Heiðranir á 85. ársþingi USÚ

Á 85. ársþingi USÚ, sem haldið var í Hofgarði í Öræfum, 12. mars 2018 var íþróttamanni USÚ árið 2017 veitt viðurkenning. Ekki alveg þó, því þetta árið ákvað stjórn USÚ að breyta örlítið út af vananum og verðlauna lið ársins. Þar að auki fengu þrjú ungmenni sem þótt hafa staðið sig vel á árinu viðurkenningu, og hvött til áframhaldandi velgengni. Kristján Örn Ebenezersson, ritari USÚ, afhenti öll verðlaunin. Því er hann á öllum myndunum.

Lið ársins 2017

Í ár var ákveðið að breyta aðeins út af vananum og veita verðlaun fyrir lið ársins í staðinn fyrir íþróttamann ársins. Það voru margir einstaklingar sem stóðu sig vel á árinu en á endanum var ákveðið að veita verðlaun fyrir liðsheildina sem skilaði frábærum árangri hjá meistaraflokki karla í körfuknattleik. Það var skipað heimamönnum að stærstum hluta og náði liðið að vinna sig upp í 2. deild og eru langt komnir með að tryggja sig upp í 1. deild. Á síðasta tímabili töpuðu þeir aðeins einum leik í Íslandsmótinu og hafa haldið svipuðum hætti á núverandi tímabili.

Sindrastrákar eftir sigurleik gegn Þór Þorlákshöfn B, í úrslitum 3. deildar 2017.
(Mynd: Hjálmar Jens Sigurðsson, körfuknattleiksdeild Sindra)

 

Hjálmar Jens Sigurðsson, formaður körfuknattleiksdeildar Sindra og Tómas Orri Hjálmarsson, leikmaður Sindra, tóku við viðurkenningunni frá Kristjáni Erni Ebenezerssyni, ritara USÚ. (Mynd: SÓJ)

 

Hvatningarverðlaun hlutu:

Salvör Dalla Hjaltadóttir er fædd árið 2003 og er ung og efnileg knattspyrnukona. Spilaði hún sína fyrstu leiki með meistaraflokk kvenna á árinu og skoraði eitt mark í átta leikjum. Í febrúar á þessu ári var hún síðan valin til að taka þátt í úrtaksæfingum fyrir U15 lið stúlkna í knattspyrnu.

Salvör Dalla Hjaltadóttir hlaut Hvatningarverðlaun USÚ 2017. (Mynd: SÓJ)

 

Tómas Orri Hjálmarsson er fæddur árið 2003 er ungur og efnilegur körfuknattleiksmaður. Hann spilaði sýna fyrstu meistaraflokksleiki á árinu. Einnig var hann boðaður á æfingar með U15 í körfuknattleik.

Tómas Orri Hjálmarsson hlaut hvatningarverðlaun USÚ 2017. (Mynd: SÓJ)

 

Angela Rán Egilsdóttir er fædd árið 2003 er ung og efnileg fimleikakona sem keppir fyrir fimleikadeild Sindra. Hún var valin í landsliðsúrtak í hópfimleikum fyrir EM 2018 og er hún gjaldgeng í unglingaflokk fyrir næsta verkefni EM 2020.

Angela Rán Egilsdóttir hlaut hvatningarverðlaun USÚ 2017. (Mynd: SÓJ)

85. ársþingi USÚ lokið

Ársþing USÚ, það 85. í röðinni fór fram í Hofgarði í Öræfum í gær, 12. mars. 24 ár eru liðin síðan ársþing USÚ var síðast haldið í Öræfum, og því löngu kominn tími til að endurtaka leikinn. Þingið var ágætlega sótt, 27 fulltrúar af 42 mættu frá flestum félögum. Því miður mætti enginn frá Akstursíþróttafélagi Austur-Skaftafellssýslu.

Segja má að þingið hafi verið frekar óvenjulegt að ýmsu leyti. Viku fyrir þing lá fyrir að formaður USÚ gæti ekki mætt á þingið, þar sem hún er komin á síðasta mánuð meðgöngu. Þá var veðurspáin fyrir Öræfin þennan daginn ekkert spennandi, strekkingsvindur, vindhviður upp undir 34 m/s við Sandfell og einhver smávægileg snjókoma með. Þá fór rafmagnið af Öræfum í hádeginu, og því var á tímabili nokkuð tvísýnt hvort þingið gæti yfir höfuð farið fram. Komið hafði verið á varaafli á Hofi áður en þingið hófst, en rafmagnið datt svo aftur út á meðan þingfulltrúar gæddu sér á dýrindis kjötsúpu sem boðið var upp á. Það kom hins vegar inn aftur stuttu síðar, svo það þurfti ekki að ljúka þinginu við kertaljós.

Starfsmenn þingsins gæða sér á kjötsúpu við kertaljós í rafmagnsleysi. (Mynd: SÓJ)

Ýmislegt var á döfinni hjá USÚ á árinu og má þar nefna unglingalandsmót sem haldið var á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina. Nokkuð púður fór í undirbúning unglingalandsmóts 2019, sem USÚ mun halda á Höfn. Fundað hefur verið nokkrum sinnum nú þegar, en undirbúningshópurinn mun stækka þegar nær dregur haustinu.

USÚ sendi sína fulltrúa á þá fundi og þing sem okkur bar, eins og sambandsþing og vorfund UMFÍ og íþróttaþing og formannafund ÍSÍ.

Fjórar tillögur frá stjórn lágu fyrir þinginu.  Fyrst má nefna hvatningu til ungmennafélaga til að fjölmenna á Landsmót UMFÍ og Landsmót UMFÍ 50+, sem haldin verða samhliða á Sauðárkróki 12.-15. júlí n.k. og á unglingalandsmót UMFÍ í Þorlákshöfn um verslunarmannahelgina. Tillagan felur einnig í sér hvatningu til að taka þátt í almenningsíþróttaverkefnum á vegum UMFÍ og ÍSÍ.

Þá voru samþykktar breytingar á lögum USÚ.  Lög USÚ eftir breytingar má finna hér. Einnig var gerð breyting á 7. grein reglugerðar um Styrktar- og afrekssjóð USÚ. Þá reglugerð má finna hér.

Stjórn USÚ gaf kost á sér til endurkjörs og var endurkjörin. Hana skipa: Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður, Kristján Örn Ebenezarson, ritari, og Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri. Varamenn eru áfram Matthildur Ásmundardóttir, Sindra, og Ásta Steinunn Eiríksdóttir, Mána.

Þingfulltrúar 2018 í matarhléi í rafmagnsleysi. (Mynd: SÓJ)

Þannig vildi til að bæði Ragnheiður Högnadóttir, stjórnarmaður í UMFÍ, og Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, sem boðað höfðu komu sína, afboðuðu sig með skömmum fyrirvara. Bæði var þar veðrinu um að kenna, auk mikilla anna á skrifstofu ÍSÍ. Þær sendu þó báðar kveðjur sem komið var á framfæri á þinginu.

Íþróttamaður USÚ var útnefndur á þinginu auk þess sem þrír ungir iðkendur hlutu hvatningarverðlaun USÚ fyrir árið 2017. Nánar má lesa um þessar viðurkenningar í frétt sem birtast á síðunni síðar í kvöld eða á morgun.

Hér er hægt að lesa skýrslu stjórnar USÚ fyrir árið 2017. Reikningar sambandsins eru í skýrslunni og einnig er þar að finna starfsskýrslur allra aðildarfélaga auk starfandi deilda innan Umf. Sindra.

85. ársþing USÚ

85. ársþing USÚ verður haldið í Hofgarði í Öræfum, mánudaginn 12. mars næstkomandi, klukkan 18:00.  Um fulltrúa á ársþingi segir m.a. í lögum USÚ:

Á ársþingi hafa allir sambandsaðilar málfrelsi og tillögurétt, en aðeins stjórn og fulltrúar atkvæðisrétt. Stjórnin getur boðið öðrum aðilum þingsetu er hún telur ástæðu til. Aðeins sá sem er félagi innan sambandsins er kjörgengur fulltrúi á ársþingi. Hver þingfulltrúi hefur eitt atkvæði. Allir þingfulltrúar skulu hafa kjörbréf.

Alls eiga 42 fulltrúar rétt á setu á þinginu, misjafnlega margir frá hverju félagi.  Þeir sem hafa áhuga á að mæta ættu að hafa samband við stjórn síns félags.

Gögn fyrir þingið:

85. ársþing USÚ ársskýrsla

Tillögur fyrir þing 2018

Nýtt netfang USÚ

Ungmennasambandið Úlfljótur er nú komið með nýtt netfang, usu@usu.is.
Ástæður þess eru nokkrar, en tölvupóstur USÚ hefur verið vistaður hjá Sveitarfélaginu Hornafirði a.m.k. undanfarin 12 ár. Nú hafa orðið breytingar á netmálum sveitarfélagsins og því var ákveðið að skipta um netfang. Ef þið eruð með gamla netfangið skráð hjá ykkur, þá er best að breyta því sem fyrst í usu@usu.is, enda óvíst hversu lengi gamla netfangið verður virkt.

Íþróttamaður USÚ 2016

Á 84. ársþingi USÚ, sem haldið var gistiheimilinu í Hoffelli í Nesjum 16. mars 2017 var íþróttamanni USÚ árið 2016 veitt viðurkenning. Þar að auki fengu þrjú ungmenni sem þótt hafa staðið sig vel á árinu viðurkenningu, og hvött til áframhaldandi velgengni.

Íþróttamaður USÚ 2016 er Kristinn Justiniano Snjólfsson.

Kristinn Justiniano Snjólfsson, íþróttamaður USÚ 2016. (Mynd: úr einkasafni)

Kristinn er fæddur árið 1993 og alinn upp á Blönduósi. Hann gekk til liðs við knattspyrnulið Sindra fyrir tímabilið 2015. Sumarið 2016 spilaði hann alla 22 leiki liðsins og skoraði 12 af 41 marki Sindra, enda framherji. Sindri endaði í 4. sæti 2. deildar með 32 stig sem er þeirra besti árangur frá 2002. Sindra gekk einnig vel í bikarkeppninni og komst í 32 liða úrslit, þar sem Kristinn spilaði alla þrjá leikina og skoraði í þeim 3 mörk.

Þess má einnig geta að Kristinn fékk aðeins á sig eitt gult spjald í leikjunum 22 í deildinni og var valinn besti leikmaðurinn á lokahófi Sindra s.l. haust. Þar að auki var hann valinn í lið 2. deildar hjá Fótbolta.net. Hann hefur nú haft félagaskipti og mun spila með Leikni Fáskrúðsfirði á næsta tímabili en við vonum nú að hann ákveði að snúi aftur í Sindra síðar.

 

Hvatningarverðlaun hlutu:

Inga Kristín Aðalsteinsdóttir er fædd árið 1997 og hefur leikið allan sinn feril með Sindra. Hún spilaði með meistaraflokki kvenna í knattspyrnu á síðasta tímabili og spilaði alla leiki Sindra, alls 10, auk eins leiks í bikarkeppni. Hún fékk viðurkenningu fyrir að hafa leikið 50 leiki fyrir Sindra og einnig var hún valin mikilvægasti leikmaðurinn í meistaraflokki kvenna. Inga Kristín stundar íþrótt sína af samvisku og kappi og hvetjum við hana í að halda því áfram.

Inga Kristín Aðalsteinsdóttir hlaut hvatningarverðlaun USÚ 2016. (Mynd: SÓJ)

 

Hildur Margrét Björnsdóttir er fædd árið 2002. Hún æfir og keppir með fimleikadeild Sindra og var valin fimleikamaður ársins 2016 hjá deildinni. Hildur stundar íþrótt sína af samvisku og kappi. Það eru ekki margir sem myndi nenna að leggja það á sig að keyra 50 km aðra leið til þess að mæta á æfingu á laugardagsmorgni, en Hildur Margrét býr í Suðursveit. Því má segja að hún sýni mikinn metnað til þess að ná langt í sinni grein. Auk þess að æfa sjálf þjálfar hún yngri flokka hjá deildinni.

Hildur Margrét Björnsdóttir hlaut hvatningarverðlaun USÚ 2016. (Mynd: SÓJ)

 

Brynjar Máni Jónsson er fæddur árið 1998. Hann æfir og spilar með körfuknattleiksdeild Sindra. Brynjar hefur verið einn af byrjunarliðsmönnum í meistaraflokki síðustu ár þó hann sé aðeins 19 ára gamall. Á síðasta ári spilaði hann bæði með drengjaflokk og meistaraflokk þar sem hann öðlaðist mikla reynslu. Hann er mjög góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur körfuknattleiksdeildar Sindra. Brynjar Máni gat því miður ekki verið við athöfnina, og því fylgir ekki mynd af honum hér.

84. ársþingi USÚ lokið

Ársþing USÚ, það 84. í röðinni fór fram í gistiheimilinu Hoffelli í gær, 16. mars. Þingið var ágætlega sótt, 29 fulltrúar af 41 mættu frá flestum félögum. Því miður mætti enginn frá Akstursíþróttafélagi Austur-Skaftafellssýslu og Skotfélagi Austur-Skaftafellssýslu.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ, setur þing. (Mynd: SÓJ)
Hluti þingfulltrúa (Mynd: SÓJ)

Ýmislegt var á döfinni hjá USÚ á árinu og má þar nefna unglingalandsmót sem haldið var í Borgarnesi um verslunarmannahelgina. Á mótinu í Borgarnesi, var það tilkynnt að USÚ var valið til að halda 22. Unglingalandsmót UMFÍ árið 2019.

Hreyfivika UMFÍ var haldin 23.-29. maí, í fyrsta sinn að vorlagi. Boðið var upp á ýmsa viðburði í hreyfivikunni, en gott hefði verið að fá meiri mætingu á þá. Í ár verður hreyfivikan 29. maí til 4. júní og eru uppi ýmsar hugmyndir um hvað hægt sé að bjóða upp á í henni. Í ár er t.d. hugmyndin að endurvekja mótið „Í formi“ og halda það í vikunni.

USÚ sendi sína fulltrúa á þá fundi og þing sem okkur bar, eins og sambandsráðsfund og vorfund UMFÍ. Þá var fulltrúum sambandsaðila UMFÍ boðið í heimsókn til forseta Íslands á degi sjálfboðaliðans, 5. desember.

Tvær tillögur frá stjórn lágu fyrir þinginu.  Fyrst má nefna hvatningu til ungmennafélaga til að fjölmenna á Landsmót UMFÍ 50+ í Hveragerði 23.-25. júní n.k. og á unglingalandsmót UMFÍ á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina. Við þessa tillögu var bætt á þinginu, og felur hún því einnig í sér hvatningu til að taka þátt í almenningsíþróttaverkefnum á vegum UMFÍ og ÍSÍ.

Þá voru samþykktar breytingar á lögum USÚ.  Lög USÚ eftir breytingar má finna hér.

Stjórn USÚ gaf kost á sér til endurkjörs og var endurkjörin. Hana skipa: Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður, Kristján Örn Ebenezarson, ritari, og Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri. Á þinginu kom fram tillaga um að rétt væri að kjósa tvo varamenn stjórnar. Stungið var upp á Matthildi Ásmundardóttur, Sindra, og Ástu Steinunni Eiríksdóttur, Mána, og var það samþykkt.

Ragnheiður Högnadóttir, stjórnarmaður í UMFÍ, flutti ávarp. Hún lauk máli sínu með því að sæma Örnu Ósk Harðardóttur starfsmerki UMFÍ.

Ragnheiður Högnadóttir og Arna Ósk Harðardóttir, starfsmerkishafi UMFÍ. (Mynd: SÓJ)

Garðar Svansson, stjórnarmaður í ÍSÍ flutti einnig ávarp. Hann lauk máli sínu með því að sæma heiðurshjónin Guðrúnu Ingólfsdóttur og Zophonías Torfason, silfurmerki ÍSÍ.

Zophonías Torfason og Guðrún Ingólfsdóttir, silfurmerkishafar ÍSÍ. (Mynd: SÓJ)

Íþróttamaður USÚ var útnefndur á þinginu auk þess sem þrír ungir iðkendur hlutu hvatningarverðlaun USÚ fyrir árið 2016. Nánar má lesa um þessar viðurkenningar í frétt sem birtast á síðunni síðar í kvöld eða á morgun.

Hér er hægt að lesa skýrslu stjórnar USÚ fyrir árið 2016.  84. ársþing USÚ ársskýrsla. Reikningar sambandsins eru í skýrslunni og einnig er þar að finna starfsskýrslur flestra aðildarfélaga.  Þegar þetta er ritað vantar enn skýrslu frá Skotfélagi Austur-Skaftafellssýslu. Henni verður bætt við þegar hún berst.

