Laugardaginn 28. desember síðastliðinn var opinberað nýtt skilti um gönguleiðina um Almannaskarð. Skiltið sýnir gönguleiðina, segir frá sögunni og gefur leiðbeiningar um styrktar- og teygjuæfingar sem kjörið er að gera ýmist áður en lagt er af stað eða að göngu lokinni. Þá er gestabók áföst skiltinu sem kjörið er að skrá nafn sitt í.
Eins og flestir vita lá þjóðvegur eitt um Almannaskarð þangað til göngin undir skarðið voru opnuð í júní 2005. Síðan þá hefur vegurinn öðlast nýtt líf sem vinsæl gönguleið og líður varla sá dagur sem ekki sést til einhverra að ganga annaðhvort upp eða niður Skarðið.
Að þessu tilefni var auðvitað efnt til gönguferðar upp og niður Skarðið á vegum USÚ og Ferðafélags Austur-Skaftfellinga, en nýja skiltið er einmitt samstarfsverkefni þeirra á milli. Á þriðja tug göngumanna mætti, á öllum aldri. Þau elstu um sjötugt og sá yngsti tveggja ára.
Annar hluti af verkefninu var að gera og setja upp skilti sitthvoru megin við gönguleiðina „fyrir Horn“, en það er leiðin með fram ströndinni frá Syðra-Firði að Horni.
Hönnun og umbrot var í höndum Náttúrulega ehf. Samstarf var einnig haft við landeigendur á Horni og Syðra-Firði.
Með þessari frétt sendir stjórn USÚ einnig bestu jóla og nýárskveðjur til félagsmanna sinna og landsmanna allra.