚ 2016

Á 84. ársþingi USÚ, sem haldið var gistiheimilinu í Hoffelli í Nesjum 16. mars 2017 var íþróttamanni USÚ árið 2016 veitt viðurkenning. Þar að auki fengu þrjú ungmenni sem þótt hafa staðið sig vel á árinu viðurkenningu, og hvött til áframhaldandi velgengni.

Íþróttamaður USÚ 2016 er Kristinn Justiniano Snjólfsson.

Kristinn Justiniano Snjólfsson, íþróttamaður USÚ 2016. (Mynd: úr einkasafni)

Kristinn er fæddur árið 1993 og alinn upp á Blönduósi. Hann gekk til liðs við knattspyrnulið Sindra fyrir tímabilið 2015. Sumarið 2016 spilaði hann alla 22 leiki liðsins og skoraði 12 af 41 marki Sindra, enda framherji. Sindri endaði í 4. sæti 2. deildar með 32 stig sem er þeirra besti árangur frá 2002. Sindra gekk einnig vel í bikarkeppninni og komst í 32 liða úrslit, þar sem Kristinn spilaði alla þrjá leikina og skoraði í þeim 3 mörk.

Þess má einnig geta að Kristinn fékk aðeins á sig eitt gult spjald í leikjunum 22 í deildinni og var valinn besti leikmaðurinn á lokahófi Sindra s.l. haust. Þar að auki var hann valinn í lið 2. deildar hjá Fótbolta.net. Hann hefur nú haft félagaskipti og mun spila með Leikni Fáskrúðsfirði á næsta tímabili en við vonum nú að hann ákveði að snúi aftur í Sindra síðar.

 

Hvatningarverðlaun hlutu:

Inga Kristín Aðalsteinsdóttir er fædd árið 1997 og hefur leikið allan sinn feril með Sindra. Hún spilaði með meistaraflokki kvenna í knattspyrnu á síðasta tímabili og spilaði alla leiki Sindra, alls 10, auk eins leiks í bikarkeppni. Hún fékk viðurkenningu fyrir að hafa leikið 50 leiki fyrir Sindra og einnig var hún valin mikilvægasti leikmaðurinn í meistaraflokki kvenna. Inga Kristín stundar íþrótt sína af samvisku og kappi og hvetjum við hana í að halda því áfram.

Inga Kristín Aðalsteinsdóttir hlaut hvatningarverðlaun USÚ 2016. (Mynd: SÓJ)

 

Hildur Margrét Björnsdóttir er fædd árið 2002. Hún æfir og keppir með fimleikadeild Sindra og var valin fimleikamaður ársins 2016 hjá deildinni. Hildur stundar íþrótt sína af samvisku og kappi. Það eru ekki margir sem myndi nenna að leggja það á sig að keyra 50 km aðra leið til þess að mæta á æfingu á laugardagsmorgni, en Hildur Margrét býr í Suðursveit. Því má segja að hún sýni mikinn metnað til þess að ná langt í sinni grein. Auk þess að æfa sjálf þjálfar hún yngri flokka hjá deildinni.

Hildur Margrét Björnsdóttir hlaut hvatningarverðlaun USÚ 2016. (Mynd: SÓJ)

 

Brynjar Máni Jónsson er fæddur árið 1998. Hann æfir og spilar með körfuknattleiksdeild Sindra. Brynjar hefur verið einn af byrjunarliðsmönnum í meistaraflokki síðustu ár þó hann sé aðeins 19 ára gamall. Á síðasta ári spilaði hann bæði með drengjaflokk og meistaraflokk þar sem hann öðlaðist mikla reynslu. Hann er mjög góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur körfuknattleiksdeildar Sindra. Brynjar Máni gat því miður ekki verið við athöfnina, og því fylgir ekki mynd af honum hér.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *