Heiðranir á 89. ársþingi USÚ

Á 89. ársþingi USÚ, sem fram fór í golfskálanum á Höfn, 7. apríl s.l. var íþróttamaður USÚ fyrir árið 2021 heiðraður. Einnig fengu sex ungir iðkendur hvatningarverðlaun.

Eftirtaldir hlutu hvatningarverðlaun USÚ fyrir árið 2021:

Anna Lára Grétarsdóttir er á sínu 17. ári og kemur úr Knattspyrnudeild Sindra. Hún hefur vaxið mikið sem leikmaður og er orðin lykilleikmaður meistaraflokks kvenna þrátt fyrir ungan aldur. Anna Lára æfir af miklum metnaði og hefur hugarfar atvinnuíþróttamans. Hún er alltaf jákvæð og er góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ og Anna Lára Grétarsdóttir. (mynd: SÓJ)

Birgir Leo Halldórsson er á sínu 16. ári og kemur úr Körfuknattleiksdeild Sindra þar sem hann æfir af kappi. Ásamt því að spila með 10. flokki er hann að klára sitt fyrsta ár með meistaraflokki karla og hefur staðið sig gríðarlega vel. Hann mætir vel á æfingar, er deildinni til sóma og er fyrirmynd fyrir yngri iðkendur. Hann var valinn í æfingahóp fyrir U-16 og bíður nú eftir að fá að vita hvort að hann komist í gegnum síðasta niðurskurðinn fyrir landsliðshópinn sem hittist um páskana.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ og Birgir Leo Halldórsson. (mynd: SÓJ)

Erlendur Björgvinson er á sínu 16. ári og kemur úr Körfuknattleiksdeild Sindra þar sem hann leggur mikinn metnað í þjálfun sína. Hann hefur æft með meistaraflokki karla síðastliðin 3 ár og ásamt því spilar hann með 10. flokki og fer vaxandi með hverju árinu. Erlendur mætir vel á æfingar, er deildinni til sóma og er fyrirmynd fyrir yngri iðkendur. Hann var valinn í æfingahóp fyrir U-16 og bíður nú eftir að fá að vita hvort að hann komist í gegnum síðasta niðurskurðinn fyrir landsliðshópinn sem hittist um páskana.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ og Erlendur Björgvinsson. (mynd: SÓJ)

Guðmyndur Reynir Friðriksson er á sínu 16. ári og kemur úr Knattspyrnudeild Sindra. Hann var valinn í U-15 ára landslið karla sem keppti við Finnland í september á síðasta ári. Hann var einnig valinn í æfingahóp fyrir U-16 í nóvember sl. Guðmundur sinnir þjálfun sinni af miklum metnaði og er góður leiðtogi 3. flokks karla ásamt því að vera fyrirmynd fyrir yngri iðkendur.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ og Guðmundur Reynir Friðriksson. (mynd: SÓJ)

Heiðdís Elva Stefánsdóttir er á 16. ári og kemur úr Sunddeild Sindra. Heiðdís er eini iðkandinn sem keppir fyrir hönd sunddeildarinnar. Hún æfir ein í sínum aldursflokki og krefst það mikils aga og mikillar skuldbindigar en hún gefst aldrei upp. Hún hefur sýnt miklar framfarir í vetur og er mjög opin fyrir því að læra og bæta sig. Auk sinnar þjálfunar hefur hún aðstoðað við þjálfun í yngri flokkum og er virkilega góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ og Heiðdís Elva Stefánsdóttir. (mynd: SÓJ)

Tómas Orri Hjálmarsson er á sínu 19. ári og kemur úr Körfuknattleiksdeild Sindra. Hann hefur verið með meistaraflokki karla öll þau fjögur ár sem þeir hafa spilað í 1. deild auk þess að spila með yngriflokkum. Hann hefur tekið miklum framförum í vetur og fengið mun stærra hlutverk innan liðsins en síðustu ár. Hann sinnir þjálfun sinni af miklum metnaði og er fyrirmynd fyrir yngri iðkendur. Tómas á bjarta framtíð fyrir sér innan körfuboltans.

Tómas Orri Hjálmarsson og Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ. (mynd: SÓJ)

Íþróttamaður USÚ 2021 er Halldór Sævar Birgisson

Halldór Sævar Birgisson átti mjög gott golfár árið 2021 og var í toppsæti á mótaröð eldri kylfinga. Hann var valinn í landslið eldri kylfinga sem lék á Evrópumóti 50+ í Slóveníu sem fram fór 31. ágúst – 4 september. Þar stóð sig hann sig með mikilli prýði og var meðal annars með besta árangur íslensku kylfinganna. Halldór Sævar er fyrirliði golfsveitar Golfklúbbs Hornafjarðar og er klúbbnum til mikils sóma. Til gamans má geta að hann var fyrstur til þess að hljóta titilinn Íþróttamaður USÚ, árið 1989, eftir því sem núverandi stjórn kemst næst.

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ og Halldór Sævar Birgisson, íþróttamaður USÚ 2021. (mynd: SÓJ)
Hópmynd af verðlaunahöfum. Frá vinstri: Halldór Sævar Birgisson, íþróttamaður USÚ 2021, Birgir Leo Halldórsson, Erlendur Björgvinsson, Tómas Orri Hjálmarsson, Anna Lára Grétarsdóttir, Guðmundur Reynir Friðriksson, Heiðdís Elva Stefánsdóttir og Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ. (mynd: SÓJ)
Þess má að lokum geta að Halldór Sævar Birgisson, íþróttamaður USÚ 2021 og Birgir Leo Halldórsson, sem hlaut hvatningarverðlaun, eru feðgar. (Mynd: SÓJ)