Heiðranir á 85. ársþingi USÚ

Á 85. ársþingi USÚ, sem haldið var í Hofgarði í Öræfum, 12. mars 2018 var íþróttamanni USÚ árið 2017 veitt viðurkenning. Ekki alveg þó, því þetta árið ákvað stjórn USÚ að breyta örlítið út af vananum og verðlauna lið ársins. Þar að auki fengu þrjú ungmenni sem þótt hafa staðið sig vel á árinu viðurkenningu, og hvött til áframhaldandi velgengni. Kristján Örn Ebenezersson, ritari USÚ, afhenti öll verðlaunin. Því er hann á öllum myndunum.

Lið ársins 2017

Í ár var ákveðið að breyta aðeins út af vananum og veita verðlaun fyrir lið ársins í staðinn fyrir íþróttamann ársins. Það voru margir einstaklingar sem stóðu sig vel á árinu en á endanum var ákveðið að veita verðlaun fyrir liðsheildina sem skilaði frábærum árangri hjá meistaraflokki karla í körfuknattleik. Það var skipað heimamönnum að stærstum hluta og náði liðið að vinna sig upp í 2. deild og eru langt komnir með að tryggja sig upp í 1. deild. Á síðasta tímabili töpuðu þeir aðeins einum leik í Íslandsmótinu og hafa haldið svipuðum hætti á núverandi tímabili.

Sindrastrákar eftir sigurleik gegn Þór Þorlákshöfn B, í úrslitum 3. deildar 2017.
(Mynd: Hjálmar Jens Sigurðsson, körfuknattleiksdeild Sindra)

 

Hjálmar Jens Sigurðsson, formaður körfuknattleiksdeildar Sindra og Tómas Orri Hjálmarsson, leikmaður Sindra, tóku við viðurkenningunni frá Kristjáni Erni Ebenezerssyni, ritara USÚ. (Mynd: SÓJ)

 

Hvatningarverðlaun hlutu:

Salvör Dalla Hjaltadóttir er fædd árið 2003 og er ung og efnileg knattspyrnukona. Spilaði hún sína fyrstu leiki með meistaraflokk kvenna á árinu og skoraði eitt mark í átta leikjum. Í febrúar á þessu ári var hún síðan valin til að taka þátt í úrtaksæfingum fyrir U15 lið stúlkna í knattspyrnu.

Salvör Dalla Hjaltadóttir hlaut Hvatningarverðlaun USÚ 2017. (Mynd: SÓJ)

 

Tómas Orri Hjálmarsson er fæddur árið 2003 er ungur og efnilegur körfuknattleiksmaður. Hann spilaði sýna fyrstu meistaraflokksleiki á árinu. Einnig var hann boðaður á æfingar með U15 í körfuknattleik.

Tómas Orri Hjálmarsson hlaut hvatningarverðlaun USÚ 2017. (Mynd: SÓJ)

 

Angela Rán Egilsdóttir er fædd árið 2003 er ung og efnileg fimleikakona sem keppir fyrir fimleikadeild Sindra. Hún var valin í landsliðsúrtak í hópfimleikum fyrir EM 2018 og er hún gjaldgeng í unglingaflokk fyrir næsta verkefni EM 2020.

Angela Rán Egilsdóttir hlaut hvatningarverðlaun USÚ 2017. (Mynd: SÓJ)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *