Íþróttamaður ársins 2012

Óli Stefán Flóventsson og Guðrún Ósk Gunnarsdóttir
Óli Stefán Flóventsson og Guðrún Ósk Gunnarsdóttir

USÚ hefur jafnan veitt íþróttamanni ársins viðurkenningu ásamt því að veita efnilegu íþróttafólki hvatningarverðlaun fyrir góðan árangur í íþróttum.  Yfirleitt eru þessar viðurkenningar veittar á 17. júní árið eftir og var engin breyting á því þetta árið.

Íþróttamaður ársins 2012 er Óli Stefán Flóventsson. Óli var í mörg ár leikmaður hjá Grindavík áður en hann flutti til Hornafjarðar.  Hann hefur búið í u.þ.b. 4 ár á Hornafirði og verið spilandi þjálfari með meistaraflokki Sindra þar til nú á þessu tímabili að hann lagði skóna að mestu leyti á hilluna.

Óli hefur unnið gríðarlega góða vinnu hjá meistaraflokki Sindra í knattspyrnu á undanförnum árum. Á síðasta ári náði hann þeim glæsilega árangri að koma liðinu upp í 2. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu.  Með sigri á Ægi frá Þorlákshöfn tryggði Sindri sér jafnframt deildarmeistaratitil 3. deildar. Óli hefur einnig unnið mikilvægt starf í forvarnarmálum, hann hefur sjálfur verið góð fyrirmynd og miðlað sinni reynslu til leikmanna sinna. Einnig hefur hann vakið athygli á mikilvægum málefnum og haldið merkjum Sindra og Hornafjarðar á lofti út á við með skrifum sínum á vinsælasta knattspyrnumiðli landsins, Fótbolta.net. Við hjá USÚ viljum þakka Óla fyrir mikilvægt starf í þágu íþrótta í héraðinu og hvetja hann til áframhaldandi starfa á þeim vettvangi.

Guðrún Ósk Gunnarsdóttir hlaut hvatningarverðlaun fyrir árið 2012. Guðrún er duglegur íþróttamaður og hefur stundað knattspyrnu og körfubolta af miklum dug og krafti ásamt því að þjálfa yngri flokka í körfubolta. Á síðasta ári var hún valin í úrtakshóp fyrir landslið  bæði í körfubolta og knattspyrnu sem er frábær árangur. Við viljum óska Guðrúnu til hamingju með þennan árangur um leið og við hvetjum hana  til áframhaldandi árangurs í íþróttum.

Eitt svar við “Íþróttamaður ársins 2012”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *