82. ársþingi USÚ lokið

Ársþing USÚ, það 82. í röðinni, fór fram í Mánagarði í Nesjum í gær, 26. mars.  Þingið var ágætlega sótt, 31 fulltrúi af 41 mættu frá flestum félögum.  Því miður mætti enginn frá Hestamannafélaginu Hornfirðingi.

Mættir voru 31 fulltrúi.  Gunnar Bragason, gjaldkeri ÍSÍ í ræðustól. (Mynd: SÓJ)
Mættir voru 31 fulltrúi. Gunnar Bragason, gjaldkeri ÍSÍ í ræðustól. (Mynd: SÓJ)

Ýmislegt var á döfinni hjá USÚ á árinu og má þar nefna verkefni eins og Unglingalandsmót UMFÍ á Sauðárkróki, Fjölskyldan á fjallið og Moveweek.  Nánar má lesa um starfið á árinu í skýrslu stjórnar sem fylgir með þessari frétt.

Nokkrar tillögur og ályktanir voru samþykktar.  Fyrst má nefna hvatningu til ungmennafélaga til að fjölmenna á Landsmót UMFÍ 50+ á Blönduósi og á unglingalandsmót UMFÍ á Akureyri.  Samþykkt var að hvetja stjórnir aðildarfélaga til að leita leiða til að auka samstarf yngri flokka í ólíkum íþróttagreinum.  Borið hefur á því að börn þurfi að velja milli íþróttagreina af því að æfingar séu haldnar á sama tíma í tveimur greinum eða fleiri hjá sama aldursflokki.  Þingið lýsti yfir ánægju sinni með það hversu vel hefur tekist til að efla barna- og unglingastarf hjá Hestamannafélaginu Hornfirðingi.  Stjórn USÚ lagði einnig til að hlutur USÚ í lottótekjum myndi minnka í 15% heildarupphæðar en þau 5% sem að auki tilheyrðu USÚ skuli framvegis fara í Styrktar- og afrekssjóð.  Það var samþykkt.

Hægt er að sjá tillögurnar sem lagðar voru fyrir þingið í skýrslu stjórnar neðst í fréttinni.  Tillögur 4 og 5 breyttust hins vegar á þinginu og hljóða eftir það svona:

Tillaga 4.          

Tillaga frá stjórn USÚ

82. ársþing Ungmennasambandsins Úlfljóts, haldið í Mánagarði í Nesjum 26. mars 2015, hvetur USÚ til að standa að unglinganámskeiði yfir sumartímann þar sem sett er upp dagskrá fyrir aldurshópinn 10-16 ára með aðkomu aðildafélaga.

Tillaga 5.

Tillaga frá stjórn USÚ

82. ársþing Ungmennasambandsins Úlfljóts, haldið í Mánagarði í Nesjum 26. mars 2015, samþykkir að skipa nefnd sem í situr formaður USÚ og formenn aðildafélaga þar sem tekin verður til umræðu skipting lottótekna. Formaður USÚ boðar til 1. fundar. Nefndin leggur fram tillögur fyrir ársþing 2016.

Matthildur Ásmundardóttir, formaður USÚ, gaf ekki kost á sér til endurkjörs.  Stungið var upp á Jóhönnu Írisi Ingólfsdóttur í hennar stað og var það samþykkt.  Samkvæmt lögum USÚ skiptir ný stjórn með sér verkum á fyrsta fundi, en hana skipa auk Jóhönnu, Páll Róbert Matthíasson og Sigurður Óskar Jónsson.  Nýkjörin stjórn þakkar Matthildi Ásmundardóttur kærlega fyrir sín störf í þágu ungmennafélagshreyfingarinnar.

Gunnar Bragason, gjaldkeri ÍSÍ flutti ávarp og kveðju stjórnar ÍSÍ.  Hann lauk máli sínu á því að veita Matthildi Ásmundardóttur, fráfarandi formanni, gullmerki ÍSÍ.  Sævar Þór Gylfason hlaut einnig silfurmerki ÍSÍ, fyrir áralanga þjálfun ungra íþróttamanna hjá Sindra.  Hann hefur einnig verið í stjórn blakdeildar Sindra um nokkurn tíma.

Sævar Þór Gylfason hlaut silfurmerki ÍSÍ, Matthildur Ásmundardóttir hlaut gullmerki ÍSÍ og Gunnar Bragason, gjaldkeri ÍSÍ veitti viðurkenningarnar. (Mynd: SÓJ

Ragnheiður Högnadóttir, sem situr í varastjórn UMFÍ, flutti ávarp og kveðju stjórnar UMFÍ.  Að lokum sæmdi hún Sigrúnu Sigurgeirsdóttur, formann Ungmennafélags Öræfa, starfsmerki UMFÍ.

Ragnheiður Högnadóttir, í varastjórn UMFÍ, veitti Sigrúnu Sigurgeirsdóttur, formanni UMFÖ, starfsmerki UMFÍ. (Mynd: SÓJ)

Íþróttamaður ársins var útnefndur á þinginu auk þess sem þrír ungir iðkendur hlutu hvatningarverðlaun USÚ fyrir árið 2014.  Þá var einn félagi útnefndur heiðursfélagi USÚ.  Nánar má lesa um þessar viðurkenningar í fréttum sem birtast á síðunni síðar í kvöld eða á morgun.

Hér er hægt að lesa skýrslu stjórnar USÚ fyrir árið 2014.  Reikningar sambandsins eru í skýrslunni og einnig er þar að finna starfsskýrslur flestra aðildarfélaga: 82. ársþing USÚ ársskýrsla (Bætt við 30. mars: Athugið að hér er komin 2. útgáfa skýrslunnar, þar sem bætt hefur verið við skýrslu frá Hestamannafélaginu Hornfirðingi.)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *