84. ársþingi USÚ lokið

Ársþing USÚ, það 84. í röðinni fór fram í gistiheimilinu Hoffelli í gær, 16. mars. Þingið var ágætlega sótt, 29 fulltrúar af 41 mættu frá flestum félögum. Því miður mætti enginn frá Akstursíþróttafélagi Austur-Skaftafellssýslu og Skotfélagi Austur-Skaftafellssýslu.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ, setur þing. (Mynd: SÓJ)
Hluti þingfulltrúa (Mynd: SÓJ)

Ýmislegt var á döfinni hjá USÚ á árinu og má þar nefna unglingalandsmót sem haldið var í Borgarnesi um verslunarmannahelgina. Á mótinu í Borgarnesi, var það tilkynnt að USÚ var valið til að halda 22. Unglingalandsmót UMFÍ árið 2019.

Hreyfivika UMFÍ var haldin 23.-29. maí, í fyrsta sinn að vorlagi. Boðið var upp á ýmsa viðburði í hreyfivikunni, en gott hefði verið að fá meiri mætingu á þá. Í ár verður hreyfivikan 29. maí til 4. júní og eru uppi ýmsar hugmyndir um hvað hægt sé að bjóða upp á í henni. Í ár er t.d. hugmyndin að endurvekja mótið „Í formi“ og halda það í vikunni.

USÚ sendi sína fulltrúa á þá fundi og þing sem okkur bar, eins og sambandsráðsfund og vorfund UMFÍ. Þá var fulltrúum sambandsaðila UMFÍ boðið í heimsókn til forseta Íslands á degi sjálfboðaliðans, 5. desember.

Tvær tillögur frá stjórn lágu fyrir þinginu.  Fyrst má nefna hvatningu til ungmennafélaga til að fjölmenna á Landsmót UMFÍ 50+ í Hveragerði 23.-25. júní n.k. og á unglingalandsmót UMFÍ á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina. Við þessa tillögu var bætt á þinginu, og felur hún því einnig í sér hvatningu til að taka þátt í almenningsíþróttaverkefnum á vegum UMFÍ og ÍSÍ.

Þá voru samþykktar breytingar á lögum USÚ.  Lög USÚ eftir breytingar má finna hér.

Stjórn USÚ gaf kost á sér til endurkjörs og var endurkjörin. Hana skipa: Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður, Kristján Örn Ebenezarson, ritari, og Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri. Á þinginu kom fram tillaga um að rétt væri að kjósa tvo varamenn stjórnar. Stungið var upp á Matthildi Ásmundardóttur, Sindra, og Ástu Steinunni Eiríksdóttur, Mána, og var það samþykkt.

Ragnheiður Högnadóttir, stjórnarmaður í UMFÍ, flutti ávarp. Hún lauk máli sínu með því að sæma Örnu Ósk Harðardóttur starfsmerki UMFÍ.

Ragnheiður Högnadóttir og Arna Ósk Harðardóttir, starfsmerkishafi UMFÍ. (Mynd: SÓJ)

Garðar Svansson, stjórnarmaður í ÍSÍ flutti einnig ávarp. Hann lauk máli sínu með því að sæma heiðurshjónin Guðrúnu Ingólfsdóttur og Zophonías Torfason, silfurmerki ÍSÍ.

Zophonías Torfason og Guðrún Ingólfsdóttir, silfurmerkishafar ÍSÍ. (Mynd: SÓJ)

Íþróttamaður USÚ var útnefndur á þinginu auk þess sem þrír ungir iðkendur hlutu hvatningarverðlaun USÚ fyrir árið 2016. Nánar má lesa um þessar viðurkenningar í frétt sem birtast á síðunni síðar í kvöld eða á morgun.

Hér er hægt að lesa skýrslu stjórnar USÚ fyrir árið 2016.  84. ársþing USÚ ársskýrsla. Reikningar sambandsins eru í skýrslunni og einnig er þar að finna starfsskýrslur flestra aðildarfélaga.  Þegar þetta er ritað vantar enn skýrslu frá Skotfélagi Austur-Skaftafellssýslu. Henni verður bætt við þegar hún berst.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *