Ársþing USÚ, það 92. í röðinni, fór fram á Hrollaugsstöðum í Suðursveit, félagsheimili Umf. Vísis, þriðjudaginn 22. apríl sl. Þingið var ágætlega sótt, en alls mættu 26 fulltrúar af þeim 37 sem rétt áttu á þingsetu, þar að auki mættu reyndar fjórir varafulltrúar frá Umf. Sindra. Fulltrúar frá sjö af níu félögum innan USÚ sóttu þingið.
Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ, setti þingið og bauð þingfulltrúa velkomna. Ragnheiður Högnadóttir, sem situr í stjórn UMFÍ, stýrði þinginu líkt og í fyrra og Karen Hulda Finnsdóttir ritaði þinggerð í fjarveru Jóns Guðna Sigurðssonar, ritara USÚ.

Starfsemi USÚ var með nokkuð venjubundnum hætti á árinu 2024. USÚ sendi fulltrúa á öll þau þing og fundi sem ætlast er til, t.d. vorfund UMFÍ í júní, sambandsráðsfund UMFÍ í október og formannafund ÍSÍ í nóvember. Nánar má lesa um starfið 2024 í skýrslu stjórnar í ársriti USÚ, þar sem jafnframt má kynna sér ársreikning 2024 og starfsskýrslur flestra aðildarfélaga.

Hafsteinn Pálsson, sem situr í stjórn ÍSÍ, flutti kveðju frá framkvæmdastjórn og starfsfólki ÍSÍ. Í ræðu sinni fjallaði hann m.a. um veðmálastarfsemi og svæðisstöðvar ÍSÍ og UMFÍ. Þá sæmdi hann Gunnar Inga Valgeirsson silfurmerki ÍSÍ fyrir langt og farsælt starf innan íþróttahreyfingarinnar innan USÚ. Eftirfarandi texti fylgdi tilnefningu Gunnars Inga:
Gunnar Ingi Valgeirsson kom inn í stjórn knattspyrnudeildar Sindra árið 1995 og hefur hann unnið óeigingjarnt starf fyrir deildina síðan. Auk þess að hafa setið í stjórn knattspyrnudeildarinnar, hefur hann sinnt sjálfboðaliðastörfum innan fleiri deilda félagsins og má því með sanni segja að að Gunnar Ingi sé Sindramaður. Hann hefur einnig verið í forystu fyrir félagið í þau skipti sem stór íþróttamót hafa verið haldin á Höfn. Þá er hann einnig með leikjahæstu mönnum Íslandsmótsins í knattspyrnu, með u.þ.b. 420 leiki eftir því sem við komumst næst.
Að lokum sæmdi Hafsteinn Jóhönnu Írisi Ingólfsdóttur, fráfarandi formann USÚ gullmerki ÍSÍ. Eftirfarandi texti fylgdi tilnefningu Jóhönnu Írisar:
Jóhanna Íris Ingólfsdóttir kom inn í stjórn USÚ árið 2015. Hún sat fyrsta árið sem ritari, en tók svo við sem formaður 2016 og hefur sinnt því hlutverki síðan. Raunar hafa einungis tveir sinnt formannshlutverkinu lengur. Jóhanna var einnig formaður yngriflokkaráðs körfuknattleiksdeildar Sindra 2022-2024.
Jóhanna er drífandi og alltaf til í að hjálpa til og virðist alltaf hafa nægan tíma fyrir sjálfboðaliðastarf. Um mitt síðasta ár hóf Jóhanna störf sem svæðisfulltrúi ÍSÍ og UMFÍ á Austurlandi, svo þó hún sé nú að hverfa úr stjórn USÚ, þá heldur hún starfinu áfram á öðrum vettvangi.