84. ársþing USÚ

84. ársþing USÚ verður haldið í veitingasal Glacier World í Hoffelli II b í Nesjum, fimmtudaginn 16. mars næstkomandi, klukkan 18:00.  Um fulltrúa á ársþingi segir m.a. í lögum USÚ:

Á ársþingi hafa allir sambandsaðilar málfrelsi og tillögurétt, en aðeins stjórn og fulltrúar atkvæðisrétt. Stjórnin getur boðið öðrum aðilum þingsetu er hún telur ástæðu til. Aðeins sá sem er félagi innan sambandsins er kjörgengur fulltrúi á ársþingi. Hver þingfulltrúi hefur eitt atkvæði. Allir þingfulltrúar skulu hafa kjörbréf.

Alls á 41 fulltrúi rétt á setu á þinginu, misjafnlega margir frá hverju félagi.  Þeir sem hafa áhuga á að mæta ættu að hafa samband við stjórn síns félags.

Máni gefur út Vísi

Vísir, málgagn Ungmennafélagsins Mána kemur út á morgun í sjöunda sinn í núverandi mynd.  Á upphafsárum sínum gaf Máni út samnefnt blað en það hefur nú komið út undanfarin sjö ár, einu sinni á ári, rétt fyrir jól.

Í blaðinu, sem nú er í annað sinn dreift um alla Austur-Skaftafellssýslu, er stiklað á stóru um starfið á liðnum ári. Hryggjarstykki blaðsins að þessu sinni er grein um hugsanlegan uppruna Hornfirðinga og keltnesk örnefni í Nesjum. Þá er í blaðinu yfirlit yfir viðburði í Nesjum um hátíðirnar, venju samkvæmt.

Mánamenn stefna að því að fara í árlega vetrargöngu sína milli hátíða. Gangan í ár verður föstudaginn 30. desember kl. 13:00, en ef eitthvað breytist, (veðrið getur t.d. sett strik í reikninginn), þá verður það auglýst á facebook síðu Mána.  Aftarlega í blaðinu eru nokkrar gátur sem menn geta spreytt sig á þangað til.  Svörin verða gerð opinber að lokinni göngunni. Alveg aftast eru gáturnar frá því fyrra birtar aftur og svörin við þeim.

Blaðið ætti að berast í hús, annað hvort miðvikudaginn 21. eða fimmtudaginn 22. desember, en þeir sem ekki geta beðið, eða búa utan Sveitarfélagsins Hornafjarðar, geta lesið blaðið hér: Vísir 1 tbl 2016

Umsóknir í Styrktar- og afrekssjóð USÚ 2016

usu_logoUngmennasambandið Úlfljótur auglýsir eftir umsóknum í styrktar- og afrekssjóð USÚ. Umsóknum má skila í Sindrahúsið, Hafnarbraut 25, eða í tölvupósti á usu@hornafjordur.is. Umsóknir þurfa að berast í síðasta lagi miðvikudaginn 8. júní.

Umsóknir sem bárust áður en auglýst var, verða að sjálfsögðu teknar til afgreiðslu.

Reglur og nánari upplýsingar um sjóðinn má finna hér.

Íþróttamaður USÚ 2015

Á 83. ársþingi USÚ, sem haldið var á Hótel Höfn 17. mars 2016 var íþróttamanni USÚ árið 2015 veitt viðurkenning.  Þar að auki fengu þrjú ungmenni sem þótt hafa staðið sig vel á árinu viðurkenningu, og hvött til áframhaldandi velgengni.

Íþróttamaður USÚ árið 2015 er Ingibjörg Valgeirsdóttir.

Ingibjörg Valgeirsdóttir er íþróttamaður USÚ 2015. (Myndin er af heimasíðu ungmennafélagsins Sindra, umfsindri.is)
Ingibjörg Valgeirsdóttir er íþróttamaður USÚ 2015. (Mynd: umfsindri.is)

Ingibjörg er fædd árið 1998. Hún var markmaður meistaraflokks Sindra í knattspyrnu á síðasta ári og spilaði alla 12 leiki þeirra í deild og 1 í bikar. Hún var valin í U17 landslið Íslands og spilaði hún 5 leiki þar. Þegar því verkefni lauk fór hún beint í U19 landsliðið og spilaði með þeim 3 leiki í haust. Ingibjörg er mikil keppnismanneskja sem gæti náð langt í hvaða íþróttagrein sem er. Er hún talin eitt mesta efni landsins í markmannsstöðunni og verður gaman að fylgjast með henni á næstu árum. Ingibjörg skipti yfir í úrvalsdeildarlið KR núna um áramótin og verður gaman að fylgjast með henni á þeim vettvangi.

Ingibjörg gat ekki verið viðstödd, en faðir hennar og systir tóku við viðurkenningunni fyrir hennar hönd.

Valgeir Jónsson, faðir Ingibjargar, tók við viðurkenningunni fyrir hennar hönd. Systir hennar var eitthvað feimin við myndavélina. (Mynd: SÓJ)
Valgeir Jónsson, faðir Ingibjargar, tók við viðurkenningunni fyrir hennar hönd. Systir hennar var eitthvað feimin við myndavélina. (Mynd: SÓJ)

 

Hvatningarverðlaun hlutu:

Bjarney Jóna Unnsteinsdóttir er fædd 1993. Hún er ung og bráðefnileg hestakona eins sem átti frábært keppnisár í fyrra og var tilnefnd sem gæðingaknapi ársins. Hún var t.d. í 1 sæti í A flokki á félagsmóti Hestamannafélagsins Hornfirðings en toppnum náði hún þegar hún vann A úrslit í A flokki á fjórðungsmóti Austurland sl. sumar. Bjarney gat ekki verið viðstödd þar sem hún er í námi í hestafræðum við Háskólann á Hólum.  Pálmi Guðmundsson, formaður Hestamannafélagsins Hornfirðings tók við viðurkenningunni fyrir hennar hönd.

Pálmi Guðmundsson, formaður Hestamannafélagsins Hornfirðings, tók við viðurkenningunni fyrir hönd Bjarneyjar. (Mynd: SÓJ)
Pálmi Guðmundsson, formaður Hestamannafélagsins Hornfirðings, tók við viðurkenningunni fyrir hönd Bjarneyjar. (Mynd: SÓJ)

 

Birkir Freyr Elvarsson, fæddur 1998, er ungur og efnilegur blakmaður af Mýrunum. Hann var valinn í æfingahóp hjá U17 landsliðinu í blaki nú í haust og æfði með þeim í Reykjavík. Hann var svo valinn í lokahópinn hjá U17 landsliði Íslands sem fór til Englands og tók þátt í NEVZA mótinu og spilaði þar sína fyrstu landsleiki fyrir Ísland og stóð sig vel.

Birkir ætlaði að mæta, en rétt fyrir þing hafði hann samband og sagðist ekki geta mætt, því þjálfarinn hafði boðað aukaæfingu. Það hlýtur að vera viðeigandi fyrir svona efnilegan íþróttamann.Valgeir Steinarsson, sem er í stjórn blakdeildar Sindra, tók við viðurkenningunni fyrir hönd Birkis.

Valgeir Steinarsson, sem situr í stjórn blakdeildar Sindra, tók við viðurkenningunni fyrir hönd Birkis Freys. (Mynd: SÓJ)
Valgeir Steinarsson, sem situr í stjórn blakdeildar Sindra, tók við viðurkenningunni fyrir hönd Birkis Freys. (Mynd: SÓJ)

 

Gísli Þórarinn Hallsson, fæddur 1999, var síðastliðið sumar valinn í U-16 landsliðið sem keppti í 2. deild Evrópumótsins í körfubolta. Hann spilaði 9 leiki og skoraði í þeim 46 stig, en liðið endaði í 18. sæti af 24, (sem er reyndar algjört aukaatriði). Stóð hann sig með prýði og fór svo í kjölfarið og gerði samning við úrvaldsdeildarlið Hattar á Egilsstöðum fyrir tímabilið 2015-16. Gísli spilaði einnig 6 leiki í marki Mána í sumar og þótti standa sig vel.

Gísli gat ekki mætt, enda við nám í Menntaskólanum á Egilsstöðum, en Gísli Skarphéðinn Jónsson, nafni, frændi og jafnaldri hans tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd.

Gísli Skarphéðinn Jónsson, nafni, frændi og jafnaldri Gísla Þórarins, tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd. (Mynd: SÓJ)
Gísli Skarphéðinn Jónsson, nafni, frændi og jafnaldri Gísla Þórarins, tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd. (Mynd: SÓJ)

Páll Róbert Matthíasson, fráfarandi formaður USÚ, veitti allar viðurkenningarnar og því er hann á öllum myndunum.