Unglingalandsmót UMFÍ í Þorlákshöfn 2018

Um verslunarmannahelgina var 21. Unglingalandsmót UMFÍ haldið í Þorlákshöfn þar sem tæplega 1300 börn allsstaðar að af landinu voru skráð til keppni. Alls fóru 16 keppendur frá USÚ og kepptu þau í hinum ýmsu greinum. Þau stóðu sig öll með mikilli prýði og lentu mörg á palli eða voru ofarlega í sínum greinum. Okkur þótti sérstaklega ánægjulegt að brottfluttir Hornfirðingar skildu keppa undir merkjum USÚ. Mótið fór vel fram í alla staði og eiga HSK og Sveitarfélagið Ölfus skilið hrós fyrir framkvæmd mótsins. Það rigndi duglega á föstudeginum en keppendur létu það ekki á sig fá og héldu sínu striki. Þó var tekin sú ákvörðun að fresta setningu mótsins til laugardags, enda mun betri veðurspá það sem eftir var af helginni. Mótinu var svo slitið með veglegri flugeldasýningu á sunnudagskvöldinu.

Hluti keppenda USÚ á mótssetningunni.

Unglingalandsmót UMFÍ var fyrst haldið árið 1992 en hefur verið haldið árlega frá árinu 2002 og er fyrir börn á aldrinum 11-18 ára. Mótið hefur stækkað töluvert frá því að það var fyrst haldið og hefur keppnisgreinum fjölgað til muna. Misjafnt er hversu margar greinar eru á hverju móti þó svo að alltaf sé ákveðinn kjarni sem boðið er upp á. Alls var keppt í 22 greinum í Þorlákshöfn og voru það bogfimi, dorgveiði, fimleikalíf, fótbolti, frisbígolf, frjálsar íþróttir, glíma, golf, götuhjólreiðar, hestaíþróttir, íþróttir fatlaðra, kökuskreytingar, körfubolti, motocross, sandkastalagerð, skák, skotfimi, stafsetning, strandblak, strandhandbolti, sund og upplestur. Gríðarlega mikil þátttaka var í nýjum greinum á borð við kökuskreytingar þar sem um 250 keppendur voru skráðir, í bogfimi voru 86 skráðir í tveimur keppnisflokkum, og strandhandbolta en þar voru 36 lið skráð til keppni, eða um 220 keppendur. Ekki þarf að ná í heilt lið frá hverju félagi til þess að geta keppt í hópíþróttum. Búin eru til blönduð lið með þeim einstaklingum sem skrá sig án liðs t.d. kepptu tveir drengir frá USÚ með liði frá Laugarvatni í körfubolta og USÚ stúlka með blönduðu liði í strandblaki.

Keppendur í kökuskreytingum.

Mótið snýst ekki eingöngu um keppni hjá 11-18 ára því mikið er um að vera frá morgni til kvölds. Þorlákshöfn bauð m.a. uppá fótboltakeppni, frjálsíþróttaleika og sundleika fyrir 10 ára og yngri, gönguferðir um nágrennið, leikjatorg, þrautabraut, 3:3 fjölskyldumót í fótbolta og að sjálfsögðu kvöldvökur þar sem allra fremsta tónlistarfólk landsins kom fram. Unglingalandsmót UMFÍ er með öllu vímulaust og því góður staður fyrir fjölskyldur til þess að hafa gaman saman um verslunarmannahelgina.

Tómas Nói Hauksson

Það væri þó ekki hægt að halda þessi mót án mikillar samvinnu mótshaldara, sveitarfélaganna og íbúa þeirra. Þau eru að langmestu byggð á sjálfboðavinnu og það er ómetanlegt hversu margir eru tilbúnir til þess að leggja sitt af mörkum til þess að ungviði landsins fái að njóta sín á heilbrigðum vettvangi þar sem gleði og skemmtun er í fyrirrúmi. Við Hornfirðingar erum svo heppin að fá að halda mótið á næsta ári. Það verður þá í þriðja skipti en áður var það haldið árið 2007 þegar glæsileg, endurbætt íþróttaaðstaða var tekin í notkun á Sindravöllum og svo árið 2013 þegar að ný sundlaug og knattspyrnuhús höfðu bæst við aðstöðuna. Það má því segja að aðstaðan okkar hér sé með góðu móti og enn er verið að bæta í. Undirbúningshópur hefur verið að störfum síðastliðið ár og mun stærri hópur halda áfram þeirri vinnu í vetur. Það er ljóst, eins og áður sagði, að þetta er mikil samvinna og hvetjum við því íbúa til þess að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni með okkur næsta sumar. Eins og Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, kom að í setningarræðu sinni eru forvarnir fjárfesting til framtíðar í betra lífi viðkomandi einstaklinga, hvort heldur er í því að forða eða seinka því að ungt fólk komist í kynni við hin ýmsu vímuefni sem í boði eru í samfélagi okkar í dag.

Fyrir hönd stjórnar USÚ

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður

 

 

Helstu úrslit keppenda USÚ (ekki alveg víst að þetta sé tæmandi listi)

Bogfimi

Tómas Nói Hauksson, 2. sæti í opnum flokki 11-14 ára, með 134 stig

Karen Hulda Finnsdóttir, 5. sæti í sama flokki, með 128 stig

Glíma

Almar Páll Lárusson, 3. sæti í 13-14 ára drengjaflokki (fjölmennasti flokkurinn)

Sund

Magni Snær Imsland Grétarsson,

2. sæti í 100 m bringusundi 11-12 ára

3. sæti í 50 m baksundi 11-12 ára

3. sæti í 100 m skriðsundi 11-12 ára

2. sæti í 50 m flugsundi 11-12 ára

4. sæti í 100 m fjórsundi 11-12 ára

Magni Snær á palli

Frjálsar íþróttir

Arna Ósk Arnarsdóttir, 2. sæti í 800 m hlaupi 15 ára stúlkna, 2:40,68.

Tómas Nói Hauksson, 2. sæti í 600 m hlaupi 14 ára pilta, 1:40,91, nýtt USÚ met í öllum karlaflokkum, sem Fannar Blær Austar Egilsson átti áður.

Tómas Nói Hauksson, 2. sæti í þrístökki 14 ára pilta, 11,22, nýtt USÚ met í 14 og 15 ára karlaflokkum, sem hann átti reyndar sjálfur.

Selma Ýr Ívarsdóttir, 2. sæti í 80 m grindahlaupi 14 ára stúlkna, 14,53

Elín Ósk Óskarsdóttir, 3. sæti í spjótkasti 11 ára stúlkna, 17,29

Sveit USÚ + ein lánsmanneskja, 3. sæti í 4×100 m boðhlaupi 11 ára stúlkna, 66,65 sek.

Strandblak

Jana Mekkín Friðriksdóttir, 1. sæti í strandblaki 15-16 ára stúlkna, í blandaða liðinu Blakskvísur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *