Íþróttamaður USÚ 2015

Á 83. ársþingi USÚ, sem haldið var á Hótel Höfn 17. mars 2016 var íþróttamanni USÚ árið 2015 veitt viðurkenning.  Þar að auki fengu þrjú ungmenni sem þótt hafa staðið sig vel á árinu viðurkenningu, og hvött til áframhaldandi velgengni.

Íþróttamaður USÚ árið 2015 er Ingibjörg Valgeirsdóttir.

Ingibjörg Valgeirsdóttir er íþróttamaður USÚ 2015. (Myndin er af heimasíðu ungmennafélagsins Sindra, umfsindri.is)
Ingibjörg Valgeirsdóttir er íþróttamaður USÚ 2015. (Mynd: umfsindri.is)

Ingibjörg er fædd árið 1998. Hún var markmaður meistaraflokks Sindra í knattspyrnu á síðasta ári og spilaði alla 12 leiki þeirra í deild og 1 í bikar. Hún var valin í U17 landslið Íslands og spilaði hún 5 leiki þar. Þegar því verkefni lauk fór hún beint í U19 landsliðið og spilaði með þeim 3 leiki í haust. Ingibjörg er mikil keppnismanneskja sem gæti náð langt í hvaða íþróttagrein sem er. Er hún talin eitt mesta efni landsins í markmannsstöðunni og verður gaman að fylgjast með henni á næstu árum. Ingibjörg skipti yfir í úrvalsdeildarlið KR núna um áramótin og verður gaman að fylgjast með henni á þeim vettvangi.

Ingibjörg gat ekki verið viðstödd, en faðir hennar og systir tóku við viðurkenningunni fyrir hennar hönd.

Valgeir Jónsson, faðir Ingibjargar, tók við viðurkenningunni fyrir hennar hönd. Systir hennar var eitthvað feimin við myndavélina. (Mynd: SÓJ)
Valgeir Jónsson, faðir Ingibjargar, tók við viðurkenningunni fyrir hennar hönd. Systir hennar var eitthvað feimin við myndavélina. (Mynd: SÓJ)

 

Hvatningarverðlaun hlutu:

Bjarney Jóna Unnsteinsdóttir er fædd 1993. Hún er ung og bráðefnileg hestakona eins sem átti frábært keppnisár í fyrra og var tilnefnd sem gæðingaknapi ársins. Hún var t.d. í 1 sæti í A flokki á félagsmóti Hestamannafélagsins Hornfirðings en toppnum náði hún þegar hún vann A úrslit í A flokki á fjórðungsmóti Austurland sl. sumar. Bjarney gat ekki verið viðstödd þar sem hún er í námi í hestafræðum við Háskólann á Hólum.  Pálmi Guðmundsson, formaður Hestamannafélagsins Hornfirðings tók við viðurkenningunni fyrir hennar hönd.

Pálmi Guðmundsson, formaður Hestamannafélagsins Hornfirðings, tók við viðurkenningunni fyrir hönd Bjarneyjar. (Mynd: SÓJ)
Pálmi Guðmundsson, formaður Hestamannafélagsins Hornfirðings, tók við viðurkenningunni fyrir hönd Bjarneyjar. (Mynd: SÓJ)

 

Birkir Freyr Elvarsson, fæddur 1998, er ungur og efnilegur blakmaður af Mýrunum. Hann var valinn í æfingahóp hjá U17 landsliðinu í blaki nú í haust og æfði með þeim í Reykjavík. Hann var svo valinn í lokahópinn hjá U17 landsliði Íslands sem fór til Englands og tók þátt í NEVZA mótinu og spilaði þar sína fyrstu landsleiki fyrir Ísland og stóð sig vel.

Birkir ætlaði að mæta, en rétt fyrir þing hafði hann samband og sagðist ekki geta mætt, því þjálfarinn hafði boðað aukaæfingu. Það hlýtur að vera viðeigandi fyrir svona efnilegan íþróttamann.Valgeir Steinarsson, sem er í stjórn blakdeildar Sindra, tók við viðurkenningunni fyrir hönd Birkis.

Valgeir Steinarsson, sem situr í stjórn blakdeildar Sindra, tók við viðurkenningunni fyrir hönd Birkis Freys. (Mynd: SÓJ)
Valgeir Steinarsson, sem situr í stjórn blakdeildar Sindra, tók við viðurkenningunni fyrir hönd Birkis Freys. (Mynd: SÓJ)

 

Gísli Þórarinn Hallsson, fæddur 1999, var síðastliðið sumar valinn í U-16 landsliðið sem keppti í 2. deild Evrópumótsins í körfubolta. Hann spilaði 9 leiki og skoraði í þeim 46 stig, en liðið endaði í 18. sæti af 24, (sem er reyndar algjört aukaatriði). Stóð hann sig með prýði og fór svo í kjölfarið og gerði samning við úrvaldsdeildarlið Hattar á Egilsstöðum fyrir tímabilið 2015-16. Gísli spilaði einnig 6 leiki í marki Mána í sumar og þótti standa sig vel.

Gísli gat ekki mætt, enda við nám í Menntaskólanum á Egilsstöðum, en Gísli Skarphéðinn Jónsson, nafni, frændi og jafnaldri hans tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd.

Gísli Skarphéðinn Jónsson, nafni, frændi og jafnaldri Gísla Þórarins, tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd. (Mynd: SÓJ)
Gísli Skarphéðinn Jónsson, nafni, frændi og jafnaldri Gísla Þórarins, tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd. (Mynd: SÓJ)

Páll Róbert Matthíasson, fráfarandi formaður USÚ, veitti allar viðurkenningarnar og því er hann á öllum myndunum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *