Ársþing USÚ, það 88. í röðinni fór fram í Mánagarði í Nesjum þriðjudaginn, 1. júní. Þingið var ágætlega sótt miðað við allar þær samkomutakmarkanir sem verið hafa undanfarin misseri, 28 fulltrúar af 49 mættu og öll félög nema eitt sendu fulltrúa.
Í upphafi þings var Ingvars Más Guðjónssonar minnst, en hann féll frá langt fyrir aldur fram í desember síðastliðnum. Ingvar var afar virkur í starfi Ungmennafélagsins Mána síðustu mörg ár og varamaður í stjórn síðasta ár.
Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ, setti þingið og bauð þingfulltrúa velkomna. Óvenjulegar aðstæður hafa verið í þjóðfélaginu á undanförnum misserum. Ein birtingarmynd þess var að þingið var haldið 1. júní, en ekki 27. apríl eins og áður stóð til. Arna Ósk Harðardóttir stýrði þinginu líkt og oft áður og Jón Guðni Sigurðsson ritari USÚ, ritaði þinggerð.
Starfsemi USÚ einkenndist að töluverðu leyti af covid-19 faraldrinum, líkt og hjá öðrum félagasamtökum. Lítið var um fundarferðir, en þeim mun meira af fjarfundum. Nánar má lesa um starfið 2020 í skýrslu stjórnar í ársriti USÚ, þar sem jafnframt má kynna sér ársreikning 2020 og starfsskýrslur flestra aðildarfélaga auk starfandi deilda innan Umf. Sindra.
Einungis tvær tillögur lágu fyrir þinginu að þessu sinni. Annars vegar hefðbundin tillaga um hvatningu til ungmennafélaga til að fjölmenna á 23. Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður á Selfossi um verslunarmannahelgina og á 10. Landsmót UMFÍ 50+, sem haldið verður í Borgarnesi í lok ágúst. Tillagan felur einnig í sér hvatningu til að taka þátt í almenningsíþróttaverkefnum á vegum UMFÍ og ÍSÍ.
Einnig var samþykkt tillaga um að nefndin sem vinnur að nýrri lottóreglugerð fái endurnýjað umboð til að halda sinni vinnu áfram. Erfitt hefur reynst að halda reglulega nefndarfundi vegna samkomutakmarkana, en stefnt er að því að leggja nýja reglugerð fyrir, eigi síðar en á ársþingi 2022.
Stjórn USÚ gaf kost á sér til endurkjörs og skipti með sér verkum á örfundi eftir ársþingið eins og lög gera ráð fyrir. Jóhanna Íris Ingólfsdóttir er áfram formaður, Jón Guðni Sigurðsson, ritari, og Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri. Ásta Steinunn Eiríksdóttir gaf kost á sér áfram sem varamaður, en Hjálmar Jens Sigurðsson ekki. Í hans stað bauð Hannes Halldórsson, Mána, sig fram og var hann kosinn með lófataki. Hjálmari er hér með þakkað fyrir sitt góða starf í þágu USÚ og körfuknattleiksdeildar Sindra.
Garðar Svansson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ sótti þingið fyrir hönd ÍSÍ. Hann bað fyrir kveðju frá framkvæmdastjórn og starfsfólki ÍSÍ og greindi frá ýmsum verkefnum sem ÍSÍ stendur fyrir. Hann hvatti jafnframt þingheim til að nýta sér þá þjónustu sem skrifstofa ÍSÍ hefur upp á að bjóða. Hann lauk svo máli sínu á að sæma Sigurð Óskar Jónsson, gjaldkera USÚ, silfurmerki ÍSÍ fyrir mikið og gott starf í þágu íþróttahreyfingarinnar.
Téður Sigurður fór svo sjálfur upp í pontu, þá sem fulltrúi stjórnar UMFÍ. Hann bar upp kveðju frá stjórn og starfsfólki UMFÍ og veitti svo þeim Þorbjörgu Gunnarsdóttur, sem um árabil var gjaldkeri Hestamannafélagsins Hornfirðings og einnig USÚ um tíma, og Bryndísi Björk Hólmarsdóttur sem var m.a. formaður Hestamannafélagsins starfsmerki UMFÍ. Til stóð að veita þeim þessi merki á síðasta ársþingi um leið og Pálma Guðmundssyni, en hvorug þeirra gat mætt þá. Þá gleymdist líka að taka mynd af Pálma, svo hér er mynd af þeim öllum saman.
Vegna alls þess róts sem varð á íþróttastarfi árið 2020, var ákveðið að velja ekki íþróttamann ársins fyrir það ár og veita heldur ekki sérstök hvatningarverðlaun. Úr þessu verður bætt á næsta ársþingi 2022, og rétt að taka það fram að USÚ verður 90 ára á næsta ári. Þeirra tímamóta verður ábyggilega minnst með ýmsum hætti.