Á 50. ársþingi USÚ, árið 1982, var fyrsti heiðursfélagi USÚ, Torfi Steinþórsson á Hala í Suðursveit, útnefndur. Eftir því sem stjórnin kemst næst, hefur það ekki verið gert síðan, og hefur því Torfi heitinn verið eini heiðursfélagi USÚ til þessa. Stjórninni fannst kominn tími til að útnefna annan heiðursfélaga og strax kom upp eitt nafn í því samhengi. Hreinn Eiríksson. Greint var frá þessu á 82. ársþingi USÚ í Mánagarði, 26. mars s.l.
Hreinn er fæddur þann 10. mars 1931 og ólst upp á Miðskeri í Nesjum og hefur alla tíð verið mikill Mánamaður. Aðspurður hafði hann ekki tölu á því hversu lengi hann var í stjórn Mána en mundi þó eftir að hafa verið formaður þegar húsið sem ársþingið fór fram í, Mánagarður, var vígt árið 1952. Hann sagðist þó vera nýlega hættur í sóknarnefnd Bjarnaneskirkju, eftir um 40 ára setu.
Hreinn var mikill íþróttamaður á sínum yngri árum, líkt og systkini hans. Eitt er það þó sem mörg ungmennafélög hafa sem íþróttafélög hafa fæst, en það er allt hitt starfið sem fram fer í félögunum. Hreinn hefur alla tíð verið mikill frammámaður í leikhópi Mána, sem glöggt má sjá vitni um í grein hans í nýjasta tölublaði héraðsritsins Skaftfellings. Síðast setti leikhópurinn upp Fiðlarann á þakinu á 100 ára afmæli Mána árið 2007, og var þá Hreinn í stóru hlutverki. Hreinn hlaut starfsmerki UMFÍ árið 2007.
Hreinn sat í stjórn USÚ á árunum 1960-1965 og aftur 1972-1976, þar af sem formaður 1963-1965.
Hreinn gat því miður ekki mætt sjálfur og tekið við viðurkenningunni. Hann bað fyrir kærar kveðjur til allra sem hann hefur unnið með í gegnum árin. Regína, dóttir Hreins tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd.