Um helgina fór fram 48. sambandsþing UMFÍ. Þingið fór fram á Stykkishólmi og áttu um 140 fulltrúar þar rétt á setu. Yfir 50 tillögur lágu fyrir þinginu og gekk afgreiðsla þeirra snurðulítið fyrir sig. Ungmennasambandið Úlfljótur átti rétt að þremur fulltrúum, auk formanns. Því miður náðist ekki að fylla þann kvóta alveg, en Matthildur Ásmundardóttir, formaður og Sigurður Óskar og Björn Ármann Jónssynir fóru fyrir hönd USÚ.
Helga Guðrún Guðjónsdóttir var endurkjörin formaður UMFÍ. Ný stjórn var kosin á þinginu, en hægt er að kynna sér nýja stjórn á heimasíðu UMFÍ. Matthildur Ásmundardóttir, formaður USÚ, sem hefur setið í varastjórn UMFÍ síðan 2011, gaf ekki kost á sér áfram.
Héraðssamband Þingeyinga, HSÞ, fékk hvatningarverðlaun UMFÍ 2013. Þingeyingar fá verðlaunin fyrir kröftugt og metnaðarfullt starf á sviði íþrótta- og æskulýðsmála á sambandssvæðinu í kjölfar sameiningu HSÞ og UNÞ.
Þegar fram líða stundir verður hægt að lesa þinggerðina á heimasíðu UMFÍ, en líklega eru einhverjar vikur í það.