Þann 17. desember sl. sendi meirihluti bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá sér tilkynningu sem bar titilinn „Nýtt íþróttahús á Höfn – hugsum til framtíðar“ þar sem fram kom að búið væri að taka ákvörðun um staðsetningu nýs íþróttahúss. Í tilkynningunni reifar meirihluti stýrihóps sem stofnaður var í febrúar 2024 ástæður fyrir vali á staðsetningunni. Stjórn Ungmennasambandsins Úlfljóts telur sig knúna til þess að fara yfir nokkur atriði er varðar vinnu stýrihópsins og þá niðurstöðu sem meirihluti hans komst að.
Uppbygging íþróttamannvirkja hefur verið töluvert í umræðunni síðustu ár þar sem kröfur um aðstöðu og aðbúnað hafa aukist í gegnum árin. Farið var í þarfagreiningu fyrir nokkrum árum þar sem öll aðildarfélög USÚ ásamt fleiri aðilum fengu tækifæri á því að leggja fram sínar þarfir á uppbyggingu. Niðurstaðan úr þeirri þarfagreiningu var sú að nýtt íþróttahús ætti að vera í forgangi. Meirihlutinn sem þá sat í bæjarstjórn tók þá ákvörðun að betra væri að byggja fyrst líkamsrækt við sundlaugina sem og að fara í lagfæringar á klefum til þess að þeir mættu nútímakröfum. Áður en framkvæmdir hófust fóru fram sveitarstjórnarkosningar vorið 2022 og nýr meirihluti tók við. Þeir flokkar sem mynduðu bæjarstjórn höfðu það báðir á stefnuskrá sinni að byggja nýtt íþróttahús og voru þær framkvæmdir sem ákveðnar höfðu verið við sundlaugina fjarlægðar af borðinu og stefnan sett á byggingu íþróttahúss. 6. febrúar 2024 var stofnaður stýrihópur sem hafði það meðal annars að markmiði að stýra vinnu og leita hagkvæmustu og bestu lausna við hönnun, byggingu og rekstur hússins. Í stýrihópnum sátu þrír aðilar, einn frá hverjum flokki sem á sæti í bæjarstjórn. USÚ óskaði eftir sæti í stýrihópnum þar sem héraðssambönd eru æðsta vald íþróttamála á sínu sambandssvæði og hafa meðal annars þær lagalegu skyldur að stjórna sameiginlegum íþróttamálum héraðsins og annast samstarf um íþróttamál við sveitar- og bæjarstjórnir og aðra opinbera aðila innan héraðs. Í svari bæjarstjóra við athugasemd sem USÚ sendi til sveitarfélagsins kemur fram að ekki sé verið að ganga fram hjá neinum og sé það hlutverk stýrihópsins að hafa víðtækt samráð við hagsmunaaðila og USÚ sé klárlega einn af lykilhagaðilum. Þá er það einnig listað í erindisbréfi stýrihópsins að hann eigi að hafa víðtækt samráð við hagsmunaaðila sem og að upplýsa alla hagsmunaaðila um gang mála. Það er skemmst frá því að segja að stýrihópurinn fundaði alls 25 sinnum á vinnutíma sínum, USÚ var boðað á einn fund af þessum 25 og var sá fundur haldinn þann 19. september 2024, með fulltrúum frá stjórn og flestum deildum Umf. Sindra. Ekkert annað samráð var haft við USÚ og þær upplýsingar sem stjórnin fékk um gang mála voru eingöngu þær fundargerðir sem birtar voru á heimasíðu sveitarfélagsins. Stjórn USÚ sendi stýrihópnum og bæjarráði tvö erindi sem sneru að vali á staðsetningu, önnur var send 18. september 2024 og hin 26. nóvember 2024. Hvorugt þeirra var birt sem fylgiskjal fundargerða fyrr en eftir að meirihluti stýrihópsins tilkynnti um valið á staðsetningunni.
Á fundinum sem haldinn var 19. september var farið yfir þrjár tillögur sem unnar höfðu verið með ASK arkítektum og Verkís verkfræðistofu. Leið A var að fimleikarnir myndu flytjast í núverandi íþróttahús og það stækkað svo það yrði löglegt til keppni og byggt yrði nýtt íþróttahús á æfingasvæðinu við Víkurbraut við hlið knattspyrnuvallarins. Leið B var að byggt yrði nýtt íþrótta- og fimleikahús á æfingarsvæðinu og gamla íþróttahúsinu yrði fundinn nýr tilgangur. Leið C var að byggt yrði út frá núverandi íþróttahúsi, fimleikarnir myndu flytjast í gamla salinn og sameiginlegt anddyri yrði fyrir sundlaug, íþróttahús og skóla. Inn í þeirri uppbyggingu var einnig gert ráð fyrir byggingu innisundlaugar. Ljóst var að allar þessar leiðir væru vel yfir því sem sveitarfélagið réði við í kostnaði og engin þeirra gallalaus. Athygli vakti þó að leið C var hagkvæmust af leiðunum þremur, þrátt fyrir að inni í þeirri framkvæmd væru endurbætur á sundlaugargarðinum, innisundlaug og tilfærsla á íþróttavelli til þess að takmarka skuggavarp á sundlaugina. Sjá má áætlaðan kostnað við tillögurnar þrjár hér . Athuga má að neðst á bls. 4 kemur fram kostnaður sem leggst við leiðir A og B til þess að þær uppfylli þá uppbyggingu sem er inni í leið C. Stjórn USÚ vill einnig benda á að allar hugmyndir um uppbyggingu stúkumannvirkja við Sindravelli eru í besta falli ótímabærar, fyrr en fyrirséð er að meistaraflokkur karla komist upp í 1. deild, eða að meistaraflokkur kvenna komist upp í úrvalsdeild.

Í tilkynningunni sem kom frá meirihluta stýrihópsins þann 17. desember kom fram að ákveðið hefði verið að byggja nýtt íþróttahús á æfingasvæðinu og að fimleikarnir færu í gamla íþróttahúsið, leið A. Rökin fyrir þeirri ákvörðun eru meðal annars að draga úr kostnaði við framkvæmdina t.d. þar sem ekki þarf tilfærslu á frjálsíþrótta og knattspyrnuvelli, tryggja öryggi á miðbæjarsvæði á framkvæmdatíma og að grunnskólinn fengi betra rými í framtíðinni til þess að þróast á þeim stað sem hann stendur á í dag.
Eftir að hafa rýnt í þau gögn sem birt voru, sum hver eftir að ákvörðunin var tekin eru þó nokkur atriði sem stjórn USÚ vill benda á.
Stjórn USÚ fékk þær upplýsingar frá formanni stýrihópsins að ákvörðunin um staðsetningu hússins hefði ekki verið tekin í fjárhagslegu samhengi. Stjórnin harmar að ekki hafi verið farið í að skoða útfærslu á leið C nánar þar sem hún kom hagstæðast út úr því kostnaðarmati sem gert var fyrir leiðirnar þrjár. Kostirnir við leið C eru margir, þó hún sé ekki gallalaus eins og fyrr segir. Allar innanhússíþróttir yrðu undir sama þaki, þó svo að fimleikarnir hefðu sína aðstöðu út af fyrir sig. Samnýting á rýmum, áfangaskipting á framkvæmdum, betri nýting á starfsfólki í einni rekstrareiningu í stað þriggja sem og að rekstrarkostnaður yrði lægri. Tillögur A og C gera ráð fyrir jafn stórum íþróttasölum, (1350 m2 skv. þeim teikningum sem fyrir lágu), sem er þreföldun miðað við núverandi íþróttasal. Því er allt tal um að tillaga C sé of lítil, einfaldlega rangt.
Stjórn USÚ hefur talað fyrir því að uppbygging íþróttamannvirkja sé ekki eingöngu fyrir þær íþróttir sem stundaðar eru innan íþróttafélaga. Samfélagið allt á að hafa greiðan aðgang að íþróttamannvirkjum og með því að samtengja anddyri sundlaugar og íþróttahúss opnast miðstöð hreyfingar. Eins og flestir vita dregur reglubundin hreyfing úr líkum á langvinnum sjúkdómum, bætir sjálfsmynd og eykur félagslega þátttöku. Þegar boðið er upp á aðgengilega og fjölbreytta aðstöðu til hreyfingar verður til grundvöllur fyrir öflugra samfélag þar sem einstaklingar á öllum aldri, óháð bakgrunni eða getu verða líklegri til þess að taka þátt og myndi því íþróttamiðstöð sem þessi mynda einskonar hjarta fyrir samfélagið.
Í gegnum árin hefur verið farið í nokkrar framkvæmdir á umræddu svæði og má þar nefna viðbyggingu við Hafnarskóla, endurbætur á knattspyrnuvelli og lagningu hlaupabrautar, uppbygging á gervigrasi, síðar bygging Bárunnar og bygging sundlaugarinnar. Allt eru þetta framkvæmdir sem höfðu áhrif á öryggi barna í grunnskólanum og annara sem fara um miðbæjarsvæðið. Stjórn USÚ getur ekki séð að mikill munur sé á því að byggja við núverandi íþróttahús eða byggingu sundlaugarinnar á sínum tíma. Þá gengu börnin úr Hafnarskóla yfir í íþróttahúsið til þess að fara í íþróttatíma. Að tryggja öryggi er útfærsluatriði sem byggingaraðilum er treyst fyrir á öllum framkvæmdasvæðum. Einnig má nefna að þegar verður búið að byggja skv. leið A, liggur í hlutarins eðli að börn úr Hafnarskóla munu alltaf vilja stytta sér leið yfir íþróttavöllinn, til þess að komast í sína tíma í íþróttahúsinu. Því mætti velta því fyrir sér hvort íþróttavöllurinn teljist þá til skólalóðar?
Ekki hefur verið farið í ítarlega þarfagreiningu fyrir grunnskólann og því ekki ljóst hvað muni henta þörfum hans ef litið er til framtíðar, þó frumþarfagreining sé til. Þegar um eins stóra framkvæmd er að ræða og þessa er mikilvægt að horfa í það hvar er hægt að samnýta rými, t.d. skóla/móttökueldhús og skiptir því miklu máli að þarfir allra aðila hafi verið kannaðar. Að byggja á æfingasvæðinu takmarkar uppbyggingu grunnskólans í átt að nýju íþróttahúsi og þyrfti þá mögulega að horfa til þess að breyta gamla íþróttahúsinu, ef sá möguleiki er fyrir hendi, sem þýðir að byggja þyrfti nýja aðstöðu fyrir fimleikana með tilheyrandi kostnaði við báðar framkvæmdir. Þá myndast byggingarsvæði á miðsvæðinu og ef byggt verður í átt að nýju íþróttahúsi þarf að huga að öryggi allra þeirra sem húsið heimsækja.
USÚ telur það afar mikilvægt að sveitarfélagið verði áfram einn af mögulegum mótshöldurum Unglingalandsmóts UMFÍ sem er ein besta fjölskyldu og forvarnarhátíð sem til er, en hún er haldin um verslunarmannahelgina ár hvert. Með því að byggja á æfingasvæðinu fækkar keppnisvöllum í knattspyrnu og óljóst er hvar kastgreinar frjálsíþrótta geti farið fram, sem hefur áhrif á hvort að USÚ og sveitarfélagið geti haldið mótið.
Í frétt sem birtist á heimasíðu sveitarfélagsins um fjárhagsáætlun ársins 2025 segir bæjarstjórinn að horft sé til byggingar nýs íþróttahúss sem lítið sveitarfélag á Suðurlandi sé að byggja sem sé af svipaðri stærð og það sem Sveitarfélagið Hornafjörður hyggst reisa. Kostnaðaráætlunin við það hús sé 798 milljónir. Sveitarfélagið sem um ræðir er Skeiða- og Gnúpverjahreppur sem taldi 591 íbúa 1. janúar 2024. Á sama tíma bjuggu 2.487 í Sveitarfélaginu Hornafirði. Einnig kemur fram að Sveitarfélagið Hornafjörður sé með 2 milljarða króna í framkvæmdaáætlun 2025-2028 og sé markmiðið að byggja nýtt íþróttahús og leggja gervigras á knattspyrnuvöllinn fyrir þá fjárhæð. Ekki hefur komið fram ítarlegri kostnaðaráætlun þar sem lagning nýrrar hlaupabrautar eða viðbygging við núverandi íþróttahús svo fimleikarnir hafi löglega keppnisaðstöðu eru tekin inn í dæmið. Þá skal tekið fram að ef setja á gervigras á knattspyrnuvöllinn verða á honum umtalsverðar jarðvegsframkvæmdir og þá ætti ekki mikið að vera því til fyrirstöðu að færa hann um þá 15 – 20 metra sem leið C gerir ráð fyrir.
Stjórn USÚ vill ítreka að uppbygging íþróttamannvirkja er fyrir samfélagið allt og er greidd af íbúum sveitarfélagsins. Stjórnin harmar að ekki hafi verið unnin betri og ítarlegri framtíðaráætlun fyrir svæðið áður en ákvörðun um staðsetningu var tekin. Meirihluti stýrihópsins segir í tilkynningu sinni að valið á staðsetningunni sé hagkvæmara þegar litið sé til kostnaðar en engin gögn hafa verið lög fram því til stuðnings.
Stjórn USÚ skorar á bæjarstjórn að skoða hagkvæmari lausn á leið C og fara í ítarlegri kostnaðargreiningu á leið A og C og kynna kosti og galla beggja leiða með uppbyggingu grunnskólans í huga fyrir íbúum sveitarfélagsins á íbúafundi. Einnig ítrekar hún mikilvægi þess að gerð verði framtíðaráætlun um uppbyggingu íþróttamannvirkja eins og mörg önnur sveitarfélög eru með til þess að tryggja að uppbyggingin haldi áfram á milli kjörtímabila.
Stjórn USÚ