Íþróttamaður USÚ var útnefndur á ársþinginu. Einnig hlutu fjórir ungir og efnilegir íþróttamenn hvatningarverðlaun.
Íþróttamaður USÚ árið 2018 er Hallmar Hallsson.
Hallmar Hallsson er uppalinn Hornfirðingur. Hann byrjaði ungur að stunda körfuknattleik með Sindra og var ekki margra vetra þegar hann var farinn að láta til sín taka með meistaraflokki félagsins. Hallmar hefur nánast alla tíð spilað með Sindra, að undanskildum tímabilum í fyrstu- og úrvalsdeild í Borgarnesi, á Selfossi og á Egilsstöðum. Tímabilið 2017-2018 tók Hallmar við þjálfun meistaraflokks Sindra sem spilandi þjálfari eftir brösugt gengi liðsins í fyrstu leikjum tímabilsins. Eftir að Hallmar tók við varð algjör viðsnúningur í gengi liðsins og unnust allir leikir tímabilsins sem endaði á því að liðið vann sig upp í 1. deild í fyrsta skipti í sögu félagsins. Árangur liðsins var ekki síst að þakka góðu starfi þjálfarans sem hélt vel utan um hópinn og náði að skapa góða liðsheild og jákvæða stemningu í kringum liðið.
Hallmar gat ekki verið viðstaddur viðurkenninguna, en mun fá verðlaunagripinn við tækifæri.
Hvatningarverðlaun hlutu:
Birkir Snær Ingólfsson er fæddur árið 2004. Hann er frábær fyrirmynd fyrir alla iðkendur Sindra. Honum hefur farið mikið fram á síðastliðnu ári og bætt sig verulega sem knattspyrnumaður. Það sem Birkir leggur á sig til að ná þessum árangri er aðdáunarvert. Hann er alltaf fyrstur á æfingar, ávallt jákvæður og mætir á hverja æfingu með því markmiði að gera betur en síðast. Hann er alltaf til í að aðstoða, hvort sem það er að hjálpa félaganum, ganga frá eftir æfingar eða aðstoða yngri iðkendur. Það er þessi vinna sem Birkir Snær hefur lagt á sig sem hefur skilað honum í hæfileikamótun KSÍ sem og tvo úrtakshópa hjá u15 ára landsliðinu þar sem hann hefur staðið sig með mikilli prýði og fengið lof landsliðsþjálfara fyrir frábært hugafar og eljusemi.
Tómas Nói Hauksson er fæddur 2004. Hann byrjaði að æfa fótbolta þegar hann var 6 ára og fyrir þremur árum fór hann einnig að æfa frjálsar. Það var svo veturinn 2017 sem að hann sneri sér alfarið yfir í frjálsar. Tómas Nói stundar sína íþrótt af alhug og er hann mjög agaður í samskiptum, hvetjandi við aðra og sérstaklega góður strákur. Ásamt því að mæta á frjálsíþróttaæfingar er hann í þol-og styrktartímum í Sporthöllinni. Hann hefur staðið sig vel á þeim mótum sem hann hefur farið á s.l. 2 ár og er hann nú þegar búinn að slá 5 Úlfljótsmet og við vonum að hann sé bara rétt að byrja þessa vegferð.
Sigursteinn Már Hafsteinsson er fæddur árið 2002. Hann æfir og spilar knattspyrnu með meistaraflokki karla. Hann er samviskusamur drengur og hefur mikinn metnað fyrir því sem hann gerir. Hann æfir gríðarlega vel og gefur sig alltaf allan í þau verkefni sem fyrir honum standa. Hann hugsar vel um sjálfan sig bæði hvað varðar svefn og næringu. Auk þess að æfa sjálfur er Sigursteinn aðstoðarþjálfari 5.fl kk og kvk og 6. og 7.flokk kk og kvk.
Nína Dögg Jóhannsdóttir er fædd 2003. Hún æfir með unglingastigi og mfl. kvk Sindra og spilaði sína fyrstu leiki með mfl. kvk í vetur í 2. deild Íslandsmótsins. Nína er drífandi og hefur mikinn metnað og áhuga fyrir körfubolta. Hún sá til dæmis um það að ganga með undirskriftalista í skólana til þess að safna undirskriftum áhugasamra um stofnum meistaraflokks kvenna í körfubolta.