Ársþing USÚ, það 86. í röðinni fór fram í Heklu, nýju félagsheimili ungmennafélagsins Sindra í gær, 27. mars. Þingið var ágætlega sótt, 33 fulltrúar af 46 mættu frá flestum félögum. Því miður mætti enginn frá Hestamannafélaginu Hornfirðingi.
Áður en þingið var sett, minntist Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ, tveggja félaga sem féllu frá á árinu 2018. Það voru þeir Hreinn Eiríksson, annar tveggja heiðursfélaga USÚ frá upphafi, formaður USÚ 1963-1965 og máttarstólpi í starfi Umf. Mána um áratugaskeið; og Kristján Vífill Karlsson sem var sannkölluð fyrirmynd sjálfboðaliða, sem um áratugaskeið vann óeigingjarnt sjálfboðalið fyrir hinar ýmsu deildir Umf. Sindra, Golfklúbb Hornafjarðar og önnur félög innan USÚ.
Ýmislegt var á döfinni hjá USÚ á árinu og má þar nefna Unglingalandsmót sem haldið var í Þorlákshöfn um verslunarmannahelgina auk Landsmótsins sem haldið var á Sauðárkróki í júlí. Nokkuð mikið púður hefur farið í undirbúning unglingalandsmóts 2019, sem USÚ mun halda á Höfn. Mikið hefur verið fundað. Búið er að manna allar helstu stöður í undirbúningsnefndinni, auk þess sem flestir sérgreinastjórar hafa verið valdir.
USÚ sendi sína fulltrúa á þá fundi og þing sem okkur bar, eins og sambandsráðsfundi og vorfund UMFÍ og formannafund ÍSÍ sem haldinn var í tengslum við ráðstefnu um framtíðarskipulag íþróttahreyfingarinnar.
Arna Ósk Harðardóttir stýrði þinginu af röggsemi líkt og oft áður. Fimm tillögur frá stjórn lágu fyrir þinginu. Fyrst má nefna hvatningu til ungmennafélaga til að fjölmenna á Landsmót UMFÍ 50+, sem haldið verður í Neskaupstað 28.-30. júní n.k. og að sjálfsögðu á 22. Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður á Höfn um verslunarmannahelgina. Tillagan felur einnig í sér hvatningu til að taka þátt í almenningsíþróttaverkefnum á vegum UMFÍ og ÍSÍ.
Tillaga um að hvetja félagsmenn og aðra íbúa sveitarfélagsins Hornafjarðar til að taka þátt í undirbúningi og framkvæmd unglingalandsmótsins var samþykkt, auk tillögu um að USÚ greiði þátttökugjald sinna keppenda á unglingalandsmótinu, líkt og gert var árið 2013.
Þá voru samþykktar smávægilegar breytingar á lögum USÚ. Lög USÚ eftir breytingar má finna hér.
Fimmta tillagan var um það hvort nýstofnað Klifurfélag Öræfa (KFÖ) fengi inngöngu í USÚ. Í ljósi þess að formleg umsókn KFÖ barst ekki fyrr en degi fyrir þing, kom fram önnur tillaga á þinginu um að fresta inngöngunni fram að næsta ársþingi. Sú tillaga var samþykkt.
Stjórn USÚ gaf kost á sér til endurkjörs og var endurkjörin. Hana skipa: Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður, Kristján Örn Ebenezarson, ritari, og Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri. Ásta Steinunn Eiríksdóttir, gaf kost á sér áfram sem varamaður, en Matthildur Ásmundardóttir, sem gegnt hefur stöðu bæjarstjóra sveitarfélagsins Hornafjarðar frá síðasta ári, gaf ekki kost á sér áfram. Stungið var upp á Hjálmari Jens Sigurðssyni, sem var samþykkt. Það voru ekki flókin skipti, því Hjálmar er eiginmaður Matthildar.
Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ og Halla Kjartansdóttir, skrifstofustjóri ÍSÍ, sátu þingið. Auk þess að flytja kveðju frá framkvæmdastjórn og öðru starfsfólki ÍSÍ, vék Líney Rut m.a. að málefnum Felix, félagakerfis íþróttahreyfingarinnar, persónuvernd og málefnum tengdum #metoo í ræðu sinni. Að lokum sæmdi hún Hjálmar Jens Sigurðsson silfurmerki ÍSÍ. Hjálmar hefur undanfarin ár leitt metnaðarfullt starf körfuknattleiksdeildar Sindra, sem m.a. hefur skilað sér í því að meistaraflokkur karla spilaði í fyrsta sinn í sögunni í 1. deild í körfubolta.
Gunnar Gunnarsson, stjórnarmaður í UMFÍ sat einnig þingið. Hann bað fyrir kveðju frá stjórn og starfsfólki UMFÍ. Að lokum sæmdi hann Halldór Einarsson, sem hefur setið í stjórn Umf. Mána síðan 1999, starfsmerki UMFÍ. Einnig sæmdi hann Sigurð Óskar Jónsson, gjaldkera USÚ, starfsmerki UMFÍ. Auk þess að hafa verið gjaldkeri USÚ síðan 2011, hefur Sigurður verið í stjórn Umf. Mána frá 2005, (þar sem hann hefur gegnt öllum stöðum nema gjaldkerastöðunni), og setið í varastjórn UMFÍ síðan 2015.
Íþróttamaður USÚ fyrir árið 2018 var útnefndur á þinginu auk þess sem fjórir ungir iðkendur hlutu hvatningarverðlaun USÚ. Nánar má lesa um þessar viðurkenningar í frétt sem birtast á síðunni síðar í kvöld eða á morgun.
Hér er hægt að lesa skýrslu stjórnar USÚ fyrir árið 2018. Reikningar sambandsins eru í skýrslunni og einnig er þar að finna starfsskýrslur allra aðildarfélaga auk starfandi deilda innan Umf. Sindra.