Ragnheiður Högnadóttir, sem eins og áður segir situr í stjórn UMFÍ, flutti kveðju frá stjórn og starfsfólki UMFÍ. Hún fjallaði m.a. um bréf frá skattayfirvöldum sem hafa verið í kastljósinu að undanförnu, getraunastarfsemi og svæðisstöðvarnar líkt og Hafsteinn. Hún sagði einnig frá því að nýverið hefði stjórn UMFÍ samþykkt aðildarumsókn Íþróttabandalags Vestmannaeyja, með fyrirvara um samþykkt á ársþingi ÍBV nú í vor. Ef það gengur eftir verða öll íþróttahéruð landsins hluti af UMFÍ.
Að lokum afhenti Ragnheiður stjórn USÚ afmælisgjöf frá UMFÍ. Það var forláta skjöldur sem færa átti USÚ í tilefni að 90 ára afmæli sambandsins 2022. Hann lenti þó ofan í kassa í flutningum skrifstofu UMFÍ og fannst nýverið. Því þótti tilvalið að afhenda hann við þetta tækifæri. Því miður náðist ekki að taka nothæfa mynd af afhendingunni.
Þrjár tillögur frá stjórn USÚ lágu fyrir þinginu.
- Tillaga 1 var hefðbundin tillaga um hvatningu til félaga að mæta á viðburði hjá UMFÍ og ÍSÍ.
- Tillaga 2 fólst í því að skattur aðildarfélaga, skv. 6. gr. laga USÚ, verði 0 kr. árið 2024.
- Tillaga 3 var svo fjárhagsáætlun fyrir árið 2025.
Allar tillögurnar voru samþykktar samhljóða.
Þó nokkrar breytingar urðu á stjórn USÚ. Áður hefur komið fram að Jóhanna Íris Ingólfsdóttir sóttist ekki eftir áframhaldandi setu sem formaður. Þá gaf Jón Guðni Sigurðsson, ritari USÚ ekki heldur kost á sér til endurkjörs. Það gerði hins vegar Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri, og var endurkjörinn. Ný inn í stjórn eru þau Bjarni Malmquist Jónsson, formaður Vísis og Margrét Kristinsdóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri Sindra. Að þingi loknu var haldinn stuttur stjórnarfundur, þar sem ákveðið var að Bjarni yrði formaður USÚ, Margrét ritari og Sigurður áfram gjaldkeri.

Þegar kom að kjöri tveggja varamanna gaf Hannes Halldórsson, Mána, kost á sér aftur, en Guðbjörg Guðlaugsdóttir, Sindra, kom inn í staðinn fyrir Björgvin Hlíðar Erlendsson. Skoðunarmenn reikninga voru endurkjörnar Inga Kristín Sveinbjörnsdóttir og Halldóra Katrín Guðmundsdóttir. Þær voru einnig kosnar í kjörnefnd fyrir næsta þing, auk Halldóru Bergljótar Jónsdóttur. Kristján Sigurður Guðnason er til vara.
Bjarni Malmquist Jónsson, formaður Vísis, sagði frá starfinu hjá Vísi, en félagið var nýlega endurvakið eftir um tveggja áratuga hlé á starfseminni. Hann sýndi einnig myndir af því sem fram undan er í uppbyggingu íþróttaaðstöðu við Hrollaugsstaði. Að þingi loknu var svo öllum þingfulltrúum boðið að skoða aðstöðu félagsins í kjallara félagsheimilisins.
Í lok þings þakkaði Jóhanna Íris þingfulltrúum fyrir gott samstarf undanfarin tíu ár. Eins og komið hefur fram hér að framan hefur hún tekið við starfi svæðisfulltrúa UMFÍ og ÍSÍ á Austurlandi, svo hún verður viðloðandi hreyfinguna áfram, þó aðeins á öðrum vettvangi. Stjórn USÚ færði svo Jóhönnu Írisi blómvönd sem örlítinn þakklætisvott fyrir samstarfið undanfarinn áratug.
Íþróttamaður USÚ fyrir árið 2024 var útnefndur á þinginu, auk þess sem fimm ungir iðkendur hlutu hvatningarverðlaun USÚ. Nánar má lesa um þessar viðurkenningar í frétt sem birtist hér á síðunni innan tíðar.
